Guðsafneitun á 20. öld
„Fólk hefur sætt sig við að Guð sé ekki til og hvort sem það er til blessunar eða bölvunar skipuleggur það líf sitt óháð Guði og án þess að taka nokkurt tillit til hans.“ — One Hundred Years of Debate Over God — The Sources of Modern Atheism.
ÞÓTT hátt og gnæfandi tré virðist mikilfenglegt í fyrstu fer mönnum að þykja það ósköp venjulegt þegar fram í sækir. Menn verða vanir því og hætta að hugsa um hve mikilfenglegt það er.
Eins er það með trúleysið. Enda þótt guðsafneitun hafi vakið miklar deilur á 19. öld raskar hún ekki ró manna lengur og þykir ekki hneykslanleg. Á tímum umburðarlyndis hefur tekist friðsamleg sambúð með trúleysinu og trúnni á Guð.
Ekki ber svo að skilja að flestir afneiti Guði hreint og beint; þvert á móti kom í ljós í skoðanakönnun, sem náði til 11 landa í Norður- og Suður-Ameríku, Evrópu og Asíu, að rétt liðlega 2 af hundraði að meðaltali telja sig trúleysingja. Engu að síður er trúleysisandi útbreiddur — jafnvel meðal margra sem trúa að Guð sé til. Hvernig má það vera?
Yfirráðum Guðs afneitað
„Orðið trúleysi er stundum notað um það að hafna Guði í reynd eða virða hann að vettugi,“ segir The Encyclopedia Americana. Þar af leiðandi gefur The New Shorter Oxford English Dictionary eftirfarandi sem aðra skilgreiningu á orðinu „atheist“ (trúleysingi). „Maður sem afneitar Guði siðferðilega; guðlaus maður.“ — Leturbreyting okkar.
Já, trúleysi getur falið í sér afneitun annaðhvort á tilvist Guðs eða yfirráðum hans eða hvoru tveggja. Biblían hefur óbeint orð á þessum trúleysisanda í Títusarbréfinu 1:16: „Þeir segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum.“ — Samanber Sálm 14:1.
Slíka höfnun á yfirráðum Guðs má rekja allt aftur til fyrstu mannhjónanna. Eva viðurkenndi að Guð væri til, en hún vildi „verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.“ Hún vildi með öðrum orðum ráða sér sjálf og skapa sér eigin siðareglur. Adam fór síðar að dæmi Evu og afneitaði yfirráðum Guðs. — 1. Mósebók 3:5, 6.
Er þetta viðhorf áberandi nú á dögum? Já. Dulið trúleysi birtist í leit mannsins að sjálfstæði. „Fólk er þreytt á að lifa undir vökulu auga Guðs,“ segir bókin One Hundred Years of Debate Over God — The Sources of Modern Atheism. „Það . . . vill vera frjálst.“ Siðareglum Biblíunnar er hafnað sem óhentugum og óraunhæfum. Margir hugsa líkt og egypski faraóinn sem sagði ögrandi: „Hver er [Jehóva], að ég skuli hlýða honum . . . ? Ég þekki ekki [Jehóva].“ Hann hafnaði yfirráðum Jehóva. — 2. Mósebók 5:2.
Kristni heimurinn afneitar Guði
Hneykslanlegasta höfnunin á yfirráðum Guðs kemur frá klerkum kristna heimsins sem hafa tekið erfikenningar manna fram yfir tæran sannleika Biblíunnar. (Samanber Matteus 15:9.) Auk þess hafa þeir stutt blóðugustu styrjaldir 20. aldarinnar og þar með hafnað kærleiksboði Biblíunnar. — Jóhannes 13:35.
Klerkarnir hafa einnig afneitað Guði með því að snúa baki við siðferðisreglum hans — eins og stöðugur straumur kærumála á hendur prestum, sem hafa misnotað börn kynferðislega, ber til dæmis vitni um. Ástandið í kristna heiminum líkist ástandinu í Ísrael og Júda til forna. „Landið er fullt af blóðugu ranglæti og borgin er full af ofbeldisverkum,“ var spámanninum Esekíel sagt, „því að þeir segja: ‚[Jehóva] hefir yfirgefið landið‘ og ‚[Jehóva] sér það ekki.‘“ (Esekíel 9:9; samanber Jesaja 29:15.) Það er engin furða að margir skuli hafa sagt algerlega skilið við kirkjur kristna heimsins! En verða þeir líka að hætta að trúa á Guð?
Er trúleysi byggt á traustum grunni?
Mörgum trúleysingjum finnst trú á Guð hreinlega ekki geta samrýmst þjáningunum í heiminum, óháð því hvort þeir hafa veitt hræsni trúarbragðanna athygli eða ekki. Simone de Beauvoir sagði einu sinni: „Ég átti auðveldara með að hugsa um heim án skapara en skapara með allar mótsagnir heimsins á bakinu.“
Sannar ranglætið í heiminum — meðal annars það sem trúarhræsnarar eiga sök á — að enginn Guð sé til? Hugleiddu þetta: Ef hnífur er notaður til að ógna, særa eða jafnvel myrða saklausan mann, sannar það þá að enginn hafi hannað hnífinn? Sýnir það ekki öllu heldur að hann hafi verið ranglega notaður? Á sama hátt má segja að þjáningar mannkynsins beri að stórum hluta vitni um að mennirnir séu að misnota þá hæfileika, sem Guð hefur gefið þeim, og jörðina sjálfa.
