Að bera vitni fyrir fólki af öllum tungum og trúarbrögðum
1 Kristnir menn á fyrstu öld báru kostgæfilega vitni fyrir fólki sem talaði margvísleg tungumál og hafði ólíkar trúarskoðanir. Árangurinn varð sá að „árið 100 var líklega kristið samfélag í hverju héraði sem lá að Miðjarðarhafinu.“ — History of the Middle Ages.
2 Í mörgum löndum, þar á meðal hér á landi, talar margt fólk annað tungumál en heimamálið. Vegna flutninga flóttamanna má víða finna töluvert stór erlend samfélög í sumum borgum og bæjum. Fjöldi manna, sem játar aðra trú en kristna, hefur flust milli landa, þar á meðal hundruð þúsunda búddhatrúarmanna, hindúa, gyðinga og múslíma. Vegna ólíkra tungumála og trúarbragða getur það reynst erfitt að vita hvernig á að ræða við og vitna fyrir slíku fólki þegar við hittum það. Það gæti eiginlega leynst trúboðssvæði í nágrenni okkar. Hvernig getum við fylgt þeim fyrirmælum Jesú „að prédika fyrir lýðnum og vitna“ fyrir fólki af öllum tungum og trúarbrögðum? — Post. 10:42.
Að bera vitni fyrir fólki sem talar annað tungumál
3 Víða um lönd fjölgar nýjum boðberum mikið á meðal erlendra tungumálahópa. Í Bandaríkjunum hafa verið stofnaðir söfnuðir sem tala 17 erlend tungumál og hópar eru starfandi á 7 tungumálum til viðbótar. Fleiru er þó enn hægt að áorka á svæði þar sem engir útlenskumælandi söfnuðir starfa.
4 Að yfirstíga tungumálahindranir: Það leikur enginn vafi á því að margir læra mun hraðar og með dýpri skilningi þegar þeim er kennt á móðurmálinu. Margir bræður og systur hafa lært annað tungumál „vegna fagnaðarerindisins“ og til að þeir ‚fái hlutdeild með því.‘ (1. Kor. 9:23) Enda þótt enskumælandi systir hefði látið kínverskumælandi konu fá blöðin í mörg ár afþakkaði konan alltaf boð um biblíunámskeið þar til önnur systir, sem var að læra kínversku, bauð henni bók á því tungumáli. Konan þáði bókina og biblíunámskeið með þökkum. Það sem skipti sköpum var viðleitni síðarnefndu systurinnar til að mæla nokkur orð á tungumáli konunnar. — Samanber Postulasöguna 22:2.
5 Það var ekki að ástæðulausu að Varðturninn 1. apríl 1993 sagði: „Það að læra erlent tungumál . . . þroskar ekki bara skilningsgetu ungs fólks heldur gerir það líka gagnlegra skipulagi Jehóva.“ Margir úr betelfjölskyldunni hafa lagt á sig að læra nýtt tungumál. Þannig hafa bræður komið að miklu gagni í söfnuðum þar sem þörf var á að þeir tækju forystuna. Kannski getur þú einnig aðstoðað erlenda tungumálahópa ef þú kannt annað tungumál eða ert fús til að læra það. — Matt. 9:37, 38.
6 Bróðir í Flórída, sem lærði víetnömsku áður en hann kynntist sannleikanum, hefur mikla ánægju af því að segja víetnömskumælandi fólki frá fagnaðarerindinu. Hann flutti fjölskyldu sína þvert yfir landið þangað sem þörfin á víetnömskumælandi boðberum var meiri til að geta nýtt betur kunnáttu sína í því tungumáli í boðunarstarfinu. Síðan þau fluttu hefur hann náð góðum árangri í að hjálpa mörgum frá Víetnam að kynnast Biblíunni.
7 Brautryðjandasystir í Kaliforníu hitti nokkra heyrnleysingja á svæði sínu. Hún bað Jehóva að hjálpa sér að finna einhvern sem gæti kennt sér táknmál til þess að hún gæti kennt þeim sannleikann. Dag einn er hún var að versla í stórmarkaði í nágrenninu kom til hennar ung, heyrnarlaus kona sem skrifaði á miða og bað um hjálp til að finna ákveðna vöru. Eftir að hafa hjálpað henni að finna vöruna skrifaði brautryðjandinn að sig langaði til að læra táknmál til að hjálpa heyrnarlausum á svæðinu. Þá skrifaði heyrnarlausa konan og spurði: „Hvers vegna vilt þú hjálpa heyrnarlausu fólki?“ Systirin skrifaði aftur: „Ég er ein af vottum Jehóva og ég vil hjálpa heyrnleysingjum að skilja Biblíuna. Ég skal með ánægju fræða þig um Biblíuna ef þú vilt kenna mér táknmál.“ Systirin segir: „Þið getið ekki ímyndað ykkur gleði mína þegar hún samþykkti það.“ Hún heimsótti konuna á hverju kvöldi í sex vikur. Hún lærði táknmál og heyrnarlausa konan lærði sannleikann og lét skírast! Þetta gerðist fyrir meira en 30 árum og brautryðjandasystirin er enn að bera vitni fyrir heyrnarskertum og er nú í táknmálssöfnuði.
8 Ef þú hefur allgóð tök á einhverju erlendu tungumáli skaltu láta starfshirðinn í söfnuði þínum vita. Hann gerir svo farandhirðinum viðvart. Ef aðstoðar er þörf við að koma fagnaðarerindinu á framfæri á því tungumáli má vera að haft verði samband við þig.
9 Að nota verkfærin sem látin eru í té: Rit okkar eru fáanleg á mörgum erlendum tungumálum. Það væri gagnlegt að hafa á sér smárit eða Kröfubæklinginn á þeim tungumálum sem töluð eru á þínu svæði. Ef augljóst er að íslenska er ekki móðurmál viðkomandi skaltu spyrja hann hvaða tungumál hann lesi. Það getur gefið þér kost á að velja úr fleiri ritum til að bjóða. Til dæmis gæti úrdúmælandi maður einnig lesið arabísku.
10 Enda þótt þú talir ekki tungumál þeirra sem þú hittir í boðunarstarfinu geturðu samt flutt þeim fagnaðarerindið. Hvernig? Með því að nota bæklinginn Fagnaðarerindi fyrir allar þjóðir (Good news for all nations). Hann inniheldur stuttan boðskap á 59 tungumálum. Eins og útskýrt er í leiðbeiningunum á bls. 2 í bæklingnum skaltu komast að því hvert sé móðurmál húsráðandans og síðan láta hann lesa textann á viðeigandi blaðsíðu í bæklingnum. Þegar hann hefur lokið lestrinum skaltu sýna honum rit á hans tungumáli. Ef þú hefur það ekki við hendina skaltu sýna honum ritið á íslensku. Bentu á að þú ætlir að reyna að koma aftur með eintak á hans tungumáli. Biddu um nafn hans og skrifaðu það niður ásamt heimilisfangi. Síðan skaltu tala við starfshirðinn í söfnuði þínum. Hann hefur lista yfir þá boðbera sem tala ólík tungumál og gerir ráðstafanir til að áhuganum sé fylgt eftir. Frekari upplýsingar er að finna í Ríkisþjónustu okkar fyrir mars 1997. Ef enginn, sem talar það tungumál, er fáanlegur til að sjá um heimsóknina, gætir þú kannski tekið þeirri áskorun og jafnvel kennt viðkomandi með því að nota rit á heimamáli hans en fylgst með í íslensku riti. — 1. Kor. 9:19-23.
Að vitna fyrir fólki sem aðhyllist ekki kristna trú
11 Ef við vitum eitthvað um trúarlegan uppruna viðkomandi hjálpar það okkur til að gefa áhrifaríkan vitnisburð um Guðsríki. Bókin Leit mannkyns að Guði gefur okkur innsýn í helstu trúarbrögð heims svo að við getum skilið trúarskoðanir fólks nægilega vel til að hjálpa því að komast til þekkingar á sannleikanum.
12 Í rammagreininni á síðustu blaðsíðu þessa viðauka er listi yfir þau rit sem skipulag Jehóva hefur gefið út til að nota þegar borið er vitni fyrir fólki sem er ekki kristinnar trúar. Með því að lesa þessi rit skiljum við hvernig hægt er að koma fagnaðarerindinu á framfæri við fólk. Og Biblíusamræðubæklingurinn er gagnlegt verkfæri. Á bls. 13-16 eru gagnlegar tillögur til að svara búddhatrúarmönnum, hindúum, gyðingum og múslímum.
13 Gættu þess hvað þú segir: Við ættum að gæta þess að gera okkur ekki staðnaða mynd af fólki ákveðinnar trúar með því að álykta að persónulegar skoðanir þeirra sem við hittum séu þær sömu og trúbræðra þeirra. Í stað þess skaltu leitast við að skilja hvernig sá einstaklingur hugsar sem þú ert að tala við. (Post. 10:24-35) Sem múslími var Salimoon alinn upp við þá trú að Kóraninn væri orð Guðs. En hann gat aldrei sætt sig fyllilega við þá kenningu múslíma að miskunnsamur Guð skyldi pynda fólk í brennandi víti. Dag einn buðu vottar Jehóva honum á samkomu. Hann sá strax að þetta var sannleikurinn og þjónar nú hamingjusamur sem öldungur í kristna söfnuðinum.
14 Þegar við berum vitni fyrir þeim sem aðhyllast ekki kristna trú þurfum við að gæta þess að framkoma okkar spilli ekki tækifærinu til að segja þeim frá fagnaðarerindinu. (Post. 24:16) Fylgismenn vissra trúflokka eru mjög viðkvæmir fyrir öllum tilraunum til að snúa þeim frá trú sinni. Reyndu því að finna sameiginlegan grunn til að byggja á og laða þá að sannleika orðs Guðs í heild sinni. Sauðumlíkir menn bregðast vel við vingjarnlegri framkomu og skýrri kynningu á sannleikanum.
15 Orðaval okkar skiptir líka miklu máli til þess að við gerum menn ekki fráhverfa boðskap okkar að ástæðulausu. Ef þú kynnir þig til dæmis strax sem kristinn mann gætu áheyrendur þínir ósjálfrátt tengt þig við kirkjur kristna heimsins, sem gæti verið þeim þröskuldur. Það getur einnig verið gott að kalla Biblíuna ‚ritningarnar‘ eða „heilagar ritningar.“ — Matt. 21:42; 2. Tím. 3:15.
16 Ef þú hittir einhvern sem aðhyllist ekki kristna trú og þér finnst þú illa undir það búinn að bera vitni þegar í stað skaltu nota tækifærið til að kynnast honum, skilja eftir smárit og skiptast á nöfnum. Síðan skaltu koma aftur eftir einn eða tvo daga, eftir að þú hefur undirbúið þig nægilega til að bera vitni. — 1. Tím. 4:16; 2. Tím. 3:17.
17 Að vitna fyrir búddhatrúarmönnum: (Sjá kafla 6 í Leit mannkyns að Guði.) Persónulegar trúarskoðanir búddhatrúarmanna eru mjög breytilegar. Búddhatrúarmenn gera indverskan mann að nafni Búddha Gautama frá 6. öld f.o.t., að trúarlegri fyrirmynd í stað þess að trúa á persónulegan skapara. Þegar Gautama sá í fyrsta sinn sjúkan mann, gamlan mann og látinn mann sótti spurningin um tilgang lífsins sterkt á hann. Hann velti fyrir sér hvort menn hafi fæðst aðeins til að þjást, eldast og deyja. Við getum að sjálfsögðu svarað slíkum spurningum ef einlægir búddhatrúarmenn vilja vita svörin.
18 Þegar þú talar við búddhatrúarmann skaltu halda þig við þann jákvæða boðskap og skýru sannindi sem er að finna í mestu bók allra helgra bóka, Biblíunni. Líkt og flestir aðrir hafa búddhatrúarmenn mikinn áhuga á friði, góðu siðferði og fjölskyldulífi og þeir eru oft reiðubúnir að ræða þau mál. Þá færðu kannski tækifæri til að benda á Guðsríki sem einu varanlegu lausnina á vandamálum mannkyns.
19 Stór straumur af Kínverjum, sem aðhyllast Búddha og aðra austurlenska heimspeki, hefur legið til nokkurra stórborgarsvæða Bandaríkjanna. Margir þeirra eru námsmenn og sækja háskóla í Bandaríkjunum. Þegar systir í Montanaríki sá kínverskan mann í matvöruverslun rétti hún honum smárit á hans tungumáli og bauð honum biblíunám. Hann sagði: „Áttu við Heilaga biblíu? Ég hef verið að leita að þessu alla mína ævi!“ Þessa sömu viku byrjaði hann að nema og að sækja allar samkomurnar.
20 Í meira en áratug hefur brautryðjandasystir í Nevadaríki verið að kenna kínverskum námsmönnum sannleikann. Þegar hún starfaði í byggingu þar sem námsmennirnir búa í átta íbúðum, bað hún Jehóva að hjálpa sér að hefja námskeið í hverri íbúð. Innan tveggja vikna var hún farin að kenna að minnsta kosti einum námsmanni í hverri íbúð. Henni hefur reynst vel að segja að hún hafi komist að raun um að námsmenn þrái yfirleitt allir frið og hamingju. Síðan spyr hún hvort þeir geri það líka. Þeir játa því alltaf. Hún beinir athygli þeirra að bæklingnum Lasting Peace and Happiness—How to Find Them (Hvernig hægt er að finna varanlegan frið og hamingju) sem er saminn fyrir Kínverja. Eftir aðeins fimm námsstundir sagði einn námsmannanna henni að hann hefði verið að leita að sannleikanum í langan tíma og hefði núna fundið hann.
21 Að vitna fyrir hindúum: (Sjá kafla 5 í Leit mannkyns að Guði.) Hindúatrú er ekki ákveðin kenning. Heimspeki hennar er mjög flókin. Hindúar líta á aðalguð sinn Brahman sem þrenningu (skaparann Brahma, verndarann Vishnú, og eyðandann Síva). Trú á ódauðlega sál er grundvöllur endurholdgunarkenningar hindúa og gerir þá oft forlagatrúar. (Sjá Rökræðubókina bls. 317-21, og Varðturninn 1. júlí 1997, bls. 3-8.) Hindúatrúin kennir umburðarlyndi, að öll trúarbrögð séu leiðir að sama sannleika.
22 Ein leið til að vitna fyrir hindúum er að útskýra biblíulega von okkar að lifa að eilífu í mannlegum fullkomleika á jörðinni, og fullnægjandi svör Biblíunnar við hinum mikilvægu spurningum sem allt mannkynið stendur frammi fyrir.
23 Að vitna fyrir gyðingum: (Sjá kafla 9 í Leit mannkyns að Guði.) Ólíkt öðrum trúarbrögðum, sem ekki eru kristin, á gyðingdómurinn rætur sínar að rekja til mannkynssögunnar en ekki goðsagna. Í hinum innblásnu Hebresku ritningum er að finna mikilvægan hlekk í leit mannkyns að hinum sanna Guði. Og þó er ódauðleiki mannssálarinnar ein grundvallarkenning nútímagyðingdómsins, gagnstætt því sem orð Guðs segir. Hægt er að leggja sameiginlegan grunn með því að staðfesta að við tilbiðjum Guð Abrahams og viðurkenna að við stöndum öll andspænis sömu vandamálunum í heimi nútímans.
24 Ef þú hittir gyðing sem skortir trú á Guð og spyrð hvort hann hafi alltaf hugsað þannig getur það hjálpað þér að sjá hvað höfði best til hans. Til dæmis getur verið að hann hafi aldrei fengið fullnægjandi útskýringu á því hvers vegna Guð leyfi þjáningar. Hægt er að hvetja einlæga gyðinga til að kanna öðru sinni hvort Jesús sé Messías, ekki út frá ranghugmyndum kristna heimsins á honum, heldur út frá þeirri mynd sem gyðingaritarar grísku ritninganna gefa af honum.
25 Að vitna fyrir múslímum: (Sjá kafla 12 í Leit mannkyns að Guði.) Múslímar aðhyllast íslam (eða múhameðstrú), er felur í sér trú á Allah sem hinn eina guð og á Múhameð (570-632) sem síðasta og mikilvægasta spámann hans. Af því að múslímar trúa ekki að Guð hafi átt son viðurkenna þeir Jesú Krist aðeins sem minni spámann Guðs, en ekkert meira. Kóraninn, sem er innan við 1400 ára gamall, vitnar bæði í Hebresku og Grísku ritningarnar. Margt er líkt með íslam og kaþólskri trú. Bæði trúarbrögðin kenna ódauðleika sálarinnar, tímabundið kvalarástand og brennandi víti.
26 Augljós, sameiginlegur grundvöllur er sú trú okkar að það sé aðeins einn sannur Guð og að Biblían sé innblásin af honum. Kostgæfinn lesandi Kóransins hefur séð tilvísun til þess að Tóran, sálmarnir og guðspjöllin séu orð Guðs og hefur lesið að það ætti að viðurkenna þau sem slík og hlýða þeim. Þú gætir því boðist til að hjálpa viðkomandi að kynna sér þau.
27 Þessi kynning gæti dugað þegar einhver segist vera múslími: „Ég hef ekki rætt við marga múslíma en ég hef lesið eitthvað um trúarkenningar ykkar í þessum bæklingi. [Flettu upp á bls. 15 í Biblíusamræðubæklingnum.] Hér segir að þið trúið að Jesús hafi verið spámaður en að Múhameð hafi verið síðasti og mikilvægasti spámaðurinn. Trúir þú einnig að Móse hafi verið sannur spámaður? [Gefðu kost á svari.] Mætti ég sýna þér hvað Móse lærði frá Guði um einkanafn Guðs?“ Lestu síðan 2. Mósebók 6:2, 3 og bentu á nafnið neðanmáls. Þegar þú ferð í endurheimsókn gætir þú rætt um millifyrirsögnina „Einn Guð, ein trú,“ á bls. 13 í bæklingnum The Time for True Submission to God (Tími til sannrar undirgefni við Guð).
28 Margir eru nú að breyta í samræmi við orðin í Jesaja 55:6, þar sem stendur: „Leitið [Jehóva], meðan hann er að finna, kallið á hann, meðan hann er nálægur!“ Þetta á við um alla hjartahreina menn án tillits til tungumáls þeirra eða trúarlegs uppruna. Við getum verið viss um að Jehóva blessi viðleitni okkar er við kappkostum að fara og gera „allar þjóðir að lærisveinum.“ — Matt. 28:19.
[Rammi á blaðsíðu 6]
Rit samin fyrir fólk sem er ekki kristinnar trúar
Búddhatrúarmenn
In Search of a Father (Bæklingur)
„Sjá, ég gjöri alla hluti nýja“ (Bæklingur)
Kínverjar
Lasting Peace and Happiness — How to Find Them (Bæklingur)
Hindúar
From Kurukshetra to Armageddon — And Your Survival (Bæklingur)
Our Problems — Who Will Help Us Solve Them? (Bæklingur)
The Path of Divine Truth Leading to Liberation (Bæklingur)
Victory Over Death — Is It Possible for You? (Bæklingur)
Why Should We Worship God in Love and Truth? (Bæklingur)
Gyðingar
A Peaceful New World — Will It Come? (Smárit nr. 17)
Jehovah’s Witnesses — What Do They Believe? (Smárit nr. 18)
Will There Ever Be a World Without War? (Bæklingur)
Múslímar
How to Find the Road to Paradise (Smárit)
The Time for True Submission to God (Bæklingur)