‚Verið ríkir af góðum verkum‘
1 Páll postuli var kostgæfinn í þjónustu sinni síðustu æviárin og átti náið samstarf við Tímóteus og Títus. Hann skrifaði svipuð hvatningarorð til þeirra beggja. Hann sagði Títusi „að þeir, sem fest hafa trú á Guð,“ eigi að ‚láta sér umhugað um að stunda góð verk.‘ (Tít 3:8) Hann sagði Tímóteusi að þeir sem treystu Guði ættu að „vera ríkir af góðum verkum.“ (1. Tím. 6:17, 18) Þetta er mjög góð ráðlegging handa okkur öllum. En hvað verður til þess að okkur fer að langa til þess að stunda góð verk? Og hvaða tiltekin verk gætum við gert á komandi dögum?
2 Trú okkar og kærleikur til Jehóva og sú dásamlega von sem hann hefur veitt okkur hvetur okkur til að vera auðug af góðum verkum. (1. Tím. 6:19; Tít. 2:11) Á þessum árstíma erum við sérstaklega minnt á að Jehóva sendi son sinn, Jesú, til jarðar til þess að hann gæti réttlætt föður sinn og opnað verðugum mönnum leiðina til eilífs lífs. (Matt. 20:28; Jóh. 3:16) Þetta mun koma skýrt fram á minningarhátíðinni um dauða Krists 28. mars. Erum við ekki knúin til þess að gera allt sem við getum til að ‚vera rík af góðum verkum‘ vegna vonarinnar um eilíft líf? Auðvitað! Hvaða verk gætum við innt af hendi núna?
3 Góð verk í mars og mánuðina á eftir: Við verðum áreiðanlega viðstödd minningarhátíðina, mikilvægasta atburð ársins fyrir votta Jehóva um heim allan. (Lúk. 22:19) En okkur langar til að sem flestir njóti gleðinnar af þessu tilefni með okkur. Skoðaðu ársskýrsluna í janúarhefti Varðturnsins 2002 og þá sérðu að í mörgum löndum heims voru á síðastliðnu ári þrisvar, fjórum, fimm eða mörgum sinnum fleiri viðstaddir minningarhátíðina en sem nemur tölu boðberanna. Allir í söfnuðunum hafa örugglega látið sér umhugað um að dreifa boðsmiðum á minningarhátíðina sem víðast. Þess vegna skulum við nota eins mikinn tíma og við getum fram að 28. mars og bjóða fólki á minningarhátíðina til að hjálpa því að kynnast hjálpræðisvoninni.
4 Þegar líður að aprílmánuði getum við farið að njóta þess að daginn er tekið að lengja og veðrið að mildast. Hvernig getum við hagnýtt okkur þessi skilyrði til að vera „rík af góðum verkum?“ Með því að halda áfram að taka þátt í að boða fagnaðarerindið af brennandi áhuga, vera „kostgæfin til góðra verka.“ (Tít. 2:14; Matt. 24:14) Ef þú gast ekki komið því við að vera aðstoðarbrautryðjandi í mars gæti þá apríl eða maí komið til greina eða báðir mánuðirnir? Ef þú ert aðstoðarbrautryðjandi í mars gætir þú þá haldið því áfram?
5 Þeir sem vinna veraldlega vinnu geta sumir hverjir notað klukkustund eða svo í starfinu á leiðinni í vinnuna, farið í götustarfið eða hitt fólk við vinnu í fyrirtækjum sem eru opin árla dags. Aðrir ráðstafa matartímanum til boðunarstarfsins. Sumum hefur tekist að nota þann tíma til að halda biblíunámskeið. Margar heimavinnandi systur hafa getað sinnt boðunarstarfinu á þeim tíma sem börnin eru í skólanum. Með því að fara aðeins fyrr á fætur vissa daga til að sinna heimilisstörfunum hafa þær meiri tíma á daginn fyrir boðun og kennslustarf. — Ef. 5:15, 16.
6 Þótt þú sért ekki í aðstöðu til að vera aðstoðarbrautryðjandi gætirðu ef til vill komið þér upp ákveðinni tímaáætlun til þess að þátttaka þín verði meiri í boðunarstarfinu, gera allt sem þú getur til ‚að gjöra gott, vera ríkur af góðum verkum, örlátur, fús að miðla öðrum.‘ — 1. Tím. 6:18.
7 Gleymum ekki því góða verki að gera aðra að lærisveinum: Árlega kemur áhugasamt fólk á minningarhátíðina. Gæti einhver í söfnuðinum veitt athygli þeim sem mæta en eru ekki í biblíunámi? Væri hægt að fara í endurheimsókn til þeirra með það fyrir augum að hjálpa þeim að taka andlegum framförum? Verið getur að einhverjir þeirra sem viðstaddir eru minningarhátíðina séu ættingjar votta. Aðrir gætu hafa numið Biblíuna áður fyrr og þarfnast aðeins lítillar hvatningar til að byrja aftur að nema og mæta reglulega á samkomur. Yrðum við ekki glöð að sjá þá verða virka þjóna Jehóva ásamt okkur?
