Þú gætir þurft að leita að fólki til að boða því fagnaðarerindið
1. Hvers vegna skiptast starfssvæði safnaða oft eftir tungumálum?
1 Á hvítasunnu árið 33 fengu lærisveinar Jesú heilagan anda og „tóku að tala öðrum tungum“ við fólk sem var komið langt að. (Post. 2:4) Það skilaði sér í því að um 3.000 manns létu skírast. Athygli vekur að svo virðist sem flestir hinna aðkomnu hafi einnig talað sameiginlegt mál, líklega hebresku eða grísku. Samt ákvað Jehóva að þeir fengju að heyra boðskapinn um ríki Guðs á móðurmáli sínu. Ein af ástæðunum er eflaust sú að fólk tekur gjarnan betur við fagnaðarboðskapnum þegar það heyrir hann á móðurmáli sínu. Þess vegna er starfssvæðum safnaða, þar sem töluð eru mörg tungumál, oft skipt eftir tungumálum. (Skipulagsbókin bls. 107, gr. 1-2) Erlendum málhópum er ekki úthlutað ákveðnu starfssvæði. Þeir prédika fyrir fólki, sem talar erlenda málið, á svæði safnaðarins sem þeir tilheyra og annarra safnaða í grenndinni.
2. (a) Hvenær getur verið nauðsynlegt að leita að fólki á svæðunum? (b) Hvernig geta söfnuðir hjálpast að við að starfa á svæðum þar sem töluð eru mörg tungumál? (c) Hvað ættum við að gera ef við finnum einhvern sem sýnir áhuga en talar annað tungumál?
2 Ef þú býrð á svæði þar sem allir tala sama tungumálið geturðu einfaldlega starfað hús úr húsi. En málið getur vandast ef þú ert í borg eða bæ þar sem mörg tungumál eru töluð. Það starfa kannski fleiri söfnuðir í sama hverfinu. Hinir söfnuðirnir láta ykkur kannski vita af einstaklingum á svæðinu sem tala málið ykkar, en það er þó fyrst og fremst hlutverk ykkar safnaðar að finna þá sem þið getið prédikað fyrir. (Sjá rammann „Hjálpumst að“.) Þið gætuð því þurft að leita til að finna fólk sem talar tungumálið. Hvernig er hægt að bera sig að við leitina?
3. Hvað ræður því hvar söfnuður eða hópur leitar að fólki og hve miklum tíma er varið til þess?
3 Hvernig leitin er skipulögð: Það fer eftir aðstæðum á hverjum stað hve miklum tíma er varið í að leita að fólki á svæðum þar sem töluð eru mörg tungumál. Það getur ráðist af því hve margir tala málið, hve margir boðberarnir eru eða hversu marga aðila söfnuðurinn eða hópurinn veit nú þegar um. Söfnuðinum ber ekki skylda til að leita jafnt í öllum hverfum og margir velja að einbeita sér að fjölmennari svæðum innan safnaðarsvæðisins og á nærliggjandi svæðum. Það er þó mikilvægt að skipuleggja leitina vel svo að sem flestir fái tækifæri til að ákalla nafn Jehóva. – Rómv. 10:13, 14.
4. (a) Hvernig ætti að skipuleggja leitina? (b) Nefndu aðferðir sem hægt er að nota til að finna erlent fólk á svæðinu.
4 Til að koma í veg fyrir tvíverknað ætti öldungaráðið, og þá sérstaklega starfshirðirinn, að skipuleggja leitina þar sem þörf er á því. (1. Kor. 9:26) Í erlendum málhópum ætti hæfur bróðir að taka forystuna í þessu starfi. Hann ætti helst að vera öldungur eða safnaðarþjónn og valinn af öldungaráði þess safnaðar sem málhópurinn tilheyrir. Margir boðberar undirbúa leitina markvisst með því til dæmis að leita uppi nöfn, sem eru algeng á tungumálinu, í símaskrá eða á Netinu. Síðan er fólkið heimsótt eða hringt í það til að ganga úr skugga um hvort það eigi að tilheyra þessu svæði. Það gæti reynst vel ef öldungaráð safnaðarins, sem sér um erlenda málahópinn, skipuleggur af og til leit sem allur söfnuðurinn tekur þátt í. – Sjá rammann „Hvernig má finna fólk sem talar tungumál safnaðarins?“
5. (a) Hverju er mælt með fyrir boðbera sem taka þátt í að leita? (b) Hvað getum við sagt þegar við leitum að fólki?
5 Við þurfum að hafa skýr markmið þegar við tökum þátt í að leita að fólki. Þetta er hluti af boðunarstarfi okkar og þess vegna ættum við að vera klædd eins og hæfir fyrir boðunarstarfið. Mörgum finnst gott að æfa kynningar og tala saman á viðkomandi máli á meðan þeir eru að leita, til þess að halda eldmóðinum og bæta tungumálakunnáttuna. Við megum telja tímann meðan við leitum að fólki úti á svæðinu en ekki tímann sem fer í að búa til svæðiskort eða upplýsingalista. Þegar við finnum einhvern sem talar tungumálið ættum við að reyna okkar besta til þess að vitna fyrir honum. Síðan ættum við láta starfshirðinn eða aðstoðarmann hans vita við fyrsta tækifæri svo að hann geti uppfært svæðisskrár safnaðarins. Þetta ætti að gera hvort sem einstaklingurinn sýnir áhuga eða ekki. Það er mikilvægt að leita að fólki en við ættum samt að hafa jafnvægi og taka þátt í öllum greinum þjónustunnar. – Sjá rammann „Hvað getum við sagt þegar við leitum að fólki?“
6. Hvaða sérstöku áskoranir fylgja því að leita að heyrnarlausum?
6 Þegar við leitum að heyrnarlausum: Það fylgja því sérstakar áskoranir að leita að heyrnarlausum og krefst töluverðrar vinnu og þrautseigju. Það er ekki hægt að þekkja heyrnarlausa á nafninu, útlitseinkennum eða klæðaburði. Þar að auki getur fjölskylda þeirra viljað vernda þá og hikað við að gefa boðberum upplýsingar þegar þeir spyrja um þá. Eftirfarandi leiðbeiningar eru ekki einungis gagnlegar þegar við leitum að heyrnarlausum heldur líka þegar við leitum að öðru fólki.
7. (a) Hvernig væri hægt að leita að heyrnarlausum einstaklingum í íbúðarhverfum? (b) Hvernig getum við unnið traust tortryggins húsráðanda?
7 Táknmálssöfnuðir og -hópar hafa leitað í íbúðarhverfum með góðum árangri. Þú bankar kannski upp á hjá einhverjum sem hefur tekið eftir því að nágranni, vinnufélagi eða skólafélagi notar táknmál. Kannski hefur hann tekið eftir einhverju sem gefur til kynna að heyrnarlausir búi í nágrenninu. Ef til vill á hann ættingja sem er heyrnarlaus. Hafðu í huga að fólk getur verið tortryggið. En með því að vera vingjarnlegur og skýra heiðarlega frá því í stuttu máli hvert erindi þitt er geturðu ef til vill unnið traust húsráðanda. Í sumum löndum hefur það reynst boðberum vel að sýna Biblíuna eða önnur táknmálsrit á mynddiskum þegar þeir spyrja húsráðandann hvort hann viti um einhvern sem er heyrnarlaus. Þeir segja einfaldlega að þá langi til að ræða við hann um vonina sem Biblían veitir. Ef húsráðandinn hikar við að gefa upplýsingar er hann kannski fús til að taka við nafnspjaldi eða boðsmiða á samkomu til að gefa heyrnarlausum ættingja eða vini.
8. Hvernig er hægt að leita að heyrnarlausum þar sem þeir koma gjarnan saman til félagsskapar, afþreyingar eða til að sækja sér þjónustu?
8 Það má einnig leita að heyrnarlausum þar sem þeir koma gjarnan saman til félagsskapar, afþreyingar eða til að sækja sér þjónustu. Boðberar ættu að klæðast eins og viðeigandi er á hverjum stað. Það er líklega betra að ræða við einn eða tvo á staðnum frekar en að fara með kynningu fyrir allan hópinn. Ef samtalið gengur vel er kannski hægt að skiptast á upplýsingum svo að hægt sé að hafa samband aftur.
9. Hvernig geta boðberar leitað í fyrirtækjum?
9 Annar möguleiki er að útbúa svæðiskort yfir fyrirtæki og heimsækja þau á viðeigandi tíma. Á einu korti gæti til dæmis verið að finna nokkrar bensínstöðvar, á öðru fatahreinsanir, þvottahús, veitingastaði, hótel og fleiri fyrirtæki. Ef sams konar fyrirtæki eru saman á korti geta boðberar notað sömu aðferðina og öðlast færni og reynslu. Í sumum fyrirtækjum má einfaldlega spyrja hvort þar séu heyrnarlausir starfsmenn eða fastagestir. Ef það er skóli á svæðinu fyrir heyrnarlausa mætti bjóða rit á mynddiskum til að hafa á bókasafni skólans.
10. Hvers vegna er leit mikilvægur þáttur í þjónustu okkar?
10 Mikilvægt starf: Það getur verið tímafrekt að leita að húsráðendum í ákveðnum málhópi. Þar að auki getur reynst erfitt að halda við skrám safnaðarins yfir ákveðin svæði því að sum hverfi breytast ört þegar fólk flytur til og frá. En þetta er samt mikilvægur þáttur boðunarstarfs okkar á æ fleiri svæðum. Jehóva fól okkur að boða fagnaðarerindið og hann fer ekki í manngreinarálit. (Post. 10:34) Hann „vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. (1. Tím. 2:3, 4) Vinnum þess vegna að því með Jehóva og hvert öðru að leita að fólki,með gott hjarta‘ af öllum málhópum. – Lúk. 8:15.
[Rammi á bls. 5]
Hjálpumst að
Við fyllum út eyðublaðið Vinsamlega fylgið eftir (S-43) þegar við hittum áhugasama sem búa ekki á svæði safnaðarins eða sem tala annað tungumál. Áður var ætlast til þess að við fylltum út eyðublaðið alltaf þegar við hittum fólk sem talar erlent mál, hvort sem það sýndi áhuga eða ekki. En nú ættum við aðeins að gera það ef viðkomandi sýnir áhuga og vill fá heimsókn aftur. Það sama á við þegar við hittum heyrnarlausa á svæðinu. Við ættum aðeins að nota eyðublaðið ef þeir sýna áhuga og vilja fá heimsókn aftur.
Þegar við höfum fyllt út eyðublaðið á ritari safnaðarins að fá það. Ef hann veit hvaða söfnuður ætti að taka við því getur hann sent það beint til öldunga þess safnaðar þannig að hægt sé að fylgja áhuganum eftir. Ef hann veit ekki hvaða söfnuður ætti að sinna beiðninni sendir hann hana til deildarskrifstofunnar.
Ef þú hittir áhugasaman einstakling, sem talar annað tungumál og býr á svæðinu þínu, er í lagi að þú haldir áfram að sinna honum þangað til viðeigandi söfnuður hefur samband við hann. – Sjá km 5.11, bls. 3 og km 10.11, bls. 8.
[Rammi á bls. 6]
Hvernig má finna fólk sem talar tungumál safnaðarins?
• Þú gætir spurt biblíunemendur, ættingja, vinnufélaga og þar fram eftir götunum.
• Notaðu símaskrána til þess að finna algeng nöfn á tungumálinu. Það er einnig hægt að leita að heimilisföngum eftir nöfnum á Netinu.
• Þú gætir spurst fyrir með háttvísi á stöðum sem veita almenningsþjónustu eins og á bókasöfnum, skrifstofum ríkisins og skólum.
• Hafðu augun opinn fyrir tilkynningum í dagblöðum um ýmsar samkomur þessa málhóps.
• Farðu í verslanir og fyrirtæki sem þjónusta þennan erlenda hóp fólks.
• Biddu um leyfi til að setja upp ritabás þar sem oft má finna fólk sem talar tungumálið, eins og í verslunarmiðstöðvum, háskólagörðum eða á biðstöðvum.
[Rammi á bls. 7]
Hvað getum við sagt þegar við leitum að fólki?
Vingjarnlegt og einlægt viðmót dregur úr tortryggni. Það er oft gagnlegt að byrja á að sýna fólki rit á tungumálinu.
Eftir að þú kynnir þig gætir þú sagt: „Við erum að leita að fólki sem talar ______ til að segja því frá framtíðarvon Biblíunnar. Þekkir þú einhvern sem við gætum talað við?“
Þegar þú leitar að heyrnarlausum á svæði þar sem þú telur líklegt að hitta þá gætirðu sagt: „Góðan dag. Okkur langar til að ná til allra, einnig heyrnarlausra og heyrnarskertra, til að hjálpa þeim að finna svör Biblíunnar við stóru spurningunum í lífinu. Veistu af einhverjum heyrnarlausum eða heyrnarskertum sem búa í hverfinu?“