Stéttaskipting — viðvarandi vandamál
„JAFNVEL ÞÓTT JAFNRÉTTI SÉ BUNDIÐ Í LÖGUM GETUR ENGINN MANNLEGUR MÁTTUR KOMIÐ ÞVÍ Á.“
Svo mælti Honoré de Balzac, franskur rithöfundur á 19. öld. Ertu honum sammála? Mörgum finnst stéttaskipting vera röng. Engu að síður skiptast þjóðfélög í hinar ýmsu stéttir núna á 21. öld.
CALVIN COOLIDGE, forseti Bandaríkjanna á árunum 1923 til 1929, hafði áhyggjur af stéttaskiptingunni og talaði um „útrýmingu allra forréttindastétta.“ Kernernefndin var skipuð til að fást við rannsóknir á samskiptum kynþáttanna, og 40 árum eftir forsetatíð Coolidge lýsti hún yfir áhyggjum sínum af því að Bandaríkin ættu eftir að skiptast í tvö þjóðfélög „aðskilin og ójöfn — annað svart en hitt hvítt.“ Sumir halda því fram að þessi spá hafi ræst og að þar í landi sé „bilið á milli ríkra og fátækra og á milli kynþáttanna að aukast.“
Af hverju er svona erfitt að gera hugmyndina um jöfnuð meðal manna að veruleika? Mannlegt eðli á stóran þátt í því. William Randolph Hearst, fyrrverandi þingmaður bandaríska þingsins, sagði eitt sinn: „Allir menn eru að minnsta kosti skapaðir jafnir að einu leyti — þeir vilja ekki vera jafnir.“ Hvað átti hann við með þessu? Henry Becque, franskt 19. aldar leikritaskáld, lýsti þessu kannski betur þegar hann sagði: „Það sem er svo erfitt við jafnrétti er að við viljum aðeins vera jöfn þeim sem eru okkur æðri.“ Menn vilja með öðrum orðum vera jafnir þeim sem eru ofar í þjóðfélagsstiganum, en fáir eru reiðubúnir að draga úr forréttindum sínum og yfirburðum til að vera jafnir þeim sem þeir telja vera lægra setta.
Hér áður fyrr fæddist fólk inn í stétt alþýðufólks, aðalsmanna eða jafnvel kóngafólks og á fáeinum stöðum er þetta enn þá þannig. En í flestum löndum nú á dögum eru það peningar — eða peningaskortur — sem ákvarða hvort einhver tilheyrir lágstétt, miðstétt eða yfirstétt. Aðrir þættir eins og kynþáttur, menntun og læsi hafa líka áhrif og sums staðar er fólki mismunað vegna kynferðis þar sem konur eru taldar lægra settar en karlar.
Vonarneisti?
Mannréttindalöggjöf hefur brotið niður nokkra múra milli stétta. Lög gegn kynþáttaaðskilnaði hafa verið sett í Bandaríkjunum og aðskilnaðarstefnan í Suður-Afríku bönnuð. Þó að þrælahald sé enn þá við lýði er það ólöglegt víðast hvar í heiminum. Sett hafa verið lög sem tryggja landeignarrétt vissra frumbyggja og lög gegn mismunun hafa tryggt bágstöddum hópum aðstoð.
Gefur þetta til kynna að stéttaskipting sé að líða undir lok? Nei, í rauninni ekki. Þó að dregið hafi úr stéttaskiptingu að sumu leyti er annars konar aðgreining að koma fram á sjónarsviðið. Bókin Class Warfare in the Information Age segir: „Núna er ekki lengur viðeigandi að skipta fólki í kapítalista og verkalýð en það er aðeins vegna þess að þessar fjölmennu stéttir hafa sundrast í marga minni hópa af reiðu fólki.“
Á stéttaskipting eftir að sundra fólki um alla framtíð? Eins og næsta grein bendir á er staðan ekki vonlaus.