Hegðum okkur eins og samboðið er fagnaðarerindinu
1 Sem vottar Jehóva þráum við að verða nafni Jehóva til heiðurs. Við vitum að hegðun okkar, tal, snyrtimennska og klæðaburður getur haft áhrif á það hvernig aðrir líta á sanna tilbeiðslu. Þetta á sérstaklega við þegar við erum á samkomum okkar. Við viljum gæta þess að allt sem er sagt og gert á samkomunum sé samboðið fagnaðarerindinu og Jehóva til heiðurs. — Fil. 2:4.
2 Margir af stöðlum heimsins hvað varðar klæðaburð og snyrtimennsku eru óásættanlegir fyrir kristna menn. Boðberar Guðsríkis ættu að gefa þessu máli vandlegan gaum. Varðturninn frá 1. nóvember 1989 sagði á blaðsíðu 29: „Við þurfum ekki að klæðast dýrum fötum en þau ættu að vera hrein, smekkleg og [siðsamleg]. Skófatnaður okkar ætti að vera í góðu lagi og vel útlítandi. Eins ætti líkami okkar að vera hreinn á öllum samkomum, þar á meðal í safnaðarbóknáminu, og við ættum að vera snyrtilega og viðeigandi til fara.“
3 Stundvísi ber vitni um kærleiksríka tillitssemi og hugsunarsemi. Einstaka sinnum kunna óumflýjanlegar aðstæður að hindra okkur í að koma á réttum tíma á samkomu. En ef við komum venjulega of seint sýnir það ef til vill virðingarleysi gagnvart helgum tilgangi samkomnanna og að við gerum okkur ekki ljósa grein fyrir að okkur beri að forðast að ónáða aðra. Þeir sem koma of seint trufla oft aðra og koma í veg fyrir að þeir hafi fullt gagn af dagskránni. Stundvísi sýnir virðingu fyrir tilfinningum og hagsmunum allra samkomugesta.
4 Kærleikur til náungans ætti að láta okkur gæta þess vandlega að valda ekki truflun á samkomum. Ef við erum að hvísla, borða, tyggja tyggigúmí, skrjáfa með pappír og fara að óþörfu á salernið truflum við ef til vill einbeitingu annarra og spillum þeirri sæmd sem samkomugestum ber að sýna tilbeiðslustað Jehóva. Það er óviðeigandi fyrir hvern sem er að vera að sinna safnaðarmálum eða ræða við aðra nema einhver brýn nauðsyn krefjist þess að bræðurnir séu ekki í sætum sínum. Að öðrum kosti ættu allir að sitja og hlusta á dagskrána til að bæði þeir og fjölskyldur þeirra hafi gagn af. Lélegir mannasiðir eiga ekki heima í ríkissalnum vegna þess að „kærleikurinn . . . hegðar sér ekki ósæmilega.“ — 1. Kor. 13:4, 5; Gal. 6:10.
5 Hin góða hegðun barna okkar á samkomunum er líka nafni Jehóva til heiðurs og lofs. Bráðnauðsynlegt er að foreldrar hafi strangt eftirlit með börnum sínum, líka áður en dagskráin hefst og eftir að henni lýkur. Hvetja ætti börn til að hlusta og taka þátt í því sem fram fer. Margir foreldrar með ung börn taka þann kost að sitja þar sem þeir geta auðveldlega farið út úr salnum og sinnt þörfum barna sinna án þess að trufla aðra um of.
6 Páll áminnti: „Hegðið yður eins og samboðið er fagnaðarerindinu.“ (Fil. 1:27) Við skulum þess vegna leitast við að vera háttvís og tillitssöm þegar við sækjum samkomur. Ef allir eru samvinnufúsir mun það tryggja að við „getum uppörvast saman fyrir hina sameiginlegu trú“ okkar. — Rómv. 1:12.