Blessun af hendi konungsins sem Guð leiðir með anda sínum
„Andi Drottins mun hvíla yfir honum.“ — JES. 11:2.
1. Hvernig hafa sumir lýst áhyggjum sínum af vandamálunum í heiminum?
„HVERNIG getur mannkynið lifað af næstu 100 ár í heimi þar sem stjórnmál, þjóðfélagsmál og umhverfismál eru í upplausn?“ Stjarneðlisfræðingurinn Stephen Hawking varpaði þessari spurningu fram árið 2006. Í grein í tímaritinu New Statesman stóð: „Við höfum hvorki útrýmt fátækt né komið á friði í heiminum. Við virðumst þvert á móti hafa gert hið gagnstæða. Það er ekki eins og við höfum ekki reynt. Við höfum reynt allt frá kommúnisma til frjáls markaðsbúskapar, frá Þjóðabandalaginu til ógnarjafnvægis. Við höfum háð svo mörg ,stríð til að binda enda á stríð‘ að við trúum ekki lengur að við getum bundið enda á stríð.“
2. Hvernig mun Jehóva bráðlega beita réttmætu drottinvaldi sínu yfir jörðinni?
2 Það kemur þjónum Jehóva ekki á óvart að lesa fullyrðingar af þessu tagi. Í Biblíunni kemur fram að mennirnir hafi ekki verið skapaðir til að stjórna sér sjálfir. (Jer. 10:23) Jehóva einn er réttmætur Drottinn alheims. Sem slíkur hefur hann þann rétt að setja okkur reglur, að skilgreina hvaða tilgangi líf okkar eigi að þjóna og vísa okkur veginn þannig að þeim tilgangi sé náð. Og bráðlega beitir hann valdi sínu til að binda enda á misheppnaðar tilraunir manna til að ráða sér sjálfir. Þá útrýmir hann líka öllum sem hafna réttmætu drottinvaldi hans og vilja halda mönnunum áfram í þrælkun syndar og ófullkomleika og í ánauð ,guðs þessarar aldar‘, Satans djöfulsins. — 2. Kor. 4:4.
3. Hverju spáði Jesaja um Messías?
3 Í paradís nýja heimsins birtir Jehóva mannkyni drottinvald sitt á kærleiksríkan hátt fyrir atbeina Messíasarríkisins. (Dan. 7:13, 14) Jesaja spáði um konung þess: „Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og sproti vaxa af rótum hans. Andi Drottins mun hvíla yfir honum: andi speki og skilnings, andi visku og máttar, andi þekkingar og guðsótta.“ (Jes. 11:1, 2) Hvernig hefur Jehóva beitt heilögum anda sínum til að gera ,kvistinn af stofni Ísaí‘ — Jesú Krist — hæfan til að stjórna mannkyni? Hvaða blessun hefur stjórn hans í för með sér? Og hvað þurfum við að gera til að hljóta þessa blessun?
Guð gerði hann hæfan til að stjórna
4-6. Hvaða þekking gerir Jesú kleift að vera vitur og umhyggjusamur konungur, æðstiprestur og dómari?
4 Jehóva vill að þegnar sínir á jörð verði fullkomnir undir handleiðslu konungs, æðstaprests og dómara sem er bæði vitur og umhyggjusamur. Þess vegna valdi hann Jesú Krist og gerði hann hæfan með heilögum anda sínum til að gegna þessum miklu ábyrgðarstörfum. Lítum á nokkrar ástæður fyrir því að Jesús á eftir að gera þeim hlutverkum, sem Jehóva hefur falið honum, fullkomin skil.
5 Enginn þekkir Guð betur en Jesús. Einkasonur Guðs hefur þekkt föðurinn lengur en nokkur annar, sennilega í milljarða ára. Á þessum langa tíma kynntist Jesús Jehóva svo náið að hægt var að kalla hann „ímynd hins ósýnilega Guðs“. (Kól. 1:15) „Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn,“ sagði hann. — Jóh. 14:9.
6 Að Jehóva undanskildum þekkir Jesús sköpunarverkið, þar á meðal mannkynið, betur en nokkur annar. Í Kólossubréfinu 1:16, 17 segir: „Enda var allt skapað í honum [syni Guðs] í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega . . . Hann er fyrri en allt og allt á tilveru sína í honum.“ Hugsaðu þér. Jesús var „með í ráðum“ við hlið Guðs þegar hann skapaði alla aðra hluti. Þess vegna þekkir hann allan alheiminn til hlítar, allt frá smæstu öreindum til hins undraverða mannsheila. Já, Kristur er persónugervingur spekinnar. — Orðskv. 8:12, 22, 30, 31.
7, 8. Hvernig studdi andi Guðs Jesú meðan hann þjónaði á jörð?
7 Jesús var smurður með heilögum anda Guðs. „Andi Drottins er yfir mér,“ sagði Jesús, „af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.“ (Lúk. 4:18, 19) Þegar Jesús lét skírast virðist heilagur andi hafa vakið hann til vitundar um fortilveru hans, þar á meðal það sem Guð vildi að hann gerði meðan hann þjónaði sem Messías hér á jörð. — Lestu Jesaja 42:1; Lúkas 3:21, 22; Jóhannes 12:50.
8 Þar eð heilagur andi var yfir Jesú og hann var fullkominn á huga og líkama var hann ekki aðeins mesta mikilmenni sem verið hefur á jörð heldur einnig mesti kennarinn. Áheyrendur hans voru ,djúpt snortnir af orðum hans‘. (Matt. 7:28) Ein ástæðan var sú að hann gat fjallað um undirrótina að vandamálum mannkyns — synd, ófullkomleika og fáfræði um Guð. Hann sá einnig hvernig fólk var innst inni og gat komið fram við það samkvæmt því. — Matt. 9:4; Jóh. 1:47.
9. Hvernig styrkist traust þitt á Jesú sem stjórnanda þegar þú skoðar þjónustu hans á jörð?
9 Jesús bjó sem maður á jörð. Reynsla hans af því að vera maður og umgangast náið ófullkomið fólk átti drjúgan þátt í því að gera hann að hæfum konungi. Páll postuli skrifaði: „Í öllum greinum átti [Jesús] að verða líkur systkinum sínum svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði og gæti friðþægt fyrir syndir lýðsins. Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim er verða fyrir freistingu.“ (Hebr. 2:17, 18) Þar sem Jesú var freistað getur hann sett sig í spor þeirra sem eiga við freistingar og prófraunir að etja. Umhyggja hans sýndi sig greinilega meðan hann þjónaði á jörð. Sjúkir, fatlaðir, kúgaðir og meira að segja börnin leituðu óhikað til hans. (Mark. 5:22-24, 38-42; 10:14-16) Þeir sem voru auðmjúkir og hungraði eftir þekkingu á Guði löðuðust einnig að honum. Hinir stoltu og hrokafullu, svo og þeir sem,höfðu ekki í sér kærleika til Guðs‘, höfnuðu honum hins vegar. Þeir hötuðu hann og beittu sér gegn honum. — Jóh. 5:40-42; 11:47-53.
10. Hvernig sannaði Jesús kærleika sinn til okkar?
10 Jesús gaf líf sitt fyrir okkur. Einhver besta sönnunin fyrir því að Jesús sé hæfur stjórnandi er að hann var fús til að deyja fyrir okkur. (Lestu Sálm 40:7-11.) „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína,“ sagði Jesús. (Jóh. 15:13) Ólíkt ófullkomnum leiðtogum meðal manna, sem lifa oft í munaði á kostnað þegnanna, gaf Jesús líf sitt fyrir mannkynið. — Matt. 20:28.
Gefið umboð til að beita lausnargjaldinu
11. Af hverju getum við treyst algerlega á Jesú sem lausnara okkar?
11 Það á vel við að Jesús skuli sem æðstiprestur hafa forystu um að beita lausnargjaldinu í okkar þágu. Meðan hann þjónaði á jörð gaf hann meira að segja forsmekk af því sem hann á eftir að gera sem lausnari í þúsundáraríkinu fyrir þá sem eru honum trúir. Hann læknaði sjúka og fatlaða, reisti upp dána, mettaði mannfjölda og stjórnaði jafnvel náttúruöflunum. (Matt. 8:26; 14:14-21; Lúk. 7:14, 15) Og hann gerði þetta ekki til að flíka valdi sínu og mætti heldur til að sýna umhyggju sína og kærleika. „Ég vil,“ sagði hann við holdsveikan mann sem sárbændi hann um að lækna sig. (Mark. 1:40, 41) Jesús mun sýna sömu umhyggjuna í þúsundáraríkinu — og þá fá allir jarðarbúar að njóta hennar.
12. Hvernig rætist Jesaja 11:9?
12 Kristur og meðstjórnendur hans munu sömuleiðis halda áfram því fræðslustarfi sem hófst fyrir næstum 2000 árum. Þá rætist spádómurinn í Jesaja 11:9: „Allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið.“ Fræðslan frá Guði felur áreiðanlega í sér leiðbeiningar um það hvernig eigi að annast jörðina og dýrin í allri sinni fjölbreytni, verkefnið sem Adam fékk endur fyrir löngu. Þegar þúsund árunum lýkur hefur fyrirætlun Guðs, sem er lýst í 1. Mósebók 1:28, náð fram að ganga og lausnarfórnin hefur verið nýtt að fullu.
Gefið umboð til að dæma
13. Hvernig sýndi Jesús réttlætisást sína?
13 Kristur er „sá sem Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra“. (Post. 10:42) Það er því einkar hughreystandi til þess að vita að það skuli ekki vera hægt að spilla Jesú, að réttlætið og trúfestin séu eins og belti um lendar hans. (Jes. 11:5) Hann sýndi að hann hataði ágirnd, hræsni og aðra vonsku og ávítaði þá sem voru tilfinningalausir gagnvart þjáningum annarra. (Matt. 23:1-8, 25-28; Mark. 3:5) Jesús lét ekki heldur blekkjast af ytra útliti því að „hann vissi sjálfur hvað í manni býr“. — Jóh. 2:25.
14. Hvernig sýnir Jesús réttlætisást sína núna og hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?
14 Jesús sýnir enn þá réttlætisást sína með því að stjórna mesta boðunar- og fræðsluátaki í sögu mannkyns. Enginn maður, engin mannleg stjórnvöld og enginn illur andi getur komið í veg fyrir að þetta fræðsluátak nái þeim árangri sem Guð ætlast til. Við getum því treyst fullkomlega að réttlæti Guðs hafi náð fram að ganga þegar Harmagedón er yfirstaðið. (Lestu Jesaja 11:4; Matteus 16:27.) Spyrðu þig hvort þú sjáir fólk sömu augum og Jesús þegar þú ert í boðunarstarfinu. Gefurðu Jehóva það besta sem þú getur, jafnvel þó að heilsa og aðrar aðstæður takmarki hvað þú getur gert?
15. Hvað getur hjálpað okkur að gefa Jehóva það besta sem við getum?
15 Ef við höfum í huga að boðunastarfið er starf Guðs hjálpar það okkur að þjóna honum af allri sálu. Það var hann sem gaf fyrirmæli um þetta starf, hann stjórnar því fyrir milligöngu sonar síns og með heilögum anda sínum gefur hann kraft þeim sem taka þátt í því. Er þér ljóst hvílíkur heiður það er að vera samverkamaður Guðs ásamt syni hans sem hann leiðbeinir með anda sínum? Enginn nema Jehóva gæti fengið meira en sjö milljónir manna sem eru flestir álitnir „óbrotnir alþýðumenn“ til að boða fagnaðarboðskapinn í 236 löndum. — Post. 4:13.
