„Síðasti óvinurinn“ verður sigraður!
KANNSKI varst þú myrkfælinn sem barn. Hryllingssögur og sum ævintýri fylltu þig ef til vill kvíða. Það var mjög hughreystandi þegar pabbi þinn eða mamma skildi eftir ljós hjá þér meðan þú varst að reyna að sofna.
Dauðinn skelfir líka marga, en hann þarf ekki að gera það. Hvers vegna? Vegna þess sem dauðinn raunverulega er.
Þekktu óvin þinn
Hinn vitri Salómon konungur í Forn-Ísrael lýsti yfir: „Því að þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt.“ (Prédikarinn 9:5) Samkvæmt þessum orðum, sem er að finna í biblíunni þinni og eru innblásin af Guði, er dauðinn einfaldlega andhverfa lífsins. Hinir dánu hafa enga meðvitaða tilveru.
Kristni postulinn Páll ávarpaði dauðann á líkingamáli er hann skrifaði: „Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?“ Hver er sá broddur sem veldur dauða? Páll segir: „Syndin er broddur dauðans.“ (1. Korintubréf 15:55, 56; Hósea 13:14) Hver er þá uppruni þessa banvæna broddar? Annars staðar í Biblíunni segir Páll: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ (Rómverjabréfið 5:12) Postulinn lætur okkur ekki vera í vafa um hver þessi ‚eini maður‘ sé er hann segir: „Allir deyja fyrir samband sitt við Adam.“ (1. Korintubréf 15:22) Já, vegna óhlýðni fyrsta forföður okkar, Adams, erum við öll varnarlaus gegn broddi dauðans. — 1. Mósebók 3:1-19.
Ef við búum við góða heilsu í ánægjulegu umhverfi og eigum ástríka fjölskyldu vill ekkert okkar deyja. En eins og Biblían sýnir getur „tími og tilviljun“ rænt okkur lífinu. (Prédikarinn 9:11) Við vitum jafnvel ekki hvað mun verða um líf okkar á morgun. (Jakobsbréfið 4:14) Eitt er víst — við höfum öll erft synd og dauða. Þess vegna læðist dauðinn að okkur og heggur eins og óvinur.
Að takast á við ástvinamissi
Dauðinn er sérstaklega óvinur þegar hann fellir ástvin okkar. „Það verður erfiðara fyrir þig,“ sagði eiginkona, sem var með banvænan sjúkdóm, við mann sinn er hún horfði fram til dauðans. Hvers vegna gat hún sagt það? Vegna þess að Biblían segir: „Allt, sem hönd þín megnar að gjöra með kröftum þínum, gjör þú það, því að í dánarheimum [sameiginlegri gröf mannkynsins], þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ (Prédikarinn 9:10) Hinir dauðu þjást ekki lengur. Sorgarbyrðin leggst hins vegar á eftirlifandi ættingja og vini. Er eitthvað hægt að gera til að lina slíkar þjáningar?
Orð Guðs, Biblían, inniheldur mörg huggunarorð. Það er til að mynda örugg huggun að lesa og hugleiða Sálmana. Orð eins og þessi eru sannarlega hughreystandi: „Lofaður sé [Jehóva], er ber oss dag eftir dag, Guð er hjálpráð vort.“ — Sálmur 68:20.
Auk þess er hægt að sækja hughreystingu til kristna safnaðarins. Páll postuli skrifaði á fyrstu öld okkar tímatals: „Heiðra ekkjur, sem í raun og veru eru ekkjur. En ef einhver ekkja á börn eða barnabörn [sem geta séð fyrir henni efnislega], þá læri þau fyrst og fremst að sýna rækt eigin heimili og endurgjalda foreldrum sínum, því að það er þóknanlegt fyrir augliti Guðs. Ekkja sé ekki tekin á skrá yfir ekkjur nema hún sé orðin fullra sextíu ára, eingift og lofsamlega kunn að góðum verkum. Hún verður að hafa fóstrað börn, sýnt gestrisni, þvegið fætur heilagra, hjálpað bágstöddum og lagt stund á hvert gott verk.“ (1. Tímóteusarbréf 5:3, 4, 9, 10) Vottar Jehóva nú á tímum hjálpa á sama hátt trúbræðrum sínum, sem þannig er ástatt fyrir, og hughreysta þá.
Oft er hin tilfinningalega aðlögun það erfiðasta sem eftirlifandi ástvinir þurfa að takast á við. „Ég unni konunni minni heitt,“ skrifaði maður sem misst hafði eiginkonu sína tveim árum áður. „Þetta er sorglegasti atburður ævi minnar og mér finnst erfitt að þrauka.“ Sá sem hefur verið í hjónabandi um skeið hefur deilt lífi sínu með annarri mannveru í nánasta sambandi sem til er meðal manna. Þegar annað hjóna deyr finnur eftirlifandi maki eðlilega fyrir miklum missi. Hvar getur hann leitað hjálpar?
Undir slíkum kringumstæðum geta góðir kristnir félagar verið uppbyggjandi. „Vinur elskar ætíð og í nauðum er hann sem bróðir,“ segir viturlegur orðskviður. (Orðskviðirnir 17:17) Ekkja eða ekkill þarfnast hjálpar — félaga sem veita raunverulegan stuðning. Vitrir vinir hvetja þann sem syrgir til að tala, jafnvel þótt það kalli fram tár. Kannski getur kristinn maður, sem þekkir sjálfur sársaukann og kvölina samfara því að missa maka sinn, boðið fram vingjarnlega hjálp. „Hughreystið ístöðulitla,“ ráðleggur Biblían. (1. Þessaloníkubréf 5:14) En munum að ekkjur og ekklar sakna maka síns. Þess vegna ætti sá sem misst hefur ástvin aðeins að trúa öðrum fyrir tilfinningum sínum við aðstæður sem gera öllum kleift að stunda hreina breytni. — 1. Pétursbréf 2:12.
Besta meðalið við þeim sársauka, sem dauðinn veldur, er að vera önnum kafinn við að hjálpa öðrum — og það er alls ekki auðvelt fyrir þá sem álíta sjálfa sig hjálparþurfi! Hér gegnir óeigingirni mikilvægu hlutverki. Það að gera eitthvað fyrir aðra af óeigingirni er hjálp til að reka burt hryggð og harm því að Jesús sagði: „Sælla er að gefa en þiggja.“ — Postulasagan 20:35.
Sigur yfir dauðanum
Býflugnastunga getur verið mjög sársaukafull, jafnvel banvæn. Venjulega linar það þó sársaukann að fjarlægja brodd býflugunnar sem situr fastur í hörundi þínu. En hvaða horfur eru á að þeim sársauka, sem broddur dauðans veldur, linni?
Eftir að hafa útskýrt að syndin sé sá broddur, sem valdi dauða, segir Páll: „Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist!“ (1. Korintubréf 15:57) Hvernig er sigur yfir dauðanum tengdur Jesú Kristi? Jesús sýndi að svo væri þegar hann sagði um sjálfan sig: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matteus 20:28) Já, hinn arfgengi dauði frá Adam mun ekki hafa í för með sér varanlegt tilveruleysi fyrir þá sem iðka trú á son Guðs, Jesú Krist, og lausnarfórnina sem Jehóva hefur séð fyrir í honum. — Jóhannes 3:16.
Orð Jesú eru sannarlega hughreystandi: „Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.“ — Jóhannes 5:28, 29.
Öldum áður hafði Jesaja, spámaður Guðs, sagt fyrir: „Hann [Jehóva Guð] mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi [Jehóva] mun þerra tárin af hverri ásjónu.“ (Jesaja 25:8) Í Opinberunarbókinni 21:4 minnir Biblían aftur á þessar undursamlegu framtíðarhorfur: „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ Styrktir af þessari von Biblíunnar um þá sem sofa dauðasvefni þurfa þeir sem missa ástvin ekki að vera „hryggir eins og hinir, sem ekki hafa von.“ — 1. Þessaloníkubréf 4:13.
Reyndu að sjá fyrir þér það sem Guð hefur fyrirbúið mannkyninu, eins og það er opinberað í Biblíunni. ‚Þrengingin mikla,‘ sem er rétt ókomin, er dómur yfir núverandi illu heimskerfi. (Opinberunarbókin 7:14) Þeir sem stunda fölsk trúarbrögð líða undir lok. Ágjörn stjórnmála- og viðskiptaöfl, sem stuðla að hungri og hernaði, eru horfin. Jesús Kristur gengur fram til að fjötra Satan djöfulinn, sem hefur valdið dauða svo margra, í undirdjúpi. Síðan hefur Kristur þúsund ára stjórn sína en þá beitir hann verðgildi lausnarfórnar sinnar í þágu mannkynsins. Hinir dánu snúa aftur í upprisunni, sem beðið hefur verið eftir, og ljósið frá orði Guðs skín svo skært að hjátrúarkenndar hugmyndir um dauðann, óvin mannkyns, eru ekki lengur til. Allir þálifandi menn hafa tækifæri til að læra vegu Guðs og samlaga sig réttlátum stöðlum hans. — Orðskviðirnir 4:18; Postulasagan 24:15; Hebreabréfið 2:14, 15; Opinberunarbókin 18:4-8; 19:19-21; 20:1-3.
‚Síðan kemur endirinn,‘ segir Páll, ‚þegar Kristur Jesús afhendir Guði föður ríkið. Því að honum ber að ríkja uns Guð leggur alla fjendurna undir fætur hans. Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gerður.‘ (1. Korintubréf 15:24-26) Sérhver fötlun, sem stafar af synd Adams, er horfin. Lokaprófraun á sér stað og þeir sem elska Guð koma trúfastir út úr henni. (Opinberunarbókin 20:4-10) Þessir hlýðnu menn, endurreistir til fullkomleika, lifa ekki aðeins í 70 eða jafnvel 110 ár heldur að eilífu. Hvílík gjöf frá Guði fyrir milligöngu ástkærs sonar hans! — Rómverjabréfið 6:23.
Hve lengi getur þú þá lifað? Æviskeið þitt getur verið öll eilífðin. Þar eð þú lifir á ‚endalokatíma‘ þessa heims getur verið að þú deyir aldrei. (Daníel 12:4; Jóhannes 11:25, 26; 17:3) Ef þú gerir vilja Guðs getur þú lifað rakleiðis inn í hinn fyrirheitna, nýja heim Guðs. — 2. Pétursbréf 3:13.
Ef þú ert kominn á efri ár þarft þú hins vegar að vera raunsær og íhuga þann möguleika að þú kunnir að deyja. Upprisuvonin er vissulega gleðiefni. En þér er kannski spurn hvernig Jehóva muni haga fjölskyldulífi í þessu nýja heimskerfi. Láttu slíkar spurningar ekki raska ró þinni því að Jehóva mun sjá til þess að þeir sem eru honum trúfastir að eilífu muni njóta varanlegrar hamingju.
Er þessir erfiðu ‚síðustu dagar‘ hins illa heimskerfis Satans nálgast endalok sín skaltu ekki láta ótta við dauðann ræna þig þeim sérréttindum að þjóna Jehóva núna. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Ef þú missir ástvin í dauðann skaltu leita hughreystingar í því að máttur dauðans er aðeins stundlegur. (Opinberunarbókin 20:13, 14) Treystu á upprisuvonina. Síðan, hvort sem þú færð inngöngu í nýja heiminn með því að lifa gegnum þrenginguna miklu eða með upprisu, máttu treysta á þá innblásnu tryggingu að dauðinn, síðasti óvinurinn, verði að engu gerður. — Opinberunarbókin 7:9, 14.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Góðir, kristnir félagar geta uppbyggt syrgjendur andlega.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Með því að vera upptekinn af að hjálpa öðrum er hægt að draga úr sorginni sem fylgir ástvinamissi.