Hvað geturðu sagt við trúleysingja?
1 „Ég er trúleysingi,“ sagði pólskur prófessor við trúboðssystur í Afríku. Henni tókst engu að síður að ræða við hann og lét hann fá bókina Lífið — varð það til við þróun eða sköpun? Þegar hún kom aftur viku síðar sagði hann: „Ég er ekki trúleysingi lengur!“ Hann hafði lesið alla Sköpunarbókina og vildi núna fá biblíunámskeið. Hvernig getur þú vitnað með góðum árangri fyrir þeim sem segjast ekki trú á Guð? Hugleiddu fyrst ýmsar ástæður fyrir því að fólk segist trúlaust.
2 Ýmsar ástæður vantrúar: Það hafa ekki allir trúleysingjar alist upp við trúleysi. Margir hafa fengið trúarlegt uppeldi í einhverri mynd og trúað á Guð í eina tíð, en alvarlegur heilsubrestur, fjölskylduvandmál eða ýmiss konar óréttlæti hefur veikt trú þeirra. Og lærdómur æðri menntastofnana hefur haft neikvæð áhrif á guðstrú annarra. Taktu eftir dæmunum hér á eftir um trúleysingja sem öðluðust um síðir sterka trú á Jehóva Guð og gerðust vottar hans.
3 Kona nokkur í París fæddist með bæklandi beinsjúkdóm. Enda þótt hún væri skírður kaþólikki varð hún yfirlýstur trúleysingi. Þegar hún spurði nunnurnar hvers vegna Guð hefði leyft að hún fæddist bækluð svöruðu þær: „Vegna þess að hann elskar þig.“ Hún neitaði að trúa þessari fjarstæðu. Svo er að nefna ungan mann í Finnlandi sem greindist með ólæknandi vöðvasjúkdóm og var bundinn hjólastóli. Móðir hans fór með hann til hvítasunnumanns sem kvaðst lækna sjúka, en engin kraftaverkalækning átti sér stað. Fyrir vikið varð maðurinn ungi afhuga Guði og gerðist trúleysingi.
4 Maður í Hondúras var alinn upp í kaþólskri trú en lagði stund á sósíalíska heimspeki og guðleysi. Í háskóla sannfærðist hann um að mannkynið væri afsprengi þróunar og hætti að trúa á Guð. Svipaða sögu má segja um bandaríska konu sem var alin upp í meþódistatrú. Hún lagði stund á sálfræði í framhaldsskóla. Hvaða áhrif hafði það á trú hennar? Hún segir: „Á einu sumri missti ég alla tiltrú á trúarbrögðin.“
5 Að ná til hjarta einlægra: Margir, sem segjast ekki trúa á Guð, vildu gjarnan vita hvort lausn sé til á vandamálum eins og bágri heilsu, sundrungu fjölskyldunnar og óréttlæti. Þeir vilja í einlægni fá svör við spurningum eins og hvers vegna illskan sé til, hvers vegna gott fólk verði fyrir skakkaföllum og hver sé tilgangur lífsins.
6 Hjón í Sviss höfðu bæði alist upp sem trúleysingjar. Þegar fyrst var rætt við þau um sannleikann voru viðbrögð þeirra neikvæð. En þau áttu við erfið vandamál að glíma í fjölskyldunni og hugðu á skilnað. Þegar vottarnir komu aftur bentu þeir á, með tilvísun í Biblíuna, hvernig væri hægt að sigrast á vandamálunum. Hjónin voru undrandi yfir raunhæfum ráðum Ritningarinnar og þáðu biblíunámskeið. Hjónabandið styrktist, þau tóku andlegum framförum og létu skírast.
7 Hvað geturðu sagt við trúleysingja?: Þegar einhver segist vera trúleysingi skaltu reyna að komast að ástæðunni. Hefur menntun hans gert hann trúlausan eða erfiðleikarnir sem hann hefur lent í? Eða hafa falskenningar og trúhræsni, sem hann hefur orðið vitni að, átt hlut að máli? Þú gætir spurt: „Hefurðu alltaf haft þessa afstöðu?“ eða „Hver er ástæðan fyrir afstöðu þinni?“ Framhaldið ræðst af svörum hans. Þegar þörf er á sterkum rökum fyrir tilvist Guðs er Sköpunarbókin tilvalin og einnig bæklingurinn Bók fyrir alla menn.
8 Þú gætir komið af stað samræðum við trúleysingja með því að spyrja:
◼ „Hefurðu einhvern tíma hugleitt af hverju svona miklar þjáningar og óréttlæti er í heiminum ef Guð er til? [Leyfðu viðmælanda þínum að svara.] Mætti ég benda þér á svar Biblíunnar?“ Lestu Jeremía 10:23. Spyrðu hann hvað honum finnist um ritningargreinina. Sýndu honum síðan 16. kaflann í Sköpunarbókinni. Bjóddu honum bókina til lestrar. — Fleiri tillögur er að finna í Reasoning from the Scriptures (Rökræðubókinni), bls. 150-1.
9 Það taka auðvitað ekki allir trúleysingjar við sannleikanum, en margir eru fúsir til að kynna sér annað sjónarmið. Vertu rökfastur og sannfærandi og beittu umfram allt krafti orðs Guðs til að opna augu þeirra fyrir sannleikanum. — Post. 28:23, 24; Hebr. 4:12.