Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w89 1.10. bls. 13-18
  • Það sem kærleikurinn til Guðs felur í sér

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Það sem kærleikurinn til Guðs felur í sér
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Notkun krossins í tilbeiðslu
  • Kross Konstantínusar
  • Er rétt að sýna aftökutæki lotningu?
  • Haldið fast við hið innblásna orð
  • ‚Haldið hans boðorð‘
  • Dó Jesús á krossi?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Ættu kristnir menn að nota krossinn í tilbeiðslu sinni?
    Hvað kennir Biblían?
  • Er krossinn raunverulega kristinn?
    Vaknið! – 1985
  • Dó Jesús á krossi?
    Vaknið! – 2006
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
w89 1.10. bls. 13-18

Það sem kærleikurinn til Guðs felur í sér

„Því að í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð.“ — 1. JÓHANNESARBRÉF 5:3.

1. Hvernig ætti kærleikur okkar til Guðs að birtast og hvaða afleiðingar mun það hafa?

JESÚS sagði um þá skyldu mannsins að tilbiðja Guð: „Elska skalt þú [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ (Matteus 22:37) Hvernig ættum við að láta þennan kærleika í ljós? Biblían svarar: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð.“ (1. Jóhannesarbréf 5:3) Hvaða jákvæðan árangur mun það hafa í för með sér fyrir þá sem gera það? Jóhannes sagði: „Sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði.“ — 1. Jóhannesarbréf 4:16b.

2. Hver einn ætti að fá tilbeiðslu okkar?

2 Ef við elskum Guð munum við ekki tilbiðja nokkra sköpunarveru, lífs eða liðna, heldur Guð einan. (Lúkas 4:7, 8) Pétur postuli, og jafnvel engill, neituðu að þiggja tilbeiðslu frá mönnum. (Postulasagan 10:25, 26; Opinberunarbókin 22:8, 9) Jesús sýndi einnig fram á að ekki skyldi sýna móður hans heiður sem fæli í sér tilbeiðslu, því að slíkt tilheyrir Guði einum. (Lúkas 11:27, 28; Jóhannes 2:3, 4; Opinberunarbókin 4:11) Sá sem beinir tilbeiðslu sinni í ranga átt gengur í berhögg við boðorð Guðs því að „enginn getur þjónað tveimur herrum.“ — Matteus 6:24.

Notkun krossins í tilbeiðslu

3. Hvernig lítur kristni heimurinn á notkun krossins?

3 Einnig er hægt að brjóta boðorð Guðs með því að dýrka dauða hluti svo sem krossinn. Um aldaraðir hefur fólk innan kristna heimsins notað krossinn í guðsdýrkun sinni. Encyclopædia Britannica talar um krossinn sem „helsta tákn kristinnar trúar.“ Gríska rétttrúnaðarkirkjan staðhæfði jafnvel fyrri rétti í Grikklandi að þeir sem hafni ‚hinum heilaga krossi‘ séu ekki kristnir. En er krossinn í raun og veru kristið tákn? Hvaðan er hann kominn?

4, 5. (a) Hvað segir orðabók um orðið stauros sem er í flestum biblíum þýtt „kross“? (b) Hvaðan er notkun krossins komin?

4 Biblían minnist á nokkrum stöðum á aftökutækið sem notað var við líflát Jesú, svo sem í Matteusi 27:32 og 40. Þar er gríska orðið stauros þýtt „kross“ í íslenskum biblíum. En hvað merkti stauros á fyrstu öldinni þegar Grísku ritningarnar voru skrifaðar? An Expository Dictionary of New Testament Words eftir W. E. Vine segir: „Stauros . . . táknar fyrst og fremst uppréttan stólpa eða staur. Afbrotamenn voru líflátnir með því að negla þá á slíkan staur. Gera ber greinarmun á bæði nafnorðinu [stauros] og sögninni stauroo, að festa á staur eða stólpa, annars vegar og hins vegar hinni kirkjulegu notkun krossins sem er lóðréttur stólpi með láréttum þverbjálka. Lögun hins síðarnefnda er sótt til Forn-Kaldeu og var hann notaður sem táknmynd guðsins Tammúsar (því að hann hafði sömu lögun og hið dularfulla tá, fyrsti bókstafurinn í nafni hans) þar í landi og í grannlöndunum, meðal annars Egyptalandi.“

