Að sigra í glímunni við tilfinningalega vanlíðan
ERTU stundum kvíðinn eða dapur? Hver þekkir ekki baráttuna við slíkar tilfinningar? Nú á tímum eiga margir í fjárhagserfiðleikum, ofbeldi er útbreitt og óréttlæti sömuleiðis. Það er því ekki skrýtið að fjölmargir skuli vera langt niðri eða haldnir sektarkennd og minnimáttarkennd.
Okkur getur stafað hætta af slíkum tilfinningum. Þær geta grafið undan sjálfstrausti okkar, lamað rökhugsunina og rænt okkur gleðinni. Í Biblíunni segir: „Látir þú hugfallast á degi neyðarinnar er máttur þinn lítill.“ (Orðskviðirnir 24:10) Við þurfum á mætti okkar og kröftum að halda til að geta þraukað í þessum hrjáða heimi. Það er því afar brýnt að hafa hemil á neikvæðum hugsunum.a
Í Biblíunni er að finna góð ráð í baráttunni við neikvæðar hugsanir og tilfinningalega vanlíðan. Jehóva Guð, sem skapaði lífið og viðheldur því, vill ekki að þú sökkvir niður í örvæntingu eða vonleysi. (Sálmur 36:10) Við skulum því leita í orð hans og kanna með hvaða þrennum hætti við getum barist gegn depurð og svartsýni.
Guð hefur áhuga á þér
Sumir halda að Guð sé svo upptekinn að hann hafi ekki tíma til að gefa gaum að líðan þeirra. Hefur sú hugsun hvarflað að þér? Þá er gott að nefna að Biblían fullyrðir að skaparanum sé umhugað um líðan okkar. Sálmaritarinn sagði: „Drottinn er nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta, hann hjálpar þeim sem hafa sundurkraminn anda.“ (Sálmur 34:19) Það er mikil huggun að vita að hinn alvaldi Drottinn er nálægur okkur þegar við eigum erfitt.
Guð er hvorki kuldalegur né fáskiptinn. „Guð er kærleikur,“ að sögn Biblíunnar. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Hann elskar fólk og finnur til með þeim sem þjást. Þegar Ísraelsmenn voru þrælar í Egyptalandi fyrir 3.500 árum sagði hann: „Ég hef séð eymd þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt kvein hennar undan þeim sem þrælka hana. Já, ég þekki þjáningu hennar. Ég er kominn niður til að bjarga henni.“ — 2. Mósebók 3:7, 8.
Guð skilur mannlegar tilfinningar mætavel. Það er nú einu sinni hann sem „hefur skapað oss og hans erum vér“. (Sálmur 100:3) Við megum vera viss um að Guð skilur okkur jafnvel þegar okkur finnst enginn annar gera það. Í orði hans segir: „Guð lítur ekki á það sem maðurinn lítur á. Maðurinn sér hið ytra en Drottinn horfir á hjartað.“ (1. Samúelsbók 16:7) Hann sér meira að segja leyndustu tilfinningar okkar.
Jehóva veit auðvitað líka af mistökum okkar og göllum. En við getum verið þakklát fyrir að kærleiksríkur skapari okkar er fús til að fyrirgefa. Biblíuritaranum Davíð var innblásið að skrifa: „Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefur Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann. Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ (Sálmur 103:13, 14) Guð horfir öðruvísi á okkur en við gerum sjálf. Hann leitar að hinu góða í fari okkar en vísar frá hinu slæma, svo framarlega sem við iðrumst synda okkar. — Sálmur 139:1-3, 23, 24.
Ef sú hugsun ásækir okkur að við séum einskis virði verðum við að vera ákveðin í að hafa hemil á henni. Gleymum aldrei hvaða augum Guð lítur á okkur. — 1. Jóhannesarbréf 3:20.
Vertu náinn vinur Guðs
Hvaða gagn er að því að sjá sjálfan sig sömu augum og Guð gerir? Við eigum þá auðveldara með að gera annað sem hjálpar okkur að hafa hemil á tilfinningalegri vanlíðan, það er að segja að bindast Guði sterkum vináttuböndum. Er það hægt?
Jehóva Guð er umhyggjusamur faðir og er boðinn og búinn að hjálpa okkur að mynda vináttutengsl við sig. Við finnum þessa hvatningu í Biblíunni: „Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur.“ (Jakobsbréfið 4:8) Er ekki sérstakt að hugsa til þess að geta orðið nánir vinir alheimsdrottins þótt við séum syndug og vanmátta?
Guð segir frá sjálfum sér í Biblíunni til að við getum kynnst honum. Með því að lesa reglulega í Biblíunni getum við fræðst um aðlaðandi eiginleika hans.b Þegar við hugleiðum slíkar upplýsingar styrkjum við smám saman tengslin við Jehóva. Við sjáum þá betur og betur hve ástúðlegur og umhyggjusamur faðir hann er.
Við höfum enn meira gagn af því sem við lesum í Biblíunni ef við hugleiðum það vandlega. Við eignumst nánara samband við föðurinn á himnum ef við tileinkum okkur sjónarmið hans og leyfum honum að leiðrétta okkur, hugga og leiðbeina. Þess er sérstaklega þörf ef við eigum í baráttu við hugsanir og tilfinningar sem gera okkur óróleg og kvíðin. Sálmaritarinn komst svo að orði: „Þegar áhyggjur þjaka mig hressir huggun þín sál mína.“ (Sálmur 94:19) Biblían getur verið okkur til mikillar huggunar. Ef við tökum auðmjúk við boðskap hennar má vel vera að depurðin víki smám saman fyrir þeirri huggun og þeim friði sem Guð einn getur gefið. Jehóva hughreystir okkur rétt eins og ástríkt foreldri sefar barn sem hefur meitt sig eða komist í uppnám.
Ef við viljum verða vinir Guðs þarf fleira að koma til. Við þurfum að tala oft við hann. Í Biblíunni er okkur sagt: „Ef við biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann okkur.“ (1. Jóhannesarbréf 5:14) Hvað svo sem við óttumst eða höfum áhyggjur af getum við beðið til Guðs um hjálp. Við fyllumst hugarró ef við úthellum hjarta okkar fyrir Guði. Páll postuli skrifaði: „Gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.“ — Filippíbréfið 4:6, 7.
Þegar þú venur þig á að lesa daglega í Biblíunni, hugleiða efnið og biðja til Guðs finnurðu án efa hvernig vináttuböndin við hann styrkjast. Slík vinátta er öflugt vopn í baráttunni við kvíða og depurð. Hvað annað getur komið að gagni?
Einbeittu þér að voninni um betri framtíð
Þegar erfiðleikar íþyngja okkur hvað mest getum við samt fyllt hugann af því sem er gott. Hvernig þá? Guð hefur veitt okkur örugga framtíðarvon. Pétur postuli samdi stutta lýsingu á þessari von og sagði: „Eftir fyrirheiti [Guðs] væntum við nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:13) Hvað þýðir þetta?
Með orðunum ,nýr himinn‘ er átt við ríkisstjórn, það er að segja ríki Guðs á himnum í höndum Jesú Krists. ,Ný jörð‘ er nýtt samfélag manna hér á jörð, manna sem hafa velþóknun Guðs. Undir stjórn ,nýja himinsins‘ verður hið nýja samfélag á jörðinni laust við allt sem veldur kvíða og óróleika. Í Biblíunni er talað um trúaða menn sem lifa þá og sagt að Guð muni „þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ — Opinberunarbókin 21:4.
Þú ert áreiðanlega sammála því að þessi innblásnu orð kveiki uppbyggilegar og fallegar hugsanir. Það er einmitt þess vegna sem Biblían talar um ,sæla von‘ þegar hún lýsir þeirri framtíð sem Guð hefur heitið þjónum sínum. (Títusarbréfið 2:13) Ef við einbeitum okkur að voninni sem Guð hefur gefið okkur mönnunum og veltum fyrir okkur hvers vegna fyrirheit hans eru áreiðanleg og örugg, ýtum við frá okkur íþyngjandi hugsunum. — Filippíbréfið 4:8.
Í Biblíunni er þessari hjálpræðisvon líkt við hjálm. (1. Þessaloníkubréf 5:8) Hermaður til forna hefði aldrei þorað að leggja til bardaga án þess að hafa hjálm á höfði. Hann vissi að hjálmurinn hlífði höfðinu við höggum og kastvopnum. Hjálmurinn verndar höfuðið en vonin verndar hugann. Ef hugsanir okkar snúast um vonina bægjum við frá okkur ótta, svartsýni og íþyngjandi hugsunum.