Aflaðu þér blessunar fyrir atbeina Krists
16. Hvað má sjá af 1. Mósebók 22:18 varðandi blessun Guðs?
16 Jehóva sagði við Abraham: „Allar þjóðir heims munu blessun hljóta af niðjum þínum vegna þess að þú hlýðnaðist raust minni.“ (1. Mós. 22:18) Af þessum orðum má sjá að þeir sem eru þakklátir Guði geti treyst á blessunina sem niðji Abrahams veitir, það er að segja Messías. Og þeir hafa þessa blessun í huga þegar þeir þjóna honum af kappi.
17, 18. Hvaða loforð Jehóva er að finna í 5. Mósebók 28:2 og hvað þýðir það fyrir okkur?
17 Guð sagði einu sinni við Ísraelsmenn sem voru bókstaflegir niðjar Abrahams: „Þá munu allar þessar blessanir [sem voru tilteknar í lagasáttmálanum] koma fram við þig og rætast á þér ef þú hlýðir boði Drottins, Guðs þíns.“ (5. Mós. 28:2) Hið sama mætti segja við þjóna Guðs nú á dögum. Ef þig langar til að hljóta blessun Jehóva skaltu ,hlýða boði hans‘. Þá mun blessun hans „koma fram við þig og rætast á þér“. En hvað er fólgið í því að hlýða boði Guðs?
18 Að hlýða felur auðvitað í sér að hlusta á og hugleiða alvarlega það sem segir í Biblíunni og meðtaka andlegu fæðuna sem Jehóva lætur í té. (Matt. 24:45) Við þurfum einnig að hlýða syni hans. Jesús sagði: „Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.“ (Matt. 7:21) Og að hlýða Guði merkir að fylgja fúslega fyrirkomulagi hans en þar gegna kristni söfnuðurinn og safnaðaröldungarnir, sem hann hefur gefið, mikilvægu hlutverki. — Ef. 4:8.
19. Hvað getum við gert til að eiga blessun í vændum?
19 Þeir sem sitja í hinu stjórnandi ráði eru gjöf frá Guði og þeir eru fulltrúar kristna safnaðarins í heild. (Post. 15:2, 6) Afstaða okkar til andlegra bræðra Krists hefur veruleg áhrif á það hvaða dóm við hljótum í þrengingunni miklu. (Matt. 25:34-40) Ein leið til að hljóta blessun er því sú að styðja andasmurða þjóna Guðs með ráðum og dáð.
20. (a) Hvert er helsta hlutverk umsjónarmannanna sem Jehóva hefur gefið? (b) Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta þessa bræður?
20 Þeir sem sitja í deildarnefndum, farandumsjónarmenn og safnaðaröldungar eru allir gjafir frá Guði, og þeir eru skipaðir af heilögum anda. (Post. 20:28) Það er eitt meginverkefni þessara bræðra að byggja upp þjóna Guðs „þangað til við verðum öll einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar“. (Ef. 4:13) Þessir umsjónarmenn eru auðvitað ófullkomnir eins og við öll. Við öflum okkur hins vegar blessunar með því að fylgja fúslega kærleiksríkri leiðsögn þeirra. — Hebr. 13:7, 17.
21. Af hverju er áríðandi fyrir okkur að hlýða syni Guðs?
21 Bráðlega lætur Kristur til skarar skríða gegn illum heimi Satans. Þegar það gerist verður líf okkar í höndum Jesú því að hann hefur fengið umboð frá Guði til að leiða ,múginn mikla‘ til „vatnslinda lífsins“. (Opinb. 7:9, 16, 17) Við skulum því gera okkar ýtrasta núna til að fylgja fúslega og með þakklæti konunginum sem Jehóva leiðbeinir með anda sínum.
Hvað lærðir þú af . . .
[Mynd á bls. 17]
Umhyggja Jesú var greinileg þegar hann reisti dóttur Jaírusar upp frá dauðum.
[Myndir á bls. 18]
Jesús Kristur stjórnar mesta boðunarátaki í sögu mannkyns.