5 Vine heldur áfram: „Um miðbik 3. aldar e.Kr. höfðu kirkjurnar annaðhvort vikið frá eða afskræmt vissar kenningar kristinnar trúar. Til að auka álit trúvilltra kirkjustofnana var heiðingjum veitt innganga í kirkjurnar án endurnýjunar trúarinnar og var leyft að halda heiðnum táknum sínum og táknmyndum að mestu leyti. Því var tá eða T í sinni algengustu mynd, með þverbjálkann lækkaðan, látið standa fyrir kross Krists.“

6, 7. (a) Hvaðan er orðið „kross“ komið og hvers vegna er ekki rétt að nota það í Biblíunni? (b) Hvernig staðfestir notkun Biblíunnar á orðinu xylon að stauros var uppréttur staur?

6 The Companion Bible segir undir fyrirsögninni „Krossinn og krossfestingin“: „Enska orðið ‚cross‘ [kross] er þýðing latneska orðsins crux; en gríska orðið stauros þýðir ekki crux frekar en orðið ‚stafur‘ merkir ‚hækja.‘ Hómer notar orðið stauros um venjulegan stólpa eða staur eða annað stakt tréstykki. Sú er merking orðsins alls staðar í klassískum, grískum bókmenntum. Það merkir aldrei tvö tréstykki lögð í kross. . . . Það finnst ekkert í grískum texta Nýjatestamentisins sem gefur á nokkurn hátt í skyn að um sé að ræða tvo timburbjálka.“

7 Biblían notar annað grískt orð, xylon, um aftökutæki Jesú. Þetta orð sýnir einnig að stauros var lóðréttur staur án þverbjálka. The Companion Bible segir: „Orðið [xylon] . . . er yfirleitt notað um dauðan trjábol eða timbur ætlað til eldiviðar eða annarra nota. . . . Þegar síðarnefnda orðið [xylon] er notað í stað stauros sýnir það okkur að merkingin er nákvæmlega hin sama. . . . Þess vegna er orðið [xylon] . . . notað um það hvernig Drottinn okkar dó og þýtt ‚tré‘ í Postulasögunni 5:30; 10:39; 13:29; Galatabréfinu 3:13; 1. Pétursbréfi 2:24.“

8. Hvað segja aðrar heimildir um krossinn og uppruna hans?

8 Franska alfræðibókin Dictionnaire Encyclopédique Universel segir: „Um langt skeið var álitið að sem trúartákn væri krossinn eingöngu tákn kristinna manna. Svo er hins vegar ekki.“ Bókin Dual Heritage—The Bible and the British Museum segir: „Það kann að koma sumum á óvart að orðið ‚kross‘ er alls ekki að finna í grísku Nýjatestamentisins. Orðið, sem þýtt er ‚kross,‘ er í öllum tilvikum gríska orðið [stauros] sem merkir ‚staur‘ eða ‚uppréttur stólpi.‘ Upphaflega var krossinn ekki kristið tákn; hann er kominn frá Egyptalandi og Konstantínusi.“ New Catholic Encyclopedia segir: „Listaverk frá fyrstu öldum kristninnar sýna ekki lausnardauða Jesú á Golgata. Vegna áhrifa frá banni Gamlatestamentisins við skurðmyndum voru frumkristnir menn tregir til að gera mynd einu sinni af aftökutæki Drottins. . . . Krossinn tekur fyrst að sjást á tímum Konstantínusar.“

Kross Konstantínusar

9. Hver voru tengsl Konstantínusar keisara og krossins?

9 Konstantínus var rómverski keisarinn sem kallaði saman kirkjuþingið í Níkeu árið 325 og kom því til að samþykkja hina óbiblíulegu kenningu að Kristur væri Guð. Tilefni hans var það að treysta stoðir heimsveldis síns sem byggt var heiðingjum og fráhvarfskristnum mönnum. The New Encyclopædia Britannica segir um hann: „Kvöldið áður en Konstantínus sigraði Maxentíus árið 312 sá hann krossinn sem ‚himneskt tákn‘ og trúði að það væri loforð frá Guði um sigur.“ Þar segir einnig að Konstantínus hafi eftir þetta beitt sér fyrir dýrkun krossins.

10. Hvers vegna er ekki rökrétt eða biblíulegt að trúa að Guð eða Kristur hafi gefið Konstantínusi „tákn“ í mynd krossins?

10 En getur hugsast að Guð hafi gefið heiðnum leiðtoga tákn, manni sem ekki gerði vilja Guðs, og auk þess heiðið tákn? Jesús ávítaði samlanda sína fyrir að vilja tákn. (Matteus 12:38-40) Enn fremur úthellti þessi heiðni valdhafi saklausu blóði með holdlegum vopnum í pólitískum ávinningi, og beitti stjórnmálaklækjum til að fá ættingja sína og aðra félaga myrta. En Jesús sagði: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist.“ (Jóhannes 18:36) Þess vegna bauð hann Pétri: „Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ — Matteus 26:52.

11. Hvað lá að baki þess að Konstantínus skyldi beita sér fyrir notkun krossins?

11 Bókin Strange Survivals segir um Konstantínus og kross hans: „Við þurfum varla að efast um að einhver stjórnkænska hafi búið að baki því sem hann gerði; táknið sem hann stillti upp gerði bæði kristna menn í her hans og Gallana [heiðingja] ánægða. . . . Í augum hinna síðarnefndu var það tákn um hylli sólarguðsins“ sem þeir tilbáðu. Hið ‚himneska tákn‘ Konstantínusar átti ekkert skylt við Guð eða Krist heldur átti rætur sínar í heiðni.

Er rétt að sýna aftökutæki lotningu?

12, 13. Af hvaða öðrum ástæðum ætti ekki að sýna krossinum lotningu?

12 Jafnvel þótt við slægjum striki yfir öll sönnunargögn og gengjum út frá því að Jesús hafi verið líflátinn á krossi, væri þá rétt að sýna krossinum lotningu? Nei, því að Jesús var líflátinn sem glæpamaður, líkt og mennirnir honum við hlið, og aftaka hans gaf því alranga og villandi mynd af honum. Kristnir menn á fyrstu öld hefðu ekki litið á aftökutæki hans sem heilagt. Dýrkun þess hefði falið það í sér að upphefja hinn ranga verknað sem það var notað við, morðið á Jesú.

13 Ef kærasti vinur þinn væri líflátinn á fölskum forsendum, myndir þú þá gera þér eftirmynd af aftökutækinu (til dæmis snöru, rafmagnsstól eða byssu) og síðan kyssa eftirmyndina, brenna kertum fyrir framan hana eða bera hana í festi um hálsinn sem helgan dóm? Það væri óhugsandi. Líkt er því farið með tignun krossins. Sú staðreynd að krossinn er af heiðnum uppruna gerir málið einungis verra.

14. Hver hlýtur að vera niðurstaða okkar varðandi krossinn, í ljósi veraldlegra og biblíulegra heimilda?

14 Dýrkun krossins er ekki kristin. Hún lýsir ekki kærleika til Guðs eða Krists heldur gerir gys að því sem þeir styðja og fylgja. Hún brýtur boðorð Guðs gegn skurðgoðadýrkun. Hún upphefur heiðið tákn með því að stilla því upp sem kristnu tákni. (2. Mósebók 20:4, 5; Sálmur 115:4-8; 1. Korintubréf 10:14) Það að líta á heiðið tákn sem heilagt er skýlaust brot á boði Guðs: „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum. Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? . . . Snertið ekki neitt óhreint.“ — 2. Korintubréf 6:14, 17.

Haldið fast við hið innblásna orð

15. Hvers vegna ættum við að hafna erfikenningum sem brjóta í bága við orð Guðs?

15 Kirkjurnar halda því fram að dýrkun krossins og annað af svipuðu tagi sé hluti af „heilagri erfðavenju.“ En þegar erfðavenja brýtur í bága við orð Guðs hafna þeir sem elska Guð erfðavenjunni. Allt sem við þurfum til að geta tilbeðið Guð á réttan hátt er að finna í Biblíunni. Eins og Páll skrifaði Tímóteusi: „Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar Ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú. Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ (2. Tímóteusarbréf 3:15-17) Hvergi segir Biblían að erfðavenjur, sem stangast á við orð Guðs, séu ómissandi til hjálpræðis.

