Vertu fjölhæfur í þjónustu þinni
1 Sagt hefur verið að fjölbreytni kryddi tilveruna. Oft verður viðfangsefni áhugaverðara nálgist menn það frá nýrri hlið. Þetta á ekkert síður við um þjónustu okkar. Séum við ekki á verði geta kynningarorð okkar hús úr húsi auðveldlega orðið föst í ákveðnu móti. Það getur orðið þreytandi bæði fyrir okkur og húsráðendurna séum við alltaf með sömu inngangsorðin á vörunum. Vertu því fjölhæfur í þjónustunni. En hvernig getur þú gert það?
2 Í stað þess að segja alltaf eitthvað á þessa leið, ‚Góðan daginn. Við tökum þátt í biblíulegu fræðslustarfi,‘ hví ekki reyna að breyta svolítið til? Rökræðubókin inniheldur gnægð upplýsinga um inngangsorð. Á blaðsíðu 9-15 eru inngangsorð um 18 mismunandi efni. Og það eru tvenn, þrenn eða fleiri möguleg inngangsorð fyrir flest viðfangsefnin.
3 Ef þú ert að nota bæklinginn „Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur?“ gætu þessi inngangsorð frá „Líf/Hamingja“ á blaðsíðu 13 verið gagnleg:
◼ „Við erum að tala við fólk sem hefur áhyggjur af lífsskilyrðum manna nú á tímum. Mörgum er spurn hvort líf við ósvikna hamingju sé mögulegt. Þessi bæklingur skoðar þetta frá uppörvandi sjónarhorni sem vekur fólk til umhugsunar um þessi mál.“ Opnaðu bæklinginn á blaðsíðu 25 og lestu eitt eða tvö atriði frá grein 15 og 16.
4 Síðasta tölublað Vaknið! getur reynst mjög hentugt verkfæri fyrir unga boðbera eða óreynda. Flestir boðberanna hafa þegar notað það í nokkrar vikur og þekkja innihaldið því vel.
Ungur boðberi gæti notað „Vaknið!“ og sagt:
◼ „Fólk segir oft að ‚börnin séu framtíðin,‘ en þó er víða í heiminum farið mjög illa með börn. Mig langar til að bjóða þér þetta blað með greininni ‚Gerðu það sem er best fyrir börnin þín.‘ Það kostar 20 krónur.“ Eldri boðberinn, sem starfar með þeim yngri, gæti síðan ákveðið hvort hann bæti einhverjum athugasemdum við, eftir því hver viðbrögð húsráðandans eru.
5 Ef húsráðandi sýnir áhuga gæti eldri boðberinn sagt:
◼ „Biblían veitir leiðbeiningar um hið rétta hlutverk eiginmannsins, eiginkonunnar og barnanna innan fjölskyldunnar. Þar sem Guð stofnsetti fjölskylduna ert þú þá ekki sammála því að hann sé í bestri aðstöðu til að segja okkur hvernig hún eigi að verka? Mætti ég heyra álit þitt á opinskáum leiðbeiningum Biblíunnar til fjölskyldumeðlimanna?“ Lestu síðan Efesusbréfið 5:22, 23, 28-31.
6 Ef þú ert að bjóða Sköpunarbókina gætir þú vakið athygli á Hebreabréfinu 3:4 (myndtexti á bls. 127) og síðan lesið valda ritningarstaði á bls. 238-9 í bókinni. Spyrðu húsráðandann hvort raunhæft sé að trúa því að Guð muni uppfylla þessi fyrirheit sem Biblían gefur og myndirnar lýsa. Stuttar samræður um biblíuspádóma, sem þegar hafa ræst, ættu að styrkja trú húsráðandans á hæfni Guðs til að færa mannkyninu þessar blessanir.
7 Allir boðberar Guðsríkis vilja eiga sem mestan og bestan þátt í að efla hagsmuni guðveldisins með því að gróðursetja sæði sannleikans hvar sem hægt er og hlúa að þeim áhuga sem fram kemur. Ef við höfum gert okkar hlut getum við með ánægju lagt það í hendur Jehóva að gefa vöxtinn. Við höfum bestu fréttirnar að færa náungum okkar. Séum við alltaf undirbúin getum við verið fjölhæf þegar við kynnum boðskapinn um Guðsríki og vakandi fyrir því hvaða rit eiga best við hverju sinni.