„Ný árþúsund — hvað ber framtíðin í skauti sínu?“
1 Fólk um heim allan hefur spurt sig þessarar spurningar. Þótt stórstígar framfarir hafi átt sér stað í aldanna rás eru menn vonsviknir af því að vandamálin, sem hafa hrjáð mannkynið í árþúsundir, eru óleyst enn. (Job. 14:1; Sálm. 90:10) Hvar er lausn að fá?
2 Í október og nóvember fáum við einstakt tækifæri til að benda nágrönnum okkar á svarið við þessari spurningu. Þá ætlum við að dreifa Guðsríkisfréttum nr. 36, „Ný árþúsund — hvað ber framtíðin í skauti sínu.“ Fyrri hluta októbermánaðar bjóðum við Varðturninn og Vaknið! Frá mánudeginum 16. október til föstudagsins 17. nóvember ætlum við að dreifa Guðsríkisfréttum nr. 36 sem víðast. Á virkum dögum einbeitum við okkur að því að útbreiða Guðsríkisfréttir nr. 36 en um helgar bjóðum við þær ásamt nýjustu blöðum.
3 Ætlarðu að taka heilshugar þátt í herferðinni? Öldungar, safnaðarþjónar og brautryðjendur eiga að taka forystu í átakinu þar eð þeir eru í fylkingarbrjósti boðunarstarfsins. Margir boðberar hafa séð sér fært að gerast aðstoðarbrautryðjendur annan mánuðinn eða báða. Aðrir hafa ráðgert að verja meiri tíma til boðunarstarfsins en venjulega.
4 Bóknámsstjórar eiga að láta að sér kveða og hvetja alla í hópnum til að taka heilshugar þátt í að dreifa Guðsríkisfréttum nr. 36. Sumir boðberar eru kannski orðnir óvirkir í boðunarstarfinu. Öldungarnir ættu að heimsækja þá og athuga hvað hægt sé að gera til að hjálpa þeim. Biðja mætti reyndan boðbera að starfa með hverjum þeirra meðan á átakinu stendur. Það er einfalt að kynna Guðsríkisfréttir nr. 36 og þetta gæti verið gott tækifæri fyrir þá til að komast í gang á ný.
5 Nú er kjörið tækifæri fyrir biblíunemendur til að byrja í boðunarstarfinu ef þeir eru langt komnir í Þekkingarbókinni og hæfir til að gerast óskírðir boðberar. Hinir ungu geta líka tekið góðan þátt í þessu spennandi starfi.
6 Einföld kynning er allt sem þarf. Þú gætir sagt:
◼ „Ég tek þátt í að dreifa þessum mikilvægu upplýsingum til allra fjölskyldna í [nefndu bæjar-, sveitarfélagið eða hverfið]. Hér er eintakið þitt. Ég hvet þig eindregið til að lesa það.“ Það gæti verið heppilegt að vera ekki með starfstösku þegar þú ert að dreifa Guðsríkisfréttum nr. 36.
7 Vel skipulagðar samkomur fyrir boðunarstarfið: Öldungarnir þurfa að gera hentugar ráðstafanir fyrir boðunarstarfið. Starfshirðirinn þarf að sjá um að nóg starfssvæði sé til, bæði fyrirtækjasvæði og svæði til að starfa hús úr húsi, svo að allir geti tekið fullan þátt í dreifingunni. Ef mögulegt er ætti að hafa samkomur fyrir boðunarstarfið alla virka daga, um helgar og á kvöldin. Hafa mætti samansöfnun síðla dags sem skólanemendur, vaktavinnufólk og aðrir geta sótt.
8 Hvað um þá sem ekki eru heima? Markmiðið er að ræða við sem eins marga húsráðendur og mögulegt er. Ef enginn er heima skaltu skrifa hjá þér heimilisfangið og koma aftur á öðrum tíma dags. Hafi þér ekki tekist að hitta neinn heima þegar síðasta vika herferðarinnar gengur í garð geturðu skilið eftir eintak af smáritinu en gæta þess að það blasi ekki við vegfarendum. Á strjálbýlum svæðum og á stöðum þar sem meira starfssvæði er fyrir hendi en hægt er að komast yfir geta safnaðaröldungar ákveðið að boðberar skilji eftir eintak af Guðsríkisfréttum nr. 36 þar sem fólk er ekki heima í fyrstu heimsókn.
9 Látum hendur standa fram úr ermum! Söfnuðir ættu að reyna að ljúka dreifingunni áður en herferðinni lýkur 17. nóvember. Ef svæðið er stórt geta boðberar starfað einir síns liðs þar sem það er óhætt og raunhæft. Þannig náum við til eins margra verðugra og mögulegt er. Skráðu hjá þér hverjir sýna áhuga.
10 Öldungarnir ættu að athuga hve söfnuðurinn þarf á mörgum aukablöðum að halda og panta þau. Ekki þarf að panta Guðsríkisfréttir nr. 36 því að hver söfnuður fær sendingu. Sérbrautryðjendur, reglulegir brautyðjendur og aðstoðarbrautryðjendur fá 250 eintök hver til dreifingar og safnaðarboðberar 50 eintök hver. Ertu tilbúinn og fús til að láta hendur standa fram úr ermum? Það eru mikil sérréttindi að geta sagt öllum nágrönnum okkar frá því sem Guð lofar að gera í nánustu framtíð.