Fullt tilefni til bjartsýni
SAGNFRÆÐINGURINN og félagsfræðingurinn H. G. Wells, sem fæddist árið 1866, hafði sterk áhrif á hugsunarhátt 20. aldar. Í ritum sínum útlistaði hann þá sannfæringu sína að vísindaframfarir myndu skapa sæluríki á jörð. Alfræðibókin Collier’s Encyclopedia minnist á „takmarkalausa bjartsýni“ Wells og þrotlaust starf hans að málstað sínum, en bætir við að bjartsýni hans hafi beðið mikinn hnekki þegar síðari heimsstyrjöldin braust út.
Þegar það rann upp fyrir Wells að „vísindin gætu verið til ills jafnt sem góðs brast honum trúin og hann gerðist bölsýnn,“ að því er segir í handbókinni Chambers’s Biographical Dictionary. Af hverju gerðist það?
Trú og bjartsýni Wells byggðist eingöngu á afrekum manna. Þegar honum varð ljóst að mannkynið væri ófært um að skapa sæluríkið, sem hann hafði séð fyrir sér, eygði hann enga von. Örvæntingin breyttist fljótt í bölsýni.
Margir hafa orðið fyrir sömu reynslu af sömu orsökum. Þeir ráða sér ekki fyrir bjartsýni meðan þeir eru ungir en verða daprir og bölsýnir með aldrinum. Jafnvel ungt fólk gefur svokallað eðlilegt líf upp á bátinn og gefur sig á vald fíkniefnaneyslu, lauslæti og öðru skaðlegu líferni. Hver er lausn vandans? Líttu á eftirfarandi dæmi frá biblíutímanum og kannaðu hvaða ástæðu menn höfðu til að vera bjartsýnir forðum daga og hvaða ástæðu menn hafa til þess núna og í framtíðinni.
Abraham umbunuð bjartsýnin
Abraham fluttist frá Haran árið 1943 f.o.t., fór yfir fljótið Efrat og hélt til Kanaanlands. Hann hefur verið kallaður „faðir allra þeirra, sem trúa,“ og er afbragðsfordæmi til eftirbreytni. — Rómverjabréfið 4:11.
Með í för var Lot, munaðarlaus bróðursonur Abrahams, og fjölskylda hans. Síðar brast á hungursneyð í landinu, fjölskyldurnar tvær fluttust til Egyptalands en sneru aftur síðar. Þegar þar var komið sögu voru bæði Abraham og Lot orðnir mjög auðugir og áttu mikinn búpening. Er misklíð kom upp milli hjarðmanna þeirra tók Abraham frumkvæðið og sagði: „Engin misklíð sé milli mín og þín og milli minna og þinna fjárhirða, því að við erum frændur. Liggur ekki allt landið opið fyrir þér? Skil þig heldur við mig. Viljir þú fara til vinstri handar, þá fer ég til hægri; og viljir þú fara til hægri handar, þá fer ég til vinstri.“ — 1. Mósebók 13:8, 9.
Abraham var eldri en Lot og hefði getað skipað málum sér í hag, og sökum virðingar, sem hann bar fyrir föðurbróður sínum, hefði Lot getað látið honum eftir að velja. En „Lot [hóf] upp augu sín og sá, að allt Jórdansléttlendið, allt til Sóar, var vatnsríkt land, eins og aldingarður [Jehóva], eins og Egyptaland. (Þetta var áður en [Jehóva] eyddi Sódómu og Gómorru.) Og Lot kaus sér allt Jórdansléttlendið.“ Lot hafði fullt tilefni til að vera bjartsýnn eftir að hafa valið þetta land. En hvað um Abraham? — 1. Mósebók 13:10, 11.
Var Abraham fífldjarfur og var hann að stofna velferð fjölskyldu sinnar í hættu? Nei, honum var ríkulega umbunuð jákvæð afstaða sín og örlæti. Jehóva sagði honum: „Hef þú upp augu þín, og litast um frá þeim stað, sem þú ert á, til norðurs, suðurs, austurs og vesturs. Því að allt landið, sem þú sér, mun ég gefa þér og niðjum þínum ævinlega.“ — 1. Mósebók 13:14, 15.
Bjartsýni Abrahams var fullkomlega réttmæt. Hún byggðist á loforði Guðs um að gera hann að mikilli þjóð svo að ‚af honum skyldu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta.‘ (1. Mósebók 12:2-4, 7) Við höfum líka tilefni til að vera bjartsýn því að við vitum að „þeim, sem Guð elska, samverkar allt til góðs.“ — Rómverjabréfið 8:28.
Tveir bjartsýnir njósnarar
Meira en 400 árum síðar stóð Ísraelsþjóðin á þröskuldi Kanaanlands sem ‚flaut í mjólk og hunangi.‘ (2. Mósebók 3:8; 5. Mósebók 6:3) Móse sendi 12 höfðingja til að ‚kanna landið og færa fregnir af veginum, sem þjóðin átti að fara, og af borgunum er hún kæmi til.‘ (5. Mósebók 1:22; 4. Mósebók 13:2) Allir njósnararnir 12 voru samhljóða í lýsingu sinni á gæðum landsins, en 10 þeirra voru svo bölsýnir í frásögn sinni að fólkið varð óttaslegið. — 4. Mósebók 13:31-33.
Jósúa og Kaleb voru hins vegar bjartsýnir í málflutningi sínum og gerðu allt hvað þeir gátu til að eyða ótta fólksins. Afstaða þeirra og frásögn bar vott um fullt traust á því að Jehóva gæti staðið við orð sín um að leiða þá til fyrirheitna landsins — en allt kom fyrir ekki. Menn voru svo neikvæðir að „allur söfnuðurinn vildi berja þá grjóti.“ — 4. Mósebók 13:30; 14:6-10.
Móse hvatti fólkið til að treysta á Jehóva en það vildi ekki hlusta. Sökum bölsýni sinnar varð öll þjóðin að reika um eyðimörkina í 40 ár. Af njósnurunum 12 var aðeins Jósúa og Kaleb umbunað enda voru þeir bjartsýnir. Hvað var raunverulega að? Fólkið skorti trú af því að það treysti á sína eigin visku. — 4. Mósebók 14:26-30; Hebreabréfið 3:7-12.
Óákveðni Jónasar
Jónas var uppi á níundu öld f.o.t. Biblían gefur til kynna að hann hafi verið trúfastur spámaður Jehóva í tíuættkvíslaríkinu Ísrael, einhvern tíma á stjórnarárum Jeróbóams konungs annars. Hann neitaði hins vegar að fara þegar honum var falið að flytja Nínívemönnum viðvörun. Sagnfræðingurinn Jósefus segir að Jónas hafi „álitið betra að forða sér“ svo að hann hélt til Jaffa. Þar steig hann á skip á leið til Tarsis sem trúlega er Spánn. (Jónas 1:1-3) Í Jónasi 4:2 kemur fram af hverju Jónas var svona bölsýnn gagnvart verkefni sínu.
Jónas féllst að lokum á að fara í þessa sendiför en reiddist þegar Nínívebúar iðruðust. Jehóva kenndi honum því góða lexíu í meðaumkunarsemi með því að láta rísínusrunn, sem hann skýldi sér undir, visna og deyja. (Jónas 4:1-8) Jónas hefði frekar átt að finna til með þeim 120.000 mönnum, sem bjuggu í Níníve og ‚þekktu ekki hægri hönd sína frá hinni vinstri,‘ heldur en að hryggjast yfir því að runninn skyldi deyja. — Jónas 4:11.
Hvað getum við lært af Jónasi? Að heilög þjónusta leyfir enga bölsýni. Okkur vegnar vel ef við sjáum og treystum handleiðslu Jehóva og fylgjum henni í einu og öllu. — Orðskviðirnir 3:5, 6.
Bjartsýni í andstreymi
„Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja,“ sagði Davíð konungur. (Sálmur 37:1) Þetta eru viturleg ráð því að ranglæti og óheiðarleiki blasir við okkur hvert sem litið er. — Prédikarinn 8:11.
