Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 6.94 bls. 3-6
  • Landsmótið 1994 „Guðsótti“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Landsmótið 1994 „Guðsótti“
  • Ríkisþjónusta okkar – 1994
  • Svipað efni
  • Landsmótið 1995 „Glaðir menn sem lofa Guð“
    Ríkisþjónusta okkar – 1995
  • Landsmótið 1997 „Trúin á orð Guðs“
    Ríkisþjónusta okkar – 1997
  • Landsmótið 1998, „Lífsvegur Guðs“
    Ríkisþjónusta okkar – 1998
  • Hafðu fullt gagn af landsmótinu 1993, „Kennsla Guðs“
    Ríkisþjónusta okkar – 1993
Sjá meira
Ríkisþjónusta okkar – 1994
km 6.94 bls. 3-6

Landsmótið 1994 „Guðsótti“

1 Trúaðir menn hafa sýnt „guðsótta“ allt frá tímum Abels og Nóa til okkar daga. (Hebr. 11:4, 7) Að hafa guðsótta þýðir að sýna „óttablandna lotningu og djúpa virðingu fyrir skaparanum og heilnæma hræðslu við að misþóknast honum.“ (it-1 bls. 818) Í ágústmánuði sýnum við þessa djúpu virðingu með því að sækja landsmótið „Guðsótti.“ Verður þú þar til að njóta allrar dagskrárinnar, frá upphafssöngnum til lokabænarinnar?

2 Ár hvert er efirvænting okkar mikil þegar við komum til landsmótsins. Þótt við þurfum ef til vill að leggja á okkur nokkurt erfiði og útgjöld fáum við margvíslega blessun. Við snúum fagnandi heim, ánægð eftir að hafa fengið andlega uppbyggingu. (Samanber 1. Konungabók 8:66.) Félagsskapurinn er örvandi og mótið er góð tilbreyting. En munum að við söfnumst saman til að tilbiðja Jehóva. Hann gerir þá kröfu til okkar. Hann kennir okkur að gera það sem okkur er gagnlegt. — 5. Mósebók 31:12, 13; Sálm. 122:1.

3 Þriggja daga mót: Á þessu ári eru umdæmismótin þriggja daga. Ísland allt er aðeins eitt „umdæmi“ og er því umdæmismótið nefnt landsmót hér á landi. Það verður, eins og undanfarin ár, haldið í íþróttahúsinu Digranesi í Kópavogi. Dagskráin hefst föstudaginn 5. ágúst kl. 09:30 árdegis.

4 Djúp virðing fyrir Jehóva knýr okkur til að sækja mótið: Páll postuli gaf kristnum Hebreum þær leiðbeiningar að „þjóna Guði . . . með lotningu og ótta.“ (Hebr. 12:28) Dagskrá umdæmismótsins okkar á þessu ári hefur verið þannig úr garði gerð að hún hjálpi okkur sérstaklega til þess. Ýmsar hindranir kunna að mæta okkur sem reyna á það hvort við séum alveg staðráðin í að sækja mótið. Þær virðast ef til vill fjallháar en með hjálp Jehóva má yfirstíga þær. (Matt. 17:20) Ef þér reynist ekki mögulegt að skipuleggja sumarfríið þitt þannig að það nái yfir allt mótið, frá föstudagsmorgni til sunnudags eftir hádegi, hefur þú þá komið að máli við vinnuveitanda þinn og beðið um leyfi frá störfum þennan tíma? Taktu þetta mál upp í bænum þínum til Guðs. (Jas. 1:6-8) Skólanemendur eru nær undantekningarlaust í sumarfríi á þessum tíma og fyrir flesta er aðeins föstudagurinn venjulegur vinnudagur þannig að það ætti að vera tiltölulega auðvelt fyrir hvern og einn að vera viðstaddur alla þrjá dagana. Ef við gerum allt sem við getum til að vera viðstödd alla dagskrána getum við vænst þess að Jehóva styðji viðleitni okkar.

5 Nýtum okkur fjárfestinguna: Hvaða fjárfesting er það? Sá tími og kraftar sem við notum til sækja landsmótið. Það væri óskynsamlegt að hafa notað tíma og krafta til að skipuleggja vandlega og tryggja að við getum sótt allt mótið til þess síðan að koma heim á sunnudagskvöldið eftir að hafa misst af stórum hluta dagskrárinnar. Myndir þú biðja gestgjafa að hafa þig afsakaðan í miðri veislu til þess að fara og sinna öðrum málum? Eftir því var tekið á allmörgum umdæmismótum á síðasta ári að sumir fóru af mótstaðnum að lokinni árdegisdagskránni. Andlegur þroski okkar og guðsótti ætti ekki að leyfa okkur að fara á mis við nokkuð það sem Jehóva hefur útbúið fyrir okkur. — Samanber 1. Korintubréf 2:9, 10.

