Finnum áhugasama með áhrifaríku boðunarstarfi á götum úti
1 Jesús gaf lærisveinum sínum fyrirmæli um að leita þeirra sem væru verðir þess að heyra fagnaðarerindið. (Matt. 10:11) Á mörgum svæðum nú á tímum verður þó sífellt erfiðaðra að hitta fólk heima. Hvað er þá hægt að gera til að ná til verðugra sem boðskapurinn hefur ef til vill farið fram hjá?
2 Götustarf getur verið áhrifarík leið til að finna fólk sem ekki næst til í hinu venjulega starfi hús úr húsi. Við getum unnið götustarf við biðstöðvar almenningsvagna, fyrir framan fjölbýlishús sem erfitt er að fá aðgang að, í almenningsgörðum og víða annars staðar á förnum vegi.
3 Það kemur beygur í suma þegar minnst er á götustarf. Þeir kunna að vera hikandi við að taka þátt í því starfi af því að þeim hættir til að vera feimnir eða búast við ákúrum frá fólki sem tekur boðskapnum um Guðsríki illa. Þessar áhyggjur eru yfirleitt ástæðulausar. Þeir sem eru reyndir í þessu starfi segja að það sé ekkert erfiðaðra en starfið hús úr húsi. Þeir hafa reyndar komist að raun um að flestir eru vanir því að vera ávarpaðir úti á götu af ýmsum ástæðum og að sumir hafa meiri tilhneigingu til að tala og hlusta en þeir hefðu ef knúið væri dyra hjá þeim. Ef við því tökum í okkur kjark getur götustarfið komið okkur þægilega á óvart. — 1. Þess. 2:2.
4 Hvernig næst bestur árangur með götustarfinu? Mikilvægt er að undirbúa sig vel. Lestu blöðin vandlega fyrirfram og veldu eitt eða tvö umræðuefni sem þú telur að vekja muni áhuga þeirra sem líkur eru á að þú hittir. Hálfrar mínútu kynningarorð eru yfirleitt mátuleg. Takmarkið er að ná persónulegu sambandi við fólk og því skaltu velja sæmilega fjölfarinn stað. Þó að það geti verið ráðlegt að hafa annan boðbera nálægt er yfirleitt best að starfa hvor í sínu lagi. Boðberum, sem standa saman, getur hætt til að drepa tímann með því að tala saman og eru þá ekki nógu vakandi fyrir vegfarendum sem kunna að vera viljugir til að hlusta á boðskapinn um Guðsríki.
5 Að standa á sama stað og sýna einungis blöðin er ekki eins vænlegt til árangurs og að eiga frumkvæðið að því að taka aðra tali. Reyndu að ná augnasambandi við fólk. Vertu hlýlegur, vingjarnlegur og blátt áfram þegar þú reynir að hefja samræður. Stundum þarft þú ef til vill að ganga nokkur skref með þeim sem þú talar við. Ef hann bregst vel við skaltu bjóða blöðin. Sé þeim hafnað getur þú kannski boðið smárit.
6 Yfirleitt er best að undirbúa stutta kynningu þar sem borin er fram áhugaverð spurning eða fullyrðing. Reyndu, ef viðbrögðin eru nægilega góð, að fá uppgefið nafn viðmælanda þíns, heimilisfang og ef til vill einnig símanúmer, til þess að þú getir fylgt áhuganum eftir. Þú gætir sagt: „Ef þú vilt læra meira væri það mér ánægja að koma heim til þín eða sjá um að annar vottur heimsæki þig.“
7 Öldungur í götustarfinu tók konu tali og komst að því að hún hefði aldrei haft tækifæri til að tala við vottana heima hjá sér. Hún þáði bók og féllst á að systir heimsækti hana á hentugum tíma. Vissulega má finna marga fleiri verðuga og aðstoða þá ef við náum góðum tökum á götustarfinu. — Post. 17:17.