8 Samfara aukinni þátttöku í boðunarstarfinu í mars og mánuðunum þar á eftir eru miklar líkur á því að við hittum fleira áhugasamt fólk sem við getum heimsótt aftur. Reyndu að skilja eftir spurningu hjá því þegar þú ferð. Lofaðu svo að veita svar í næstu heimsókn. Ef við gerum þetta verður vegurinn greiður fyrir endurheimsókn. Því fyrr sem við getum farið í endurheimsókn því betra. Ef okkur hefur ekki tekist að koma á biblíunámskeiði í fyrstu heimsókn reynum við að hefja það strax í þeirri næstu ef það er þá mögulegt.
9 Þegar við tökum þátt í götustarfinu ættum við markvisst að reyna að hefja samtal við fólk. Margir boðberar hafa fengið nöfn, heimilisföng og símanúmer hjá áhugasömu fólki sem þeir hafa hitt í götustarfinu. Ef sá sem þú hafðir samband við býr ekki á þínu starfssvæði fáðu þá eyðublaðið ‚Vinsamlegast fylgið eftir‘ (S-43) í ríkissalnum, fylltu það út og láttu ritara safnaðarins hafa það en hann mun senda það áfram til þess safnaðarsvæðis sem viðkomandi á heima. Geti ritarinn ekki gert það mun hann koma því áleiðis til deildarskrifstofunnar til afgreiðslu. Á þennan hátt er hægt að fylgja áhuganum eftir.
10 Ef símanúmer hefur verið látið í té en ekki heimilisfang skaltu hafa símasamband og bjóða endurheimsókn. Undirbúðu fyrir fram það sem þú ætlar að ræða um. Hafðu Rökræðubókina við höndina til að fletta upp í. Sumum hefur gengið vel að kenna fólki símleiðis, meðal annars þeim sem erfitt var að hitta heima. Systir nokkur byrjaði á því að biðja áhugasamar konur, sem hún hitti í starfinu hús úr húsi, um símanúmer og árangurinn varð sá að hún gat stofnað tvö biblíunámskeið.
11 Vinnið með öldungunum að því að hjálpa þeim óvirku: Öldungarnir hafa mjög mikinn áhuga á því að þeim sé sinnt. Margir þeirra hafa að eigin frumkvæði byrjað aftur að sækja safnaðarsamkomur. Þeir gera sér grein fyrir því að þeir þarfnast náins félagsskapar innan skipulags Jehóva til þess að búa við andlega öryggið sem lýst er í Sálmi 91. Nokkrir þeirra eru nú þegar tilbúnir til að starfa aftur á akrinum. Komi aðrir óvirkir á minningarhátíðina í þessum mánuði gæti þá langað til að fá biblíunámskeið. Ef svo er gera öldungarnir ráðstafanir til þess að þeir sem óska eftir því fái aðstoð. Ef þér stendur til boða að veita aðstoð á þennan hátt mun framlag þitt vera vel þegið. — Rómv. 15:1, 2.
12 Haltu áfram „að stunda góð verk“: Þeir sem hafa verið aðstoðarbrautryðjendur í mánuð eða meira hafa margir hverjir komist að raun um að starfið á akrinum jókst næstu mánuðina á eftir. Þeir hittu áhugasamt fólk sem þeim fannst nauðsynlegt að heimsækja aftur. Þetta hvatti þá til að leggja sig enn meira fram um að fara oftar út í starfið til þess að hafa aftur samband við þá sem höfðu sýnt áhuga. Sumir komu í gang biblíunámskeiði og það varð til þess að þeir tóku jafnvel enn þá meiri þátt í boðunarstarfinu.
13 Enn aðrir höfðu svo mikla ánægju af því að gera meira í boðunar- og kennslustarfinu að þeir fóru að endurskoða áherslur sínar í lífinu. Það leiddi til þess að nokkrir gátu dregið úr veraldlegri vinnu og orðið reglulegir aðstoðarbrautryðjendur. Aðrir hafa getað orðið reglulegir brautryðjendur. Þeir gátu í ríkari mæli byggt von sína á Guði en ekki á hlutum sem heimurinn býður upp á. Þeir komust að raun um að mikil blessun frá Jehóva fylgdi því að vera „örlátir, fúsir að miðla öðrum“ og einnig að það styrkti von þeirra um ‚hið sanna líf.‘ (1. Tím. 6:18, 19) Auðvitað nýtur allur söfnuðurinn blessunar þegar fleiri gerast brautryðjendur. Brautryðjendur tala gjarnan um reynslu sína og bjóða öðrum að koma með sér út í starfið og það verður til þess að styrkja andlegt andrúmsloft safnaðarins.
14 Við skulum öll ‚vera rík af góðum verkum‘ kringum minningarhátíðina og í framhaldi af henni með því að taka aukinn þátt í boðunarstarfinu. Sýnum þakklæti fyrir það sem Jehóva hefur gert fyrir okkur með því að gefa okkur von um eilíft líf á réttlátri nýrri jörð. — 2. Pét. 3:13.