16. Hvað sagði Jesús við trúarleiðtoga Gyðinganna varðandi erfikenningar þeirra?

16 Það er ekkert nýtt að árekstrar verði milli Ritningarinnar og erfikenninga manna. Á tímabilinu frá því að ritun Hebresku ritninganna lauk fram til komu Jesú bættu trúarleiðtogar Gyðinga við alls kyns erfikenningum sem fyrst bárust mann fram af manni en voru síðar færðar í letur. Þessar erfikenningar voru ekki innblásnar af Guði og stönguðust oft á við Ritninguna. Jesús sagði því trúarleiðtogunum: „Hvers vegna brjótið þér sjálfir boðorð Guðs sakir erfikenningar yðar? . . . Þér ógildið orð Guðs með erfikenning yðar.“ Hann heimfærði á þá orð Guðs þar sem stendur: „Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar.“ (Matteus 15:1-6, 9) Jesús vitnaði aldrei í slíkar erfikenningar þegar hann kenndi. Hann vísaði til hins innblásna orðs Guðs. — Matteus 4:4-10; Markús 12:10; Lúkas 10:26.

17. Hvers vegna getum við treyst á Biblíuna sem traust akkeri vonarinnar?

17 Guð treysti ekki óáreiðanlegum áhangendum trúarlegra erfikenninga fyrir því að varðveita „orð lífsins.“ (Filippíbréfið 2:16) Þess í stað innblés hann ritun Biblíunnar með sínum máttuga, heilaga anda, þannig að „vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.“ (Rómverjabréfið 15:4) Sá sem segir að Biblían sé ófullnægjandi og að við þurfum að reiða okkur á brigðula hugsun ófullkominna, óinnblásinna manna er með því að afneita mætti Guðs. Það er augljóst að hinn voldugi og mikilfenglegi skapari alheimsins getur látið skrifa bók! Það gerði hann líka til að við gætum haft haldgott akkeri vonarinnar og þyrftum ekki að reiða okkur á erfðavenjur manna sem verður til þess að fólk brýtur boðorð Guðs. Þess vegna segir orð Guðs: „Farið ekki lengra en ritað er.“ (1. Korintubréf 4:6) Þeir sem í sannleika elska Guð munu halda þetta boð. — Sjá einnig Orðskviðina 30:5, 6.

‚Haldið hans boðorð‘

18. Hvaða boðorði verðum við að hlýða ef við elskum Guð?

18 „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð,“ segir 1. Jóhannesarbréf 5:3. Þegar trúarleiðtogar útvatna þessi boðorð, virða þau einskis eða taka mótsagnakenndar erfikenningar manna fram yfir þau leiða þeir fylgjendur sína í berhögg við vilja Guðs. Sem dæmi skulum við nefna undirstöðureglu kristinnar trúar — boðið um að elska náungann. Það var snar þáttur í kennslu Jesú. Hann sagði: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ — Matteus 22:39.

19. (a) Hve mikilvægt er það fyrir kristna menn að elska hver annan? (b) Hvað var ólíkt með hinu nýja boðorði Jesú um kærleikann og eldra boðorði?

19 Hversu þýðingarmikill er þessi náungakærleikur? Jesús kenndi að sannkristnir menn þekkist á þeim kærleika sem þeir bera hver til annars. Hann sagði: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:34, 35) Að vísu stóð í lögmáli Forn-Ísraelsmanna boðorð um að ‚elska náunga sinn eins og sjálfan sig.‘ (3. Mósebók 19:18) En það sem var nýtt við boðorð Jesú var: „Eins og ég hef elskað yður.“ Þetta gerði kristinn kærleika aflmeiri, því að kristinn maður þarf að vera fús til jafnvel að leggja líf sitt í sölurnar fyrir trúbræður sína, rétt eins og Jesús gerði.

