Hvar finnur þú trúverðuga leiðsögn?
„Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum. [„Leiðréttu mig, ó Jehóva,“ NW].“ — Jeremía 10:23, 24.
Biblíuritarinn Jeremía skrifaði þessi orð fyrir hér um bil 25 öldum. Hið hörmulega ástand mannkynsins, eftir að það hefur fylgt leiðsögn manna um þúsundir ára, sannar óvéfengjanlega að þessi orð eru dagsönn. En þér kann að vera spurn hvar trúverðuga leiðsögn sé að finna.
Ritningarorðin, sem vitnað er í hér að ofan, benda á áreiðanlega leiðsögn og forystu aðila sem er miklu æðri en maðurinn — skapara mannsins, Jehóva Guðs. Vissulega þekkir enginn eðli mannsins og þarfir betur en skapari okkar. En hefur Guð áhuga á að veita okkur slíka leiðsögn og forystu? Hvernig gerir hann það? Er hún raunhæf fyrir okkar tíma?
Gerð til að taka við leiðsögn Guðs
Alkunna er að helsti munurinn á mönnum og dýrum er gerð, hæfni og starfsemi heilans. Hjá dýrunum byggist nálega öll heilastarfsemin á forskrift sem kölluð hefur verið eðlislæg viska eða eðlishvöt. Um mennina gegnir öðru máli. — Orðskviðirnir 30:24-28.
Mannsheilinn er ólíkur heilanum í dýrum að því leyti til að stór hluti hans er án fastrar forskriftar. Guð gæddi manninn frjálsum vilja og gerði hann færan um að taka skynsamlegar ákvarðanir og sýna háleita eiginleika, svo sem kærleika, örlæti, óeigingirni, réttlæti og visku.
Er rökrétt að halda að Guð hefði áskapað manninum slíka hæfileika án þess að sjá fyrir einhvers konar leiðsögn um það hvernig best væri að nota þá? Guð leiðbeindi fyrstu mönnunum beint. (1. Mósebók 2:15-17, 19; 3:8, 9) Jafnvel eftir syndafall mannsins hélt Jehóva áfram að leiðbeina trúföstum körlum og konum, einkum með innblásnu orði sínu, Biblíunni. (Sálmur 119:105) Þannig hafa menn getað tekist með góðum árangri á við hin daglegu vandamál lífsins með því að nota frjálsan vilja sinn viturlega.
Guð er höfundur Biblíunnar
Hvað gerir Biblíuna að trúverðugri leiðsögn? Svo nokkuð sé nefnt inniheldur hún upplýsingar sem enginn nema skaparinn gat látið í té. Hún lýsir í grófum dráttum þeim atburðum sem áttu sér stað löngu áður en maðurinn kom fram á sjónarsviðið. Til dæmis segir hún frá því hvernig jörðin var stig af stigi undirbúin fyrir það að viðhalda mannslífi. (1. Mósebók 1. og 2. kafli) Þótt þetta hafi verið skrifað í Biblíuna fyrir meira en 3000 árum er það í samræmi við vísindahugmyndir nútímans.
Löngu áður en mannkynið almennt viðurkenndi að jörðin væri hnöttótt lýsti Biblían yfir: „[Guð] þenur norðrið út yfir auðninni og lætur jörðina svífa í tómum geimnum.“ (Jobsbók 26:7) Enn fremur opinberar Biblían að „það er hann, sem situr hátt yfir jarðarkringlunni, og þeir, sem á henni búa, eru sem engisprettur.“ (Jesaja 40:22) Aðeins Guð, skaparinn, gat gefið þessar upplýsingar.
Manninum hefur ekki verið gefin sú gáfa að sjá fyrir óorðna atburði. Skaparinn segir framtíðina hins vegar fyrir á síðum Biblíunnar. Guð innblés spámanninum Jesaja að skrifa um sig: „Ég er Guð og enginn annar, hinn sanni Guð og enginn minn líki. Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið.“ — Jesaja 46:9, 10.
Biblían hefur sýnt fram á að hún getur sagt endalokin fyrir frá upphafi með furðulegri nákvæmni. Til dæmis sagði hún fyrir uppgang, fall og einkenni helstu heimsvelda mannkynssögunnar um þúsundir ára. Þessir athyglisverðu spádómar voru skrifaðir öldum áður en þeir uppfylltust, nokkrir þúsundum ára áður. Biblían segir þannig nákvæmlega fyrir atburði nútímans og einnig lyktir þeirra. Biblían er líka einstök af því að hún bendir á leiðina til björgunar þegar ófullkomnar mannastjórnir farast í Harmagedón, ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.‘ Ríki Guðs í höndum sonar hans, Jesú Krists, mun vinna þetta mikla verk. — Opinberunarbókin 16:14, 16; 17:9-18; Daníel 2. og 8. kafli.
Alltaf gagnleg — aldrei skaðleg
Viska manna er ófullkomin; þar af leiðandi eru ráðleggingar manna ekki alltaf til góðs jafnvel þótt gefnar séu af góðum hug. Um ráðleggingar Biblíunnar gegnir öðru máli. Guð segir sjálfur: „Ég, [Jehóva] . . . , er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ — Jesaja 48:17, 18.
Leiðsögn Guðs hjálpar okkur að hafa réttar áherslur í lífinu og halda okkur við háleit lífsgildi. Nútímaþjóðfélag leggur áherslu á efnisleg afrek og markmið en Biblían undirstrikar hve mikilvægt það sé fyrir okkur að ‚horfa ekki á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega því að hið sýnilega er stundlegt, en hið ósýnilega eilíft.‘ (2. Korintubréf 4:18) Þannig erum við hvött til að hafa hin göfugustu markmið í lífinu, það er að segja andleg markmið tengd því að gera vilja Guðs, og hafa eilíft líf í réttlátu, nýju heimskerfi sem lokamarkmið.
Þegar kristinn maður leggur sig fram um að ná þessum háleitu markmiðum hjálpa ráðleggingar Biblíunnar honum að lifa besta lífi sem hægt er í þessu illa heimskerfi. Viska manna nú á tímum hefur tilhneigingu til að ýta undir það viðhorf að menn skuli vinna sem minnst fyrir sem hæstu kaupi. Á hinn bóginn segir Biblían okkur að ‚snauður verði sá, er með hangandi hendi vinnur, en auðs afli iðin hönd.‘ Páll postuli skrifaði kristnum Hebreum: „Vér erum þess fullvissir, að vér höfum góða samvisku og viljum í öllum greinum breyta vel [„hegða okkur heiðarlega,“ NW].“ — Orðskviðirnir 10:4; Hebreabréfið 13:18.
Biblían gefur einnig hagnýt ráð um fjölskyldufyrirkomulagið. Hún skilgreinir sérstaklega hlutverk bæði eiginmanns og eiginkonu innan hjónabandsins, svo og réttu aðferðina til að ala upp og fræða börnin. Hún segir: „Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami . . . en konan beri lotningu fyrir manni sínum. Þér börn, hlýðið foreldrum yðar . . . Þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ Að fylgja hinum háleitu ráðum skaparans stuðlar mjög að stöðugleika og hamingju fjölskyldunnar. — Efesusbréfið 5:21–6:4.
Örugg framtíð þeirra sem fylgja leiðsögn Guðs
Ritað orð Guðs bendir á lausnina sem Guð hefur á öllum vandamálum mannkynsins. Mjög bráðlega fjarlægir Jehóva Guð núverandi heimskerfi með öllum sínum sársauka, ranglæti og þjáningum, lætur það víkja fyrir réttlátu, nýju heimskerfi sínu. Biblían lýsir þessu í 2. Pétursbréfi 3:7-10 og bætir við í 13. versi: „Eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ Þetta eru langbestu fréttirnar sem hægt er að færa mannkyninu. Þetta er nákvæmlega sá boðskapur sem Biblían flytur og vottar Jehóva prédika í liðlega 200 löndum og eyjum hafsins.
Þegar vilji Guðs verður gerður um alla jörðina hefur allt mannkynið mikið gagn af hinni frábæru leiðsögn skapara síns, Jehóva. Ekki verður lengur við að glíma vandamál svo sem fátækt, glæpi og fíkniefni. Mannkynið verður ekki framar þjakað sjúkdómum, ellihrörnun og dauða. Mannkyninu verður lyft upp til þess fullkomleika sem fyrstu foreldrar okkar höfðu áður en þeir gerðu uppreisn gegn leiðsögn Guðs.
Síðasta bók Biblíunnar lýsir vel í hnotskurn gleðilegu ástandi þeirra sem setja traust sitt á leiðsögn Guðs! Opinberunarbókin 21:4, 5 segir: „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ Skapari okkar ábyrgist þetta og segir: „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja,“ og bætir við: „Þetta eru orðin trúu og sönnu.“
Hvers ætlast Guð til af okkur til að við hljótum þessa blessun? Páll postuli segir að það sé vilji Guðs að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tímóteusarbréf 2:4) Vottar Jehóva hvetja þig eindregið til að afla þér þessarar þekkingar á sannleikanum með rækilegu námi í Biblíunni. Með því að kynna þér vilja Guðs vandlega getur þú líka kynnst því af eigin raun að viska Guðs er eina áreiðanlega leiðsögnin á þessum háskatímum. Meira ríður á en nokkru sinni fyrr að fylgja henni!