Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w13 15.12. bls. 27-31
  • Að missa maka sinn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Að missa maka sinn
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • SORGIN VIRÐIST ENDALAUS
  • TAKTU EINN DAG Í EINU
  • VONIN UM UPPRISU ER HUGHREYSTANDI
  • VIÐ HÖFUM ÁSTÆÐU TIL AÐ VERA VONGLÖÐ
  • „Grátið með grátendum“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2017
  • Hvernig geta aðrir hjálpað?
    Þegar ástvinur deyr
  • „Síðasti óvinurinn“ verður sigraður!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Hughreysting frá ‚Guði allrar huggunar‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
w13 15.12. bls. 27-31

Að missa maka sinn

Í BIBLÍUNNI segir að maður eigi að „elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig“. Eiginkonan á að ,bera lotningu fyrir manni sínum‘. Bæði eiga að rækja hlutverk sitt eins og séu þau eitt. (Ef. 5:33; 1. Mós. 2:23, 24) Smám saman styrkjast böndin milli hjónanna og ástin dýpkar. Tilfinningar hamingjusamra hjóna fléttast og tvinnast saman eins og rætur tveggja trjáa sem vaxa hlið við hlið.

En hvað þá ef annað hjónanna deyr? Þá rofnar bandið sem ekki er hægt að slíta í lifanda lífi. Hinn eftirlifandi situr oft uppi með blöndu af sársauka, einmanaleika og kannski jafnvel reiði eða sektarkennd. Daniella var gift í 58 ár og þekkti marga sem misst höfðu maka sinn.a En eftir að maðurinn hennar dó sagði hún: „Ég hef aldrei áður skilið hvernig lífsreynsla þetta er. Það er ekki hægt fyrr en maður lendir í því sjálfur.“

SORGIN VIRÐIST ENDALAUS

Sumir sérfræðingar telja að ekkert valdi meira álagi en að missa maka sinn. Margir sem hafa orðið fyrir því taka heilshugar undir. Millie missti manninn sinn fyrir mörgum árum. „Mér finnst ég fötluð,“ segir hún þegar hún lýsir hvernig tilfinning það sé að vera ekkja, en þau hjónin höfðu verið gift í 25 ár.

Susan fannst það einum of að sumar ekkjur skyldu syrgja árum saman. En svo missti hún manninn sinn eftir 38 ára hjónaband. Nú eru liðin meira en 20 ár síðan en samt segist hún hugsa um hann á hverjum degi. Hún grætur oft af söknuði.

Frásagnir Biblíunnar bera með sér að kvölin, sem fylgir því að missa maka sinn, sé bæði sár og langvarandi. Þegar Sara dó er sagt að Abraham, eiginmaður hennar, hafi ,harmað hana og grátið‘. (1. Mós. 23:1, 2, Biblían 1981) Þó að hann tryði á upprisu var sorgin sár þegar hann missti ástkæra eiginkonu sína. (Hebr. 11:17-19) Jakob hætti ekki að hugsa um Rakel eftir að hann missti hana heldur talaði hlýlega um hana við syni sína löngu síðar. – 1. Mós. 44:27; 48:7.

Hvaða lærdóm má draga af þessum dæmum sem sagt er frá í Biblíunni? Þeir sem missa maka sinn finna oft fyrir sorginni árum saman. Við ættum ekki að líta á tár þeirra og trega sem veikleika heldur sem eðlilega afleiðingu þess mikla missis sem þau hafa orðið fyrir. Þau geta þurft á samúð okkar og umhyggju að halda um langan tíma.

TAKTU EINN DAG Í EINU

Sá sem missir maka sinn verður ekki bara einhleypur á ný. Eftir margra ára hjónaband kann eiginmaðurinn yfirleitt að hughreysta og hressa konuna sína þegar hún er döpur eða vonsvikin. Ef hún missir hann missir hún einnig ástina og huggunina sem hann veitir henni. Eiginkona lærir líka smám saman að gleðja og styðja manninn sinn. Ekkert jafnast á við blíða snertingu hennar, sefandi orð og áhugann sem hún sýnir þörfum hans og hugðarefnum. Ef hann missir hana skapast tómarúm í lífi hans. Sumir sem missa maka sinn kvíða því framtíðinni eða óttast hana. Hvað hefur Biblían til málanna að leggja sem getur hjálpað þeim að finna frið og hugarró?

Guð getur hjálpað þér að bera missi þinn með því að taka einn dag í einu.

„Hafið ... ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.“ (Matt. 6:34) Þegar Jesús sagði þetta var hann fyrst og fremst að tala um efnislegar þarfir mannsins en þessi orð hafa líka hjálpað mörgum að komast gegnum þá þrekraun að missa ástvin. Charles skrifaði nokkrum mánuðum eftir að konan hans dó: „Ég sakna Monique sárlega enn þá og stundum verður söknuðurinn óbærilegur. Ég veit hins vegar að þetta er eðlilegt og að sársaukinn dvínar með tímanum.“

Charles þurfti að sætta sig við að sorgarferlið tæki sinn tíma. Hvernig fór hann að? „Með hjálp Jehóva tók ég einn dag í einu,“ segir hann. Hann lét ekki sorgina yfirbuga sig. Hún hvarf ekki á einni nóttu en hún heltók hann ekki heldur. Ef þú hefur misst maka þinn skaltu reyna að takast á við missinn og hugsa um einn dag í einu. Það getur ýmislegt gott gerst daginn eftir sem uppörvar þig og gleður.

Það var ekki ætlun Jehóva í upphafi að fólk dæi heldur er dauðinn eitt af ,verkum djöfulsins‘. (1. Jóh. 3:8; Rómv. 6:23) Satan notar dauðann og óttann sem hann vekur til að halda fólki í þrælkun og ræna það voninni. (Hebr. 2:14, 15) Hann fagnar því ef einhver örvæntir um að hljóta sanna hamingju og lífsfyllingu, jafnvel í nýjum heimi Guðs. Kvölin, sem fylgir því að missa maka sinn, er því afleiðing af synd Adams og uppreisn Satans. (Rómv. 5:12) Jehóva á eftir að bæta að fullu það tjón sem Satan hefur valdið og útrýma dauðanum, þessu grimmilega vopni hans. Í hópi þeirra sem hafa losnað úr fjötrum óttans eru margir sem hafa misst maka sinn eins og þú hefur kannski gert.

Lífið í nýja heiminum hefur ýmsar breytingar í för með sér fyrir þá sem rísa upp frá dauðum, meðal annars hvað varðar mannleg samskipti. Hugsaðu þér foreldra, afa, ömmur og aðra forfeður sem verða reist upp og verða smám saman fullkomin ásamt börnum sínum og barnabörnum. Áhrif ellinnar hverfa. Ætli yngri kynslóðirnar þurfi að læra að sjá forfeður sína allt öðrum augum en þær gera núna? Trúum við ekki að slíkar breytingar verði mönnunum til góðs?

Það má velta fyrir sér ótal spurningum varðandi þá sem rísa upp, til dæmis þá sem hafa misst fleiri en einn maka. Saddúkear báru fram spurningu um konu sem missti fyrsta manninn sinn, síðan annan og svo fimm til viðbótar. (Lúk. 20:27-33) Hvernig verða tengsl þeirra allra í upprisunni? Við vitum það ekki og það þýðir ekkert að velta því fyrir sér eða hafa áhyggjur af því. Við verðum hreinlega að treysta Guði. En eitt er öruggt. Allt sem Jehóva gerir í framtíðinni verður gott. Við þurfum ekki að óttast það heldur getum við hlakkað til þess.

