Jörðinni bjargað frá eyðingu
EINU sinni áður í mannkynssögunni bjargaði Guð jörðinni frá eyðingu af mannavöldum. Það gerði hann með heimsflóðinu á dögum Nóa. Við höfum engar heimildir fyrir því að menn hafi verið að spilla hinu bókstaflega umhverfi sínu á þeim tíma, en jörðinni var spillt á annan veg í slíkum mæli að Guð taldi nauðsynlegt að láta til skarar skríða af fullum þunga.
Biblían skýrir svo frá: „Jörðin var spillt í augsýn Guðs, og jörðin fylltist glæpaverkum. Og Guð leit jörðina, og sjá, hún var spillt orðin, því að allt hold hafði spillt vegum sínum á jörðinni.“ (1. Mósebók 6:4, 11, 12) Á dögum Nóa leit Guð á jörðina sem spillta vegna ofbeldis og guðleysis manna.
Er Ísraelsmenn tóku að leggja undir sig hið fyrirheitna land endur fyrir löngu aðvaraði Guð einnig: „Þér skuluð eigi vanhelga landið, sem þér eruð í, því að blóðið vanhelgar landið . . . Og þú skalt ekki saurga landið.“ (4. Mósebók 35:33, 34) Kanaanland var spillt vegna blóðskuldar íbúanna. Sem dæmi um það má nefna hinn hræðilega sið þeirra að fórna ungbörnum til handa guðum sínum.
Kanverjar voru líka gróflega siðlausir og það hafði einnig sín áhrif á viðhorf Guðs til landsins. Hann aðvaraði Ísraelsmenn: „Saurgið yður ekki með nokkru þvílíku [siðlausum athöfnum], því að með öllu þessu hafa heiðingjarnir saurgað sig, sem ég mun reka á burt undan yður. Og landið saurgaðist, . . . og landið spjó íbúum sínum.“ (3. Mósebók 18:24, 25) Siðleysi og blóðsúthellingar spilltu Kanaanlandi svo mjög að Guð eyddi Kanverjum sem þjóð.
Spilling jarðar
Hvað um okkar daga? Lifum við ekki líka tíma skefjalauss ofbeldis, blóðsúthellinga og siðleysis? Hvað svo sem menn gera til að reyna að bæta það tjón, sem þeir hafa unnið á hinni bókstaflegu jörð, geta þeir aldrei vakið aftur til lífs þær eitt hundrað milljónir manna sem talið er að fallið hafi í styrjöldum þessarar aldar; og ekki geta þeir heldur lífgað við þær milljónir sem glæpamenn hafa myrt eða hin óteljandi fórnarlömb hungursins. Maðurinn getur ekki lífgað við þær 40 til 60 milljónir ófæddra barna sem talið er að láti lífið ár hvert vegna fóstureyðinga. Getum við dregið í efa að jörðin spillist í augum Guðs vegna alls þessa — að ekki sé minnst á siðleysið sem er í algleymingi nú á dögum?
Heilbrigð skynsemi segir okkur að Guð hljóti bráðlega að láta til skarar skríða og bjarga jörðinni undan eyðingarstarfi mannsins og spádómar Biblíunnar staðfesta það. En hvað mun hann gera? Biblían segir að hann muni „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ (Opinberunarbókin 11:18; samanber Matteus 24:3-14.) Á sama hátt og húseigandi ber út leigjanda sem skemmir húsnæði hans, eins mun Guð „bera út“ þá sem eyða hina fögru sköpun hans, jörðina.
Biblían segir: „Hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.“ (Orðskviðirnir 2:22) Biblían kallar þessa væntanlegu aðgerð Guðs Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:16) Jesús kallaði hana líka ‚þá miklu þrengingu, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.‘ (Matteus 24:21) Hún verður enn meiri að vöxtum en flóðið.
Er þetta ranglát lausn eða óhóflega róttæk? Nei, Guð hefur sem skapari jarðar rétt til að ákveða hverjir byggja hana. Hann hefur líka rétt til að gera manninn ábyrgan fyrir verkum sínum. Auk þess yrði jörðin gereydd svo að enginn gæti lifað á henni, ef Guð leyfði manninum að halda áfram óhindrað. Með því hins vegar að „eyða þeim, sem jörðina eyða,“ varðveitir Guð hina jarðnesku arfleifð handa þeim sem kunna að meta hana. Biblían lofar: „Hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því.“ — Orðskviðirnir 2:21.
Milljónir manna hafa, með Guðs hjálp, öðlast styrk til að sýna sig ámælislausa, vegna þess að þá langar til að fá að lifa áfram og njóta sköpunar Guðs. Þeir fylgja líka háum siðferðiskröfum Guðs og forðast jafnvel óbeint ofbeldi og blóðskuld. Þess vegna taka þeir ekki þátt í að eyða jörðina í þessum skilningi.
Jörð sem hefur verið bjargað frá eyðingu
Slíkir menn eiga sér þær ánægjulegu framtíðarhorfur að fá að sjá jörðina breytast úr því eyðingarástandi, sem nú er, í heilnæma paradís. Jafnvel líkamir þeirra verða hreinsaðir af banvænum áhrifum syndarinnar. Síðasta bók Biblíunnar lýsir ráðstöfunum Guðs til alls þessa sem táknrænni „móðu lífsvatnsins.“ Beggja megin móðunnar eða árinnar var „lífsins tré, sem ber tólf sinnum ávöxt. Á mánuði hverjum gefur það ávöxt sinn, og blöð trésins eru til lækningar þjóðunum.“ — Opinberunarbókin 22:1, 2.
Þessi innblásna sýn er trygging fyrir því að Guð muni bjarga jörðinni og mannkyninu frá eyðingu. Aðrir spádómar Biblíunnar bregða upp leiftursýn af hinni endurreistu jörð. Lítum til dæmis á ljóðræna lýsingu Jesaja: „Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja. Þau skulu blómgast ríkulega og fagna af unaði og gleði.“ (Jesaja 35:1, 2) Á þeim tíma verða hvergi menguð höf, ónýt gróðurmold eða eitrað andrúmsloft.
Enn þýðingarmeira er að jörðin mun ekki spillast vegna ofbeldis, blóðsúthellinga eða siðleysis. Þeir einir sem virða Guð, staðla hans og sköpun munu vera þar. (Opinberunarbókin 21:7, 8) Sjáðu hve stórkostlegum árangri allt þetta mun skila: „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið. . . . ‚Sjá, ég gjöri alla hluti nýja.‘“ — Opinberunarbókin 21:4, 5.
Þetta eru stórkostleg málalok! Við getum sannarlega glaðst yfir því að Guð muni bráðlega „eyða þeim, sem jörðina eyða“! Þessi innblásnu fyrirheit eru okkur sterk hvöt til að vilja þjóna þeim Guði sem mun bjarga jörðinni frá eyðingu og gera hana að paradísarheimili fyrir hjartahreint mannkyn!
[Innskot á blaðsíðu 6]
Biblían segir að Guð muni „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ — Opinberunarbókin 11:18.