Hafðu sjálfstjórn til að bera og farðu vaxandi í henni
„Auðsýnið í trú yðar . . . sjálfsögun.“ — 2. PÉTURSBRÉF 1:5, 6.
1. Við hvaða óvenjulegar aðstæður gæti kristinn maður borið vitni?
JESÚS sagði: „Þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna þeim og heiðingjunum til vitnisburðar.“ (Matteus 10:18) Um hvað myndir þú tala ef þú yrðir kallaður fram fyrir landshöfðingja, dómara eða forseta? Líklega fyrst um það hvers vegna þú værir þar og hvaða sökum þú værir borinn. Andi Guðs myndi hjálpa þér til þess. (Lúkas 12:11, 12) En gætir þú ímyndað þér að þú myndir byrja á að tala um sjálfstjórn? Álítur þú hana þýðingarmikinn þátt í kristnum boðskap okkar?
2, 3. (a) Hvernig bar það til að Páll gat vitnað fyrir Felix og Drúsillu? (b) Hvers vegna var viðeigandi fyrir Pál að tala um sjálfsögun við þær aðstæður?
2 Við skulum skoða raunverulegt dæmi. Einn votta Jehóva var handtekinn og leiddur fyrir rétt. Þegar honum var gefið tækifæri til að tala langaði hann til að útskýra trúarskoðanir sínar sem kristinn maður, sem vottur. Þú getur skoðað frásöguna af þessum atburði og komist að raun um að réttarvitnisburður hans fjallaði „um réttlæti, sjálfsögun og komandi dóm.“ Við erum að vísa til þess sem kom fyrir Pál postula í Sesareu. Fyrst fór fram byrjunaryfirheyrsla. „Nokkrum dögum seinna kom Felix með eiginkonu sinni, Drúsillu. Hún var Gyðingur. Hann lét sækja Pál og hlýddi á mál hans um trúna á Krist Jesú.“ (Postulasagan 24:24) Sagnfræðirit greina frá því að Felix hafi „einatt sýnt hvers konar grimmd og losta og beitt konungsvaldinu af þrælslegri eðlishvöt í einu og öllu.“ Hann hafði verið kvæntur tvisvar áður en hann fékk Drúsillu til að skilja við eiginmann sinn (og brjóta með því lög Guðs) og verða þriðja konan sín. Kannski var það hana sem langaði að heyra um hina nýju trú, kristnina.
3 Að því búnu ræddi Páll „um réttlæti, sjálfsögun og komandi dóm.“ (Postulasagan 24:25) Með því sýndi hann greinilega hversu grimmdin og óréttlætið, sem Felix og Drúsilla tóku þátt í, stangaðist á við mælikvarða Guðs á réttsýni og heiðarleika. Páll hefur ef til vill vonast til að þetta fengi Felix til að sýna réttvísi í máli hans. En hvers vegna að fara að tala um „sjálfsögun og komandi dóm“? Þessi siðlausu hjón voru að grennslast fyrir um hvað fælist í ‚trúnni á Krist Jesú.‘ Þau þurftu því að vita að ef menn ætluðu að fylgja honum þyrftu þeir að hafa taumhald á hugsunum sínum, tali og hegðun, en það er það sem sjálfsögun þýðir. Allir menn eru ábyrgir gagnvart Guði fyrir hugsunum sínum, orðum og athöfnum. Sá dómur, sem beið landstjórans og konu hans frammi fyrir Guði, var þess vegna mikilvægari en hver sá dómur sem Felix myndi fella yfir Páli. (Postulasagan 17:30, 31; Rómverjabréfið 14:10-12) Það er því skiljanlegt að ‚Felix hafi orðið skelkaður‘ þegar hann heyrði boðskap Páls.
Hún er mikilvæg en ekki auðveld
4. Hvers vegna er sjálfstjórn mikilvægur þáttur í sannri kristni?
4 Páll postuli leit á sjálfsögun sem bráðnauðsynlegan þátt í kristninni. Pétur postuli, einn af nánustu félögum Jesú, staðfesti það. Þegar Pétur skrifaði til þeirra sem skyldu „verða hluttakendur í guðlegu eðli“ á himnum hvatti hann þá til að sýna vissa eiginleika sem voru ómissandi, eins og trú, kærleika og sjálfsögun. Sjálfsögun eða sjálfstjórn var þar af leiðandi innifalin í eftirfarandi fullvissun: „Ef þér hafið þetta til að bera og farið vaxandi í því, munuð þér ekki verða iðjulausir né ávaxtalausir í þekkingunni á Drottni vorum Jesú Kristi.“ — 2. Pétursbréf 1:1, 4-8.
