„Berstu trúarinnar góðu baráttu“
1 Páll postuli hvatti Tímóteus til að ‚berjast trúarinnar góðu baráttu‘ og fylgdi hvatningunni sjálfur. (1. Tím. 6:12) Síðar kvaðst hann þess fullviss að hann hefði barist góðri baráttu. (2. Tím. 4:6-8) Hann sýndi á allan hátt djörfung, hugrekki og þolgæði í þjónustunni. Þegar við líkjum eftir fordæmi hans getum við öðlast þessa sömu innri vissu að við séum að berjast eftir fremsta megni fyrir hinni kristnu trú.
2 Leggðu þig fram eins og þörf krefur: Páll lagði hart að sér við boðunina. (1. Kor. 15:10) Það gerum við líka þegar við leitum verðugra á starfssvæðinu. (Matt. 10:11) Suma hittum við aðeins með því að fara árla dags í götustarfið og aðra aðeins með því að starfa síðdegis eða snemma kvölds þegar þeir eru komnir heim.
3 Það krefst sjálfsaga og góðrar skipulagningar að mæta stundvíslega í samansöfnun bóknámshópsins fyrir boðunarstarfið. Sumir Betelítar ferðast 60 mínútur aðra leiðina til að geta farið út í starfið um helgar með söfnuðinum sem þeir tilheyra. Í söfnuðinum okkar eru kannski boðberar og fjölskyldur sem ferðast um langan veg en sýna samt aðdáunarverða stundvísi. Slíkar fyrirmyndir um dugnað og góða skipulagningu eru eftirbreytniverðar.
4 Við ættum að fylgja eftir öllum áhuga sem við finnum. Jafnvel þegar við erum í götustarfinu ættum við að reyna að komast að heimilisfangi eða símanúmeri þess sem ritin þiggur og heimsækja hann síðan til að glæða áhugann og reyna að koma af stað biblíunámskeiði.
5 Farðu reglulega í boðunarstarfið: Páll prédikaði reglulega og rækilega. (Rómv. 15:19) Hvað um þig? Tekurðu reglubundið þátt í boðunarstarfinu? Hefurðu tekið þátt í því í þessum mánuði? Bóknámsstjórarnir vilja gjarnan að allir í hópnum fari í boðunarstarfið í ágúst og vilja hjálpa þér til þess.
6 Með því að líkja eftir fordæmi Páls og eiga fullan þátt í boðun fagnaðarerindisins getum við haldið áfram að ‚berjast trúarinnar góðu baráttu.‘