Við bjóðum okkur fúslega fram til sérhvers góðs verks
1 Veraldleg bók vísaði til votta Jehóva með þessum orðum: „Erfitt yrði að finna meðlimi nokkurs annars hóps sem vinna af jafnmikilli elju í þágu trúar sinnar og vottarnir.“ Hvers vegna vinna vottar Jehóva af slíkum dugnaði og fúsleika?
2 Ein ástæðan er sú að þeir eru algerlega sannfærðir um að starfið, sem þeim hefur verið falið, sé mjög áríðandi. Jesús gerði sér ljóst að hann hafði takmarkaðan tíma til að ljúka starfi sínu hér á jörð. (Jóh. 9:4) Á meðan hinn dýrlegi sonur Guðs drottnar mitt á meðal óvina sinna nú á tímum gera þjónar Jehóva sér ljóst að þeir hafa takmarkaðan tíma til að vinna starf sitt. Þess vegna halda þeir áfram að bjóða sig fúslega fram til heilagrar þjónustu. (Sálm. 110:1-3) Af því að þörf er á fleiri verkamönnum til uppskerustarfsins geta þeir ekki látið deigan síga á nokkurn hátt. (Matt. 9:37, 38) Þar af leiðandi leitast þeir við að líkja eftir Jesú sem í starfi sínu var fullkomin fyrirmynd um fúsleika og dugnað. — Jóh. 5:17.
3 Önnur ástæða þess að vottar Jehóva vinna heilshugar ein og Jehóva ætti í hlut er sú að alheimsskipulag þeirra er frábrugðið því sem aðrir hópar hafa. Það er dæmigert fyrir veraldleg trúfélög að krefjast aðeins lágmarks tíma og viðleitni af áhangendum sínum. Það sem þeir trúa hefur lítil sem engin áhrif á daglegt líf þeirra, samskipti þeirra við aðra og að hverju þér keppa í lífinu. Þá skortir hinn knýjandi kraft sannrar trúar og hafa því gert þá kröfu til hirða sinna að þeir ‚slái þeim gullhamra,‘ fullvissi þá um að málamyndaviðleitni þeirra sé nægileg. (Jes. 30:10) Klerkar þeirra hafa orðið góðfúslega við óskum þeirra með því að ‚kitla eyru þeirra,‘ glætt með þeim sinnuleysisanda og andlega leti. — 2. Tím. 4:3.
4 Hversu ólíkt er því ekki farið hjá fólki Jehóva. Allt sem snertir tilbeiðslu okkar kallar á viðleitni, öflugt átak og vinnu. Á hverjum degi og í öllum athöfnum okkar förum við eftir því sem við trúum. Jafnframt því sem sannleikurinn færir okkur mikla gleði er það ‚mikil barátta‘ fyrir okkur að uppfylla það sem hann krefst af okkur. (Samanber 1. Þessaloníkubréf 2:2.) Það eitt að annast þá ábyrgð, sem daglegt líf leggur mönnum á herðar, nægir til að halda flestu fólki uppteknu. Við leyfum hins vegar ekki þeim málum að hindra okkur í að setja hagsmuni Guðsríkis í fyrsta sæti. — Matt. 6:33.
5 Það sem okkur er falið að gera í þjónustu Jehóva er svo gagnlegt og áríðandi að það fær okkur til að taka tíma frá öðrum verkefnum og verja honum á gagnlegri hátt til andlegra mála. (Ef. 5:16, NW) Við vitum að guðhræðsla okkar og fúsleiki gleður Jehóva og það er okkur hin mesta hvatning til að slaka hvergi á í starfi okkar. Hin ríkulega blessun, sem við njótum núna, og það líf, sem við eigum í vændum, gerir okkur staðráðin í að halda áfram að ‚leggja á okkur erfiði‘ í þágu hagsmuna Guðsríkis. — 1. Tím. 4:10.
6 Helgun og fórnfýsi: Flestir menn nú á tímum taka efnislegar þarfir og áhugamál fram yfir allt annað. Þeim finnst alveg réttlætanlegt að einblína á fæði, drykk eða klæði. (Matt. 6:31) Þeir láta sér ekki nægja daglegar nauðsynjar heldur stefna að því marki að lifa við góð efni núna og ‚eiga mikinn auð til margra ára til þess að þeir geti hvílt sig, etið og drukkið og verið glaðir.‘ (Lúk. 12:19) Hinum dæmigerða kirkjugesti finnst að fari trúfélag hans fram á einhverja persónulega viðleitni eða vinnu af hans hálfu sé það skerðing á rétti hans. Sú hugmynd að snúa baki við eða jafnvel draga úr einhverri iðkun, sem snýst í kringum efnisleg markmið, eða að leggja skemmtilegt áhugamála til hliðar er honum verulega ógeðfeld. Hugsun hans snýst um hann sjálfan og þess vegna finnst honum óraunhæft og óhagkvæmt að glæða með sér fórnfýsi.
7 Við lítum öðrum augum á þetta mál. Orð Guðs hefur lyft hugsun okkar á hærra stig svo að hjá okkur búa hugsanir Guðs en ekki manna. (Jes. 55:8, 9) Markmið okkar í lífinu eru hafin yfir eftirsókn í lystisemdir holdsins. Mikilvægustu málin í öllum alheiminum eru að réttlæta drottinvald Jehóva og helga nafn hans. Umfang þessara mála er af slíkri stærðargráðu að til samanburðar eru allar þjóðirnar „sem ekkert fyrir honum.“ (Jes. 40:17) Sérhver tilraun til að lifa lífinu á þá leið sem hunsar vilja Guðs verður að teljast heimska. — 1. Kor. 3:19.
8 Þó að sumir efnislegir hlutir séu nauðsynlegir og aðrir gagnlegir til að sinna starfi okkar í þjónustu Guðsríkis gerum við okkur ljóst að það eru í rauninni ekki þeir hlutir „sem máli skipta.“ (Fil. 1:10) Við höldum okkur við andann í 1. Tímóteusarbréfi 6:8 þegar við setjum eftirsókn okkar í efnislega hluti skorður og leitumst viturlega við að einblína á og hugsa um ‚hið ósýnilega sem er eilíft.‘ — 2. Kor. 4:18.
9 Því meir sem hugsanir Guðs búa hjá okkur því minni áhyggjur höfum við af efnislegum hlutum. Þegar við veltum fyrir okkur öllu því sem Jehóva hefur nú þegar gert fyrir okkur og þeirri stórkostlegu framtíðarblessun sem hann lofar þeim sem gera vilja hans erum við fús til að færa hverja þá fórn sem hann biður okkur um. (Mark. 10:29, 30) Sjálfa tilvist okkar eigum við honum að þakka. Við hefðum hvorki ánægju af lífinu núna né nokkra framtíð fyrir höndum ef miskunn hans væri ekki fyrir hendi. Okkur finnst við skuldbundin til að gefa af sjálfum okkur vegna þess að allt sem við gerum í þjónustu hans er ‚það eitt sem við erum skyldir til að gera.‘ (Lúk. 17:10) Allt sem við erum beðin um að skila aftur til Jehóva látum við glöð af hendi, vitandi að við munum „ríflega uppskera.“ — 2. Kor. 9:6, 7.
10 Núna er þörf á fúsum verkamönnum: Strax og kristni söfnuðurinn hafði verið myndaður hófst annasamur tími hjá honum. Gefa varð rækilegan vitnisburð áður en Jerúsalem hrundi til grunna árið 70. Á þeim árum ‚gáfu‘ lærisveinar Jesú ‚sig alla að boðun orðsins.‘ (Post. 18:5) Vegna þess hve aukningin var hröð þurfti að þjálfa fleiri boðbera og hæfa hirða og fá þá til aðstoðar. Þörf var á mönnum með reynslu í samskiptum við yfirvöld, svo og á mönnum sem færir væru um að hafa umsjón með samansöfnun og dreifingu efnislegra nauðsynja. (Post. 6:1-6; Ef. 4:11) Fáeinir voru í sviðsljósinu en þjónusta flestra var baksviðs og ekki eins áberandi. En allir lögðu þeir sig kappsamlega fram og unnu heilshugar saman til að koma í framkvæmd því sem gera þurfti. — Lúk. 13:24.
11 Þó að tiltölulega lítil þörf hafi verið fyrir kappsama starfsemi á heimsmælikvarða þær mörgu aldir sem á eftir komu hófst mikil endurlífgun á starfi Guðsríkis þegar Jesús fékk í hendur guðsríkisvald sitt árið 1914. Í fyrstu gerðu fáir sér ljóst að þörfin á verkamönnum í þágu Guðsríkis yrði svona mikil, að hún myndi kalla á aðstoð milljóna fúsra manna hringinn í kringum hnöttinn.