En sumir telja órökrétt að trúa á Guð af því að við getum ekki séð hann. En hvað um loftið, hljóðbylgjurnar og lyktina? Við sjáum ekkert af þessu en vitum samt að það er til. Lungu okkar, eyru og nef segja okkur það. Við hljótum að trúa á það sem við getum ekki séð, ef við höfum sönnunargögn fyrir því að það sé til.
Eftir að hafa íhugað vitnisburð efnisheimsins — meðal annars rafeindirnar, róteindirnar, frumeindirnar, amínósýrurnar og hinn flókna heila — fann náttúruvísindamaðurinn Irving William Knobloch sig knúinn til að segja: „Ég trúi á Guð vegna þess að tilvist hans er í huga mér eina rökrétta skýringin á hlutunum eins og þeir eru.“ (Samanber Sálm 104:24.) Lífeðlisfræðingurinn Marlin Books Kreider tekur í sama streng: „Bæði sem venjulegur maður og eins sem maður er hefur helgað líf sitt vísindum og rannsóknum, hef ég alls engar efasemdir um að Guð sé til.“
Þessir menn eru ekki einir á báti. Eðlisfræðiprófessorinn Henry Margenau segir: „Það er mjög fáa trúleysingja að finna meðal afburðamanna í vísindum.“ Hvorki framfarir vísindanna né misheppnan trúarbragðanna þarf að þröngva okkur til að hætta að trúa að til sé skapari. Við skulum athuga hvers vegna.
Sönn trú sker sig úr
Árið 1803 skrifaði Thomas Jefferson, þáverandi forseti Bandaríkjanna: „Ég er mjög andvígur spillingu kristninnar en ekki hinum ósviknu lífsreglum Jesú sjálfs.“ Já, það er munur á kristna heiminum og kristninni. Margar af kennisetningum kristna heimsins eru byggðar á erfikenningum manna. Sönn kristni byggir trú sína hins vegar einvörðungu á Biblíunni. Páll skrifaði því Kólossumönnum á fyrstu öld að þeir ættu að afla sér ‚þekkingar,‘ „speki“ og ‚skilnings andans.‘ — Kólossubréfið 1:9, 10.
Þessu ættum við að búast við af sannkristnum mönnum því að Jesús fól fylgjendum sínum að ‚gera menn af öllum þjóðum að lærisveinum og kenna þeim að halda allt sem hann hafði boðið þeim.‘ — Matteus 28:19, 20.
Vottar Jehóva framfylgja þessum fyrirmælum núna í 232 löndum um heim allan. Þeir hafa þýtt Biblíuna á 12 tungumál og prentað töluvert yfir 74.000.000 eintaka af henni. Enn fremur eru þeir með heimabiblíunámi að hjálpa liðlega 4.700.000 manns að ‚halda allt sem Jesús bauð.‘
Þetta fræðslustarf hefur víðtæk áhrif. Það hefur sanna upplýsingu í för með sér af því að það er ekki byggt á hugmyndum manna heldur visku Guðs. (Orðskviðirnir 4:18) Enn fremur hjálpar þetta fræðslustarf fólki af öllum þjóðum og kynþáttum að gera það sem „upplýsingastefna“ mannsins gat aldrei gert — að íklæðast ‚nýjum manni‘ eða persónuleika þannig að fólk geti þroskað með sér ósvikinn kærleika hvert til annars. — Kólossubréfið 3:9, 10.
Sönn trú hrósar sigri núna á 20. öldinni. Hún afneitar ekki Guði — hvorki tilvist hans né yfirráðum. Við hvetjum þig til að kynna þér málið sjálfur með því að heimsækja votta Jehóva í einhvern ríkissal þeirra.
[Rammagrein á blaðsíðu 6]
RÆTUR TRÚLEYSISINS STYRKTAR
Um miðbik 18. aldar var heimspekingnum Denis Diderot falið að þýða alfræðibók í einu bindi úr ensku yfir á frönsku. En Diderot gerði miklu meira en vinnuveitandi hans hafði farið fram á. Hann varði um þrem áratugum í að semja alfræðibók sína, Encyclopédie, 28 binda verk sem dregur vel fram ríkjandi viðhorf samtíðarinnar.
Enda þótt alfræðibókin innihéldi kynstur hagnýtra upplýsinga lagði hún höfuðáherslu á mannlega visku. Að sögn ritraðarinnar Great Ages of Man „vogaði hún sér að prédika þá róttæku trúarjátningu [heimspekinganna] að maðurinn gæti bætt hlutskipti sitt með því að hafa rökhyggju sína til leiðsagnar í stað trúarinnar.“ Það vakti athygli hve sáralítið var minnst á Guð. „Með efnisvali sínu,“ segir bókin The Modern Heritage, „létu útgefendurnir skýrt í ljós að trúin væri ekki eitt af því sem menn þyrftu að kunna skil á.“ Ekki kemur á óvart að kirkjan skyldi reyna að koma í veg fyrir útgáfu alfræðibókarinnar. Ríkissaksóknari fordæmdi hana sem niðurrifsverk á vettvangi stjórnmála, siðferðis og trúar.
Þótt Encyclopédie Diderots ætti sér andstæðinga pöntuðu um 4000 einstaklingar hana — sem er með ólíkindum miðað við himinhátt verðið. Nú var þess skammt að bíða að þessi undiralda trúleysis brytist upp á yfirborðið sem fullþroska guðsafneitun.