Búðu biblíunema undir boðunarstarfið
1 Endanlega markmiðið með biblíunámum er að gera menn að lærisveinum, verkamönnum sem sameinast okkur í að kenna öðrum. (Matt. 28:19, 20) Tilgangur námsins er því ekki einungis að miðla fræðslu; það ætti að glæða hjá nemendum okkar einlæga trú og búa þá undir að deila von sinni með öðrum. (2. Kor. 4:13) Hvernig getum við hjálpað þeim að verða hæfir til að kenna öðrum? — 2. Tím. 2:2.
2 Settu þjónustuna fram sem takmark: Gerðu þeim ljóst strax frá byrjun að sönn tilbeiðsla felur í sér að ‚játa með munninum til hjálpræðis.‘ (Rómv. 10:10) Sjálft nafnið, vottar Jehóva, gefur í skyn að við verðum að tala við aðra. Hjálpaðu þeim að sjá að það er ekki verið að kenna þeim aðeins vegna þeirra eigin hjálpræðis. Þegar þeir verða sjálfir kennarar fá þeir sem hlusta á þá líka tækifæri til að öðlast hjálpræði. — 1. Tím. 4:16.
3 Rifjaðu upp það sem þeir hafa lært: Það kemur að góðu gagni við kennslu að rifja upp með reglulegu millibili það sem lært hefur verið. Þegar slík upprifjun festir nýlærð sannindi í huga nemandans og hjarta hjálpar það honum að vaxa andlega. Við þekkjum þetta sjálf af því að svara upprifjunarspurningunum í lok Varðturnsnámsins. Útbúðu einfaldar og beinskeyttar spurningar fyrir nemanda þinn að svara með sínum eigin orðum.
4 Upprifjunin gæti tekið mið af aðstæðum í boðunarstarfinu. Berðu fram spurningu eða lýstu aðstæðum sem við mætum oft þegar við vitnum fyrir öðrum. Leiktu sjálfur húsráðandann og láttu nemanda þinn sýna hvað hann myndi segja. Hrósaðu honum fyrir það sem vel var gert og komdu með tillögur sem hjálpa honum að nálgast málið jafnvel enn betur næst. Þessi þjálfun hjálpar honum að nota það sem hann hefur lært og þroskar leikni hans í að nota Biblíuna.
5 Rökræðubókin: Vera má að tungumálakunnátta þín og nemanda þíns geri ykkur kleift að nota Rökræðubókina. Ef svo er skaltu láta hann fá eintak af henni og kenna honum að nota hana. Sýndu honum hvernig þar eru settar fram tillögur um hvernig koma megi af stað samræðum, svara biblíuspurningum eða takast á við mótbárur. Notaðu bókina í biblíunáminu til að sýna hvernig tala megi á sannfærandi hátt við fólk. Þessi bók getur byggt upp sjálfstraust hans og aukið frumkvæði hans í að kunngera boðskapinn um Guðsríki.
6 Leggðu áherslu á mikilvægi samkomanna: Safnaðarsamkomum, einkum þjónustusamkomunni og Guðveldisskólanum, er ætlað það hlutverk að búa okkur undir boðunarstarfið. Þeir sem hafa reynslu og hæfni rifja þar upp og sýna öll grundvallaratriðin í því að gefa áhrifaríkan vitnisburð. Leggðu áherslu á mikilvægi samkomanna og gerðu það sem þú getur til að hjálpa nemandanum að sækja þær. Regluleg samkomusókn getur veitt nemanda þínum þá örvun sem hann þarfnast til að verða sannur lærisveinn Jesú.
7 Þú skalt ekki láta þér yfirsjást hversu þýðingarmikið þitt eigið fordæmi er. Fúsleiki þinn og reglusemi í prédikunarstarfinu sýnir að þú metir sannleikann mjög mikils. Slík breytni hvetur nemanda þinn til að gera meira til að sýna trú sína. (Lúk. 6:40) Allt getur þetta hjálpað nýjum einstaklingi til að líta á boðunarstarfið sem sérréttindi og vera þakklátur fyrir að mega taka þátt í því. — 1. Tím. 1:12.