Sækið samkomur „því fremur“
1 Það hefur alltaf verið lífsnauðsynlegt fyrir fólk Jehóva að safnast saman. Ísraelsmenn höfðu musterið og samkunduhús sín sem miðstöðvar sannrar tilbeiðslu, menntunar frá Guði og ánægjulegs félagsskapar. Frumkristnir menn vanræktu ekki heldur safnaðarsamkomur sínar. Samhliða auknu álagi og erfiðleikum nú á þessum örðugu og síðustu dögum þurfum við líka þann andlega styrk sem safnaðarsamkomurnar veita — og við þurfum hann „því fremur“ sem dagurinn færist nær. (Hebr. 10:25) Við skulum athuga þrjár ástæður til að sækja samkomur.
2 Félagsskapurinn: Ritningin hvetur okkur til að ‚áminna hver annan og uppbyggja hver annan.‘ (1. Þess. 5:11) Félagsskapur við guðhrædda menn fyllir huga okkar af uppbyggjandi hugsunum og knýr okkur til að vinna góð verk. En ef við einangrum okkur er líklegt að við förum að ala í brjósti heimskulegar, eigingjarnar eða jafnvel siðlausar langanir. — Orðskv. 18:1, NW.
3 Fræðslan: Kristnar samkomur bjóða upp á stöðuga biblíufræðslu sem er ætluð til að halda kærleikanum til Guðs lifandi í hjörtum okkar. Þær gefa gagnlegar leiðbeiningar um að nota „allt Guðs ráð.“ (Post. 20:27) Samkomurnar þjálfa okkur í þeirri list að prédika og kenna fagnaðarerindið, og efla þar með hæfileika sem meiri þörf er á núna en nokkru sinni fyrr. Þannig getum við reynt þá ólýsanlegu gleði að finna og hjálpa þeim sem taka við sannleika Biblíunnar.
4 Verndin: Í þessum vonda heimi er söfnuðurinn raunverulegt, andlegt skjól — athvarf friðar og kærleika. Þegar við sækjum safnaðarsamkomurnar hefur heilagur andi Guðs sterk áhrif á okkur og framleiðir ávextina ‚kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og bindindi.‘ (Gal. 5:22, 23) Samkomurnar styrkja okkur til að standa stöðug og traust í trúnni. Þær búa okkur undir þær raunir sem framundan eru.
5 Með reglulegri samkomusókn fáum við að reyna það sem sálmaritarinn lýsti í Sálmi 133:1, 3: „Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman.“ Hvar sem fólk Guðs þjónar og kemur saman nú á dögum „þar hefir [Jehóva] boðið út blessun, lífi að eilífu.“