Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w95 1.3. bls. 3-5
  • Rætur trúleysisins

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Rætur trúleysisins
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Ræturnar
  • Fræjunum sáð
  • Efahyggja blómgast
  • Trúleysið nær fullum vexti
  • Guðsafneitun á 20. öld
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Væri heimurinn betri án trúarbragða?
    Vaknið! – 2011
  • Er hægt að byggja upp trú á skapara?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Trúleysingjar í krossferð
    Vaknið! – 2011
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
w95 1.3. bls. 3-5

Rætur trúleysisins

VIÐ búum í heimi mikilla erfiðleika; það staðfesta fyrirsagnir dagblaðanna á hverjum degi. Hið vonlausa ástand heimsmála hefur komið mörgum til að efast um að Guð sé til. Sumir segjast vera trúleysingjar og afneita jafnvel tilvist Guðs. Gerir þú það?

Trú eða vantrú á tilvist Guðs getur haft djúptæk áhrif á viðhorf þín til framtíðarinnar. Án Guðs er það einvörðungu í höndum manna hvort mannkynið kemst af eða ekki — dapurleg tilhugsun þegar tillit er tekið til eyðileggingarmáttar mannsins. Ef þú trúir að Guð sé til, þá fellstu líklega á að lífið hér á jörð eigi sér tilgang — tilgang sem kann einhvern tíma að verða að veruleika.

Enda þótt annað veifið hafi verið uppi menn sem afneituðu tilvist Guðs var það ekki fyrr en á síðustu öldum sem trúleysinu óx fiskur um hrygg. Veistu ástæðuna?

Ræturnar

Hátt og gnæfandi tré er tígurleg sjón. En augun sjá aðeins laufið, greinarnar og stofninn. Ræturnar — lífgjafi trésins — liggja faldar djúpt í jörðinni.

Því er að mörgu leyti svipað farið með trúleysið. Eins og hávaxið tré hafði guðsafneitun og trúleysi náð miklum vexti þegar 19. öldin gekk í garð. Gat lífið og alheimurinn verið til án þess að eiga sér yfirnáttúrlega frumorsök? Er tilbeiðsla á slíkum skapara tímasóun? Svör virtra heimspekinga samtíðarinnar voru skýr og afdráttarlaus. „Við höfum ekki lengur þörf fyrir siðareglur og við höfum ekki heldur þörf fyrir trúarbrögðin,“ sagði Friedrich Nietzche. „Trúarbrögðin eru draumur mannshugans,“ fullyrti Ludwig Feuerbach. Og Karl Marx, sem átti með ritsmíðum sínum eftir að hafa gífurleg áhrif á komandi áratugum, sagði djarfmannlega: „Ég vil losa mannshugann enn meir úr fjötrum trúarbragðanna.“

Margir hrifust af þessum hugmyndum. En það sem menn sáu var einungis lauf, greinar og stofn trúleysisins. Ræturnar voru komnar á sinn stað og byrjaðar að skjóta út öngum löngu áður en 19. öldin gekk í garð. Svo furðulegt sem það er voru trúfélög kristna heimsins gróðrarstía trúleysis nútímans! Hvernig þá? Á þann hátt að spilling þessara trúarstofnana olli fólki miklum vonbrigðum og varð jafnframt tilefni harðra mótmæla.

Fræjunum sáð

Á miðöldum hafði kaþólska kirkjan kverkatak á þegnum sínum. „Klerkaveldið virtist illa í stakk búið til að sinna andlegum þörfum fólks,“ segir The Encyclopedia Americana. „Háklerkarnir, einkanlega biskuparnir, voru sóttir til aðalsins og litu fyrst og fremst á embætti sitt sem virðingar- og valdastöðu.“

Sumir reyndu að siðbæta kirkjuna, til dæmis þeir Jóhannes Kalvín og Marteinn Lúter. En aðferðir þeirra voru ekki alltaf í anda Krists. Siðaskiptin einkenndust af umburðarleysi og blóðsúthellingum. (Samanber Matteus 26:52.) Svo grimmilegar voru sumar árásirnar að þrem öldum síðar skrifaði Thomas Jefferson, þriðji forseti Bandaríkjanna: „Það væri afsakanlegra að trúa ekki á nokkurn guð en að guðlasta með grimmd Kalvíns.“a

Bersýnilega voru siðaskiptin ekki endurreisn sannrar tilbeiðslu, en þau drógu úr valdi kaþólsku kirkjunnar. Páfagarður hafði ekki lengur einkarétt á trúnni. Margir gengu til liðs við hina nýstofnuðu sértrúarflokka mótmælenda. Aðrir, vonsviknir yfir trúarbrögðunum, beindu tilbeiðslu sinni að mannshuganum. Frjálslynd viðhorf komu í kjölfarið sem gerðu ráð fyrir fjölbreyttum skoðunum um Guð.

Efahyggja blómgast

Á 18. öld var skynseminni yfirleitt hampað sem undralyfi gegn öllum vandamálum heimsins. Þýski heimspekingurinn Immanúel Kant staðhæfði að það tálmaði framförum mannsins hve mjög hann reiddi sig á leiðsögn stjórnmála og trúarbragða. „Þorðu að þekkja!“ hvatti hann. „Hafðu hugrekki til að beita vitsmunum þínum!“

Þetta viðhorf einkenndi upplýsingastefnuna eða fræðslustefnuna eins og hún hefur einnig verið kölluð. Þessi stefna var ríkjandi alla 18. öldina og einkenndist af taumlausri þekkingarleit. „Efahyggja kom í stað blindrar trúar,“ segir bókin Milestones of History. „Allar hinar gömlu hefðir voru dregnar í efa.“

Trúarbrögðin voru ein ‚gömul hefð‘ sem lenti undir smásjá efahyggjunar. „Menn breyttu um afstöðu til trúarbragðanna,“ segir í bókinni The Universal History of the World. „Þeir gerðu sig ekki lengur ánægða með fyrirheitið um himneska umbun heldur kröfðust betra lífs á jörðinni. Þeir fóru að missa trúna á hið yfirnáttúrlega.“ Flestir heimspekingar upplýsingastefnunnar fyrirlitu raunar trúarbrögðin. Einkum sökuðu þeir valdagráðuga leiðtoga kaþólsku kirkjunnar um að halda fólki í fáfræði.

Óánægja margra þessara heimspekinga með trúarbrögðin varð til þess að þeir urðu guðstrúarmenn, deistar, það er að segja trúðu á Guð en álitu að hann hefði engan áhuga á manninum.b Fáeinir gerðust opinskáir trúleysingjar, svo sem Paul Henri Thiry Holbach sem fullyrti að trúarbrögðin væru „kveikja sundrungar, brjálæðis og glæpa.“ Með árunum urðu æ fleiri langþreyttir á kirkjum kristna heimsins og tóku undir með Holbach.

Það er sannarlega kaldhæðnislegt að kristni heimurinn skuli hafa ýtt undir vöxt trúleysisins! „Kirkjurnar voru sá jarðvegur sem trúleysið óx í,“ skrifar guðfræðiprófessorinn Michael J. Buckley. „Samviska Vesturlanda var stórhneyksluð á trúarbrögðunum og hafði óbeit á þeim. Kirkjurnar og sértrúarsöfnuðirnir höfðu lagt Evrópu í rúst, skipulagt fjöldamorð, krafist trúarlegrar mótspyrnu eða byltingar og reynt að bannfæra einvalda eða steypa þeim af stóli.“

Trúleysið nær fullum vexti

Þegar 19. öldin gekk í garð dafnaði guðsafneitun fyrir opnum tjöldum. Heimspekingar og vísindamenn létu skoðanir sínar óhikað í ljós. „Óvinur okkar er Guð,“ sagði berorður trúleysingi. „Hatur á Guði er upphaf viskunnar. Ef mannkynið á að taka raunverulegum framförum verður það að vera á grundvelli trúleysis.“

En á 20. öldinni tók guðsafneitun nýja stefnu; hún var ekki jafnherská og áður. Ný tegund trúleysis tók að breiðast út sem hefur jafnvel áhrif á þá sem segjast trúa á Guð.

[Neðanmáls]

a Þeir sértrúarsöfnuðir mótmælenda, sem spruttu upp úr siðaskiptunum, héldu fram mörgum óbiblíulegum kenningum. Sjá Vaknið! (enska útgáfu) 22. ágúst 1989, bls. 16-20, og 8. september 1989, bls. 23-7.

b Guðstrúarmenn sögðu að líkt og úrsmiður hefði Guð gangsett sköpunarverkið en síðan snúið algerlega baki við því og verið afskiptalaus og fálátur um það. Að því er bókin The Modern Heritage segir álitu guðstrúarmenn að „trúleysi væri mistök sprottin af örvæntingu, en að ráðríki kaþólsku kirkjunnar og hinar ósveigjanlegu og umburðarlausu kenningar hennar væru jafnvel enn hörmulegri.“

[Mynd á blaðsíðu 3]

Karl Marx

[Mynd á blaðsíðu 3]

Ludwig Feuerbach

[Mynd á blaðsíðu 3]

Friedrich Nietzsche

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila