Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w12 15.1. bls. 16-20
  • Lærum af skýrum stöfum sannleikans

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Lærum af skýrum stöfum sannleikans
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2012
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • LÖGMÁLIÐ GAF MYND AF FÓRN JESÚ
  • HUGURINN AÐ BAKI FÓRNUNUM
  • FÓRNIR SEM GUÐ ÞÁÐI EKKI
  • TRÚÐU Á FÓRN JESÚ
  • Lofgerðarfórnir sem eru Guði þóknanlegar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2000
  • Ætlar þú að færa fórnir fyrir ríki Guðs?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
  • Fórnir sem voru Guði þóknanlegar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2000
  • Færum Jehóva fórnir af heilum huga
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2012
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2012
w12 15.1. bls. 16-20

Lærum af skýrum stöfum sannleikans

„Þú [hefur] þekkinguna og sannleikann skýrum stöfum í lögmálinu.“ – RÓMV. 2:20.

LEITAÐU SVARA VIÐ EFTIRFARANDI SPURNINGUM:

Hvað táknuðu fórnirnar sem kveðið var á um í Móselögunum?

Hvað er hliðstætt með sumum fórnum Ísraelsmanna og fórnum kristinna manna nú á tímum?

Hvað ræður því hvort fórn er Guði þóknanleg eða ekki?

1. Af hverju ættum við að hafa áhuga á að skilja þýðingu Móselaganna?

VIÐ myndum eiga erfitt með að skilja þýðingu margs í lögmáli Móse ef við hefðum ekki innblásin rit Páls postula. Hann nefnir til dæmis í Hebreabréfinu að Jesús hafi verið „trúr æðsti prestur“ og skýrir hvernig hann gat sem slíkur „friðþægt fyrir syndir“ og aflað „eilífrar lausnar“ þeim sem trúðu. (Hebr. 2:17; 9:11, 12) Páll bendir á að tjaldbúðin hafi einungis verið „skuggi“ þess sem var á himnum og að Jesús hafi miðlað „betri sáttmála“ en Móse. (Hebr. 7:22; 8:1-5) Þessar skýringar á lögmálinu voru verðmætar fyrir kristna menn á dögum Páls og eru enn. Þær varpa skýrara ljósi á allt sem Guð hefur gert fyrir okkur.

2. Hvað höfðu kristnir Gyðingar fram yfir fólk af öðrum þjóðum?

2 Þegar Páll skrifaði söfnuðinum í Róm beindi hann máli sínu að nokkru leyti til kristinna manna sem voru Gyðingar að ætt og uppruna og höfðu verið fræddir í Móselögunum. Hann nefnir að þar sem þeir þekki lögmál Guðs hafi þeir það fram yfir aðra að þekkja sannleikann um Jehóva og réttlátar meginreglur hans. Þeir skildu undirstöðuatriði lögmálsins sem Jehóva hafði gefið þjóð sinni og báru virðingu fyrir þeim. Sökum þessa voru þeir í svipaðri stöðu og trúir Gyðingar fyrri tíma. Þeir gátu leiðbeint, kennt og upplýst þá sem þekktu ekki lögmálið. – Lestu Rómverjabréfið 2:17-20.

LÖGMÁLIÐ GAF MYND AF FÓRN JESÚ

3. Af hverju er gagnlegt að kynna sér ákvæði Móselaganna um fórnir?

3 Undirstöðuatriði lögmálsins, sem Páll talaði um, hjálpa okkur enn þann dag í dag að skilja fyrirætlun Jehóva. Meginreglurnar að baki Móselögunum eru enn í fullu gildi. Við skulum því líta á einn þátt lögmálsins, það er að segja hvernig hinar ýmsu fórnir bentu auðmjúkum Gyðingum á Krist og sýndu þeim fram á til hvers Guð ætlaðist af þeim. Og þar sem Jehóva gerir í meginatriðum sömu kröfur til þjóna sinna núna og hann gerði á þeim tíma getum við tekið mið af ákvæðum Móselaganna um fórnir til að meta hve vel við þjónum honum. – Mal. 3:6.

4, 5. (a) Á hvað voru Gyðingar minntir í Móselögunum? (b) Á hvað minntu ákvæði lögmálsins um fórnir?