6 Flestum okkar kæmi líklega ekki til hugar að fara áður en dagskránni lyki. Engu að síður gætum við misst af verulegum hluta dagskrárinnar. Hvernig gæti það gerst? Á þann hátt að við létum undir höfuð leggjast að gera fyrirfram það sem nauðsynlegt er til þess að við náum að hafa sem mest gagn af öllum dagskrárliðunum. Við viljum taka daginn nógu snemma til þess að geta borðað góðan morgunverð og sinnt öðrum nauðsynlegum málum þannig að við getum verið komin í sæti okkar á mótsstaðnum áður en dagskráin hefst. Það er einnig mikilvægt að fá góðan nætursvefn til þess að við séum vel vakandi og fær um að einbeita huga okkar að dagskránni allan daginn.

7 Góð aðferð, sem sannað hefur gildi sitt til að hafa sem mest gagn af dagskránni, er sú að skrifa hjá sér minnisatriði í hófi. Það er eins mikilvægt fyrir börn og unglinga að skrifa hjá sér minnisatriði og fyrir fullorðna. Sextán ára boðberi segir: „Ég skrifa hjá mér ritningarstaðina sem nefndir eru í ræðunni. Þá get ég rifjað ræðuna upp heima.“ Annar 16 ára unglingur bætir við: „Ég punkta niður aðalatriðin. Það heldur huganum við efnið.“ Þú þarft yfirleitt ekki að hafa annað með þér til að njóta dagskrárinnar til fulls en biblíuna þína, söngbók, meðalstóra minnisblokk og penna eða blýant. Að sjálfsögðu þurfa foreldrar með smábörn að sinna þörfum þeirra en best er að valda ekki sjálfum sér og öðrum óþægindum með óþarflega miklu persónulegu dóti.

8 Sumir bræður taka upp dagskrána til að hlusta á hana aftur heima, og nota til þess segulbönd eða myndbandsupptökuvélar. Mönnum er í sjálfsvald sett hvort þeir gera þetta eða ekki en reynsla sumra er sú að þegar heim er komið og hversdagslífið komið aftur í fullan gang er lítill tími aflögu til að hlusta eða horfa á það sem tekið var upp. Þar að auki geta menn misst af sumum aðalatriðum ræðu þegar þeir eru að stilla upptökubúnaðinn.

9 Við ættum að leggja okkur af heilum huga fram við að vera komin í sætin okkar áður en dagskráin hefst. Þó að við séum í miðju kafi að skiptast á ánægjulegum frásögnum við gamla vini þegar fundarstjórinn tilkynnir að dagskráin sé um það bil að hefjast, ættum við tafarlaust að slíta samtalinu og ganga til sætis. Það sýnir virðingu fyrir þeim sem flytja dagskrána, svo og bræðrum okkar almennt.

10 Umdæmismót eru alltaf ánægjulegur viðburður vegna þess hve Jehóva blessar þau ríkulega. Við höfum gagn af þeim bæði andlega og efnislega. Við verðum að muna eftir að því fylgir talsverður kostnaður að leigja mótsstað. Matvælaverð fer líka hækkandi og Félagið leitast við að kaupa mat í góðum gæðaflokki til að dreifa á mótunum. Hvernig er staðið undir þessum og öðrum kostnaði? Með frjálsum framlögum, fyrst og fremst þeim sem lögð eru í framlagabaukana á mótsstaðnum. Það er í samræmi við andann í Sálmi 96:8 sem hvetur okkur til að ‚færa Jehóva gjafir og koma til forgarða hans.‘

11 Verður hegðun þín til lofs? Á hverju ári, skömmu fyrir umdæmismótin, minnir Ríkisþjónusta okkar okkur á mikilvægi góðrar hegðunar þegar við sækjum umdæmismótið. Hegðun okkar ætti að sjálfsögðu alltaf að vera til fyrirmyndar en þegar við komum saman í stórum hópum erum við yfirleitt undir rannsakandi augnaráði þeirra sem eru fyrir utan sannleikann. Hegðun okkar, góð eða slæm, getur sagt meira en prédikun okkar. Við viljum að það sem við segjum og gerum sé Jehóva til lofs. — Orðskv. 27:2; 1. Pét. 2:12.

12 Að loknu umdæmismótinu „Kennsla Guðs“ í fyrra sagði öryggisvörður við gistihús: „Þetta er sá indælasti krakkahópur sem ég hef þurft að fylgjast með í langan tíma.“ Eftir að hafa talað um slæma mannasiði og skemmdarfíkn annarra hópa ungs fólks bætti hann við um börn vottanna: „Þau hegða sér vel og það er ánægjulegt að vera innan um þau. Ég vildi óska að aðrar ráðstefnur, sem hér eru haldnar, væru eins og þessi.“

13 Dálkahöfundur, sem skrifar í dagblað í Bandaríkjunum, sagði þetta um undæmismótið: „Konur og stúlkur klæddust fínum kjólum og karlmenn og drengir voru í jakkafötum og með bindi. Þau skrifuðu í einlægni hjá sér minnisatriði þegar þau hlustuðu á ræðumenn í fjóra daga. Ef það er rétt sem sagt hefur verið að hreinlæti gangi guðrækni næst, jæja, þá lyfta vottar Jehóva því hugtaki upp á hærra plan.“

14 Hótelsstjóri á Bretlandseyjum skrifaði: „Mig langar til að láta í ljós einlægar þakkir til allra gesta ykkar sem hafa sýnt öllu starfsliði hótelsins og öðrum gestum þess svo vinalegt viðmót allan dvalartíma þeirra og skapað með því mjög ánægjulegt andrúmsloft.“

15 Á sumum mótum hefur verið eftir því tekið hversu mikið ráp er á fólki meðan á dagskránni stendur. Oft eru þar á ferðinni börn og unglingar sem gefur til kynna að þörf sé á miklu meiri þjálfun og umsjón af hendi foreldranna. Sífellt ráp úr sæti sínu og á göngum skapar hávaða og annað ónæði sem verkar truflandi á þá sem eru að reyna að fylgjast vel með dagskránni og sýnir jafnvel skort á þakklæti fyrir þá andlegu veislu sem Jehóva hefur búið okkur fyrir milligöngu skipulags síns. Þeirri aðstöðu, sem komið er upp fyrir foreldra eða aðra með óróleg smábörn, er ekki ætlað að vera vettvangur samræðna meðan dagskráin er í gangi. Fáeinir þurfa að sinna nauðsynlegum málum meðan á dagskránni stendur en ættum við ekki öll hin að vera í sætum okkar og hlusta af athygli á það sem sagt er á sviðinu?

16 Flestir foreldrar taka það föstum tökum að börnin þeirra sæki samkomur safnaðarins í hverri viku. Ættu þeir ekki að vera jafnákveðnir að gæta þess að börnin þeirra sitji hjá þeim og séu ekki að rápa um á mótsstaðnum meðan dagskráin fer fram? Oft hefur verið á það bent að fjölskyldur ættu að sitja saman á safnaðarsamkomum og það sama gildir um mótin. Það er merki um samheldni fjölskyldunnar og hlýðni við leiðbeiningar Félagsins að fjölskyldan sitji saman. Þetta gildir einnig um unglingana í fjölskyldunni. Ef þeir hópa sig ekki saman með öðrum unglingum heldur sitja hjá foreldrum sínum geta þeir líka hjálpað foreldrunum að hafa umsjón með yngri börnunum. Meðan á mótinu stendur er mótsstaðnum breytt í stóran ríkissal en í þessu kerfi Satans er auðvelt, einkum á fjölmennum og stórum mótum, fyrir ófyr­irleitna menn að koma inn á mótsstaðinn í óheiðarlegum tilgangi. ÞIÐ VERÐIÐ ALLTAF AÐ VITA HVAR BÖRNIN YKKAR ERU OG HVAÐ ÞAU ERU AÐ GERA.

17 Klæðnaður og snyrting: Við lifum á tímum þegar óformlegt og jafnvel kæruleysislegt útlit er álitið allt í lagi. Margt fólk fer í kirkju og á tónleika eða út að borða í mjög óformlegum, jafnvel sundurleitum klæðnaði. Athugasemdir dálkahöfundarins, sem nefndar eru í tölugrein 13, sýna að þeir eru til sem enn þá dást að virðulegum klæðnaði, einkum í tengslum við formlega tilbeiðslu. Kæruleysislegur og óformlegur klæðnaður og snyrting, sem hvorki hæfir stað né stund, segir heilmikið um okkur. Gleymum aldrei að mótsstaðurinn er ekki lengur íþróttamannvirki. Hann er stækkaður ríkissalur. Sumir eru í virðulegum klæðnaði á mótinu en eftir að dagskránni lýkur aðstoða þeir ef til vill við frágang og hreingerningu eða fara eitthvað út saman í druslulegum, óviðeigandi eða ósæmilegum klæðnaði.

18 Minna þarf skírnþega á að viss tegund baðfata er óviðeigandi við þetta tækifæri. Baðfötin ættu að vera siðsamleg og smekkleg. Hver ætti að dæma um það? Það er á ábyrgð öldunganna að hver sá sem ætlar að láta skírast úr þeirra söfnuði gefi enga ástæðu til hneykslunar. (2. Kor. 6:3, 4) Það útilokar sundföt, sem hylja illa það sem þau eiga að hylja, og stuttermaboli með slagorðum eða auglýsingum. Það væri við hæfi fyrir öldungana að ræða þetta mál við skírnþegann þegar þeir fara yfir spurningarnar í Þjónustubókinni (om) eða bæklingnum Grundvallarkenningar Biblíunnar (et).

19 Gisting: Flestir þeirra sem sækja landsmótið í Kópavogi í ágúst búa á höfuðborgarsvæðinu eða í nærliggjandi sveitafélögum og þurfa því ekki á gistingu utan heimilisins að halda. Þeim sem lengra eru að komnir býðst hins vegar gisting hjá meðbræðrum sínum sem bjóða fram heimili sín til slíkra nota. Mikilvægt er að bæði gestir og heimilisfólk sýni ávexti andans í öllum samskiptum sínum. Við skyldum aldrei taka gestrisni meðbræðra okkar sem sjálfsögðum hlut heldur sýna í orði og verki að við metum hana að verðleikum.

20 Upptökutæki: Eins og tekið var fram hér að framan er notkun upptökutækja, og þá einkum myndbandsupptökuvéla, persónulegt mál hvers og eins. Ef þú ákveður að taka dagskrána upp á myndband, sýndu þá þeim sem eru í kringum þig tillitssemi. Slík upptaka getur verkað truflandi, jafnvel þótt hún fari fram úr sæti þínu. Enginn ætti að hindra útsýni fyrir öðrum mótsgestum á meðan hann er að taka upp á myndband. Ekki má heldur tengja myndbandsupptökuvélar eða segulbönd við hljóðkerfið á mótsstaðnum og enginn tækjabúnaður skyldi settur upp þar sem hann gæti valdið truflun.

21 Ekki verður lengur hægt að fá snældur með dagskrá mótsins frá magnaradeildinni. Hver og einn verður að gera sínar eigin ráðstafanir til að taka upp dagskrána eða biðja aðra í sínum söfnuði að gera það fyrir sig.

22 Sæti: Hafið enn sem fyrr hugfast að ekki má taka frá sæti nema fyrir nánustu ættingja og þá sem eru okkur samferða í bíl. Stundum má sjá bræður taka frá mörg sæti sem síðan eru ekki notuð. Slíkt heldur áfram að koma fyrir á mótum víða um heim þrátt fyrir að oft hefur verið á þetta minnst. Ættum við ekki að skoða hug okkar í þessu efni og hugleiða frumreglurnar í Filippíbréfinu 2:3, 4?

23 Á mótunum eru tekin frá sérstök sæti fyrir þá sem hafa sérþarfir, eins og heyrnardaufa, fatlaða, mæður með barnavagna o.s.frv. Gættu þess að taka þér ekki sæti þar ef þetta á ekki við þig. Vertu einnig vakandi fyrir því að hjálpa þeim með sérþarfir að finna sæti ef enginn er með þeim til að aðstoða þá sérstaklega.

24 Bókadeild og mötuneyti: Þegar við söfnumst saman á umdæmismóti fáum við að njóta ríkulegrar líkamlegrar og andlegrar fæðu. Við ættum að taka við hvoru tveggja með þakklæti og ekki sóa neinu. (2. Kron. 31:10; Orðskv. 3:10; Jóh. 6:12) Þó að við fáum bæði andlegu og líkamlegu fæðuna án sérstaks endurgjalds ættum við hvorki að taka fleiri rit eða matvæli en við þurfum á að halda. Viljum við sýna að við metum allt það sem Jehóva lætur okkur í té? Þá tökum við ekki meiri mat en við getum með góðu móti borðað. Foreldrar, skilja börnin ykkar mikilvægi þess að sóa ekki mat? Þið verðið að sýna þeim gott fordæmi. Takið ekki með ykkur mat frá mótsstaðnum til síðari nota, nema þá að mótinu loknu ef um það er beðið til að losna við umframbirgðir. Best er að aðeins einn eða tveir úr fjölskyldunni sæki mat handa fjölskyldunni til þess að biðröðin verði ekki óþarflega löng. Gætið þess að taka ekki of mikið. Betra er að fara aftur og sækja meira ef þess gerist þörf en fleygja mat. Einnig mætti hafa í huga að sóa ekki einnota diskum og hnífapörum að óþörfu. Börn ættu ekki að fá að afgreiða sig sjálf.

25 Landsmótið “Guðsótti“ hefst þann 5. ágúst 1994. Hefur þú gert þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að þú getir verið þar alla daganna og ert þú tilbúinn til að njóta þriggja daga ánægjulegs félagsskapar og andlegra góðgerða? Það er einlæg bæn okkar að Jehóva blessi viðleitni þína til að koma til þessa móts í sumar og nærast af veisluborði Jehóva á landsmótinu sem ber stefið „Guðsótti.“

[Rammagrein á blaðsíðu 6]

Minnisatriði fyrir landsmótið

Barnavagnar: Ákveðinn staður í salnum verður afmarkaður fyrir barnavagna og barnakerrur. Ekki er leyfilegt að aka slíkum tækjum um mótssvæðið í dagskrárhléum eða meðan á dagskránni stendur. Einkum skyldi komið í veg fyrir gáleysislegan kerruakstur barna.

Einkennismerki mótsins: Vinsamlega hafið mótsmerkið uppi á mótinu sjálfu og á ferðum til og frá mótsstað. Oft er hægt að gefa góðan vitnisburð með þeim hætti, einkum þegar við erum á ferðinni til og frá mótsstaðnum. Þetta kom sannarlega vel fram í tengslum við mótin í Moskvu og Kíev í fyrra. Boðberar ættu að útvega sér mótsmerki og hulstur fyrir þau í sínum söfnuði því að þau verða ekki fáanleg á mótsstaðnum. Munið einnig að hafa á ykkur kortið UPPLÝSINGAR UM LÆKNISMEÐFERÐ (blóðkortið).

Gisting: Þeir sem þurfa á gistingu að halda eru beðnir um að hafa tímanlega samband við öldung í forsæti í söfnuði sínum og mun hann senda húsnæðispantanir til mótsskrifstofunnar að Sogavegi 71, 108 Reykjavík. Þær skulu berast skrifstofunni í síðasta lagi 15. júlí.

Sjálfboðaþjónusta: Margra sjálfboðaliða er þörf til að mótið gangi snurðulaust fyrir sig. Þjónusta þín er mikils metin jafnvel þótt þú getir aðeins unnið hluta mótsins. Ef þú getur aðstoðað ert þú vinsamlegast beðinn að skrá þig á lista sem söfnuðinum verður sendur. Börn undir 14 ára að aldri geta einnig stuðlað að góðri framkvæmd mótsins en þau þurfa að vinna með foreldrum sínum eða öðrum fullorðnum boðbera.

Skírn: Skírnþegar ættu að vera komnir í sæti sín fremst í salnum áður en dagskráin hefst á laugardagsmorgni. Hver sá sem ætlar að láta skírast skyldi taka með sér látlaus sundföt og handklæði. Að lokinni skírnarræðunni og bæn ræðumannsins veitir dagskrárkynnirinn skírnþegum stuttar leiðbeiningar og lætur síðan syngja söng. Að loknu síðasta versinu munu umsjónarmenn í salnum beina skírþegum til skírnarstaðarins. Af því að skírn sem tákn um vígslu manns er náið og persónulegt mál milli hans sem einstaklings og Jehóva er ekki hægt að hafa svonefnda félagaskírn þar sem tveir eða fleiri skírnþegar faðmast eða haldast í hendur meðan verið er að skíra þá.

Varnaðarorð: Með því að vera vakandi fyrir hugsanlegum vandamálum getum við sparað okkur ónauðsynlega erfiðleika. Innbrot og þjófnaðir fara vaxandi. Göngum vel frá híbýlum okkar og bifreiðum og skiljum engin verðmæti eftir í sjónmáli í bifreiðinni. Skiljið ekki verðmæti eftir í yfirhöfnum í fatahengi. Við getum ekki verið viss um að allir sem koma til mótsins séu kristnir einstaklingar. Eftir því sem mótin verða fjölmennari vex þessi hætta og ástæðulaust er að bjóða henni heim með andvaraleysi.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila