Regluleg samkomusókn — nauðsynleg til að geta staðið stöðug
1 Páll postuli hvatti okkur til að vera „heilbrigðir í trúnni.“ (Tít. 1:9, 13) Á safnaðarsamkomum hugleiðum við heilnæmt efni og fáum leiðbeiningar um hvernig við getum verið í fullum herklæðum andlega til þess að geta „staðist vélabrögð djöfulsins.“ — Ef. 6:11; Fil. 4:8.
2 Samkomur veita okkur það sem við þurfum: Til að við getum staðið stöðug er bráðnauðsynlegt að sækja samkomur reglulega. (1. Kor. 16:13) Á samkomum eru bornar fram bænir til að þakka Guði og lofa hann, svo og til að biðja fyrir söfnuðinum og þörfum hans. (Fil. 4:6, 7) Það er okkur til upplyftingar að syngja saman ríkissöngvana og það hjálpar okkur að tjá kenndir okkar og tilfinningar þegar við tilbiðjum Jehóva. (Ef. 5:19, 20) Samskipti okkar í ríkissalnum fyrir og eftir samkomur uppörva okkur, uppbyggja og hressa. — 1. Þess. 5:11.
3 Síðastliðin apríl meitlaði sérræðan, „Endir falstrúarbragðanna er í nánd,“ kröftuglega í huga sannleikselskandi manna hversu áríðandi það er að láta strax verða úr því að fara út úr Babýlon hinni miklu og láta það ekki dragast. (Opinb. 18:4) Í september var sannarlega hvetjandi að fara yfir námsgreinarnar í Varðturninum sem fjölluðu um hvernig við höfum vígt okkur Jehóva sem drottinvaldi alheimsins og eigum, sem vígðir vottar hans, að lifa daglega eftir því vígsluheiti. Hugsum um hve mikla andlega uppörvun og fræðslu við hefðum farið á mis við ef við hefðum vanrækt að sækja þessar samkomur.
4 Á landsmótinu okkar „Glaðir menn sem lofa Guð“ var lögð áhersla á menntun sem gerir boðunarstarf okkar áhrifaríkara. Eins og Þjónustubókin bendir á, á blaðsíðu 72, er Guðveldisskólinn ráðstöfun til að allur söfnuðurinn haldi áfram að auka við menntun sína. Bókin Vottar Jehóva — boðendur ríkis Guðs hefur verið á námsskránni þetta ár og verður áfram og innihald hennar hjálpar okkur að kynnast betur nútímasögu skipulagsins. Tökum nám okkar sem lærisveinar Jehóva alvarlega. (Jes. 54:13) Við höfum ekki efni á að fara á mis við þessa menntun.
5 Þjónustusamkoman hjálpar okkur að ná betri tökum á boðunarstarfinu. Dæmi um það er samkoman þar sem við fengum leiðbeiningar um hvernig við gætum tekið þátt í að dreifa Fréttum um Guðsríki nr. 34. Jehóva blessaði þetta starf ríkulega eins og sjá má af einstökum árangri þess um heim allan. (Samanber 2. Korintubréf 9:6, 7.) Þeir sem sækja samkomur reglulega fengu uppörvun og þeir stuðluðu mjög að því að herferðin tókst eins vel og raun ber vitni.
6 Í safnaðarbóknáminu hjálpar Tilbeiðslubókin, sem við erum að nema núna, okkur til að sækja fram til aukins kristins þroska og njóta þannig enn betur gleðinnar af sameiginlegri tilbeiðslu á hinum eina sanna Guði. Á þessum erfiðu tímum er nauðsynlegt að verða sífellt leiknari í að nota orð Guðs í daglegu lífi sínu.
7 Láttu reglulega samkomusókn hafa forgang: Í mörgum löndum, þar sem bræður okkar ganga í gegnum prófraunir, gera þeir sér eftir sem áður ljóst hve lífsnauðsynlegt þeim er að koma saman í hverri viku. Til dæmis eru svo margir nýir á samkomunum í Búrúndi, Rúanda, Líberíu og Bosníu og Hersegóvínu að tala viðstaddra er tvöföld eða jafnvel þreföld boðberatalan. Með samkomunum hjálpar Jehóva bræðrunum að halda áfram að standa stöðugir í einum anda. — Fil. 1:27; Hebr. 10:23-25.
8 Hver sá sem hefur látið hjá líða að sækja samkomur að staðaldri ætti sem allra fyrst að stíga ákveðin skref til að kippa þeim málum í rétt horf. (Préd. 4:9-12) Til að standa stöðug þurfum við að uppörvast saman með þroskuðum einstaklingum og það gerum við ef við sækjum samkomurnar reglulega. — Rómv. 1:11.