4 Það hefur varla farið fram hjá nokkrum Gyðingi til forna að mörg ákvæði Móselaganna bentu á að þeir væru syndugir. Ef maður snerti lík þurfti hann til dæmis að hreinsa sig. Það var gert þannig að færð var lýtalaus rauð kýr að brennifórn og úr öskunni var gert ,syndahreinsunarvatn‘. Á þriðja og sjöunda degi eftir að maðurinn hafði orðið óhreinn átti að stökkva vatninu á hann. (4. Mós. 19:1-13) Til að minna Gyðinga á að allir fæddust syndugir og ófullkomnir var kona talin óhrein um tíma eftir að hún ól barn en síðan átti hún að færa friðþægingarfórn. – 3. Mós. 12:1-8.

5 Gyðingar þurftu að færa dýrafórnir af ýmsum öðrum ástæðum til að friðþægja fyrir syndir. Hvort sem þeir gerðu sér það ljóst eða ekki voru þessar fórnir ,skuggi‘ hinnar fullkomnu fórnar Jesú. Hið sama er að segja um þær fórnir sem færðar voru síðar meir í musteri Jehóva. – Hebr. 10:1-10.

HUGURINN AÐ BAKI FÓRNUNUM

6, 7. (a) Hvað þurftu Ísraelsmenn að hafa í huga þegar þeir færðu fórnir? Hvað táknuðu ákvæði lögmálsins um fórnir? (b) Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?

6 Það var meginatriði samkvæmt lögmálinu að dýr, sem fært var Jehóva að fórn, væri „lýtalaust“ að öllu leyti. Það mátti ekki vera blint, beinbrotið, sært eða sjúkt. (3. Mós. 22:20-22) Þegar Ísraelsmenn fórnuðu Jehóva ávöxtum eða korni átti það að vera „það besta“ sem jörðin gaf af sér. (4. Mós. 18:12, 29) Jehóva hafði ekki velþóknun á annars flokks fórnum. Ákvæði lögmálsins um dýrafórnir táknuðu að fórn Jesú yrði lýtalaus og óflekkuð. Jehóva ætlaði að fórna því besta sem hann átti og því sem var honum kærast til að leysa mannkyn úr fjötrum syndar og dauða. – 1. Pét. 1:18, 19.

7 Ef sá sem færði fórn var Jehóva innilega þakklátur fyrir alla gæsku hans fórnaði hann eflaust því besta sem hann átti. Gæði fórnarinnar voru undir hverjum og einum komin. Menn vissu hins vegar að Guð hafði ekki velþóknun á annars flokks fórn. Ef fórnin var ekki fyrsta flokks var það merki þess að menn litu á fórnirnar sem hreint formsatriði eða jafnvel byrði. (Lestu Malakí 1:6-8, 13.) Með hliðsjón af þessu ættum við að velta fyrir okkur hvernig við þjónum Jehóva. Með hvaða hugarfari gerum við það? Gerum við okkar allra besta í þjónustu hans?

8, 9. Hvernig ætli Ísraelsmenn hafi litið á fórnirnar sem þeir færðu?

8 Ísraelsmaður gat sýnt Jehóva þakklæti sitt með því að færa honum sjálfviljafórn. Eins gat hann leitað eftir velþóknun Guðs með því að færa brennifórn. Í slíkum tilvikum vafðist varla fyrir honum að velja réttu skepnuna til að fórna. Hann var meira en fús til að gefa Jehóva það besta sem hann átti. Við þurfum ekki að færa þær fórnir sem kveðið var á um í Móselögunum en við færum engu að síður fórnir. Við fórnum tíma okkar, kröftum og efnislegum eigum í þjónustu Jehóva. Páll postuli talaði um að við færðum Jehóva „lofgjörðarfórn“ með því að segja frá nafni hans og eins að við mættum ekki gleyma „velgjörðaseminni og hjálpseminni“. Hann sagði að slíkar fórnir væru „Guði þóknanlegar“. (Hebr. 13:15, 16) Erum við innilega þakklát fyrir það sem Jehóva hefur gefið okkur? Þá sýnum við það með því að þjóna honum fúslega. Við þurfum því að skoða vel hvað okkur finnst um að þjóna Jehóva og færa honum fórnir, ekki síður en Ísraelsmenn þurftu að gera þegar þeir færðu honum fórnir forðum daga.

9 Ef Ísraelsmaður syndgaði á einhvern hátt var hann stundum skyldugur samkvæmt Móselögunum til að færa synda- eða sektarfórn. Heldurðu að fólki hafi þótt erfitt að færa fórnir af þessu tagi af því að það var skyldukvöð? Ætli sumir hafi borið þær fram með ólund? (3. Mós. 4:27, 28) Varla ef þeim var mikið í mun að viðhalda góðu sambandi við Jehóva.

10. Hvaða „fórnir“ gætum við þurft að færa ef okkur hefur orðið eitthvað á?

10 Það gæti hent okkur að móðga trúsystkini, annaðhvort óafvitandi eða í hugsunarleysi. Samviskan segir okkur kannski að við höfum gert eitthvað rangt. Sá sem vill umfram allt þóknast Jehóva reynir auðvitað að bæta fyrir mistök sín eftir fremsta megni. Hann gæti þurft að biðjast innilega afsökunar ef hann hefur móðgað einhvern eða leita aðstoðar safnaðaröldunganna ef hann hefur gert sig sekan um alvarlega synd. (Matt. 5:23, 24; Jak. 5:14, 15) Það kostar okkur eitthvað að bæta fyrir synd gegn náunganum eða gegn Guði. En þegar við færum slíkar „fórnir“ bætum við sambandið við Jehóva og trúsystkini okkar, og samviskan verður hrein. Af þessu má sjá að Jehóva veit hvað er okkur fyrir bestu.

11, 12. (a) Hvers eðlis voru heillafórnirnar? (b) Hvaða samsvörun er milli heillafórna lögmálsins og hreinnar tilbeiðslu nú á tímum?

11 Í Móselögunum voru einnig ákvæði um svokallaðar heillafórnir. Þær voru tákn um frið við Jehóva. Sá sem færði fórnina og fjölskylda hans átu hluta af fórnardýrinu, ef til vill í einni af matstofum musterisins. Presturinn, sem fórnaði dýrinu, fékk hluta af kjötinu og sömuleiðis hinir prestarnir sem þjónuðu í musterinu. (3. Mós. 3:1, 7:31-33) Þeir sem færðu slíkar fórnir gerðu það einfaldlega vegna þess að þeir þráðu að eiga gott samband við Jehóva. Það var eins og fjölskyldan, prestarnir og Jehóva neyttu saman ánægjulegrar máltíðar í friði og einingu.

12 Var hægt að hugsa sér meiri heiður en þann að mega bjóða Jehóva með táknrænum hætti til máltíðar? Og hvílíkur heiður að hann skyldi þiggja boðið! Gestgjafinn vildi auðvitað bjóða slíkum heiðursgesti það allra besta. Ákvæðin um heillafórnir voru hluti af sannleiksorðum lögmálsins og sýndu fram á að allir sem þrá að eiga frið við skaparann eiga þess kost vegna hinnar miklu fórnar Jesú. Við getum átt vináttu Jehóva ef við bjóðum fúslega fram eigur okkar og krafta í þjónustu hans.

FÓRNIR SEM GUÐ ÞÁÐI EKKI

13, 14. Af hverju hafði Jehóva ekki velþóknun á fórninni sem Sál konungur ætlaði að færa?

13 Til að Jehóva tæki við fórnum Ísraelsmanna þurftu þeir auðvitað að færa þær með réttu hugarfari. Í Biblíunni eru hins vegar nefnd dæmi um fórnir sem Guð hafði ekki velþóknun á. Af hverju tók hann ekki við þeim? Við skulum líta á tvö dæmi.

14 Samúel spámaður sagði Sál konungi að tímabært væri að fullnægja dómi Guðs yfir Amalekítum. Sál átti að útrýma þessari óvinaþjóð ásamt búpeningi. En þegar orustan var afstaðin leyfði Sál hermönnum sínum að þyrma Agag, konungi Amalekíta. Hann þyrmdi einnig bestu skepnunum og kvaðst ætla að færa þær Jehóva að fórn. (1. Sam. 15:2, 3, 21) Jehóva brást þannig við að hann hafnaði Sál vegna óhlýðni hans. (Lestu 1. Samúelsbók 15:22, 23.) Hvaða lærdóm má draga af því? Að Guð þiggi ekki fórnir okkar nema við hlýðum boðum hans.