En jafnvel þótt við öfundum ekki hina ranglátu er eðlilegt að við séum svekkt þegar við horfum upp á saklaust fólk þjást af hendi vondra manna eða erum sjálf órétti beitt. Ef við verðum fyrir slíku getum við jafnvel orðið vonlaus og bölsýn. Hvað ættum við að gera þegar okkur líður þannig? Í fyrsta lagi getum við haft hugfast að vondir menn geta ekki verið sjálfsöruggir og hugsað sem svo að þeir fái aldrei makleg málagjöld. Sálmur 37 fullvissar okkur í 2. versi: „[Illvirkjarnir] fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir.“
Auk þess getum við haldið áfram að gera gott, verið bjartsýn og beðið eftir Jehóva. „Forðastu illt og gjörðu gott,“ heldur sálmaritarinn áfram, „þá munt þú búa kyrr um aldur, því að [Jehóva] hefir mætur á réttlæti og yfirgefur ekki sína trúuðu.“ — Sálmur 37:27, 28.
Sönn bjartsýni sigrar
Hvað um framtíðina? Opinberunarbókin segir frá ‚því sem verða á innan skamms.‘ Þar á meðal talar hún um rauðan hest, tákn styrjaldar, sem ‚tekur burt friðinn af jörðunni.‘ — Opinberunarbókin 1:1; 6:4.
Meðan fyrri heimsstyrjöldin var í algleymingi var sú bjartsýni útbreidd í Bretlandi að þetta yrði síðasta stórstyrjöld sögunnar. Breski stjórnmálamaðurinn David Lloyd George var raunsærri er hann sagði árið 1916: „Þessi styrjöld, líkt og næsta styrjöld, er styrjöld til að binda enda á styrjaldir.“ (Skáletur okkar.) Hann reyndist sannspár. Síðari heimsstyrjöldin flýtti einungis fyrir framleiðslu enn djöfullegri gereyðingarvopna en áður þekktust. Meira en 50 árum síðar sér enn ekki fyrir endann á styrjöldum.
Í Opinberunarbókinni lesum við um fleiri hesta sem tákna hallæri, drepsóttir og dauða. (Opinberunarbókin 6:5-8) Þeir eru líka hluti af tákni tímanna. — Matteus 24:3-8.
Er þá ástæða til að vera bölsýnn? Alls ekki því að sýnin segir einnig frá hvítum hesti „og sá sem á honum sat hafði boga, og honum var fengin kóróna og hann fór út sigrandi og til þess að sigra.“ (Opinberunarbókin 6:2) Hér sjáum við Jesú Krist sem himneskan konung skeiða fram til að eyða allri illsku og koma á friði og farsæld um heim allan.a
Þegar tilnefndur konungur þessa ríkis, Jesús Kristur, var á jörðinni kenndi hann lærisveinum sínum að biðja þess að þetta ríki kæmi. Kannski hefur þú líka lært „Faðirvorið.“ Þar biðjum við þess að Guðsríki komi og vilji hans verði gerður hér á jörðinni eins og á himni. — Matteus 6:9-13.
Jehóva reynir ekki að lappa upp á núverandi heimskerfi heldur ætlar hann að láta Messíasarkonunginn Krist Jesú þurrka það út. Í stað þess skapar Jehóva „nýjan himin og nýja jörð, og hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma.“ Undir stjórn hins himneska ríkis verður jörðin friðsælt, hamingjuríkt heimili mannkyns þar sem líf og störf manna verða þeim til stöðugrar gleði. „Fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa,“ segir Jehóva. „Mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna.“ (Jesaja 65:17-22) Ef þú byggir framtíðarvon þína á þessu óbrigðula fyrirheiti hefurðu fullt tilefni til að vera bjartsýnn — nú og að eilífu.
[Neðanmáls]
a Ítarlega umfjöllun um þessa sýn er að finna í 16. kafla bókarinnar Opinberunin — hið mikla hámark hennar er í nánd!, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Mynd á blaðsíðu 4]
H. G. Wells
[Rétthafi]
Corbis-Bettmann