Hve lengi er hægt að lifa?
FLEST munum við fúslega viðurkenna að lífsleiðin sé ekki áfallalaus. Þó erum við fegin að vera á lífi. Við sættum okkur ekki aðeins við bernskuárin eða stutta ævi; við viljum helst lifa langa ævi. Samt sem áður virðist dauðinn óumflýjanlegur. Er hann það?
Er hægt að seinka dauðanum? Getur þú lengt ævina?
Lengri ævi?
Árið 1990 var því haldið fram í frétt að hugsanlega mætti lengja ævidaga mannsins í 110 ár. Vafalaust var þar óbeint vísað til orða sálmaritarans Móse í Biblíunni: „Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrsta hnossið er mæða og hégómi, því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.“ (Sálmur 90:10) Biblían segir því að meðalmannsævin sé 70 eða 80 ár. En hvað má maður búast við að lifa lengi nú á dögum?
Í skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni árið 1992 voru meðalævilíkurnar á heimsvísu sagðar vera 65 ár. Að sögn stofnunarinnar var búist við að þessi tala myndi „hækka um fjóra mánuði á ári næstu fimm ár, aðallega vegna dvínandi ungbarnadauða.“ En jafnvel þótt hægt væri með einhverju læknisfræðilegu kraftaverki að koma í veg fyrir að nokkur dæi fyrir fimmtugt segir tímaritið Time að í Bandaríkjunum myndu „meðalævilíkurnar aðeins lengjast um þrjú og hálft ár.“
Hvers vegna er lífið svona stutt?
Dr. Jan Vijg við Tilraunastofnun Hollands í öldrunarfræði heldur því fram að á sama hátt og vissir sjúkdómar séu tengdir byggingargöllum í líkamsfrumum mannsins virðist öldrunarferlið vera undir áhrifum erfðaþátta. Sumir rannsóknarmenn álíta að við gætum lifað lengur ef hægt væri að skipta um „fáein aðalgen“ þegar við eldumst. Aðrir kalla slíka hugmynd „grunnfærnislega.“
Hvað sem því líður viðurkenna vísindamenn að „það virðist vera einhvers konar líffræðileg takmörk innbyggð í frumur mannslíkamans,“ að sögn tímaritsins Time. Jafnvel þeir sem fullyrða að við séum „forrituð til að halda lífi“ viðurkenna að „eitthvað fari úrskeiðis.“ Já, eftir 65, 70, 80 eða fáein ár til viðbótar ‚líður líf okkar burt‘ í dauðann eins og Biblían segir.
Samt sem áður spáði Páll postuli með sannfæringu á fyrstu öld okkar tímatals: „Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður.“ (1. Korintubréf 15:26) Hvernig er hægt að gera dauðann að engu? Og jafnvel þótt það sé hægt, hvernig er hægt að takast á við ástvinamissi nú á dögum?