12 Núna er skipulagið á kafi í margvíslegum verkefnum sem hafa reynt eins mikið á bolmagn okkar og mögulegt er. Starfsemi Guðsríkis fleygir fram með vaxandi hraða. Vegna þess hve áríðandi starfið er nú á tímum leggjum við okkur kappsamlega fram og notum allt sem við höfum fram að færa til að framkvæma það verk sem liggur fyrir. Endir alls hins illa heimskerfis nálgast óðfluga og þess vegna gerum við ráð fyrir að taka jafnvel enn betur til hendinni á komandi dögum. Höfðað er til sérhvers vígðs þjóns Jehóva að hann bjóði sig fúslega fram til þessa áríðandi uppskerustarfs.
13 Hvað þarf að gera: Við getum með sanni sagt að verkefnin bjóði upp á það að við séum „síauðugir í verki Drottins.“ (1. Kor. 15:58) Á mörgum svæðum er akurinn fullsprottinn en verkamennirnir fáir. Okkur er boðið að láta ekki okkar hlut eftir liggja, gefa ekki aðeins rækilegan vitnisburð á okkar eigin starfssvæði heldur takast einnig á við það verkefni að þjóna þar sem þörfin er meiri.
14 Það er hrósunarvert að sjá hvernig vottar í öllum heimshlutum bjóða sig fúslega fram til annarra starfa. Þau geta verið margvísleg, allt frá sjálfboðaliðsstarfi við byggingu tilbeiðslustaða, þjónustu á mótum og aðstoð við hjálparstörf á hamfaratímum, til reglubundinnar hreingerningar ríkissalarins. Í tengslum við það síðastnefnda má nefna að alltaf þarf að gæta þess að ríkissalnum sé skilað hreinum og í góðu ásigkomulagi eftir hverja samkomu. Að ljúka til fulls verki, sem kann að vera álitið lítilfjörlegt, sýnir réttan skilning á orðum Jesú í Lúkasi 16:10: „Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu, og sá sem er ótrúr í því smæsta, er og ótrúr í miklu.“
■ Að styðja starfsemi safnaðarins: Jafnframt því að hver söfnuður starfar sem hluti skipulagsins í heild og fær leiðsögn frá hinum ‚trúa og hyggna þjóni,‘ mynda hann einstaklingar sem eru boðberar Guðsríkis. (Matt. 24:45) Afköst hans eru að stórum hluta háð því hve mikið hver vottur er fús og fær um að gera. Söfnuðurinn leggur megináhersluna á að boða fagnaðarerindið á starfssvæði sínu, gera menn að lærisveinum og halda síðan áfram að styrkja þá andlega. Sérhver okkar getur lagt sitt af mörkum til þessa starfs. Við getum líka sett okkur markmið hvað varðar einkanám, marktæka þátttöku í samkomunum og aðstoð við þá sem þurfa á henni að halda innan safnaðarins. Þessi verkefni bjóða upp á mörg góð tækifæri til að sýna fúsleika í verki.
■ Að taka forystuna í umsjónarmannsstöðu: Jehóva hefur falið útnefndu öldungunum í hverjum söfnuði að hafa umsjón með söfnuðinum. (Post. 20:28) Þeir eru menn sem hafa sótt fram til að verða hæfir til þessara sérréttinda. (1. Tím. 3:1) Hjá næstum hverjum einasta bróður í söfnuðinum býr einhver möguleiki á að verða hæfur til meiri ábyrgðarstarfa. Margir bræður eru að þroskast andlega og þurfa að halda áfram að vaxa undir leiðsögn og kærleiksríkri aðstoð safnaðaröldunganna. Þessir bræður ættu að vera duglegir við að nema Biblíuna og rit okkar. Þeir geta sýnt fúsleika sinn með því að vera undirgefnir öldungunum, sem heilagur andi hefur útnefnt, líkja eftir trú þeirra og rækta með sér þá eiginleika sem umsjónarmenn þurfa að hafa til að bera. — Hebr. 13:7, 17.
■ Að hefja starf í fullri þjónustu: Hlutverk safnaðarins er fyrst og fremst prédikun fagnaðarerindisins. (Matt. 24:14) Það er mikil blessun þegar kostgæfir boðberar efla starf sitt með því að gerast brautryðjendur. Til þess þurfa þeir yfirleitt að hagræða ýmsu í daglegu lífi sínu. Aukin hagræðing er síðan ef til vill nauðsynleg til að þeir geti haldið áfram starfi sínu sem brautryðjendur. En þeir sem halda fast í þessi sérréttindi, í stað þess að gefast upp eftir um það bil eitt ár vegna einhverra tímabundinna erfiðleika, geta vænst ríkulegrar blessunar Jehóva. Kærleiksríkir öldungar og aðrir þroskaðir einstaklingar geta stuðlað að velgengni brautryðjendanna, hvatt þá með orðum og verkum. Ungt fólk, sem snýr sér beint að brautryðjandastarfinu eftir að hafa lokið skólanámi sínu, sýnir sannarlega gott fordæmi. Sama má segja um fullorðið fólk sem gerist brautryðjendur strax og dregur úr skyldukvöðum þess á veraldlegum vettvangi. Það er vígðum kristnum manni mikill gleðigjafi að geta á þennan hátt starfað með Jehóva að því að hraða uppskerustarfinu. — Jes. 60:22.
■ Að taka þátt í byggingu og viðhaldi samkomustaða: Nútímalegar mótshallir og ríkissalir hafa verið reistir bókstaflega í hundraðatali. Hið ótrúlega er að næstum allt það starf hefur verið unnið af bræðrum okkar og systrum sem hafa fúslega lagt fram tíma sinn og hæfni. (1. Kron. 28:21) Þúsundir vinnufúsra handa halda þessum byggingum í góðu ásigkomulagi með því að vinna hvert það verk sem þörf er á. (2. Kron. 34:8) Þar sem þessi vinna er einn þáttur heilagrar þjónustu bjóða þeir sem hana framkvæma fúslega fram þjónustu sína og fara ekki fram á neina endurgreiðslu útgjalda vegna hennar, ekkert frekar en að þeir myndu biðja um greiðslu fyrir að prédika hús úr húsi, flytja opinbera fyrirlestra í söfnuðinum eða hjálpa til á svæðis- og umdæmismótum. Þessir sjálfboðaliðar bjóða ókeypis fram þjónustu sína við skipulagningu og byggingu tilbeiðslustaða Jehóva til vegsemdar. Þeir eru ákafir í að hjálpa til við hluti eins og að ganga frá lögbundnum pappírum, halda bókhald yfir fjárreiður, gera kaupsamninga og reikna út efnisþörf. Þessir trúföstu þjónar Jehóva taka ekki neina þóknun fyrir þessi störf eða leitast við á nokkurn hátt að hagnast efnislega, hvorki beint né óbeint, af þjónustunni sem þeir veita vegna þess að öll hæfni þeirra og efni er vígð Jehóva. (Sjá Ríkisþjónustu okkar fyrir febrúar 1992, blaðsíðu xx Ath hvort hefur komið.) Þessi starfsemi krefst duglegra vinnumanna sem láta þjónustu sína í té „af heilum huga eins og [Jehóva] ætti í hlut.“ — Kól. 3:23.
15 Hvað gerir þá fúsleika fólks Jehóva svona sérstakan? Það er gjafmildi þess. Örlátar gjafir þess ná lengra en til peninga eða efnislegra hluta — það býður sjálft sig fram, „kemur sjálfboða.“ (Sálm. 110:3) Þetta er kjarninn í vígslu okkar til Jehóva. Okkur er umbunað á sérstakan hátt. Við verðum ‚sælli‘ og við ‚uppskerum ríflega‘ vegna þess að aðrir kunna að meta það sem við gerum og gefa okkur á móti. (Post. 20:35; 2. Kor. 9:6; Lúk. 6:38) Sá sem gerir best við okkur er himneskur faðir okkar, Jehóva, sem „elskar glaðan gjafara.“ (2. Kor. 9:7) Hann mun endurgjalda okkur hundraðfalt með eilífri blessun. (Mal. 3:10; Rómv. 6:23) Munt þú því, þegar þér gefst kostur á sérréttindum í þjónustu Jehóva, bjóða þig fúslega fram og svara eins og Jesaja: „Hér er ég, send þú mig!“? — Jes. 6:8.