5. Hvers vegna ættum við að láta sjálfstjórn skipta okkur sérstaklega miklu máli?
5 En þú veist að það er auðveldara að segja að við eigum að sýna sjálfstjórn en að iðka hana í raun og veru í daglega lífinu. Ástæðan er meðal annars sú að sjálfstjórn er tiltölulega sjaldgæfur eiginleiki. Í 2. Tímóteusarbréfi 3:1-5 lýsir Páll viðhorfum sem myndu vera ríkjandi á okkar tímum, á „síðustu dögum.“ Eitt af því sem myndi einkenna okkar tíma væri að margir myndu vera „taumlausir.“ Er það ekki nákvæmlega það sem við sjáum allt í kringum okkur?
6. Hvernig birtist skortur á sjálfstjórn nú á dögum?
6 Margir trúa því að það sé í heilsusamlegt að gefa tilfinningum sínum lausan tauminn eða „fá útrás.“ Þeir styrkjast í þessari skoðun við að sjá menn, sem eru áberandi og vel þekktar fyrirmyndir á sínu sviði, láta alla sjálfstjórn að því er virðist lönd og leið og leyfa sér einfaldlega að gera það sem þeim dettur í hug þá stundina. Tökum dæmi: Margir sem eru hrifnir af atvinnumannaíþróttum hafa vanist því að tilfinningunum sé gefinn laus taumurinn, jafnvel í ofbeldisfullum reiðiköstum. Manst þú ekki eftir dæmum, að minnsta kosti af fréttum fjölmiðla, um hrottaleg slagsmál eða skrílslæti sem brutust út á íþróttaleikvöngum? Kjarninn í þessari umfjöllun okkar krefst þess þó ekki að við verjum miklum tíma til að rifja upp dæmi um skort á sjálfstjórn. Nefna mætti mörg svið þar sem við þurfum að sýna sjálfstjórn — neysla matar og drykkjar, framkoma okkar gagnvart hinu kyninu og notkun tíma og fjármuna til tómstunda. En í stað þess að fjalla lauslega um mörg þess konar svið skulum við takmarka okkur við athugun á einu mjög þýðingarmiklu sviði þar sem við verðum að sýna sjálfstjórn.
Sjálfstjórn varðandi tilfinningar okkar
7. Hvaða hlið á sjálfstjórn verðskuldar sérstaka athygli?
7 Mörgum okkar hefur tekist sæmilega vel að hafa stjórn eða taumhald á hegðun okkar. Við stelum ekki, verðum ekki siðleysi að bráð né fremjum morð; við vitum hvað lög Guðs segja um slíka rangsleitni. En hversu vel tekst okkur að stjórna tilfinningum okkar? Oft munu þeir sem hirða ekki um að ná stjórn á tilfinningum sínum missa stjórn á athöfnum sínum. Við skulum þess vegna beina athyglinni að tilfinningum okkar.
8. Hvers væntir Jehóva af okkur varðandi tilfinningar okkar?
8 Jehóva Guð ætlast ekki til þess að við séum vélmenni sem hvorki hafa né sýna nokkrar tilfinningar. Við gröf Lasarusar „komst [Jesús] við í anda og varð hrærður mjög.“ Síðan „grét Jesús.“ (Jóhannes 11:32-38) Hann sýndi allt aðrar tilfinningar þegar hann, með fullkominni stjórn á athöfnum sínum, rak víxlara út úr musterinu. (Matteus 21:12, 13; Jóhannes 2:14-17) Trúfastir lærisveinar hans sýndu einnig djúpar tilfinningar. (Lúkas 10:17; 24:41; Jóhannes 16:20-22; Postulasagan 11:23; 12:12-14; 20:36-38; 3. Jóhannesarbréf 4) Þeir gerðu sér samt ljósa þörfina á sjálfstjórn til þess að tilfinningar þeirra leiddu þá ekki út í synd. Efesusbréfið 4:26 gerir þetta alveg ljóst: „Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar.“
9. Hvers vegna er svona mikilvægt að stjórna tilfinningum sínum?
9 Hætta er á að kristinn maður virðist sýna sjálfstjórn þótt hann hafi í rauninni ekki stjórn á tilfinningum sínum. Munum eftir hver viðbrögðin urðu þegar Guð viðurkenndi fórn Abels: „Þá reiddist Kain ákaflega og varð niðurlútur. Þá mælti [Jehóva] til Kains: ‚Hví reiðist þú, og hví ert þú niðurlútur? Er því ekki þannig farið: Ef þú gjörir rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur, en ef þú gjörir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar og hefir hug á þér?‘“ (1. Mósebók 4:5-7) Kain mistókst að hafa stjórn á tilfinningum sínum sem fékk hann til að myrða Abel. Stjórnlausar tilfinningar leiddu til stjórnlauss verknaðar.
10. Hvað lærir þú af fordæmi Hamans?
10 Skoðum einnig dæmi frá dögum Mordekais og Esterar. Embættismaður, sem hét Haman, reiddist vegna þess að Mordekai vildi ekki lúta honum. Seinna hélt Haman ranglega að hann yrði tekinn fram yfir aðra. „Þann dag gekk Haman burt glaður og í góðu skapi. En er Haman sá Mordekai í konungshliðinu og að hann hvorki stóð upp fyrir honum né hrærði sig, þá fylltist Haman reiði gegn Mordekai. Þó stillti Haman sig.“ (Esterarbók 5:9, 10) Hann var fljótur að finna fyrir gleði. En hann var líka fljótur að finna til reiði aðeins við það að sjá mann sem hann hafði óbeit á. Telur þú að þegar Biblían segir: „Þó stillti Haman sig,“ eigi hún við að hann hafi verið til fyrirmyndar í því að sýna sjálfstjórn? Varla. Á þeirri stundu hafði Haman stjórn á athöfnum sínum og því hvaða tilfinningar hann lét í ljós en honum mistókst að hafa hemil á afbrýði sinni og reiði. Tilfinningar hans fengu hann til að leggja á ráðin um morð.
11. Hvaða vandamál var fyrir hendi í söfnuðinum í Filippí og hvað gæti hafa leitt til þess?
11 Á sama hátt getur það nú á tímum valdið kristnum mönnum miklum skaða ef þeir hafa ekki taumhald á tilfinningum sínum. Sumir halda ef til vill að slíkt vandamál gæti ekki komið upp í söfnuðinum. En það hefur gerst. Alvarlegur ágreiningur, sem Biblían lýsir ekki nánar, kom upp milli tveggja kristinna einstaklinga í Filippí. Ímyndum okkur að eftirfarandi hafi ef til vill gerst: Evodía bauð nokkrum bræðrum og systrum til málsverðar eða til að eiga ánægjulega stund saman. Sýntýke var ekki boðið og henni sárnaði það. Viðbrögð hennar voru kannski þau að sleppa því að bjóða Evodíu seinna þegar hún hafði boð. Síðan byrjuðu þær hvor um sig að leita að mistökum hjá hinni; með tímanum töluðust þær varla við. Ætli meginvandamálið í slíkri atburðarás sé það að vera ekki boðið til málsverðar? Nei, það væri bara neistinn. Þegar þessar tvær smurðu systur höfðu ekki stjórn á tilfinningum sínum varð neistinn að skógareldi. Vandamálið hélt áfram og óx uns postuli varð að grípa inn í. — Filippíbréfið 4:2, 3.
Tilfinningar þínar og bræður þínir
12. Hvers vegna gefur Guð okkur ráðið sem finna má í Prédikaranum 7:9?
12 Það skal viðurkennt að það er ekki auðvelt að hafa stjórn á tilfinningum sínum þegar manni finnst maður hafður útundan, særður eða sýndir fordómar. Jehóva veit það af því að hann hefur fylgst með samskiptum manna allt frá upphafi. Guð ráðleggur okkur: „Ver þú eigi fljótur til að láta þér gremjast, því að gremja hvílir í brjósti heimskra manna.“ (Prédikarinn 7:9) Taktu eftir að Guð beinir athyglinni fyrst að tilfinningum en ekki athöfnum. (Orðskviðirnir 14:17; 16:32; Jakobsbréfið 1:19) Spyrðu þig: „Þyrfti ég að gefa meiri gaum að því að hafa stjórn á tilfinningum mínum?“
13, 14. (a) Hver verður oft framvinda mála þegar fólk í heiminum stjórnar ekki tilfinningum sínum? (b) Hvað gæti komið kristnum manni til að hafa horn í síðu annarra?
13 Margir í heiminum, sem geta ekki haft stjórn á tilfinningum sínum, koma af stað bitrum, jafnvel ofbeldisfullum erjum út frá raunverulegum eða ímynduðum rangindum gagnvart sjálfum sér eða ættingja sínum. Þegar tilfinningarnar eitt sinn eru orðnar stjórnlausar getur skaðlegra áhrifa þeirra gætt í langan tíma. (Samanber 1. Mósebók 34:1-7, 25-27; 49:5-7; 2. Samúelsbók 2:17-23; 3:23-30; Orðskviðina 26:24-26.) Kristnum mönnum ber vissulega, óháð því af hvaða þjóð eða menningu þeir eru komnir, að líta á slíkan bitran fjandskap og óvild sem ranga og ótæka hegðun, nokkuð sem verði að forðast. (3. Mósebók 19:17) Lítur þú á það að forðast að hafa horn í síðu einhvers sem þátt í því að hafa stjórn á tilfinningum þínum?
14 Alveg eins og var hjá Evodíu og Sýntýke getur það leitt til vandræða núna að hafa ekki stjórn á tilfinningum sínum. Systur kann að finnast hún sett hjá fyrst henni er ekki boðið í brúðkaupsveislu, eða af því að barni hennar eða ættingja var ekki boðið. Ef til vill keypti bróðir notaðan bíl af trúbróður sínum en síðan bilaði bíllinn fljótlega. Hver sem ástæðan var olli þetta sárindum, ekki var höfð nægileg stjórn á tilfinningunum og þeir sem hlut áttu að máli komust í uppnám. Þá hvað?
15. (a) Hvaða dapurlegar afleiðingar hefur óvild milli kristinna manna haft? (b) Hvaða leiðbeiningar Biblíunnar ná yfir þá tilhneigingu að leggja fæð á einhvern?
15 Ef einstaklingur, sem kominn er í uppnám, vinnur ekki að því að ná stjórn á tilfinningum sínum og friðmælast við bróður sinn gæti hann farið að leggja fæð á hann. Komið hefur fyrir að vottur Jehóva hefur beðið um að vera ekki settur í vissan bóknámshóp vegna þess að honum var „ekki gefið um“ einhvern kristinn mann eða fjölskyldu sem sótti bóknámið þar. En dapurlegt! Biblían segir að það væri ósigur fyrir kristna menn að draga hver annan fyrir veraldlega dómstóla. Væri það þó ekki jafnmikill ósigur að sneiða hjá bróður vegna þess að hann hefur einhvern tíma haft okkur eða ættingja okkar útundan? Gera tilfinningar okkar uppskátt að við tökum blóðbönd fram yfir frið við bræður okkar og systur? Segjum við að við værum fús til að deyja fyrir systur okkar, en tilfinningarnar hafa slík áhrif á okkur að við tölum varla við hana núna? (Samanber Jóhannes 15:13.) Guð segir okkur beint út: „Gjaldið engum illt fyrir illt. . . . Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi. Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast.“ — Rómverjabréfið 12:17-19; 1. Korintubréf 6:7.
16. Hvaða gott fordæmi sýndi Abraham í því að kljást við tilfinningar?
16 Í stað þess að láta óvináttuna halda áfram ættum við að reyna að ná valdi á tilfinningum okkar með því að friðmælast eða leysa ágreiningsmálið. Munum hvað gerðist þegar landið gat ekki borið stórar hjarðir Abrahams ásamt hjörðum Lots, og sundurþykkja reis þess vegna upp milli vinnumanna þeirra. Lét Abraham tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur eða sýndi hann sjálfstjórn? Það er hrósunarvert hvernig hann kom með tillögu um friðsamlega lausn á þessum hagsmunaárekstri; hvor þeirra skyldi hafa sitt landssvæði. Hann leyfði Lot auk þess að velja fyrst. Seinna fór Abraham í stríð í þágu Lots og sannaði með því að hann væri hvorki bitur út í Lot né bæri óvildarhug til hans. — 1. Mósebók 13:5-12; 14:13-16.
17. Hvernig mistókst Páli og Barnabasi við eitt tækifæri, en hvað gerðist síðar?
17 Við getum líka lært eitthvað um sjálfstjórn af því sem kom fyrir Pál og Barnabas. Eftir að hafa verið ferðafélagar árum saman urðu þeir ósáttir um hvort Markús ætti að koma með þeim í ferð eða ekki: „Varð þeim mjög sundurorða, og skildi þar með þeim. Tók Barnabas Markús með sér og sigldi til Kýpur.“ (Postulasagan 15:39) Það ætti að vera okkur til viðvörunar að þessum þroskuðu mönnum skyldi mistakast að hafa hemil á tilfinningum sínum við þetta tækifæri. Ef það gat komið fyrir þá getur það komið fyrir okkur. Þeir létu þetta þó ekki leiða til varanlegra vinslita eða að upp kæmu langtímaerjur á milli þeirra. Frásagan sýnir að báðir þessir bræður náðu aftur valdi á tilfinningum sínum og unnu seinna saman í friði. — Kólossubréfið 4:10; 2. Tímóteusarbréf 4:11.
18. Hvað getur þroskaður kristinn maður gert ef tilfinningar hans hafa verið særðar?
18 Við getum vænst þess að upp komi sárindi, jafnvel óvildarhugur, meðal fólks Guðs. Það gerðist hjá Ísrael til forna og einnig á dögum postulanna. Það hefur einnig gerst á meðal þjóna Jehóva á okkar dögum því að við erum öll ófullkomin. (Jakobsbréfið 3:2) Jesús hvatti fylgendur sína til að vera fljótir til að leysa slíkan ágreining milli bræðra. (Matteus 5:23-25) En það er enn betra að koma strax í veg fyrir slíkt með því að efla sjálfstjórn okkar. Ef þér finnst þú hafa verið settur hjá eða móðgaður með einhverju tiltölulega litlu sem bróðir þinn eða systir sagði eða gerði, hví þá ekki að hafa bara taumhald á tilfinningunum og einfaldlega gleyma því? Er raunverulega nauðsynlegt að láta hinn aðilann standa frammi fyrir þér eins og þú yrðir ekki ánægður fyrr en hann viðurkenndi að hann hefði gert eitthvað af sér? Hversu mikla stjórn hefur þú á tilfinningum þínum?
Það er mögulegt!
19. Hvers vegna er við hæfi að umræður okkar skuli hafa snúist um það að stjórna tilfinningum sínum?
19 Við höfum fyrst og fremst fjallað um einn flöt á sjálfstjórninni, það að stjórna tilfinningum okkar. Og þetta er þýðingarmikið svið vegna þess að takist okkur ekki að stjórna tilfinningum okkar getur það leitt til þess að við missum stjórn á tungu okkar, kynhvöt, matarvenjum og mörgum öðrum sviðum lífsins þar sem við verðum að sýna sjálfstjórn. (1. Korintubréf 7:8, 9; Jakobsbréfið 3:5-10) En hertu upp hugann því að þú getur tekið framförum í því að sýna ávallt sjálfstjórn.
20. Hvernig getum við verið viss um að mögulegt sé að taka framförum?
20 Jehóva er fús til að hjálpa okkur. Hvernig getum við verið viss um það? Sjálfstjórn er nefnilega einn af ávöxtum andans. (Galatabréfið 5:22, 23, NW) Í þeim mæli sem við þess vegna vinnum að því að vera hæf til að fá heilagan anda frá Jehóva og sýna ávexti hans getum við vænst þess að öðlast meiri sjálfstjórn. Gleymum aldrei orðum Jesú: „Faðirinn himneski [mun] gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ — Lúkas 11:13; 1. Jóhannesarbréf 5:14, 15.
21. Hvað hefur þú einsett þér að gera héðan í frá varðandi sjálfstjórn og tilfinningar þínar?
21 Þú skalt ekki halda að það verði auðvelt. Og það kann að vera erfiðaðra fyrir þá sem ólust upp innan um fólk sem gaf tilfinningum sínum lausan tauminn, fyrir þá sem eru bráðlyndir, eða fyrir þá sem einfaldlega reyndu aldrei að sýna sjálfstjórn. Fyrir kristinn mann með þannig bakgrunn kann það að vera regluleg áskorun að hafa sjálfstjórn til að bera og fara vaxandi í henni. En það er samt mögulegt. (1. Korintubréf 9:24-27) Er við nálgumst sífellt meir enda núverandi heimskerfis mun þrýstingurinn og álagið aukast á okkur. Við munum ekki þurfa á minni sjálfstjórn að halda heldur meiri, miklu meiri. Rannsakaðu sjálfan þig hvað varðar sjálfstjórn þína. Ef þú sérð svið þar sem þú þarft að bæta þig skaltu vinna að því. (Sálmur 139:23, 24) Biddu Guð um meira af anda hans. Hann mun hlusta á þig og hjálpa þér að hafa sjálfstjórn til að bera og fara vaxandi í henni. — 2. Pétursbréf 1:5-8.
Til upprifjunar
◻ Hvers vegna er svona mikilvægt að stjórna tilfinningum sínum?
◻ Hvað hefur þú lært af því sem kom fyrir Haman, svo og Evodíu og Sýntýke?
◻ Hvað munt þú í einlægni reyna að gera ef eitthvað verður til að móðga þig?
◻ Hvernig getur sjálfstjórn hjálpað þér að bera ekki óvildarhug til annars manns?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Þegar Páll stóð frammi fyrir Felix og Drúsillu talaði hann um réttlæti og sjálfstjórn.