Hver er ástæðan fyrir því að sá sem heyrir bænir leyfir þjáningar?
MARGIR efast um tilvist Guðs jafnvel þótt þeir biðji bæna. Hvers vegna efast fólk? Kannski vegna þess að það er svo mikið um þjáningar í heiminum. Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér hvers vegna Guð leyfir þjáningar?
Skapaði Guð mennina ófullkomna og undirlagða þjáningum eins og þeir eru í dag? Það væri harla erfitt að bera virðingu fyrir Guði ef hann ætlaðist til að mennirnir þjáðust. Hugleiddu þetta: Ef þú værir að skoða nýjan bíl en sæir svo að hann væri skemmdur á annarri hliðinni, myndirðu þá gera ráð fyrir að framleiðandinn hefði gert hann svona? Auðvitað ekki. Þú myndir álykta að framleiðandinn hefði gert bílinn „fullkominn“ en að eitthvað annað hefði valdið skemmdunum.
Hvaða ályktun drögum við þegar við dáumst að hinu stórkostlega skipulagi og þeirri hönnun sem er í náttúrunni en tökum svo eftir upplausninni og spillingunni sem hrjáir mannkynið? Biblían kennir að Guð hafi skapað fyrstu hjónin fullkomin en að þau hafi síðar valdið sjálfum sér skaða. (5. Mósebók 32:4, 5) Það er hughreystandi að vita að Guð hefur sjálfur lofað að lagfæra skaðann með því að veita hlýðnum mönnum fullkomleika á ný. En hvers vegna hefur hann beðið svona lengi með það?
Af hverju svona lengi?
Ástæðan er nátengd annarri spurningu: Hver á að stjórna mannkyninu? Jehóva hafði aldrei í hyggju að mennirnir myndu stjórna sér sjálfir. Hann átti að vera stjórnandi þeirra. Í Biblíunni segir: „Enginn maður ræður för sinni, enginn stýrir skrefum sínum á göngunni.“ (Jeremía 10:23) Því miður kusu fyrstu hjónin að gera uppreisn gegn stjórnarháttum Guðs. Lögmálsbrot þeirra gerði þau að syndurum. (1. Jóhannesarbréf 3:4) Þannig misstu þau fullkomleika sinn og ollu sjálfum sér og afkomendum sínum miklum skaða.
Í aldaraðir hefur Jehóva leyft mönnunum að stjórna sér sjálfir og sagan hefur sýnt að þeir hafa ekki getu til þess. Af mannkynssögunni sést glöggt að allar stjórnir manna hafa valdið fólki þjáningum. Engri þeirra hefur tekist að útrýma glæpum, óréttlæti, sjúkdómum eða stríðum.
Hvernig mun Guð bæta skaðann?
Biblían lofar að Guð komi brátt á fót nýjum réttlátum heimi. (2. Pétursbréf 3:13) Aðeins þeir sem nota frjálsan vilja sinn til að sýna bæði Guði og öðru fólki kærleika munu fá að lifa þar. – 5. Mósebók 30:15, 16, 19, 20.
Biblían segir einnig að áður en langt um líður renni upp sá dagur að Guð bindi enda á allar þjáningar og tortími mönnunum sem valda þeim. (2. Pétursbréf 3:7) Síðan mun Jesús Kristur, sem Guð hefur skipað stjórnanda, ríkja yfir hlýðnu mannkyni. (Daníel 7:13, 14) Hverju kemur stjórn Jesú til leiðar? Í Biblíunni segir: „Hinir hógværu fá landið til eignar og gleðjast yfir miklu gengi.“ – Sálmur 37:11.
Sem konungur á himnum mun Jesús lagfæra það sem miður fór þegar fyrstu hjónin gerðu uppreisn gegn Jehóva, ,uppsprettu lífsins‘. (Sálmur 36:10) Þá verður enginn veikur eða aldraður og dauðinn verður ekki lengur til. Jesús læknar alla þá sem beygja sig undir kærleiksríka stjórn hans. Í stjórnartíð hans rætast þessir biblíuspádómar:
◼ „Enginn borgarbúi mun segja:,Ég er veikur.‘ Syndir fólksins, sem þar býr, hafa verið fyrirgefnar.“ – Jesaja 33:24.
◼ „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ – Opinberunarbókin 21:4.
Er ekki hughreystandi að vita að Guð muni bráðlega uppfylla loforð sín og binda enda á allar þjáningar manna? Við þurfum ekki að efast um að hann heyri bænir okkar jafnvel þótt hann leyfi þjáningar enn um sinn.
Guð er til og hann getur heyrt bænir þínar. Hann heyrir líka þegar þú talar við hann um erfiðleika þína og sorgir. Og hann þráir innilega að þú fáir að njóta lífsins í framtíðinni þegar allar efasemdir og þjáningar heyra sögunni til.