Spurningar frá lesendum
Margir vottar Jehóva halda upp á brúðkaupsafmæli en ekki fæðingarafmæli. Er einhver munur þar á?
Í hreinskilni sagt þarf kristinn maður hvorki að halda upp á brúðkaupsafmæli né fæðingarafmæli. Það þýðir samt ekki að leggja megi þetta tvennt að jöfnu eða að kristnum mönnum beri að líta brúðkaupsafmæli og fæðingarafmæli sömu augum.
Í báðum tilvikum er um afmæli að ræða vegna þess að „afmæli“ er ‚minningarhátíð um atburð á þeim degi sem hann gerðist.‘ Hægt er að halda afmæli hvaða atburðar sem er — umferðarslyss, tunglmyrkva, sundlaugarferðar með fjölskyldunni og svo framvegis. Ljóst er að kristnir menn halda ekki upp á „afmæli“ hvaða viðburðar sem er eða halda veislu í tilefni þess. Við þurfum að skoða atburðinn frá ýmsum hliðum og ákveða hvað sé viðeigandi.
Tökum dæmi: Guð tók sérstaklega fram að Ísraelsmenn skyldu minnast árlega dagsins þegar engill hans gekk fram hjá húsum þeirra í Egyptalandi árið 1513 f.o.t. og burtfararinnar á eftir. (2. Mósebók 12:14) Gyðingar, þeirra á meðal Jesús, minntust þessa atburðar árlega eins og Guð bauð þeim, en án veisluhalda og gjafa. Gyðingarnir héldu líka árlega upp á endurvígsluafmæli musterisins. Enda þótt engin fyrirmæli væru í Biblíunni um að minnast þessa sögulega atburðar gefur Jóhannes 10:22, 23 til kynna að Jesús hafi ekkert haft út á það að setja. Kristnir menn halda líka sérstaka samkomu ár hvert til minningar um dauða Jesú og hlýða þar með skýru boði sem er að finna í orði Guðs. — Lúkas 22:19, 20.
Hvað um brúðkaupsafmæli? Í sumum löndum er algengt að hjón geri sér dagamun á brúðkaupsafmæli sínu. Biblían kastar með engu móti rýrð á hjónabandið, enda er Guð stofnandi þess. (1. Mósebók 2:18-24; Matteus 19:4-6) Jesús fór í brúðkaupsveislu og átti líka þátt í að gera hana að ánægjulegum viðburði. — Jóhannes 2:1-11.
Þess vegna væri ekkert undarlegt þótt hjón vildu taka sér tíma á brúðkaupsafmæli sínu til að rifja upp þennan gleðilega atburð og endurnýja ásetning sinn um að vinna að farsælu hjónabandi. Það er þeirra að ákveða hvort þau minnast þessa gleðidags tvö ein eða með fáeinum ættingjum og nánum vinum. Þetta ætti ekki að vera afsökun fyrir því að halda fjölmennt samkvæmi. Á þessum degi ættu kristnir menn að fylgja sömu frumreglum og alla aðra daga í lífi sínu. Það er því einkamál hvort fólk gerir sér dagamun á brúðkaupsafmæli sínu eða ekki. — Rómverjabréfið 13:13, 14.
En hvað um það að halda upp á fæðingarafmæli? Er einhverjar vísbendingar að finna í Biblíunni um þau?
Reyndar héldu Biblíunemendurnir, eins og vottar Jehóva voru kallaðir snemma á öldinni, upp á fæðingarafmæli. Margir þeirra skráðu afmælisdaga í litlar bækur sem nefndust Daily Heavenly Manna (Daglegt manna af himnum). Í bókinni var ritningartexti fyrir hvern dag og margir stungu litlum myndum af trúsystkinum sínum inn í bókina við afmælisdag þeirra. Varðturninn hinn 15. febrúar 1909 segir frá því að á móti í Jacksonville í Flórída hafi bróðir Russell, þáverandi forseti Félagsins, verið kallaður upp á svið. Til hvers? Til að gefa honum í óvænta afmælisgjöf nokkra kassa af greipaldinum, ananas og appelsínum. Þetta gefur okkur smá innsýn inn í fortíðina. En það er vert að hafa í huga að á þessum tíma héldu Biblíunemendurnir líka upp á 25. desember sem fæðingardag eða afmæli Jesú og höfðu jafnvel jólamáltíð í höfuðstöðvunum í Brooklyn.