20. Hvað sýnir saga þessarar aldar um það hverjir hlýða því boðorði að ‚elska hver annan‘?

20 Þannig er hægt að þekkja sanna þjóna Guðs nú á dögum á órjúfandi einingarbandi kærleika sem teygir sig til allra landa. Hverjir hlýða núna slíku boði Guðs um að iðka kærleika? Hverjir hafa verið ofsóttir, fangelsaðir, settir í fangabúðir eða líflátnir fyrir það að vilja ekki beita vopnum gegn trúbræðrum sínum — eða öðrum — af öðrum þjóðum? Saga þessarar aldar svarar: einungis vottar Jehóva.

21. Hafa kirkjur kristna heimsins lifað eftir boðorðinu um að elska trúbræður sína?

21 Trúfélög kristna heimsins hafa aftur á móti gert sér að reglu að brjóta boðorð Guðs um kærleikann. Í öllum styrjöldum þessarar aldar hafa klerkar kristna heimsins leitt sóknarbörn sín fram í bardaga hvert gegn öðru til að drepa hvert annað. Í milljónatali hafa mótmælendur drepið mótmælendur og kaþólskir kaþólska en þó hafa þeir allir sagst vera kristnir. En orð Guðs lýsir yfir: „Ef einhver segir: ‚Ég elska Guð,‘ og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð. Og þetta boðorð höfum vér frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn.“ — 1. Jóhannesarbréf 4:20, 21.

22. Hverra börn eru innan kirkna kristna heimsins og hvers vegna samkvæmt skilgreiningunni í 1. Jóhannesarbréfi 3:10-12?

22 Orð Guðs segir enn fremur: „Af þessu eru augljós börn Guðs og börn djöfulsins. Sá sem iðkar ekki réttlætið og elskar ekki bróður sinn heyrir ekki Guði til. . . . Vér eigum að elska hver annan. Ekki vera eins og Kain, sem heyrði hinum vonda til og myrti bróður sinn.“ (1. Jóhannesarbréf 3:10-12) Kirkjur kristna heimsins staðhæfa að þær séu myndaðar af börnum Guðs, en það hlýtur að vera rangt vegna þess að þær óhlýðnast gróflega boðorði Guðs um kærleikann og ‚drepa bræður sína.‘ Þær hljóta að vera börn ‚hins vonda.‘ Þess vegna hvetur orð Guðs einlæga menn innan slíkra trúfélaga: „Gangið út, mitt fólk, út úr [þeim], svo að þér eigið engan hlut í syndum [þeirra] og hreppið ekki plágur [þeirra].“ (Opinberunarbókin 18:4) Bráðlega mun Guð fullnægja dómi sínum yfir öllum falstrúarbrögðum. Þeir sem halda sér við þau munu deila örlögum með þeim. (Opinberunarbókin 17:16) Á hinn bóginn mun ‚sá sem gjörir Guðs vilja vara að eilífu.‘ — 1. Jóhannesarbréf 2:17.

Hverju svarar þú?

◻ Hvers vegna er rangt að þýða gríska orðið stauros sem „kross“?

◻ Hvar átti dýrkun krossins upptök sín og hvers vegna ættum við að hafna henni?

◻ Hvaða fordæmi setti Jesús varðandi trúarlegar erfðavenjur?

◻ Á hverju getum við þekkt þá sem hlýða boðorðinu um bróðurkærleikann?

[Rammi/Myndir á blaðsíðu 15]

UPPRUNI KROSSINS

Krossar í ýmsum myndum voru notaðir í nánast öllum heimshornum löngu fyrir daga kristninnar.

Egypski krossinn var notaður í Forn-Egyptalandi sem tákn lífs eftir dauðann.

Andrésarkrossinn táknaði þau fjögur frumefni sem menn álitu allt vera skapað úr.

Hakakrossinn er talinn hafa verið tákn elds eða sólarinnar og þar með lífsins.

Latneski krossinn er útbreiddur innan kristna heimsins.

Þessi kross er myndaður úr fyrstu tveim bókstöfum orðsins „Kristur“ á grísku.

[Mynd á blaðsíðu 14]

Kristur dó á uppréttum staur, ekki krossi.

[Myndir á blaðsíðu 16, 17]

„Þeir segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum.“ — Títusarbréfið 1:16.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila