Getur þú flust þangað sem er meiri þörf fyrir boðbera fagnaðarerindisins?
„Við lifðum þægilegu lífi í Bandaríkjunum en höfðum áhyggjur af því að efnishyggjan þar gæti haft slæm áhrif á okkur og syni okkar tvo. Við hjónin höfðum áður verið trúboðar og okkur langaði til að taka aftur upp þennan einfalda en ánægjulega lífsstíl.“
ÁRIÐ 1991 létu Ralph og Pam verða af þessari ósk sinni. Þau skrifuðu til nokkurra deildarskrifstofa til að segja frá því að þau langaði til að flytjast þangað sem væri meiri þörf fyrir boðbera fagnaðarerindisins. Deildarskrifstofan í Mexíkó sagði í svari sínu að það væri mikil þörf á boðberum sem gætu prédikað fyrir enskumælandi fólki þar í landi. Deildarskrifstofan sagði meira að segja að akrarnir væru „fullþroskaðir til uppskeru“. (Jóh. 4:35) Áður en langt um leið ákváðu Ralph og Pam ásamt sonum sínum, sem þá voru 8 og 12 ára, að þiggja boðið og byrjuðu að búa sig undir að flytja úr landi.
Víðáttumikið svæði
Ralph segir: „Áður en við fórum frá Bandaríkjunum sögðu nokkrir velviljaðir bræður og systir við okkur: ‚Það er of hættulegt að flytja til útlanda.‘ ‚Hvað ef þið veikist?‘ ‚Af hverju ætlið þið að flytja til að prédika fyrir enskumælandi fólki? Það mun ekki sýna sannleikanum áhuga.‘ En við höfðum gert upp hug okkar. Þessi ákvörðun var hvort eð er ekki tekin í flýti. Við höfðum unnið að þessu árum saman. Við höfðum varast að skuldsetja okkur, lagt peninga til hliðar og rætt oft saman sem fjölskylda um erfiðleikana sem gætu orðið á vegi okkar.“
Ralph og fjölskylda byrjuðu á því að heimsækja deildarskrifstofuna í Mexíkó. Bræðurnir þar sýndu þeim kort af öllu landinu og sögðu þeim: „Þetta er starfssvæði ykkar.“ Fjölskyldan settist að í bænum San Miguel de Allende sem er um 240 kílómetra norðvestur af Mexíkóborg. Þar búa margir útlendingar. Þremur árum seinna var stofnaður þar enskur söfnuður með 19 boðberum. Þetta var fyrsti enski söfnuðurinn í Mexíkó — en mikið starf var enn óunnið.
Talið er að um ein milljón Bandaríkjamanna búi í Mexíkó. Margir mexíkóskir náms- og menntamenn hafa auk þess ensku sem annað tungumál. Ralph segir: „Við báðum Jehóva um að senda okkur fleiri verkamenn. Við vorum alltaf með aukaherbergi fyrir bræður og systur sem komu til að ‚kanna landið‘ ef svo mætti að orði komast.“ — 4. Mós. 13:2.
Þau einfölduðu lífið til að hafa meiri tíma fyrir boðunarstarfið
Fljótlega komu til landsins fleiri bræður og systur sem vildu nota meiri tíma í boðunarstarfinu. Í þeirra hópi voru Bill og Kathy frá Bandaríkjunum. Þau höfðu um 25 ára skeið starfað á svæðum þar sem mikil þörf var fyrir boðbera. Þau voru að hugsa um að læra spænsku en hættu við eftir að þau fluttu til bæjarins Ajijic sem liggur við Chapala-vatn og er vinsæll staður fyrir eftirlaunaþega frá Bandaríkjunum. Bill segir: „Í Ajijic fórum við að einbeita okkur að því að leita að enskumælandi fólki sem vildi kynnast sannleikanum.“ Ekki voru liðin tvö ár frá komu þeirra þegar nýr söfnuður var myndaður, annar enski söfnuðurinn í Mexíkó. Þetta veitti þeim mikla gleði.
Ken og Joanne frá Kanada vildu einfalda líf sitt og hafa meiri tíma fyrir boðunarstarfið. Þau fluttu líka til Mexíkó. Ken segir: „Það tók sinn tíma að venjast því að búa á stað þar sem stundum er ekki heitt vatn, rafmagn eða símasamband svo dögum skiptir.“ En boðunarstarfið var þeim mikill gleðigjafi. Ken var fljótlega útnefndur safnaðarþjónn og öldungur tveim árum seinna. Dóttur þeirra Britanny fannst í fyrstu erfitt að vera í litlum enskum söfnuði þar sem voru fá ungmenni. En eftir að hún fór að taka þátt í að byggja ríkissali eignaðist hún marga góða vini um allt landið.
Patrick og Roxanne, frá Texas í Bandaríkjunum, fannst spennandi að heyra um trúboðssvæði ekki svo langt í burtu þar sem fólk talar ensku. „Eftir að við heimsóttum Monterrey, bæ í norðaustur Mexíkó, fannst okkur að Jehóva væri að segja okkur að hjálpa til þar,“ segir Patrick. Á fimm dögum tókst þeim að selja húsið sitt í Texas og fara „yfir til Makedóníu“ ef svo mætti að orði komast. (Post. 16:9) Það hefur ekki verið auðvelt fyrir þau að sjá fyrir sér í Mexíkó en á aðeins tveim árum sáu þau lítinn 17 manna hóp stækka og verða að söfnuði með 40 boðberum.
Jeff og Deb einfölduðu líka lífið til að hafa meiri tíma fyrir boðunarstarfið. Þau áttu stórt hús í Bandaríkjunum sem þau seldu og fluttu inn í litla íbúð í Cancún, borg á austurströnd Mexíkó. Þau voru áður vön að sækja mót í loftkældum byggingum nálægt heimili sínu. Núna þurftu þau að ferðast í átta tíma til að sækja enskt mót á opnum leikvangi. En það veitti þeim mikla gleði þegar nýr söfnuður var stofnaður í Cancún með 50 boðberum.
Sumir innfæddir bræður og systur réttu líka fram hjálparhönd á enska starfssvæðinu. Sem dæmi má nefna að þegar Rubén og fjölskylda fréttu að búið væri að stofna fyrsta enska söfnuðinn í San Miguel de Allende og að starfssvæði þess safnaðar væri allt Mexíkó ákváðu þau tafarlaust að hjálpa til. Þau þurftu að læra ensku, aðlagast ólíkri menningu og ferðast langar vegalengdir — samanlagt 800 kílómetra í hverri viku — til að sækja samkomur. Rubén segir: „Það var ánægjulegt að prédika fyrir útlendingum sem hafa árum saman verið búsettir í Mexíkó en heyrðu í fyrsta sinn fagnaðarerindið á móðurmáli sínu. Sumir þeirra tjáðu okkur þakklæti sitt með tárin í augunum.“ Eftir að Rubén og fjölskylda höfðu starfað með söfnuðinum í San Miguel de Allende störfuðu þau sem brautryðjendur í bænum Guanajuato inni í miðju landi. Þau áttu þátt í því að stofna þar enskan söfnuð með rúmlega 30 boðberum. Núna starfa þau með enskum söfnuði í Irapuato, bæ nálægt Guanajuato.
Prédikað fyrir þeim sem erfitt er að ná til
Margir innfæddir tala líka góða ensku. Það er oft erfitt að ná til þeirra með boðskapinn því að þeir búa í mjög fínum hverfum þar sem þjónustufólk kemur til dyra. Og ef húsráðendur koma sjálfir til dyra vilja þeir kannski ekki hlusta á boðskapinn því að þeir halda að Vottar Jehóva séu lítill sértrúarsöfnuður. En þegar vottar frá öðrum löndum banka upp á hjá þeim hlusta sumir þeirra.
Tökum Gloriu sem dæmi en hún býr í borginni Querétaro norðvestur af Mexíkóborg. Hún segir: „Spænskumælandi vottar höfðu áður talað við mig en ég hlustaði ekki á þá. En þegar upp komu vandamál í fjölskyldunni og meðal vina varð ég niðurdregin og leitaði til Guðs. Ég sárbað hann um hjálp. Stuttu seinna bankaði enskumælandi kona upp á hjá mér. Hún spurði hvort einhver á heimilinu kynni ensku. Ég varð forvitin af því að hún var útlendingur og ég sagðist tala ensku. Á meðan hún talaði hugsaði ég með mér: ‚Hvað er þessi bandaríska kona að gera í hverfinu mínu?‘ En ég hafði beðið Guð um hjálp og kannski var þessi útlenska kona svar við bænum mínum.“ Gloria þáði biblíunámskeið og tók skjótum framförum. Síðan lét hún skírast þrátt fyrir andstöðu fjölskyldunnar. Gloria er núna brautryðjandi og eiginmaður hennar og sonur þjóna Jehóva.
Þeir sem auka starf sitt hljóta umbun
Það getur verið áskorun að starfa á svæðum þar sem er mikil þörf fyrir boðbera en umbunin er margvísleg. Ralph, sem minnst var á í byrjun greinarinnar, segir: „Við vorum með biblíunemendur frá Bretlandi, Kína, Jamaíku og Svíþjóð. Við kenndum meira að segja aðalsfólki frá Gana. Sumir nemenda okkar tóku upp þjónustu í fullu starfi. Frá því að við fjölskyldan fluttum til Mexíkó höfum við hjálpað til við að mynda sjö enska söfnuði. Synir okkar tveir gerðust brautryðjendur eins og við og starfa núna á Betel í Bandaríkjunum.“
Í Mexíkó eru núna 88 enskir söfnuðir og margir hópar. Hvað hefur stuðlað að þessum öra vexti? Margt enskumælandi fólk í Mexíkó hafði aldrei áður fengið heimsókn frá vottunum. Aðrir hlustuðu því að þeir fundu ekki fyrir þeim hópþrýstingi sem hefði getað hindrað þá í heimalandinu. Enn aðrir þáðu boð um biblíunámskeið því að þeir voru komnir á eftirlaun og höfðu tíma til að sinna andlegum málum. Auk þess er rúmlega þriðjungur boðbera í ensku söfnuðunum brautryðjendur en það hefur stuðlað að öflugum starfsanda og hröðum vexti.
Þín bíður blessun
Um allan heim munu eflaust margir til viðbótar hlusta þegar þeir heyra fagnaðarerindið á sínu eigin tungumáli. Það er því hvetjandi að vita að mörg andlega sinnuð trúsystkini — ung sem aldin, einhleyp sem gift — séu fús til að flytja á svæði þar sem vantar fleiri boðbera. Þeim mæta vissulega erfiðleikar en þeir blikna í samanburði við gleðina af því að finna hjartahreint fólk sem tekur við sannleika Biblíunnar. Gætir þú gert breytingar og flutt á svæði í þínu heimalandi eða erlendis þar sem er meiri þörf fyrir boðbera?a (Lúk. 14:28-30; 1. Kor. 16:9) Ef svo er máttu vera viss um að þín bíður stórkostleg blessun.
[Neðanmáls]
a Á bls. 111-112 í bókinni Söfnuður skipulagður til að gera vilja Jehóva má finna nánari upplýsingar fyrir þá sem hafa áhuga á að flytja á svæði þar sem þörfin er meiri.
[Rammi á blaðsíðu 21]
Glaðir eftirlaunaþegar vekja athygli
Beryl fluttist frá Bretlandi til Kanada. Þar starfaði hún sem framkvæmdastjóri hjá mörgum alþjóðlegum fyrirtækjum. Hún varð einnig mjög fær knapi og var meira að segja valin til að vera fulltrúi Kanada á Ólympíuleikunum árið 1980. Þegar Beryl settist í helgan stein fluttist hún ásamt eiginmanni sínum til Chapala í Mexíkó. Þau borðuðu oft á veitingastöðum bæjarins. Þegar hún hitti þar enskumælandi eftirlaunaþega sem virtust vera hamingjusamir kynnti hún sig fyrir þeim og spurði þá hvað þeir væru að gera í Mexíkó. Glöðu eftirlaunaþegarnir reyndust næstum alltaf vera vottar Jehóva. Beryl og maðurinn hennar hugsuðu með sér að ef hamingja og lífsfylling héldist í hendur við það að þekkja Guð vildu þau líka kynnast honum. Beryl þáði biblíunámskeið eftir að hafa sótt safnaðarsamkomur í nokkra mánuði. Hún gat starfað sem brautryðjandi um nokkurra ára skeið.
[Rammi á blaðsíðu 22]
„Það er mikil blessun að hafa þá á meðal okkar“
Þeir sem flytjast til landa þar sem vantar fleiri boðbera eru mikils metnir. Í bréfi frá deildarskrifstofu í Karíbahafi stendur: „Söfnuðirnir væru mun verr settir ef þau hundruð útlendinga, sem starfa hér, myndu fara. Það er mikil blessun að hafa þá á meðal okkar.“
Í orði Guðs segir: „Heill her kvenna flytur sigurfréttina.“ (Sálm. 68:12) Það kemur því ekki á óvart að margar einhleypar systur séu í hópi þeirra sem starfa á erlendri grund. Það er mikil hjálp í þessum fórnfúsu systrum. Deildarskrifstofa í Austur-Evrópu skrifaði: „Systur eru í meirihluta í mörgum af söfnuðunum, sums staðar allt upp í 70 af hundraði. Flestar eru nýjar í sannleikanum en einhleypar brautryðjendasystur, sem hafa komið frá öðrum löndum, veita ómetanlega aðstoð með því að kenna þeim. Erlendu systurnar eru mjög verðmætar fyrir okkur.“
Hvað finnst þessum systrum um að starfa á erlendum vettvangi? „Þetta er krefjandi á margan hátt,“ segir Angelica en hún er á fertugsaldri og starfaði erlendis um árabil sem einhleypur brautryðjandi. „Á einu svæðinu þurfti ég daglega að ganga eftir forugum moldarvegum og allt í kring sá ég fólk sem þjáðist. Þetta fékk mjög á mig. Ég hafði hins vegar mikla ánægju af því að hjálpa fólki í boðunarstarfinu. Ég var líka snortin af þakklæti systranna á staðnum sem þökkuðu mér oft fyrir að koma til að hjálpa þeim. Ein systir sagði mér að ég hefði verið henni góð fyrirmynd með því að koma alla þessa leið til að starfa sem brautryðjandi og það hefði knúið hana til að taka upp þjónustu í fullu starfi.“
Sue er rúmlega fimmtug brautryðjandasystir. Hún segir: „Þetta getur vissulega haft erfiðleika í för með sér en þeir vega lítið í samanburði við blessunina. Starfið er spennandi. Ég starfa mikið með ungum systrum og segi þeim frá því sem ég hef lesið í Biblíunni og ritunum okkar um hvernig megi takast á við prófraunir. Þær segja mér oft að þær hafi lært af mér hvernig þær geti sigrast á erfiðleikum, þar sem þær vita að ég hef tekist á við ýmis vandamál öll þau ár sem ég hef verið brautryðjandi og einhleyp. Mér finnst mjög gefandi að hjálpa þessum systrum.“
[Kort á blaðsíðu 20]
(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)
MEXÍKÓ
Monterrey
Guanajuato
Irapuato
Ajijic
Chapala
Chapalavatn
San Miguel de Allende
Querétaro
MEXÍKÓBORG
Cancún
[Mynd á blaðsíðu 23]
Sumir prédika fyrir útlendingum sem hafa aldrei heyrt fagnaðarerindið áður.