VONIN UM UPPRISU ER HUGHREYSTANDI

Það kemur skýrt og greinilega fram í Biblíunni að látnir ástvinir okkar eigi eftir að hljóta líf að nýju. Frásagnir hennar af fólki, sem reist var upp frá dauðum, eru trygging fyrir því að „allir þeir sem í gröfunum eru munu heyra raust [Jesú] og ganga fram“. (Jóh. 5:28, 29) Það verður ólýsanleg gleði þegar þeir sem lifa hitta ástvini sína aftur upprisna. En við getum engan veginn gert okkur í hugarlund hvernig þeim verður innanbrjósts sem Jehóva Guð frelsar úr greipum dauðans.

Það verður mikil gleði á jörð þegar hinir dánu ganga fram í milljarðatali og setjast að meðal þeirra sem fyrir eru. (Mark. 5:39-42; Opinb. 20:13) Það ætti að vera hughreystandi fyrir alla sem hafa misst ástvini að velta fyrir sér hvernig það verður að sjá þetta kraftaverk gerast.

Ætli nokkur maður hafi ástæðu til að vera dapur þegar upprisan verður að veruleika? Biblían svarar því neitandi. Jehóva mun „afmá dauðann að eilífu“ samkvæmt Jesaja 25:8. Í því felst að þjakandi áhrif dauðans hverfa fyrir fullt og allt því að áfram segir í spádóminum: „Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu.“ Ef þú hefur misst lífsförunaut þinn og ert dapur núna verður upprisan þeim mun gleðilegri fyrir þig.

Enginn maður skilur til hlítar hverju Jehóva á eftir að áorka í nýja heiminum. Hann segir: „Eins og himinninn er hátt yfir jörðinni eru mínir vegir hærri yðar vegum og mínar hugsanir hærri yðar hugsunum.“ (Jes. 55:9) Loforð Jesú um upprisu gefur okkur tækifæri til að treysta Jehóva líkt og Abraham gerði. Núna ríður á fyrir okkur öll að gera það sem Jehóva biður um þannig að við ,þykjum þess verð að lifa í komandi veröld‘ ásamt þeim sem hljóta upprisu. – Lúk. 20:35.

VIÐ HÖFUM ÁSTÆÐU TIL AÐ VERA VONGLÖÐ

Reyndu að vera vonglaður í stað þess að hafa áhyggjur. Framtíðin er ekki björt frá mannlegum bæjardyrum séð. En Jehóva lofar okkur bjartri framtíð. Við vitum ekki með vissu hvernig hann fullnægir öllum þörfum okkar og þrám en við skulum ekki efast um að hann geri það. Páll postuli skrifaði: „Von, sem menn sjá fram komna, er ekki von. Hver vonar það sem hann sér? En ef við vonum það sem við sjáum ekki bíðum við þess með þolinmæði.“ (Rómv. 8:24, 25) Sterk von um að sjá loforð Guðs rætast heldur okkur gangandi. Ef þú ert þolgóður áttu stórkostlega framtíð fyrir höndum og Jehóva veitir þér „það sem hjarta þitt þráir“. Hann „seður allt sem lifir með blessun“. – Sálm. 37:4; 145:16; Lúk. 21:19.

Treystu loforði Jehóva um gleðilega framtíð.

Postular Jesú voru örvilnaðir skömmu áður en hann dó. Jesús hughreysti þá og sagði: „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig.“ Hann sagði einnig: „Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus. Ég kem til yðar.“ (Jóh. 14:1-4, 18, 27) Þessi orð hafa veitt andasmurðum fylgjendum hans von og úthald í aldanna rás. Þeir sem þrá að sjá ástvini sína rísa upp hafa ekki heldur ástæðu til að örvænta. Jehóva og sonur hans yfirgefa þá ekki. Þú mátt treysta því.

a Nöfnum er breytt.

Að uppörva þá sem hafa misst ástvin

Yfirleitt er gestkvæmt á heimilinu um tíma eftir að giftur vottur deyr. Fólk kemur til að hughreysta hinn eftirlifandi og aðstoða á ýmsa vegu. Sem dæmi má nefna að ekkja kann oftast vel að meta umhyggju vina og ættingja. En missirinn er sársaukafullur og hún þarf á huggun og stuðningi að halda um töluverðan tíma. Í Biblíunni segir: „Vinur lætur aldrei af vináttu sinni, í andstreymi reynist hann sem bróðir.“ – Orðskv. 17:17.

Hvernig ættirðu að heilsa þeim sem syrgir? Í Biblíunni er eftirfarandi ábending: „Verið öll samhuga, hluttekningarsöm og elskið hvert annað, verið miskunnsöm.“ (1. Pét. 3:8) Hinum eftirlifandi líður sennilega ekki vel um tíma eftir að hann hefur misst makann. Vel meint kveðja eins og: „Hvernig hefurðu það?“ eða: „Hvernig líður þér?“ er ef til vill ekki besti kosturinn. Sá sem syrgir hugsar kannski: „Þú getur ekki skilið hvernig mér líður,“ eða: „Hvernig gæti mér liðið vel núna?“ Það gæti verið betra að segja eitthvað jákvætt og einlægt eins og: „Mikið er gaman að sjá þig,“ eða: „Það er hvetjandi að sjá þig á samkomu.“

Þú gætir boðið syrgjandanum að borða með þér eða að fara í göngutúr. Marcos naut stuðnings vina sem heimsóttu hann eftir að konan hans dó. Um hvað töluðu þeir? „Þeir ræddu ekki mikið við mig um erfiðleika mína heldur voru þeir uppörvandi,“ segir hann. Nina, sem er ekkja, segir: „Góðir vinir segja oft réttu orðin á réttu augnabliki. Stundum segja þeir ekki neitt – þeir eru bara hjá mér.“

Ef syrgjandinn vill tala um missinn skaltu hlusta. Sýndu þolinmæði og áhuga. Spyrðu ekki spurninga af hreinni forvitni og vertu ekki dómharður. Það er engin ástæða til að segja vini þínum hvernig hann eigi að syrgja eða hve lengi. Ekki taka það nærri þér þó að hann vilji vera einn. Þú getur komið aftur síðar. Haltu áfram að sýna honum kærleika. – Jóh. 13:34, 35.

Ertu með spurningar um framtíðina?

Það er eðlilegt að velta fyrir sér hvernig loforð Jehóva rætast. Abraham hugsaði oft um loforð Guðs um að gefa sér son. Jehóva hvatti hann til að vera þolinmóður. Abraham var trúfastur og hann varð ekki fyrir vonbrigðum. – 1. Mós. 15:2-5; Hebr. 6:10-15.

Jakob saknaði Jósefs, sonar síns, sárlega eftir að honum var sagt að hann væri dáinn og syrgði hann enn árum síðar. En Jehóva ákvað að veita Jakobi blessun sem var framar öllum hans vonum. Að löngum tíma liðnum hitti Jakob Jósef aftur og fékk þá einnig að sjá barnabörnin sín. Fullur gleði sagði hann: „Ég gerði ekki ráð fyrir að sjá þig framar og nú hefur Guð meira að segja látið mig sjá afkvæmi þín.“ – 1. Mós. 37:33-35; 48:11.

Hvað getum við lært af þessum frásögum? Í fyrsta lagi að ekkert getur komið í veg fyrir að almáttugur Guð geri það sem hann ætlar sér. Við lærum líka að ef bænir okkar og verk eru í samræmi við vilja Jehóva annast hann okkur núna. Hann mun einnig fullnægja öllum þeim þörfum og löngunum sem við kunnum að hafa í framtíðinni. Páll skrifaði: „Honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gera langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum, honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú með öllum kynslóðum um aldir alda. Amen.“ – Ef. 3:20, 21.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila