Spurningar frá lesendum
Forðast vottar Jehóva að halda afmæli vegna þess að sá siður hafði einhverja trúarlega merkingu til forna?
Afmælidagahald á uppruna sinn í hjátrú og falstrú en það er ekki eina ástæðan eða aðalástæðan fyrir því að vottar Jehóva forðast þennan sið.
Sumir siðir, sem voru einu sinni trúarlegir í eðli sínu, eru það ekki lengur víða um lönd. Til dæmis hafði giftingarhringur einu sinni trúarlega þýðingu en svo er víðast hvar ekki lengur. Þess vegna fylgja margir sannkristnir menn þeim sið að ganga með giftingarhring til tákns um að þeir séu giftir. Í slíkum málum ræður það fyrst og fremst úrslitum hvort siðurinn er núna tengdur falskri trú. — Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum þann 15. janúar 1972 (á ensku) og 1. apríl 1992 (á íslensku).
Því verður hins vegar ekki móti mælt að fjölmörg heimildarrit benda á trúarlega forsögu afmælishalds og hjátrú sem er undanfari þess. The Encyclopedia Americana (útgefin 1991) segir: „Í heimi fornaldar héldu Egyptar, Grikkir, Rómverjar og Persar upp á afmæli guða, konunga og göfugmenna.“ Hún segir að Rómverjar hafi ‚haldið upp á fæðingu Artemisar og dag Appollós.‘ Aftur á móti „sjást þess engin merki að Ísraelsmenn til forna hafi haldið nokkra hátíð á fæðingardegi fólks, þótt þeir hafi haldið skrár um aldur karlmanna.“
Önnur heimildarrit fjalla í allítarlegu máli um uppruna afmælishalds: ‚Afmælisveislur hófust endur fyrir löngu í Evrópu. Fólk trúði á góða og illa anda, stundum kallaðir góðir og illir álfar. Allir hræddust þessa anda og óttuðust að þeir gætu gert afmælisbarninu illt, og þess vegna var það umkringt vinum og ættingjum sem áttu með góðum óskum sínum og jafnvel nærveru að vernda það gegn þeim óþekktu hættum sem fylgdu afmælisdeginum. Að gefa gjafir veitti jafnvel enn meiri vernd. Sameiginlegt borðhald var frekari vernd og stuðlaði að því að tryggja blessun góðu andanna. Þannig var það upphaflegt hlutverk afmælisveislunnar að vernda einstaklinginn gegn illu og tryggja honum gott, komandi ár.‘ — Birthday Parties Around the World, 1967.
Bókin segir líka frá því hver sé uppruni margra siðvenja afmælishaldsins. Tökum dæmi: „Ástæðan [fyrir því að nota kerti] er rakin til Forn-Grikkja og Rómverja sem héldu að kerti byggju yfir töframætti. Þeir báðust fyrir og báru fram óskir sem kertaloginn átti að bera upp til guðanna. Guðirnir sendu síðan niður blessun sína og ef til vill svar við bænum.“ Aðrar og fleiri slíkar upplýsingar eru teknar saman á bls. 69 og 70 í bókinni Reasoning From the Scriptures, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Eins og fram hefur komið liggur hins vegar meira að baki þessari spurningu en það hvort það hafi verið eða sé enn trúarlegt atriði að halda upp á afmæli. Biblían minnist á afmælishald og þroskaðir kristnir menn eru, eins og viturlegt er, næmir fyrir hverjum þeim vísbendingum sem hún gefur.
Þjónar Guðs til forna gáfu gaum að fæðingardegi einstaklingsins en út frá honum gátu þeir reiknað aldur manna. Við lesum: „Er Nói var fimm hundruð ára, gat hann Sem, Kam og Jafet.“ „Á sexhundraðasta aldursári Nóa . . . opnuðust allar uppsprettur hins mikla undirdjúps.“ — 1. Mósebók 5:32; 7:11; 11:10-26.
Eins og jafnvel Jesús nefndi var barnsfæðing talin blessun og gleðiefni meðal þjóna Guðs. (Lúkas 1:57, 58; 2:9-14; Jóhannes 16:21) Samt sem áður héldu þjónar Jehóva ekki upp á afmælisdaga; þeir héldu upp á ýmsa aðra árlega hátíðisdaga en ekki afmælisdaga. (Jóhannes 10:22, 23) Encyclopaedia Judaica segir: „Afmælishald er óþekkt í hefðbundnum helgisiðareglum Gyðinga.“ Customs and Traditions of Israel segir: „Afmælishald er siður tekinn að láni frá öðrum þjóðum því að ekkert er minnst á hann meðal Gyðinga, hvorki í Biblíunni, Talmúd eða ritum hinna síðari spekinga. Í reynd var þetta forn, egypskur siður.“
Þessi egypski uppruni er ljós af afmælishátíð sem sagt er frá í Biblíunni, hátíð sem sannir guðsdýrkendur héldu ekki. Það var fæðingarhátíð þess Faraós sem var við völd meðan Jósef sat í fangelsi í Egyptalandi. Þetta hefur kannski verið fagnaðarhátíð fyrir suma þessara heiðingja en eigi að síður var afmælið tengt því að yfirbakari Faraós var hálshöggvinn. — 1. Mósebók 40:1-22.
Annað afmæli, sem lýst er í Ritningunni, varpar sams konar neikvæðu ljósi á þennan sið — en það er afmæli Heródesar Antípasar, sonar Heródesar mikla. Varla er sagt frá þessu afmæli í Biblíunni aðeins sem saklausum gleðskap. Þessi hátíð var notuð sem tækifæri til að hálshöggva Jóhannes skírara. Síðan komu „lærisveinar hans . . . tóku líkið og greftruðu, fóru síðan og sögðu Jesú“ sem ‚fór á óbyggðan stað og vildi vera einn.‘ (Matteus 14:6-13) Getur þú ímyndað þér að þessum lærisveinum Jesú hafi þótt afmælishald aðlaðandi siður?
Með tilliti til þess hver er uppruni afmælishalds og þess sem er enn þýðingarmeira, í hve neikvæðu ljósi því er lýst í Biblíunni, hafa vottar Jehóva kappnóga ástæðu til að forðast þennan sið. Þeir þurfa ekki að fylgja þessum veraldlega sið því að þeir geta neytt ánægjulegra máltíða saman hvenær sem er á árinu. Þegar þeir gefa gjafir er það ekki af skyldukvöð eða sökum þess að þeim er boðið til veislu, heldur gera þeir það af sjálfsdáðum hvenær sem er sökum örlætis og ósvikinnar væntumþykju. — Orðskviðirnir 17:8; Prédikarinn 2:24; Lúkas 6:38; Postulasagan 9:36, 39; 1. Korintubréf 16:2, 3.