Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.6. bls. 3-5
  • Eru trúarbrögð nauðsynleg?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Eru trúarbrögð nauðsynleg?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Vöxtur veraldarhyggjunnar
  • Undanhald veraldarhyggjunnar
  • Endurvakinn áhugi á trúarbrögðum
  • Eru öll trúarbrögð jafngóð?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Losnað úr ánauð falskra trúarbragða
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Hrein guðsdýrkun nauðsynleg til að lifa af
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Hefur þú fundið hina réttu trú?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.6. bls. 3-5

Eru trúarbrögð nauðsynleg?

GEGNIR trú stóru hlutverki í lífi þínu? Tilheyrir þú kannski einhverri trúarhreyfingu eða kirkju? Ef svo er átt þú margt sameiginlegt með því fólki sem var uppi árið 1844, árið sem þýski heimspekingurinn Karl Marx skrifaði: „Trúarbrögð . . . eru ópíum fólksins.“ Í þá daga sóttu næstum allir kirkju og trúarbrögð höfðu sterk áhrif á öllum stigum þjóðfélagsins. Gríðarleg breyting hefur orðið þar á og núna hafa trúarbrögð lítil eða engin áhrif á líf hundruð milljóna manna. Ef þú sækir kirkju ert þú líklega í minnihlutahópi í þínu byggðarlagi.

Hvað olli þessari breytingu? Að hluta til stafaði hún af andtrúarlegri heimspeki Karl Marx sem hafði gífurleg áhrif. Marx leit greinilega á trúarbrögð sem þránd í götu framfara. Hann hélt því fram að mannlegum þörfum væri best fullnægt með efnishyggju, heimspeki þar sem ekkert rúm væri fyrir Guð eða hefðbundin trúarbrögð. Þetta viðhorf lá að baki þeirri staðhæfingu hans að ‚útrýming trúarbragða væri frumskilyrði þess að fólk nyti hamingju.‘

Þýski sósíalistinn Friedrich Engels og rússneski kommúnistaleiðtoginn Vladimír Lenín unnu nánar úr efnishyggjuheimspeki Marx. Hún var síðar kölluð marx-lenínismi. Þar til nýlega bjó rúmlega þriðjungur mannkyns við stjórnarfar sem fylgdi að meira eða minna leyti þessari guðlausu heimspeki. Fjöldi karla og kvenna gerir það enn.

Vöxtur veraldarhyggjunnar

En útbreiðsla kommúniskrar heimspeki var ekki það eina sem linaði tök trúarbragðanna á mannkyninu. Framfarir á sviði vísinda höfðu líka sitt að segja. Til dæmis kom útbreiðsla þróunarkenningarinnar mörgum til að efast um að til væri skapari. Og fleira kom til.

Encyclopædia Britannica nefnir að „fundist hafi vísindalegar skýringar á fyrirbærum sem voru áður talin yfirnáttúrleg“ og „áhrif skipulagðra trúarbragða hafi horfið á vettvangi læknisfræði, menntunar og lista, svo dæmi séu nefnd.“ Þessi þróun leiddi til vaxandi veraldarhyggju. Hvað er veraldarhyggja? Hún er skilgreind sem „lífsviðhorf . . . byggt á þeirri forsendu að trúarbrögð og trúarleg atriði skuli sniðgengin eða útilokuð af ásettu ráði.“ Veraldarhyggjan hefur sterk ítök bæði í löndum kommúnisma sem og annars stjórnarfars.

En veraldarhyggjan og marx-lenínisminn var ekki það eina sem dró úr áhrifum trúarbragða. Kirkjur kristna heimsins verða að deila með þeim sökinni. Hvers vegna? Vegna þess að þær höfðu misnotað vald sitt um aldaraðir og haldið fram kennisetningum sem byggðar voru á óbiblíulegum erfikenningum og heimspeki manna frekar en Biblíunni. Af þeim sökum voru margir kirkjumeðlimir of veikburða andlega til að standast ásókn veraldarhyggjunnar.

Þar á ofan lét að lokum meirihluti sjálfra kirknanna undan veraldarhyggjunni. Á 19. öld komu fræðimenn innan kristna heimsins fram með eins konar æðri biblíugagnrýni sem braut niður tiltrú margra á Biblíuna sem innblásið orð Guðs. Kirkjurnar, þeirra á meðal rómversk-kaþólska kirkjan, tóku þróunarkenninguna upp á arma sína. Auðvitað töldu þær sig samt trúa á sköpun, en þær gerðu ráð fyrir þeim möguleika að líkami mannsins hefði þróast en aðeins sálin verið sköpuð af Guði. Á sjöunda áratug þessarar aldar bjó mótmælendastefnan til guðfræði sem boðaði að ‚Guð væri dauður.‘ Margir mótmælendaklerkar létu veraldlegan lífsmáta óátalinn. Þeir lögðu blessun sína yfir kynlíf fyrir hjónaband og jafnvel kynvillu. Nokkrir kaþólskir guðfræðingar mótuðu svokallaða frelsisguðfræði með því að blanda kaþólskri trú saman við byltingarsinnaðann marxisma.

