Metum hús Guðs að verðleikum
1 Á tímum Biblíunnar fyrirskipaði Jehóva þjóð sinni að safnast reglulega saman í húsi hans. (3. Mós. 23:2) Þær samkomur hjálpuðu henni að halda huganum við orð Guðs, gáfu tíma til hugleiðinga, félagsskapar og umræðna um lögmál Jehóva. Hugsanir Guðs fylltu huga Ísraelsmanna sem varð þeim til ríkulegrar blessunar andlega. Þetta voru sannarlega ánægjulegar stundir. Slíkt fyrirkomulag stuðlaði að einingu og hreinni tilbeiðslu. Samkomur í húsi Guðs nú á dögum eru ekkert síður mikilvægar.
2 Hvernig getum við sýnt að við metum samkomurnar? Sumir söfnuðir greina frá lítilli samkomusókn. Af og til kunna aðstæður einhvers að koma í veg fyrir að hann komist á samkomu. En hefur þú leyft frekar litlum vandamálum að standa í vegi fyrir reglulegri samkomusókn? Sumir ákveða ef til vill að vera heima ef þeir eru með lítils háttar höfuðverk eða eru þreyttir eftir annasaman dag. Öðrum hefur fundist þeim bera skylda til að hafa ofan af fyrir ættingjum sem ekki eru í trúnni og vilja koma í heimsókn. Sumir hafa jafnvel sleppt samkomum til að horfa á uppáhaldsþátt sinn í sjónvarpinu eða einhvern íþróttaviðburð. Þegar málum er þannig háttað er greinilegt að samkomurnar eru ekki metnar í þeim mæli sem synir Kóra létu í ljós: „Sálu mína langaði til, já, hún þráði forgarða Jehóva.“ — Sálm. 84:3.
3 Þó að andlega fæðan, sem borin er fram á samkomunum, sé ríkuleg eiga sumir erfitt með að fylgjast af athygli með dagskránni. Þeir fara kannski að dreyma dagdrauma, hugsa um áhyggjur dagsins eða jafnvel dotta. Margir skrifa hjá sér stutt minnisatriði og finna að það hjálpar þeim að halda vöku sinni og einbeita sér að því sem sagt er. Það festir einnig upplýsingarnar í minni að skrifa þær niður. Auk þess hjálpar undirbúningur okkur að hafa fullt gagn af samkomunum. Ef við undirbúum okkur vel getum við ‚gefið dagskránni enn betri gaum.‘ — Hebr. 2:1.
4 Börn jafnt sem fullorðnir þurfa að meðtaka leiðbeiningarnar sem gefnar eru á samkomum. Það er mjög takmarkað sem börnin læra ef foreldrarnir láta þau hafa leikföng eða litabækur til að þau séu upptekin og hljóð. Það skortir tilhlýðilegan aga þegar börnunum er leyft að leika sér, tala, gráta eða gera annað sem truflar þá sem sitja nálægt. Tíðum og ónauðsynlegum ferðum á salernið eða til að fá sér að drekka fækkar yfirleitt þegar barnið veit að annað foreldra þess fer alltaf með því.
5 Stundvísi er mikilvæg: Af og til geta óumflýjanlegar aðstæður hindrað okkur í að komast á réttum tíma á samkomu en ef við komum yfirleitt seint, eftir upphafsbænina og sönginn, sýnir það virðingarleysi gagnvart helgum tilgangi samkomanna og þeirri ábyrgð okkar að forðast að trufla aðra. Mundu að söngur og bæn með bræðrum okkar á safnaðarsamkomum er hluti tilbeiðslu okkar. Vanabundinn seinagangur er yfirleitt afleiðing lélegrar skipulagningar eða að ekki er hugsað fyrirfram um það sem gera þarf. Stundvísi sýnir að við virðum og metum samkomur okkar.
6 Dagurinn færist sífellt nær og því getur nauðsyn þess að safnast saman aðeins orðið meiri. (Hebr. 10:24, 25) Sýnum að við kunnum að meta samkomurnar með því að sækja þær reglulega, undirbúa okkur, vera stundvís, taka vel eftir og nota síðan það sem við lærum.