Kristur, „sonur hins lifanda Guðs“
EFTIR að lærisveinar Jesú höfðu skýrt honum frá því hverja menn segðu hann vera spurði Jesús: „‚En þér, hvern segið þér mig vera?‘ Símon Pétur svarar: ‚Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.‘“ — Matteus 16:15, 16.
Var Pétur einn um þessa ályktun? Hvergi nærri! Veittu því athygli hverjir aðrir voru sömu skoðunar og á hvaða grundvelli.
ÁHANGENDUR HANS: Jóhannes skírari, lærisveinarnir Natanael og Marta og Sál frá Tarsus voru í hópi þeirra sem kölluðu Jesú son Guðs. (Matteus 14:33; Jóhannes 1:33, 34, 39; 11:27; Postulasagan 9:20) Það styrkti sannfæringu þeirra þegar þeir sáu hvernig spádómarnir, sem áttu að benda á hinn fyrirheitna Messías, rættust á Jesú.
ANDSTÆÐINGAR HANS: Gyðingarnir, sem vildu drepa Jesú, kölluðu hann son Guðs, svo og hermennirnir, sem voru viðstaddir aftöku hans. (Matteus 27:54; Jóhannes 19:7) Þótt það merki ekki sjálfkrafa að slíkir andstæðingar hafi trúað á hann gefur það að minnsta kosti til kynna að þeim hafi verið vel kunnugt hvað aðrir sögðu um Jesú. Einnig er ljóst að hinir yfirnáttúrlegu atburðir, sem áttu sér stað í tengslum við aftöku hans, komu sumum til að íhuga á ný hver hann væri.
ENGLAR: Þegar engillinn Gabríel tilkynnti fæðingu Jesú kallaði hann Jesú son Guðs. (Lúkas 1:32, 35) Jafnvel illir andar viðurkenndu hver hann var. Undir áhrifum þessara illu engla hrópuðu menn: „Hvað vilt þú okkur, sonur Guðs?“ (Matteus 8:28-32) Ljóst er að bæði góðir og illir englar vissu hver Jesús var, því þeir þekktu til hans á himnum áður en hann varð maður.
JESÚS SJÁLFUR: Jesús gortaði aldrei af því að hann væri sonur Guðs í því skyni að njóta þess frægðarljóma er stafaði af slíku sambandi eða í því skyni að njóta sérstakrar greiðasemi annarra. Langoftast talaði hann hógværlega um sig sem ‚Mannssoninn.‘ (Matteus 12:40; Lúkas 9:58) Nokkrum sinnum játaði hann þó að hann væri sonur Guðs. — Jóhannes 5:24, 25; 10:36; 11:4.
JEHÓVA GUÐ: Hver gæti með meiri myndugleika en Jehóva Guð sjálfur lýst yfir hver Jesús væri? Tvívegis talaði Jehóva frá himnum og sagði: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“ — Matteus 3:17; 17:5.
Guð viðurkennir Jesú — gerir þú það líka?
Á fyrstu öldinni viðurkenndu þúsundir manna Jesú réttilega sem hinn fyrirheitna Messías eða Krist, sendan til jarðar til að upphefja drottinvald Jehóva og gefa líf sitt sem lausnargjald fyrir mannkynið. (Matteus 20:28; Lúkas 2:25-32; Jóhannes 17:25, 26; 18:37) Fólk hefði tæpast fundið sig knúið til að gerast fylgjendur Jesú andspænis mikilli mótspyrnu, ef það hefði verið í vafa um hver hann væri. Með kostgæfni og hugrekki tókst það á hendur það starf sem hann fól því að vinna, að ‚gera menn af öllum þjóðum að lærisveinum.‘ — Matteus 28:19.
Núna eru til milljónir kristinna lærisveina sem vita að Jesús er engin goðsagnavera. Þeir viðurkenna hann sem krýndan konung hins stofnsetta ríkis Guðs á himnum sem er núna að treysta drottinvald sitt yfir jörðinni. Valdataka þessarar stjórnar frá Guði er mikil fagnaðartíðindi, vegna þess að hún lofar að létta af heiminum þeim vandamálum sem nú þjaka hann. Þessir sannkristnu menn sýna að þeir styðja útvalinn konung Guðs með því að boða öðrum „þetta fagnaðarerindi um ríkið.“ — Matteus 24:14.
Þeir sem styðja Guðsríki í höndum ‚Krists, sonar hins lifanda Guðs,‘ munu hljóta eilíft líf og verða endalausrar blessunar aðnjótandi. Þessi blessun getur líka fallið þér í skaut!
[Innskot á blaðsíðu 8]
Milljónir manna, sem einu sinni voru óvissar um hver Jesús væri, eru nú sameinaðar í að styðja hann sem konung Guðsríkis.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Pétur kallaði Jesú ‚Krist, son hins lifanda Guðs.‘ Það gera einnig yfir þrjár milljónir votta Jehóva nú á dögum.