Undanhald veraldarhyggjunnar

Veraldarhyggjan var ríkjandi sérstaklega á sjöunda áratugnum og fram á miðjan áttunda áratuginn. Þá snerist dæmið við á ný. Trúarbrögðin virtust aftur sækja í sig veðrið, nema hvað helst stóru kirkjudeildirnar. Nýir trúarhópar blómstruðu um allan heim á síðari hluta áttunda áratugarins og á þeim níunda.

Af hverju stafar þessi trúarvakning? Franski félagsfræðingurinn Gilles Kepel segir að „veraldlega menntaðir leikmenn . . . haldi því fram að veraldlegir menningarhættir hafi leitt þá á blindgötu og með því að þykjast óháðir Guði hafi menn uppskorið eins og þeir hafa sáð með hroka sínum og hégóma, það er að segja afbrot, hjónaskilnaði, eyðni, fíkniefnanotkun og sjálfsvíg.“

Undanhald veraldarhyggjunnar hófst fyrir alvöru eftir að marx-lenínisminn virtist hrynja nú nýverið. Í reyndinni var þessi guðlausa heimspeki orðin trúarbrögð margra. Það er því hægt að gera sér í hugarlund hve ráðvillt það fólk er sem setti traust sitt á þau. Í fréttaskeyti frá Moskvu til dagblaðsins Washington Post sagði fyrrverandi rektor við framhaldsskóla kommúnistaflokksins: „Þjóð byggir ekki aðeins á efnahagskerfi sínu og stofnunum, heldur líka á goðafræði sinni og stofnendum. Það er hrikalegt áfall fyrir hvaða þjóðfélag sem er að uppgötva að mikilsmetnustu goðsagnir þess eru ekki byggðar á sannleika heldur áróðri og draumórum. En það er einmitt það sem við erum að reka okkur á núna varðandi Lenín og byltinguna.“

Franski félagsfræðingurinn og heimspekingurinn Edgar Morin segir bæði um hinn kommúniska og kapítaliska heim: „Við höfum ekki aðeins horft upp á að fyrirheitið um glæsta framtíð öreiganna hafi brugðist, heldur höfum við líka séð bregðast hinar sjálfkrafa og eðlilegu framfarir veraldlegs þjóðfélags þar sem vísindi, rökhyggja og lýðræði átti að eflast af sjálfu sér. . . . Nú er ekki hægt að vera viss um neinar framfarir lengur. Framtíðin sem við höfðum vonast eftir er hrunin.“ Slík tómleikakennd sækir á marga sem hafa treyst á tilraunir manna til að búa til betri heim án Guðs.

Endurvakinn áhugi á trúarbrögðum

Þessarar vonbrigðakenndar gætir um allan heim og hún fær marga einlæga einstaklinga til að gera sér grein fyrir að það þurfi að vera andlegir þættir í tilverunni. Þeir sjá að trúarbragða er þörf en eru óánægðir með stóru kirkjudeildirnar og sumir eru líka tortryggnir gagnvart hinum nýju trúarhreyfingum — svo sem trúarlækningasöfnuðum, náðargáfuhópum, leynitrúfélögum og jafnvel hópum Satansdýrkenda. Trúarofstæki er líka farið að sýna ófrýnilega ásýnd sína. Já, trúarbrögðin eru að sækja í sig veðrið á einhvern hátt. En er slíkt afturhvarf til trúarbragða af hinu góða fyrir mannkynið? Getur hvaða trú sem er í raun fullnægt andlegum þörfum mannkynsins?

[Mynd á blaðsíðu 3]

„Trúarbrögð eru andvarp hins undirokaða, tilfinning harðbrjósta heims og sálin í hinu sálarlausa. Þau eru ópíum fólksins.“

[Rétthafi]

Mynd: New York Times, Berlín — 33225115

[Mynd á blaðsíðu 4]

Karl Marx og Vladimír Lenín litu á trúarbrögð sem þránd í götu mannlegra framfara.

[Rétthafi]

Musée d’Histoire Contemperaine — BDIC (Universitiés de Paris)

[Mynd á blaðsíðu 5]

Hin marx-leníniska hugmyndafræði vakti bjartar vonir í hjörtum milljóna manna.

[Rétthafi]

Musée d’Histoire Contemperaine — BDIC (Universitiés de Paris)

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila