Gleymum ekki þeim sem eru óvirkir
1. Af hverju ættum við að rétta óvirkum hjálparhönd?
1 Þekkirðu einhvern sem er óvirkur? Kannski er hann hættur að sækja samkomur og hefur borist afleiðis. Þú gætir hafa hitt óvirkan einstakling í starfinu hús úr húsi. Við verðum að hafa hugfast að hann er enn þá trúbróðir okkar. Við viljum sýna honum kærleika í verki og hjálpa honum að snúa aftur til safnaðarins og „til hans sem er hirðir . . . sálna“ okkar.— 1. Pét. 2:25.
2. Hvernig getum við uppörvað þá sem eru óvirkir?
2 Sýndu þeim áhuga: Stutt símtal eða heimsókn getur fullvissað óvirkan einstakling um að við höfum ekki gleymt honum. Hvað gætum við sagt? Við gætum uppörvað hann með því að segja að við höfum verið að hugsa til hans. Haltu samtalinu á jákvæðum og uppbyggilegum nótum. (Fil. 4:8) Við gætum sagt frá einhverju athyglisverðu sem kom fram á samkomu nýverið. Við gætum líka boðið honum að koma á næstu samkomu eða mót og boðist til að taka frá sæti fyrir hann eða bjóða honum far.
3. Hvað hjálpaði systur nokkurri að verða aftur virkur boðberi?
3 Boðberi nokkur rakst á systur á starfsvæði sínu sem hafði verið óvirk í meira en 20 ár. Þótt hún vildi ekki þiggja biblíunámskeið hélt boðberinn áfram að heimsækja hana og skildi eftir nýjustu blöðin. Eftir umdæmismótið heimsótti boðberinn systurina og sagði henni frá hápunktum mótsins og þegar fram liðu stundir varð hún aftur virkur boðberi.
4. Hvernig ættum við að koma fram við trúsystkini sem byrjar að sækja samkomur á ný?
4 Þegar trúsystkini snýr aftur: Hvernig ættum við að koma fram við óvirkan trúbróður eða -systur sem byrjar að sækja samkomur á ný? Hvernig kom Jesús fram við lærisveinana eftir að þeir höfðu yfirgefið hann um stundarsakir? Hann kallaði þá ‚bræður sína‘ og lét í ljós að hann bæri traust til þeirra. Hann fól þeim meira að segja mjög mikilvægt verkefni. (Matt. 28:10, 18, 19) Áður en lagt um leið boðuðu þeir fagnaðarerindið án afláts. — Post. 5:42.
5. Hvenær ættum við að tala við öldungana um óvirkan einstakling?
5 Við ættum að leita leiðsagnar hjá öldungunum áður en við bjóðum óvirkum einstaklingi biblíunámskeið. Það ættum við líka að gera áður en við bjóðum þeim sem hefur verið óvirkur lengi að koma með okkur í starfið. Ef við hittum óvirkan boðbera á starfssvæðinu ættum við að láta öldungana vita svo þeir geti boðið fram nauðsynlega aðstoð.
6. Hvaða fögnuður hlýst af því að hjálpa óvirkum boðberum?
6 Eins og Biblían bendir skýrt á munu aðeins þeir sem hlaupa skeiðið á enda hljóta hjálpræði. (Matt. 24:13) Gefum því gaum að þeim sem hafa hrasað eða borist afleiðis. Ef við endurspeglum kærleika og þolinmæði Jehóva með því að sýna slíkum einstaklingum einlægan áhuga fáum við kannski að finna fyrir þeirri gleði sem hlýst af því að sjá þá snúa aftur og taka upp heilaga þjónustu á nýjan leik. — Lúk. 15:4-10.