Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w19 mars bls. 29-31
  • Jehóva metur mikils að þú segir amen

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Jehóva metur mikils að þú segir amen
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2019
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „ALLT FÓLKIÐ SKAL SEGJA: AMEN“
  • FÓLKIÐ SAGÐI AMEN OG LOFAÐI JEHÓVA
  • HVERS VEGNA SKIPTIR MÁLI AÐ SEGJA AMEN?
  • Einstakt hlutverk Jesú í fyrirætlun Guðs
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2008
  • Styrktu tengslin við Guð með bæninni
    Hvað kennir Biblían?
  • Gerið óskir ykkar kunnar Guði
    Námsgreinar úr Varðturninum
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2019
w19 mars bls. 29-31
Bræður og systur lúta höfði í bæn.

Jehóva metur mikils að þú segir amen

JEHÓVA kann að meta tilbeiðslu okkar. Hann ,hlýðir með athygli‘ á þjóna sína og engin lofgerð fer fram hjá honum, sama hversu lítil hún er. (Mal. 3:16) Skoðum til dæmis orðið „amen“ sem við höfum líklega sagt ótal sinnum. Kann Jehóva að meta það þegar við segjum þetta einfalda orð? Já, hann gerir það sannarlega. Til að skilja hvers vegna hann metur það mikils skulum við skoða hvað orðið merkir og hvernig það er notað í Biblíunni.

„ALLT FÓLKIÐ SKAL SEGJA: AMEN“

Orðið „amen“ merkir „verði svo“ eða „vissulega“. Það er komið úr hebresku en stofnorðið merkir „að vera trúfastur“ eða „áreiðanlegur“. Stundum var það notað í dómsmálum. Þegar einstaklingur sór eið sagði hann amen til að staðfesta það sem hann sagði og játast undir afleiðingarnar. (4. Mós. 5:22) Með því að láta samþykki sitt í ljós á þennan hátt hafði hann enn sterkari hvöt til að halda eiðinn. – Neh. 5:13.

Áhrifamikið dæmi um notkun á orðinu „amen“ er skráð í 27. kafla 5. Mósebókar. Eftir að Ísraelsþjóðin kom inn í fyrirheitna landið átti hún að safnast saman á milli Ebalfjalls og Garísímfjalls til að hlusta á lögmálið lesið upp. Þjóðin átti ekki aðeins að hlusta á lesturinn heldur átti hún að lýsa því yfir að hún gengist undir ákvæði lögmálsins. Fólkið gerði það með því að segja amen eftir að hafa heyrt hvaða afleiðingar það hefði að óhlýðnast. (5. Mós. 27:15-26) Ímyndaðu þér hvernig það hefur verið að heyra mörg þúsund karla, konur og börn segja það háum rómi. (Jós. 8:30-35) Fólkið gleymdi örugglega aldrei því sem það sagði þennan dag og það stóð við orð sín. Í frásögunni segir: „Ísrael þjónaði Drottni á meðan Jósúa var á lífi og þeir öldungar sem lifðu Jósúa og þekktu öll þau máttarverk sem Drottinn hafði unnið fyrir Ísrael.“ – Jós. 24:31.

Jesús sagði líka amen til að staðfesta sannleiksgildi orða sinna. En hann gerði það á sérstakan hátt. Í stað þess að nota það til að svara sagði hann amen (þýtt „sannlega“) til að kynna ákveðinn sannleika. Stundum tvítók hann jafnvel orðið. (Matt. 5:18; Jóh. 1:51) Þannig lagði hann áherslu á það við áheyrendur sína að orð sín væru heilagur sannleikur. Jesús gat talað af slíkri vissu vegna þess að öll loforð Guðs áttu að rætast fyrir milligöngu hans. – 2. Kor. 1:20; Opinb. 3:14.

FÓLKIÐ SAGÐI AMEN OG LOFAÐI JEHÓVA

Ísraelsmenn sögðu líka amen þegar þeir báðu til Jehóva og lofuðu hann. (Neh. 8:6; Sálm. 41:14) Með því að segja amen í lok bænar var sá sem hlustaði á bænina að gera hana að sinni eigin. Þannig gátu allir tekið þátt í henni og notið þess að tilbiðja Jehóva með þessu móti. Sú var raunin þegar Davíð konungur flutti örk Jehóva til Jerúsalem. Á hátíðinni, sem var haldin af því tilefni, var hjartnæm bæn flutt í söng en hún er skráð í 1. Kroníkubók 16:8-36. Viðstaddir voru svo snortnir yfir bæninni að „allur lýðurinn sagði: ,Amen‘ og ,lof sé Drottni.‘“ Samtaka viðbrögð þeirra við bæninni juku gleði dagsins.

