Spurningakassinn
◼ Hvernig má hjálpa einstaklingi, sem hefur verið óvirkur lengi, til að verða aftur hæfur boðberi fagnaðarerindisins?
Það er fagnaðarefni þegar óvirkur boðberi sýnir einlæga löngun til að þjóna Jehóva. (Lúk. 15:4-6) Sennilega hefur hann leyft andstöðu eða álagi lífsins að ýta einkanámi, samkomum og boðunarstarfi til hliðar. Hvernig er hægt að aðstoða hann við að taka andlegum framförum?
Við ættum öll að láta hann finna fyrir ósviknum kristnum kærleika. Öldungarnir ættu að meta andlegar þarfir hans sem fyrst. (Jak. 5:14, 15) Ef hann hefur verið óvirkur í stuttan tíma nægir kannski að reyndur boðberi rétti honum hjálparhönd í boðunarstarfinu til að gera hann virkan á ný. En hafi hann ekki sótt samkomur um langt skeið þarf trúlega að veita honum meiri hjálp. Hann gæti þurft að fá námskeið í viðeigandi biblíuriti til að byggja upp trú sína og þakklæti. Ef sú er raunin felur starfshirðirinn hæfum boðbera að stjórna námskeiðinu. (Hebr. 5:12-14; sjá spurningakassann í Ríkisþjónustu okkar í nóvember 1998.) Ef þú veist um einhvern sem þarf á slíkri aðstoð að halda skaltu ræða við starfshirðinn í söfnuðinum.
Æskilegt er að tveir öldungar fundi með einstaklingi, sem hefur verið óvirkur um langa hríð, til að athuga hvort hann uppfylli boðberakröfurnar áður en hann fer út í boðunarstarfið. Þeir fara svipað að og þegar fundað er með nýjum sem vilja gerast boðberar fagnaðarerindisins. (Sjá Varðturninn 1. júní 1989, bls. 29.) Hinn óvirka ætti að langa einlæglega til að segja öðrum frá fagnaðarerindinu. Hann þarf líka að uppfylla grundvallarkröfurnar sem tíundaðar eru á bls. 98-9 í Organized To Accomplish Our Ministry (Þjónustubókinni) og sækja safnaðarsamkomur reglulega.
Góð andleg dagskrá á stóran þátt í að styrkja þann sem snýr aftur, viðhalda dýrmætu sambandi hans við Jehóva og halda honum á veginum til eilífs lífs. (Matt. 7:14; Hebr. 10:23-25) Ef hann leggur „alla stund á“ að rækta með sér varanlega kristna eiginleika kemur það í veg fyrir að hann verði nokkurn tíma aftur ‚iðjulaus eða ávaxtalaus‘ lærisveinn Krists. — 2. Pét. 1:5-8.