15. Hvað gerðu sumir Ísraelsmenn á dögum Jesaja?

15 Hliðstætt dæmi er að finna í Jesajabók. Þó að Ísraelsmenn færðu fórnir á dögum Jesaja höfðu þær ekkert gildi fyrir Jehóva. Þeir gerðu margt illt þannig að fórnir þeirra voru einskis virði. „Hvað varða mig yðar mörgu sláturfórnir?“ spurði Jehóva. „Ég hef fengið of mikið af brennifórnum hrúta og feiti alikálfa, í blóð úr nautum, lömbum og geitum langar mig ekki . . . Færið mér ekki framar fánýtar kornfórnir, reykelsi er mér viðurstyggð.“ Hver var ástæðan? Jehóva sagði við þá: „Þótt þér biðjið margra bæna heyri ég ekki. Hendur yðar eru ataðar blóði. Þvoið yður! Hreinsið yður! Fjarlægið illvirki yðar frá augum mínum. Hættið að gera illt.“ – Jes. 1:11-16.

16. Hvað ræður því hvort Guð hefur velþóknun á fórnum okkar?

16 Jehóva hafði ekki þóknun á fórnum syndara sem iðruðust einskis. Hann hafði hins vegar velþóknun á bænum og fórnum þeirra sem lögðu sig fram um að lifa eftir boðum hans. Sannleiksorð lögmálsins kenndu þeim að þeir væru syndugir og þyrftu á fyrirgefningu að halda. (Gal. 3:19) Þegar Ísraelsmenn skildu það iðruðust þeir sárlega synda sinna. Við þurfum líka að hafa hugfast að það er aðeins vegna fórnar Krists sem Jehóva getur fyrirgefið syndir okkar. Jehóva hefur þóknun á öllu sem við gerum í þjónustu hans ef við skiljum hvaða þýðingu fórn Krists hefur fyrir okkur og erum innilega þakklát fyrir hana. – Lestu Sálm 51:19, 21.

TRÚÐU Á FÓRN JESÚ

17-19. (a) Hvernig getum við sýnt Jehóva þakklæti okkar fyrir lausnarfórn Jesú? (b) Um hvað er fjallað í næstu grein?

17 Ísraelsmenn sáu aðeins „skugga“ af fyrirætlun Guðs. Við sjáum hins vegar skýra mynd hennar. (Hebr. 10:1) Lögin um fórnir sýndu Gyðingum fram á hvað þeir þyrftu að gera til að eiga gott samband við Guð. Þeir þurftu að vera þakklátir, langa til að gefa honum það besta og skilja að það þyrfti að greiða lausnargjald til að þeir gætu hlotið fyrirgefningu. Grísku ritningarnar skýra fyrir okkur hvernig lausnargjaldið verður til þess að Jehóva gerir afleiðingar syndarinnar að engu í eitt skipti fyrir öll. Og það er lausnargjaldinu að þakka að við getum haft góða samvisku frammi fyrir honum núna. Lausnarfórn Jesú er ákaflega verðmæt gjöf frá Guði. – Gal. 3:13; Hebr. 9:9, 14.

18 Til að njóta góðs af lausnarfórninni er auðvitað ekki nóg að vita bara af henni og skilja hvað sé fólgið í henni. „Lögmálið [hefur] orðið tyftari okkar þangað til Kristur kom til þess að við réttlættumst af trú,“ skrifaði Páll postuli. (Gal. 3:24) Og trúin þarf að sýna sig í verkum. (Jak. 2:26) Páll hvatti kristna menn á fyrstu öld, sem þekktu Móselögin, til að láta þekkinguna birtast í verkum sínum. Þá myndu þeir breyta í samræmi við sannleikann sem þeir kenndu öðrum. – Lestu Rómverjabréfið 2:21-23.

19 Þó að kristnir menn þurfi ekki að halda Móselögin þurfa þeir engu að síður að færa fórnir sem Jehóva hefur velþóknun á. Fjallað er um þessar fórnir í næstu grein.

[Innskot á bls. 17]

Jehóva gerir í meginatriðum sömu kröfur til þjóna sinna á öllum tímum.

[Mynd á bls. 18]

Hvora skepnuna hefðirðu fært Jehóva að fórn?

[Mynd á bls. 19]

Jehóva blessar okkur ef við færum honum fórnir sem hann hefur velþóknun á.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila