Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 5.98 bls. 3-6
  • Landsmótið 1998, „Lífsvegur Guðs“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Landsmótið 1998, „Lífsvegur Guðs“
  • Ríkisþjónusta okkar – 1998
  • Svipað efni
  • Landsmótið 1997 „Trúin á orð Guðs“
    Ríkisþjónusta okkar – 1997
  • Landsmótið 1995 „Glaðir menn sem lofa Guð“
    Ríkisþjónusta okkar – 1995
  • Landsmótið 1999, „Spádómsorð Guðs“
    Ríkisþjónusta okkar – 1999
  • Landsmótið 1994 „Guðsótti“
    Ríkisþjónusta okkar – 1994
Sjá meira
Ríkisþjónusta okkar – 1998
km 5.98 bls. 3-6

Landsmótið 1998, „Lífsvegur Guðs“

1 Orðskviðirnir 10:29 minna okkur á að ‚vegur Jehóva sé athvarf‘ eða vígi. Einkunnarorð landsmótsins 1998 eru því mjög viðeigandi — „Lífsvegur Guðs.“ Við hlökkum öll til að sjá hvernig þetta stef verður útfært mótsdagana þrjá og bíðum í ofvæni eftir að hlýða á þessa mikilvægu dagskrá.

2 Trúboðar, alþjóðlegir sjálfboðaliðar og aðrir sem þjóna á erlendri grund munu fá hjálp frá Félaginu til að heimsækja heimaland sitt og sækja umdæmismót þar. Búist er við þúsundum mótsgesta frá öðrum löndum til borga þar sem alþjóðamót verða haldin. Á dagskrá landsmótsins verður greint frá því hvernig Jehóva blessar starfið í ýmsum heimshlutum.

3 Það er vel þess virði að koma: Margir bræðra okkar í Afríku hafa þurft að þola harðræði vegna styrjalda og öngþveitis sums staðar í álfunni. Fyrir þá eru umdæmismót þjóna Jehóva eins og líflína. Sumir verða að ferðast um langan veg fótgangandi til að sækja umdæmismót en kemur samt ekki til hugar að sleppa einu einasta móti. Sjötíu og þriggja ára gamall bróðir frá Alþýðulýðveldinu Kongó (áður Saír) gekk rúmlega 450 kílómetra leið á umdæmismót. Hann komst á leiðarenda eftir 16 daga göngu, bólginn á fótum en glaður yfir því að vera kominn. Að móti loknu fór hann fótgangandi heim, alsæll og andlega uppbyggður. Þetta hefur hann gert í mörg ár!

4 Umdæmishirðir í Mósambík og eiginkona hans klifu hátt fjall og fóru fótgangandi yfir stórt eyðimerkursvæði til að komast á svæðismót. Það tók þau 45 tíma að ganga þessa 90 kílómetra leið. Frábært fordæmi þeirra var öllum viðstöddum mikil hvatning. Margar fjölskyldur höfðu lagt svipað á sig til að sækja mótið. Umdæmishirðirinn greindi frá því að sumir, meðal annars sextugur bróðir, hefðu farið 200 kílómetra fótgangandi!

5 Hefurðu gert nauðsynlegar ráðstafanir til að sækja landsmótið í ár? Það er ólíklegt að þú þurfir að ganga langar leiðir en eitthvað þarftu að leggja á þig samt svo að þú og fjölskylda þín geti verið viðstödd. Gerðu ráðstafanir til að hlýða á alla dagskrána frá upphafi til enda. Margir biblíunemendur eru að taka framförum í átt til vígslu. Mótið getur hjálpað þeim að taka rétta ákvörðun. Hefurðu boðið biblíunemendum þínum og öðrum áhugasömum að koma með þér á mótið?

6 Þriggja daga landsmót: Landsmótið í ár stendur í þrjá daga og verður haldið í íþróttahúsinu Digranesi í Kópavogi, dagana 7. til 9. ágúst 1998. Þú ættir núna að vera búinn að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að vera viðstaddur dagskrána alla mótsdagana þrjá. Hefur þú komið að máli við vinnuveitanda þinn til að fá þig lausan úr vinnu dagana sem mótið stendur? Dagskráin hefst hvern dag klukkan 9.30 árdegis og lýkur klukkan 17.00 á föstudegi og laugardegi en klukkan 16.00 á sunnudegi.

7 Alþjóðamót: Í borgum víða um heim verða haldin alþjóðamót undir einkunnarorðunum „Lífsvegur Guðs.“ Þúsundum bræðra og systra frá fjölmörgum löndum hefur verið boðið að sækja þessi mót sem sérstakir fulltrúar Félagsins. Það er ánægjulegt til þess að vita að í þetta sinn fara þrír fulltrúar frá Íslandi á alþjóðamótið í Torontó í Kanada, dagana 26.-28. júní, fimm á alþjóðamótið í Lundúnum og tveir á alþjóðamótið í Edinborg, dagana 24.-26. júlí. Mótsstaðirnir geta engan veginn rúmað alla sem vildu sækja þessi alþjóðamót þannig að mælst er til þess við aðra boðbera að fara ekki á þau nema þeim hafi verið boðið. Samvinna ykkar í þessum efnum tryggir að allt fari sómasamlega fram og með reglu. — 1. Kor. 14:33, 40.

8 Tækifærisvitnisburður: Á leið til og frá mótsstaðnum ættum við að vera vakandi fyrir tækifærum til að bera óformlega vitni. Bensínafgreiðslumenn, afgreiðslufólk verslana, starfsfólk gistihúsa og framreiðslufólk veitingahúsa kann að sýna boðskap Guðsríkis áhuga. Búðu þig undir það með því að hafa smárit, blöð, bæklinga eða önnur rit meðferðis til að nýta tækifærin sem bjóðast til að vitna fyrir fólki sem annars næst kannski ekki til með fagnaðarerindið. — 2. Tím. 2:17.

9 ‚Gættu að hvernig þú heyrir‘: Það er viturlegt af mótsgestum að hlýða þessu heilræði í Lúkasi 8:18. Allir eru hvattir til að hafa með sér biblíu, söngbók og minnisbók. Fylgstu vandlega með hverjum dagskrárlið svo að þú náir aðalatriðunum og skrifaðu hjá þér stutta minnispunkta. Spyrðu þig hvernig þú getir tekið efnið til þín. Væri ekki ráð að renna yfir minnispunktana fyrir háttinn hvern mótsdag, líta í eigin barm og athuga hve náið þú heldur þig við lífsveg Jehóva? — Orðskv. 4:10-13.

10 Eftir því hefur verið tekið að sumir yfirgefa mótssalinn meðan á mótinu stendur til að sitja úti í bílum sínum og missa þar með af dagskránni. Sést hefur til annarra arka fram og aftur um húsakynnin þegar þeir ættu að sitja í áheyrendasalnum og hlýða á dagskrána. Hópar ungs fólks hafa sést yfirgefa mótsstaði síðdegis meðan dagskráin stendur enn yfir. Sumir þjónar Jehóva til forna gerðu alvarleg mistök af því að þeir hlustuðu ekki vandlega á áminningar Jehóva. Við viljum örugglega ekki gera sömu glappaskotin. (2. Kon. 17:13-15) Hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur búið okkur fræðslu sem við þurfum öll á að halda. Það er sérstaklega mikilvægt að við ‚gefum því enn betur gaum sem við heyrum‘ alla mótsdagana þrjá. Hvern mótsdag verður efni sem ætti að vekja sérstakan áhuga okkar, meðal annars upplýsingar sem hafa örugglega heilnæm áhrif á lífsveg okkar í framtíðinni. Með því að taka vel eftir og nota til fulls það sem Jehóva sér okkur fyrir andlega á landsmótinu verður von okkar bjargföst svo að ‚við berumst ekki afleiðis‘ af lífsvegi Guðs. — Matt. 24:45; Hebr. 2:1.

11 Klæðaburður sem heiðrar Jehóva: Á þessum örðugu tímum þurfum við að gefa því enn betur gaum að andi heimsins hlaupi ekki með okkur í gönur. (1. Kor. 2:12) Klæðaburður okkar og snyrting á að vera smekkleg og Guði okkar til sóma. (1. Tím. 2:9, 10) Við þurfum ekki að klæðast dýrum fatnaði til að vera í hópi þeirra sem ‚prýða kenningu Guðs frelsara okkar.‘ (Tít. 2:10) Takið eftir hagnýtum og biblíulegum ráðleggingum á bls. 12 og 13 í Varðturninum 1. ágúst 1997, greinum 14-18. Vanmetum aldrei þann kröftuga vitnisburð sem við getum gefið með klæðaburði sem heiðrar Jehóva.

12 Sextán ára gömul vottastúlka segir frá því að þegar hún og bróðir hennar fóru á veitingastað kvöld eitt að lokinni dagskrá, hafi þau tekið eftir því að sumir bræður og systur, sem þar voru, höfðu haft fataskipti og farið í óviðeigandi föt. Það hafði hins vegar góð áhrif á marga viðskiptavini staðarins að sjá snyrtilega og vel klædda votta með mótsmerki í barmi sér og bauð upp á tækifæri til að bera vitni fyrir sumum þeirra.

13 Hegðun sem lofar Jehóva: Við vitum að hegðun kristinna manna getur haft áhrif á það hvaða augum aðrir líta sanna tilbeiðslu. Þess vegna viljum við hegða okkur öllum stundum eins og samboðið er fagnaðarerindinu, Jehóva til lofs. — Fil. 1:27.

14 Á síðasta ári var í fyrsta sinn haldið umdæmismót í norðurhluta Angólu. Á öðrum degi mótsins voru tveir lögregluþjónar sendir á staðinn til að tryggja að allt færi fram með ró og spekt. Þeir voru þar allan daginn. Í lok dags lýstu þeir aðdáun sinni á því sem þeir höfðu heyrt og á reglusemi og góðri hegðun mótsgesta. Annar þeirra sagði: „Af hverju vorum við eiginlega sendir hingað? Við vitum að vottar Jehóva halda uppi góðri reglu á fjöldasamkomum sínum.“

15 Meðlimur stjórnmálaflokks í einu Afríkulandi flúði til Evrópu þegar allir félagar hans í flokknum voru myrtir. Hann lenti í mörgum erfiðleikum og varð mjög niðurdreginn. Um síðir þáði hann biblíunámskeið. Þegar hann sótti umdæmismót í fyrsta sinn hreifst hann af því að sjá fólk af margvíslegum uppruna safnast saman í friði og samlyndi. Hann var sannfærður um að hann hefði fundið sannleikann og meðan á mótinu stóð ákvað hann að slíta öll stjórnmálatengsl. Síðar var hann skírður og þjónar nú Jehóva ásamt börnum sínum.

16 Hvaða áhrif mun hegðun okkar á landsmótinu í ár hafa á þá sem eru kannski að koma í fyrsta sinn? Taka þeir eftir samstarfsanda sjálfboðaliðanna? Hrífast þeir af hreinleika mótsstaðarins og af því að sjá okkur og börnin okkar tína upp rusl og annað lauslegt, sem kann að liggja við sætin okkar, áður en við yfirgefum mótsstaðinn? Sjá þeir góða hegðun okkar þegar við ferðumst milli mótsstaðar og gististaðar? Taka þeir eftir því að við foreldrarnir fylgjumst vel með börnum okkar öllum stundum? Við skulum tryggja að við komum öllum eins vel fyrir sjónir og unnt er.

17 Staðið undir kostnaði við mótið: Aðgöngumiði að íþróttakeppni eða öðrum viðburðum á leikvöngum eða í mótshöllum getur verið dýr í heimi nútímans. Það stafar að hluta til af háum leigukostnaði í stórborgum. Félagið hefur alltaf haft þá stefnu á umdæmismótum að aðgangur sé ókeypis og engin samskot séu viðhöfð. Hvernig er þá staðið undir leigukostnaði og öðrum mótsútgjöldum? Með rausnarlegum framlögum mótsgesta. Við erum vissir um að þið sýnið sams konar örlæti og þjónar Guðs til forna sem líktu eftir Jehóva Guði og Jesú Kristi. (2. Kor. 8:7, Biblían 1912) Þess er vandlega gætt að öll framlög séu í öruggum höndum, skráð niður og rétt notuð. Rausnarleg framlög ykkar á mótinu eru mikils metin.

18 Sæti: Þær leiðbeiningar, sem hafa verið gefnar um árabil, eru enn í fullu gildi, það er að segja að AÐEINS MÁ TAKA FRÁ SÆTI FYRIR NÁNUSTU ÆTTINGJA OG ÞÁ SEM ERU OKKUR SAMFERÐA TIL MÓTSSTAÐARINS. Gott er að sjá hvernig framfarir hafa orðið að þessu leyti og það hefur aukið kærleiksandann sem mótsgestirnir sýna. Sum sæti eru aðgengilegri en önnur. Vinsamlegast sýnið þá tillitssemi að láta öldruðum þessi sæti eftir og öðrum sem þurfa einkum að nota þau aðstæðna sinna vegna. Munið að ‚kærleikurinn leitar ekki síns eigin.‘ (1. Kor. 13:4, 5; Fil. 2:4) Sitjið ekki við matarborð meðan á dagskránni stendur.

19 Heyrnarskertir: Ákveðið svæði í mótssalnum er ætlað fólki með skerta heyrn. Með ákveðinni tækni verður hægt að magna dagskrána upp til að heyrnarskertir njóti góðs af henni. Salarverðir vísa mótsgestum á þetta svæði.

20 Myndavélar og upptökutæki: Leyfilegt er að nota myndavélar og upptökutæki á mótinu. Notkun þeirra má hins vegar ekki ónáða aðra. Að ganga um meðan á dagskrá stendur til að taka myndir truflar þá sem eru að reyna að einbeita sér að dagskránni. Ekki má tengja neins konar upptökutæki við hátalarakerfi mótsstaðarins, og slík tæki mega ekki heldur hamla umferð um ganga eða skyggja á útsýni annarra mótsgesta.

21 Matur á mótinu: Hver mótsgestur ætti að koma með mat fyrir sig og sína frekar en að fara af mótsstaðnum í hádegishléinu til að kaupa sér í svanginn. Léttur og næringarríkur matur, sem auðvelt er að bera, ætti trúlega að nægja flestum. Í 7. og 8. grein viðauka Ríkisþjónustu okkar fyrir júní 1995 er að finna tillögur um hvað mætti taka með sér. Það er ekki leyfilegt að koma með glerílát og áfenga drykki á mótsstað. Kælibox eða töskur mega ekki vera stærri en svo að þau komist fyrir undir stólnum sem þú situr á. Fáeinir hafa sést borða og drekka meðan dagskráin hefur verið í gangi. Slíkt ber vott um virðingarleysi.

22 Það gleður okkur mjög að landsmótið 1998, „Lífsvegur Guðs,“ skuli hefjast innan skamms. Ertu búinn að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að sækja mótið? Megir þú komast óhultur á mótsstað og snúa endurnærður heim, staðráðinn í að halda ótrauður áfram í hinni dýrmætu þjónustu Jehóva og fylgja lífsvegi hans, sjálfum þér til eilífrar blessunar.

[Rammagrein á blaðsíðu 6]

Minnispunktar fyrir landsmótið

▪ Barmmerki: Vinsamlega hafið mótsmerkið uppi á mótinu sjálfu og á ferðum til og frá mótsstað. Þetta skapar oft tækifæri til að gefa góðan vitnisburð. Mótsmerkið og plasthulstrin verða ekki fáanleg á mótsstaðnum og því ætti hver og einn að útvega sér þau í heimasöfnuði sínum. Bíðið ekki fram á síðustu stundu með að biðja um mótsmerki fyrir ykkur og fjölskyldu ykkar. Munið að bera á ykkur blóðkortið.

▪ Barnavagnar og garðstólar: Ákveðinn staður í salnum verður afmarkaður fyrir barnavagna og barnakerrur. Hafið þetta ekki annars staðar á áheyrendasvæðinu. Fara skyldi mjög varlega við akstur slíkra tækja um mótsstaðinn og börnum er ekki leyfður slíkur akstur. Garðstóla má taka með ef þeirra er raunverulega þörf, en staðsetjið þá aðeins í samráði við salarverði svo að það trufli ekki umferð fólks um salinn. Mörgum hefur fundist gott að taka með sér stólsessur. Þær hafa oft komið í veg fyrir að mótsgestir hafi þurft að fara fram til að rétta úr sér. Samvinna ykkar skiptir máli og er mikils metin.

▪ Foreldrar: Takið ykkur tíma skömmu fyrir mótið til að rifja upp með börnum ykkar, einkum unglingunum, það sem sagt er í þessum viðauka Ríkisþjónustu okkar og viðauka Ríkisþjónustu okkar fyrir júní 1997 um sómasamlegan klæðnað. Andi heimsins hefur því miður haft of mikil áhrif á fataval og útlit sumra unglinga á undanförnum mótum og það hefur spillt fyrir. Rifjið einnig upp með börnum ykkar það sem fram kemur í þessum viðaukum um hegðun á mótsstaðnum. Á síðustu árum hefur borið allmikið á hlaupum og ólátum barna bæði inni á mótsstaðnum og á lóðinni fyrir utan. Leggið kapp á að koma í veg fyrir slíkt, bæði með leiðbeiningum áður en komið er til mótsstaðarins og virku eftirliti með börnum ykkar allan þann tíma sem dvalið er á mótsstaðnum.

▪ Gisting: Ef þú þarft á gistingu að halda skaltu hafa samband tímanlega við umsjónarmann í forsæti í þínum söfnuði.

▪ Sjálfboðaþjónusta: Enda þótt ekki sé lengur boðið upp á veitingar á mótsstaðnum þarf mörgu að sinna, einkum fyrir og eftir mótið. Getur þú hjálpað til? Þjónusta við bræður þína, þótt ekki sé nema fáeinar klukkustundir, getur komið að miklu gagni og veitt þér verulega ánægju. Yfirleitt þarf að gera allt klárt á mótsstaðnum á aðeins örfáum klukkustundum áður en dagskráin hefst. Þegar það verk lendir á fáum bræðrum, jafnvel ár eftir ár, getur það verið erfitt og lýjandi, en hins vegar vinna margar hendur létt verk. Þú getur skráð þig á lista sem liggja mun frammi í söfnuði þínum, eða á lista hjá bókadeildinni á mótsstaðnum. Vinnuframlag barna yngri en 16 ára getur líka komið að góðum notum, en þau þurfa að vinna undir umsjón foreldra sinna eða annars fullorðins boðbera.

▪ Skírn: Skírnþegar eiga að vera komnir í sæti sín fremst í salnum áður en dagskráin hefst á laugardagsmorgni. Hver sá sem ætlar að láta skírast skal taka með sér smekkleg sundföt og handklæði. Sums staðar hafa skírnþegar verið í óviðeigandi sundfötum og það hefur dregið athyglina frá viðburðinum. Öldungar, sem fara yfir skírnarspurningar í Þjónustubókinni með væntanlegum skírnþegum, eiga að fullvissa sig um að hver og einn skilji hvað átt sé við með smekklegum sundfötum. Skírn til tákns um vígslu er innilegt einkamál skírnþegans og Jehóva. Það er því óviðeigandi að skírnþegar faðmist eða haldist í hendur á meðan verið er að skíra þá.

▪ Varnaðarorð: Gangið úr skugga um að bíllinn ykkar sé alltaf læstur og engin verðmæti séu í sjónmáli til að freista innbrotsþjófa. Skiljið alls ekki verðmæti eða skilríki eftir í yfirhöfnum í fatahengi og ekki heldur í sætum ykkar. Við getum ekki verið viss um að allir sem koma til mótsins hafi kristin lífsgildi að leiðarljósi.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila