Lofum Jehóva með því að vitna óformlega
1 Trúfastir þjónar Jehóva leita dag hvern að tækifærum til að lofa hann. (Sálm. 96:2, 3; Hebr. 13:15) Ein leiðin til þess er að bera óformlega vitni. Margir sem tilbiðja Jehóva nú á dögum eru þakklátir fyrir að hafa kynnst fagnaðarerindinu þegar vitnað var fyrir þeim óformlega.
2 Ef við vitnum óformlega fyrir einni manneskju getur það oft opnað leiðina að því að aðrir heyri fagnaðarerindið. Samtal Jesú og samversku konunnar við Jakobsbrunn leiddi til dæmis til þess að miklu fleiri sýndu fagnaðarerindinu áhuga. (Jóh. 4:6-30, 39-42) Þegar Páll og Sílas voru í varðhaldi í Filippí vitnuðu þeir fyrir fangaverðinum og allt heimilisfólk hans tók trú. — Post. 16:25-34.
3 Tækifæri: Hvaða tækifæri hefur þú til að vitna óformlega? Sumir grípa tækifærið þegar þeir versla, nota almenningsfarartæki eða bíða á biðstofu læknis. Aðrir vitna þegar þeir eiga lausan tíma í vinnunni eða í skólanum. Fólk gæti jafnvel byrjað að spyrjast fyrir um trú okkar ef við einfaldlega höfum biblíurit okkar þar sem þau sjást. — 1. Pét. 3:15.
4 Að taka af skarið: Sjö ára feimin stúlka heyrði á samkomu hversu mikilvægt það er að allir prédiki. Þegar hún fór að versla með mömmu sinni setti hún tvo bæklinga í töskuna sína. Á meðan mamma hennar var upptekin við afgreiðslukassann bauð stúlkan konu einni bækling og þáði hún hann með þökkum. Þegar stúlkan var spurð að því hvernig hún hafi fengið hugrekki til þess að tala við konuna, sagði hún: „Ég sagði bara: Einn, tveir og nú; og fór af stað.“
5 Við þurfum öll að hafa sama viðhorf og þessi unga feimna stúlka ef við ætlum að vitna óformlega. Hvað getur hjálpað okkur að þessu leyti? Biðjum Jehóva um hugrekki til að tala við aðra. (1. Þess. 2:2) Höfum í huga spurningu eða skýringu við eitthvert athyglisvert efni sem við getum notað til að hefja samræður. Treystum síðan að Jehóva blessi viðleitni okkar. — Lúk. 12:11, 12.
6 Þegar við vitnum óformlega fyrir fólki sem við hittum dag hvern er það Jehóva til lofs og færir okkur gleði. Það getur hjálpað öðrum að finna veginn sem leiðir til eilífs lífs.