‚Gerum öllum gott‘
1 Í febrúar og mars 2002 birtust viðaukagreinar í Ríkisþjónustu okkar sem nefndust ‚Flytjum Guðs orð óskorað‘ og ‚Verið ríkir af góðum verkum.‘ (Kól. 1:25; 1. Tím. 6:18) Þar vorum við hvött til að leggja okkur sérstaklega fram um að hjálpa áhugasömum að sækja minningarhátíðina, hjálpa óvirkum að taka þátt í safnaðarstarfinu á nýjan leik og hjálpa börnum okkar og hæfum biblíunemendum að byrja að boða fagnaðarerindið. Eflaust höfum við séð einhvern árangur af erfiði okkar nú þegar. „Þess vegna skulum vér, meðan tími er til, [halda áfram að] gjöra öllum gott.“ — Gal. 6:10.
2 Bjóddu þeim að koma á samkomu: Á ári hverju koma meira en 200 fleiri til minningarhátíðarinnar hér á landi en sem nemur boðberatölunni. Koma þeirra er vísbending um nokkurn áhuga, en hvernig getum við hjálpað þeim svo að þeir ‚taki trú‘? (Post. 13:48) Hvettu þá til að koma sem fyrst á safnaðarsamkomur.
3 Þú gætir boðið áhugasömum einstaklingi að sækja safnaðarbóknámið til að fylgjast með hinni áhugaverðu umræðu um spádóm Jesaja. Ef hann er ættingi þinn eða kunningi og þú átt að flytja ræðu í Guðveldisskólanum á næstunni gætirðu boðið honum að koma og hlusta á þig. Láttu hann vita hvaða opinberir fyrirlestrar séu á dagskrá á komandi vikum. (Á tilkynningatöflunni ætti að vera listi með ræðuheitum.) Nýttu þér þau tækifæri sem gefast til að vekja með honum löngun til að tilbiðja Jehóva. Og auðvitað geturðu boðið honum biblíunámskeið ef það er ekki komið í gang.
4 Haltu áfram að hvetja óvirka: Sumir, sem sækja minningarhátíðina, eru vígðir Jehóva en eru ekki virkir boðberar fagnaðarerindisins lengur. Páll hvetur okkur hins vegar til að „gjöra . . . gott . . . einkum trúbræðrum vorum.“ (Gal. 6:10) Við ættum því að láta okkur mjög annt um þá sem eru óvirkir.
5 Vera má að einhverjir séu orðnir virkir boðberar á ný eftir hvatningu frá öldungunum og öðrum. Ef öldungarnir hafa falið þér að starfa með slíkum boðbera skaltu hafa hugfast að þú getur byggt upp sjálfstraust hans með kærleika þínum til Jehóva og ást þinni á boðunarstarfinu. Sýndu honum hvernig þú tekur þátt í mismunandi greinum starfsins, svo að hann hafi ánægju af því, haldi því áfram og finni fyrir blessun Jehóva.
6 Komdu nýjum boðberum vel af stað: Kona nokkur, sem hafði nýlega fengið áhuga, áttaði sig á því að hún hafði fundið skipulag Guðs og vildi fá að taka þátt í þjónustunni þegar í stað. Þegar henni var bent á hvaða kröfur hún þyrfti að uppfylla sagði hún: „Látum þá hendur standa fram úr ermum.“ Ef þú ert með biblíunemanda og hann hefur verið samþykktur sem nýr boðberi, þá skaltu sýna honum fram á að hann þurfi að láta „hendur standa fram úr ermum.“ Komdu honum vel af stað í starfinu. Hjálpaðu honum að venja sig á að búa sig reglulega undir boðunarstarfið og taka þátt í því vikulega.
7 Ef barnið þitt er nýorðið óskírður boðberi skaltu stuðla að framförum þess í samræmi við aldur þess og þroska. Það kann að koma þér á óvart hve auðveldlega barnið getur, með smáhjálp frá þér, komið af stað samræðum við aðra, lesið upp úr Biblíunni og boðið rit. Þegar barnið finnur jákvæða manneskju í boðunarstarfinu skaltu hjálpa því að fara í endurheimsókn og fylgja áhuganum eftir.
8 Auktu við eigið starf: Ert þú í aðstöðu til að taka meiri þátt í boðunarstarfinu eftir að minningarhátíðin er liðin hjá? Gætirðu bætt við þig einni eða tveim klukkustundum í viku í boðunarstarfinu? Ertu farinn að skoða hvenær þú getir gerst aðstoðarbrautryðjandi aftur? Geturðu kannski hagrætt málum þínum þannig að þú getir þjónað í fullu starfi? Hvaðeina, sem við gerum í boðunarstarfinu, getur hjálpað einhverjum öðrum að taka við sannleikanum. (Post. 8:26-39) Þegar við horfum fram í tímann skulum við ‚ávallt keppa eftir hinu góða, bæði hver við annan og við alla aðra.‘ — 1. Þess. 5:15.
[Rammi á blaðsíðu 3]
Haltu áfram að aðstoða:
□✔ Þá sem sóttu minningarhátíðina
□✔ Áður óvirka boðbera
□✔ Nýja óskírða boðbera