Fólk Guðs hefur að sjálfsögðu tekið út andlegan þroska á mörgum sviðum síðan. Á 3. áratugnum varð aukið sannleiksljós til þess að bræðurnir komu auga á eftirfarandi:
Jesús fæddist ekki hinn 25. desember, á degi sem tengdist heiðnum trúarbrögðum. Biblían bendir okkur á að minnast dauðadags Jesú en ekki fæðingardags hans né nokkurs annars. Það er í samræmi við Prédikarann 7:1 og þá staðreynd að æviferill trúfastra manna er þýðingarmeiri en fæðingardagur þeirra. Biblían getur þess ekki að nokkur trúfastur þjónn Guðs hafi haldið upp á afmæli sitt. Hún segir frá afmælisveislum heiðingja og tengir þær ódæðisverkum. Við skulum kynna okkur umgjörð þessara afmælisveislna.
Önnur þeirra er afmælisveisla Faraós á dögum Jósefs. (1. Mósebók 40:20-23) Greinin um afmælisdaga í alfræðibókinni Encyclopædia of Religion and Ethics eftir Hastings hefst með þessum orðum: „Sá siður að minnast fæðingardags er að forminu til tengdur tímareikningi og að efninu til tengdur frumstæðum trúarreglum.“ Síðar vitnar bókin í Egyptalandsfræðinginn sir J. Gardner Wilkinson sem segir: „Allir Egyptar lögðu mikið upp úr fæðingardegi sínum og jafnvel fæðingarstund, og sennilegt er að hver maður hafi, líkt og í Persíu, haldið upp á afmæli sitt með miklum gleðskap, tekið á móti vinum með tilheyrandi skemmtunum samfélagsins og borið fram fjölbreyttari kræsingar en endranær.“
Hin afmælisveislan, sem Biblían nefnir, er afmæli Heródesar en þá var Jóhannes skírari hálshöggvinn. (Matteus 14:6-10) Alfræðibókin International Standard Bible Encyclopedia (útgefin 1979) upplýsir: „Grikkir á forhellenskum tíma héldu upp á afmæli guða og framámanna. Þessir mannfagnaðir voru kallaðir genéþlía en hátíð til minningar um fæðingardag látins fyrirmanns var nefnd genésía. Í 2. Makkabeabók 6:7 er minnst á mánaðarlega genéþlía Antíokkusar IV þar sem Gyðingar voru neyddir til að ‚taka þátt í blótum.‘ . . . Afmælishald Heródesar var samkvæmt hellenskum sið; engin merki sjást um afmælishald í Ísrael á forhellenskum tíma.“
Sannkristnir menn gera sér auðvitað ekki óhóflegar áhyggjur af uppruna og hugsanlegum fornum trúartengslum allra siða og siðvenja, en þeir hunsa ekki heldur skýrar vísbendingar sem finna má í orði Guðs. Hafa ber í huga að einu afmælisveislurnar, sem Biblían getur um, voru haldnar af heiðingjum og tengdar ódæðisverkum. Biblían gefur því greinilega neikvæða mynd af afmælisveislum og einlægir kristnir menn loka ekki augunum fyrir því.
Þótt það sé algert einkamál kristins manns hvort hann heldur upp á brúðkaupsafmæli hafa þroskaðir kristnir menn góðar og gildar ástæður fyrir því að halda ekki upp á fæðingarafmæli.