Þakklát fyrir það sem við höfum
1 „En Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum.“ (Rómv. 5:8) Sannarlega ættum við að vera þakklát fyrir hina óviðjafnanlegu fórn sem bæði Jehóva Guð og sonur hans færðu í okkar þágu. Fyrir úthellt blóð Krists er okkur veitt tækifæri til að öðlast eilíft líf, en það er nokkuð sem enginn maður getur gefið okkur.
2 Hvernig getum við sýnt þakklæti okkar? Víða má finna fólk sem þyrstir í sannleikann sem aðeins er að finna í heilögu orði Guðs. Jehóva vill að menn komist til þekkingar á sannleikanum. (1. Tím. 2:4) Við sýnum að við kunnum að meta sannleikann með því ‚að flytja fólki fagnaðarerindið um Guðs ríki.‘ (Lúk. 4:43) Heilshugar þátttaka í þessu starfi sýnir að við erum þakklát fyrir að Kristur dó fyrir okkur og að við viljum líkja eftir honum með því að hlýða trúföst fyrirmælum hans um að gera menn að lærisveinum og kenna þeim. — Matt. 28:19, 20.
3 Hvaða prédikunarleiðir standa okkur opnar? Er mögulegt fyrir okkur að gerast aðstoðarbrautryðjendur af og til? Sumir geta kannski, þegar þeir hafa reiknað kostnaðinn, gerst reglulegir brautryðjendur. Með því að nýta okkur þessa góðu kosti getum við varið auknum tíma í að útbreiða fagnaðarerindið. Hér áður fyrr kannt þú að hafa hugleitt að taka upp þetta starf en hindranir staðið í veginum. Aðstæður þínar eru ef til vill breyttar. Sé svo, hefur þú þá hugleitt alvarlega að taka upp brautryðjandastarfið eða að vera aðstoðarbrautryðjandi?
4 Þakklæti okkar eykst til muna þegar við virðum fyrir okkur það sem er að gerast í kringum okkur. Ofbeldi, hatur og deilur fer vaxandi um allan heim. Páll lýsti vel okkar dögum sem ‚örðugum tíðum.‘ (2. Tím. 3:1) Mitt í þessum þjakandi aðstæðum höfum við góðar fréttir í ríkum mæli til að segja öðrum. Við höfum tvö góð tímarit, Varðturninn og Vaknið! Í þessum mánuði getum við boðið einstök tölublöð eða áskrift. Við höfum líka bæklinga um margvísleg efni. Þessi rit geta verulega hresst þá sem lesa þau. Þakklæti fyrir það sem við höfum ætti að fá okkur til að dreifa þeim örlátlega til manna. — Hebr. 13:16.
5 Starfssvæði okkar geta verið mjög misjöfn. Sums staðar sýnir fólk andlegum málum lítinn áhuga aða veigrar sér við að taka opinberlega afstöðu með hinni sönnu tilbeiðslu af ótta við viðbrögð nágranna eða ættingja. Annars staðar ber starfið hins vegar ríkulegan ávöxt. Hver svo sem viðbrögð manna eru knýr þakklæti fyrir það sem við höfum okkur til að leggja okkur fram við að ná til allra manna. — 1. Kor. 9:22.
6 Við höfum fulla ástæðu til að vera þakklát fyrir það sem við höfum sem er sannarlega mikið og gott. Við getum best tjáð Jehóva þakklæti okkar með því að kunngera öðrum nafn hans og tilgang. — Jes. 12:4, 5.