Þú getur því sigrað í glímunni við kvíða og depurð. Hugleiddu hvaða augum Guð sér þig, styrktu sambandið við hann og einbeittu þér að þeirri björtu framtíð sem bíður þín. Þá geturðu hlakkað til þess dags þegar tilfinningaleg vanlíðan er á bak og burt! — Sálmur 37:29.
[Neðanmáls]
a Þeir sem eiga í baráttu við langvarandi eða alvarlegt þunglyndi gætu þurft að leita sér faglegrar aðstoðar. — Matteus 9:12.
b Finna má góða og raunhæfa biblíulestraráætlun í Varðturninum (á ensku) 1. ágúst 2009.
[Innskot á bls. 19]
„Ég þekki þjáningu hennar.“ — 2. MÓSEBÓK 3:7, 8.
[Innskot á bls. 20]
„Þegar áhyggjur þjaka mig hressir huggun þín sál mína.“ — SÁLMUR 94:19.
[Innskot á bls. 21]
„Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar.“ — FILIPPÍBRÉFIÐ 4:7.
[Rammi/mynd á bls. 20, 21]
Hughreystandi biblíuvers sem lýsa Jehóva Guði
„Drottinn er miskunnsamur og náðugur Guð, seinn til reiði, gæskuríkur og trúfastur.“ — 2. MÓSEBÓK 34:6.
„Augu Drottins skima um alla jörðina til þess að geta komið þeim til hjálpar sem eru heils hugar við hann.“ — 2. KRONÍKUBÓK 16:9.
„Drottinn er nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta, hann hjálpar þeim sem hafa sundurkraminn anda.“ — SÁLMUR 34:19.
„Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa.“ — SÁLMUR 86:5.
„Drottinn er öllum góður og miskunn hans hvílir yfir allri sköpun hans.“ — SÁLMUR 145:9.
„Ég, Drottinn, er Guð þinn, ég held í hægri hönd þína og segi við þig:,Óttast eigi, ég bjarga þér.‘“ — JESAJA 41:13.
„Lofaður sé . . . faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar.“ — 2. KORINTUBRÉF 1:3.
„Við . . . munum geta friðað hjörtu okkar frammi fyrir honum, hvað sem hjarta okkar kann að dæma okkur fyrir. Því að Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir allt.“ — 1. JÓHANNESARBRÉF 3:19, 20.
[Rammi/myndir á bls. 22]
Þau hafa betur í glímunni við tilfinningalega vanlíðan
„Faðir minn er alkóhólisti og hefur oft gert mér lífið leitt. Minnimáttarkennd hefur ásótt mig frá því að ég man eftir mér. En þegar ég þáði boð votta Jehóva um aðstoð við biblíunám komst ég að raun um að Guð hefur lofað eilífu lífi hér á jörð. Þetta loforð gladdi mig ósegjanlega. Ég vandi mig á að lesa í Biblíunni. Ég gæti þess að Biblían sé alltaf innan seilingar. Ef mér finnst tilfinningarnar vera að bera mig ofurliði teygi ég mig í Biblíuna og les uppörvandi vers. Þegar ég les um aðlaðandi eiginleika Guðs veit ég að honum þykir vænt um mig.“ — Kátia, 33 ára kona.c
„Ég var háður áfengi, maríjúana, kókaíni og krakki og ég sniffaði lím. Ég tapaði næstum aleigunni og fór að betla. En eftir að hafa kynnt mér Biblíuna með aðstoð votta Jehóva gerði ég róttækar breytingar á lífi mínu. Ég eignaðist náið samband við Guð. Þótt ég þurfi enn að glíma við sektarkennd og minnimáttarkennd hef ég lært að treysta á miskunn Guðs og ástúðlega umhyggju hans. Ég veit að Guð gefur mér áfram styrk og kraft til að hafa stjórn á þessum tilfinningum. Að kynnast sannleika Biblíunnar er það besta sem hefur hent mig.“ — Renato, 37 ára karlmaður.
„Frá því að ég var lítil stelpa hef ég borið mig saman við stóra bróður minn. Mér fannst ég alltaf vera eftirbátur hans. Enn þann dag í dag hef ég mjög lítið sjálfstraust og efast um getu mína. En ég er ákveðin í að gefast ekki upp. Ég bið án afláts til Jehóva og hann hefur hjálpað mér að sigrast á minnimáttarkenndinni. Það styrkir mig að vita að Guð elskar mig og hjálpar mér.“ — Roberta, 45 ára kona.
[Neðanmáls]
c Sumum nöfnum er breytt.