Hjálpum þeim að þjóna á ný
1 Páll postuli gerði sér grein fyrir að kristnum bræðrum hans gat verið andleg hætta búin og skrifaði: „Yður er mál að rísa af svefni, því að nú er oss hjálpræðið nær en þá er vér tókum trú.“ (Rómv. 13:11) Páll hafði áhyggjur af bræðrum sínum sem andlegur svefndrungi hafði lagst yfir; hann vildi ákafur vekja þá upp til starfa á ný.
2 Með sanni má segja að langt sé liðið á nótt þessarar gömlu veraldar og að dögun nýs heims sé skammt undan. (Rómv. 13:12) Við höfum gilda ástæðu til að hafa áhyggjur af bræðrum okkar sem hafa hætt að skipa hóp okkar sem prédikarar fagnaðarerindisins. Síðastliðið þjónustuár var fjórum á Íslandi, sem verið höfðu óvirkir, hjálpað til að taka boðunarstarfið upp á ný. Hvernig getum við hjálpað öðrum óvirkum að þjóna Jehóva enn á ný?
3 Það sem öldungar geta gert: Flestir sem eru óvirkir hafa ekki sagt skilið við sannleikann; þeir hafa einfaldlega hætt að prédika vegna vanmáttarkenndar, persónulegra vandamála, efnishyggju eða áhyggna þessa lífs. (Lúk. 21:34-36) Það er miklu betra að hjálpa þeim, ef mögulegt er, áður er þeir verða óvirkir. Ritari safnaðarins ætti að láta bóknámsstjórann vita þegar boðberi hættir að skila inn starfsskýrslum reglulega. Gera má ráðstafanir til að fara í hirðaheimsókn. Hirðarnir ættu að reyna að komast að raun um hvaða ástæður búi að baki vandanum og hvernig hægt sé að veita aðstoð. — Sjá Varðturninn (á ensku) frá 15. september 1993, blaðsíðu 20-3.
4 Hvernig aðrir geta hjálpað: Flest þekkjum við einhvern sem er orðinn óvirkur. Það kann að vera einhver sem við höfðum talsverð samskipti við áður fyrr. Hvað getum við gert til hjálpar? Hvers vegna ekki að líta aðeins við hjá honum? Segðu honum að þú saknir félagsskapar hans. Vertu glaðlegur og jákvæður. Láttu í ljós áhyggjur þínar án þess að gefa í skyn að hann sé andlega veikur. Segðu honum uppbyggjandi starfsfrásagnir eða frá einhverjum öðrum góðum verkum sem söfnuðurinn er að framkvæma. Segðu honum með hrifningu frá landsmótinu „Friðarboðberar Guðs“ og hvettu hann til að sækja það. Það getur orðið honum meiri hjálp en flest annað að hafa á ný félagsskap við söfnuðinn. Þú skalt bjóðast til að verða honum samferða á samkomurnar. Láttu öldungana vita hvaða viðbrögð þú færð.
5 Þegar sá sem orðinn er óvirkur kemur aftur á samkomurnar er líklegt að hann verði vandræðalegur þegar hann hittir þá sem hann þekkti áður. Ekki spyrja: „Hvar hefur þú verið?“ Láttu hann þess í stað finna að hann sé velkominn. Dragðu hann inn í samræður. Kynntu hann fyrir þeim sem hann þekkir ekki. Sittu með honum á samkomunni og sjáðu um að hann hafi söngbók og það efni sem verið er að nema. Hvettu hann til að koma aftur og bjóddu fram aðstoð þína ef þörf er á.
6 Jehóva og Jesús bera kærleika til þeirra sem hafa villst af leið og gleðjast þess vegna þegar þeir endurheimta andlega heilsu sína. (Mal. 3:7; Matt. 18:12-14) Við getum orðið aðnjótandi sams konar gleði ef okkur tekst að hjálpa öðrum að þjóna Jehóva á ný.