Kristnir menn á fyrstu öld sögðu einnig amen þegar þeir lofuðu Jehóva. Biblíuritarar nefndu orðið oft í bréfum sínum. (Rómv. 1:25, Biblían 1981; 16:27; 1. Pét. 4:11) Í Opinberunarbókinni kemur fram að jafnvel andaverur á himni lofa Jehóva og segja: „Amen, hallelúja!“ (Opinb. 19:1, 4) Frumkristnir menn voru vanir að segja amen í lok bæna sem fluttar voru á samkomum. (1. Kor. 14:16) En „amen“ var ekki orð sem þeir áttu að segja hugsunarlaust.

HVERS VEGNA SKIPTIR MÁLI AÐ SEGJA AMEN?

Eftir að hafa skoðað bakgrunn og sögu orðsins „amen“ getum við skilið hvers vegna það skiptir máli að ljúka bæn með því. Við sýnum að við meinum það sem við sögðum með því að ljúka bæn okkar á því að segja amen. Og þegar við hlustum á bæn, sem er flutt opinberlega, sýnum við að við erum sammála með því að segja amen, hvort sem við gerum það upphátt eða í hljóði. Skoðum fleiri ástæður fyrir því að það skiptir máli að segja amen.

Við fylgjumst með og tökum þátt í bæninni. Við tilbiðjum Jehóva á meðan bænin fer fram, bæði með því sem við segjum og gerum. Við viljum geta sagt amen af einlægni. Það er okkur hvöt til að hegða okkur á viðeigandi hátt og hafa hugann við bænina.

Við erum sameinuð í tilbeiðslunni. Á samkomum sameinast allur söfnuðurinn í að hlusta á sömu bænina. (Post. 1:14; 12:5) Þegar við segjum amen einum rómi með bræðrum okkar og systrum eflir það einingu okkar. Ef við segjum amen, hvort sem það er upphátt eða í hljóði, gefur það Jehóva enn ríkari ástæðu til að verða við bæninni.

Systir lýtur höfði í bæn þar sem hún hlustar á samkomu í gegnum síma.

Við lofum Jehóva með því að segja amen.

Við lofum Jehóva. Jehóva tekur eftir öllu sem við gerum í tilbeiðslu okkar. (Lúk. 21:2, 3) Hann sér hvaða hvatir búa að baki og hvað býr í hjarta okkar. Við getum verið viss um að Jehóva tekur eftir því þegar við segjum amen í auðmýkt, jafnvel þó að við þurfum að hlusta á samkomuna í gegnum síma. Þannig sameinumst við söfnuðinum í að lofa Jehóva.

Okkur finnst kannski ekki merkilegt þó að við segjum amen en það er alls ekki lítilvægt. Í biblíualfræðibók segir að „með þessu eina orði“ geti þjónar Guðs „tjáð traust, algert samþykki og sterka von sem býr í hjarta þeirra“. Megi það alltaf vera Jehóva þóknanlegt þegar við segjum amen. – Sálm. 19:15.

ER ALLTAF VIÐ HÆFI AÐ SEGJA AMEN?

„Amen“ er ekki léttvægt orð. En hvað eigum við að gera ef sá sem fer með bæn segir eitthvað vitlaust? Ættum við þá að sleppa því að segja amen? Ekki endilega. Jehóva veit að við segjum öll eitthvað rangt af og til og hann lítur fram hjá slíkum mistökum. Við þurfum því ekki að vera of gagnrýnin heldur getum við einblínt á hugmyndina að baki orðunum. Þá gæti okkur fundist í lagi að segja amen við bæninni.

Hins vegar viljum við ekki segja amen, hvorki upphátt né í hljóði, við bæn einhvers sem er ekki í trúnni. En hvað ef við erum viðstödd slíka bæn? Til dæmis gætum við verið viðstödd veraldlegan viðburð þar sem einhver er beðinn um að fara með bæn. Eða við erum í trúarlega skiptri fjölskyldu og húsbóndinn, sem er ekki í trúnni, ákveður að fara með bæn fyrir hönd fjölskyldunnar. Hvað ættum við þá að gera?

Við slíkar aðstæður getum við ákveðið að segja ekkert en þó sýna virðingu. Við myndum ekki segja amen eða haldast í hendur við þá sem eru að biðja því að þá gæfum við í skyn að við værum að taka þátt í bæninni. Við gætum kosið að fara með okkar eigin bæn í hljóði en ættum þá ekki að segja amen upphátt til að gefa hinum ekki tilefni til að ætla að við séum með í bæninni. Ef hópurinn stendur upp getum við sjálf ákveðið hvort við gerum það líka. Að standa á fætur eða lúta höfði er í sjálfu sér ekki tilbeiðsluathöfn. Hver og einn þjónn Jehóva þarf að ákveða hvað honum finnst eðlilegt að gera við slíkar aðstæður og enginn ætti að dæma hann fyrir ákvörðunina.

Aðstæðurnar, sem hér eru nefndar, sýna enn frekar hvers vegna það skiptir Jehóva máli hvort við segjum amen.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila