Ný dagskrá sérstaka mótsdagsins
„Verið fullorðnir í dómgreind“ er stef sérstaka mótsdagsins á þjónustuárinu 2001. (1. Kor. 14:20) Hvers vegna ættum við að sækja mótið? Við lifum í illskufullum heimi þar sem við þurfum að þroska andlega skilningsgáfu okkar til að standast álagið og sigra illt með góðu. Dagskrá sérstaka mótsdagsins hjálpar okkur til þess.
Í inngangsræðunni fjallar farandhirðirinn um efnið „Hjálp til að þroska biblíuskilning“ og bendir okkur á hvernig við getum orðið staðfastir í hinni kristnu trú. Í ræðunni „Varðveittu andlegt hugarfar með því að temja skilningarvitin“ sýnir annar ræðumaður fram á hvernig við getum byggt upp næman skilning með því að heimfæra meginreglur Biblíunnar og beita þeim.
Ungt fólk þarf líka að fullorðnast í dómgreind. Dagskrárliðirnir „Verið ekki börn í dómgreind“ og „Unglingar sem afla sér skilnings núna“ fjalla um það. Hlustaðu á unglinga greina frá því hvað þeir geri til að styrkja sig andlega svo að spilling heimsins veki ekki forvitni þeirra og komi þeim í klandur.
Hvað getur veitt okkur mesta lífshamingju? Það verður útskýrt í lokaræðunni „Heimfærðu meginreglur Biblíunnar af skilningi.“ Þar verða gefin dæmi til að sýna hvernig orð Guðs getur hjálpað okkur að glíma við vandamál og taka ákvarðanir svo að við njótum góðs af því sem Jehóva kennir okkur.
Þeir sem vilja tákna vígslu sína til Guðs með niðurdýfingarskírn á mótinu ættu að láta umsjónarmann í forsæti vita tímanlega. Merktu sérstaka mótsdaginn inn á dagatalið þitt og gerðu nauðsynlegar ráðstafanir til að þú getir notið góðs af þessari auðgandi dagskrá. Misstu ekki af neinu á þessum sérstaka mótsdegi. Dagskráin mun styrkja þig til að þrauka í þessu illa heimskerfi og vera Jehóva trúr.