„Síauðugir í verki Drottins“
1 Við getum sannarlega hlakkað til að hafa nóg að gera í guðveldislegu starfi í apríl og maí. Fjórtánda apríl höldum við minningarhátíðina um dauða Krists. Hvetja ætti eins marga og mögulegt er til að vera viðstadda þessa mikilvægu hátíðarsamkomu: kunningja úr viðskiptalífinu, ættingja sem ekki eru í trúnni, skólafélaga, þá sem nýlega hafa sýnt áhuga og biblíunemendur. Gerðu skrá yfir þá sem þú ætlar að bjóða svo að enginn verði útundan.
2 Vikuna á eftir munum við hvetja alla sem sóttu minningarhátíðina til að koma og hlusta á sérræðuna hinn 23. apríl sem fjallar um efnið „Endir falstrúarbragða er nálægur.“ Vonast er til að margir áhugasamir menn, sem heyra þennan berorða boðskap, sjái nauðsyn þess að sækja samkomur safnaðarins reglulega en ekki einungis við sérstök tækifæri.
3 Sérstakar Fréttir um Guðsríki verða gefnar út: Hápunktur samkomunnar hinn 23. apríl verður útgáfa tímabærra, fjögurra blaðsíðna Frétta um Guðsríki nr. 34 sem verður dreift vítt og breitt fram til 14. maí. Ert þú ekki sammála því að við getum haft nóg að gera, já, verið „síauðugir í verki Drottins“ meðan á minningarhátíðartímabilinu stendur? — 1. Kor. 15:58.
4 Hverjum söfnuði verða sendar birgðir af Fréttum um Guðsríki. Pakkana, sem innihalda Fréttir um Guðsríki, skyldi geyma á öruggum stað og ekki opna fyrr en í lok dagskrárinnar hinn 23. apríl. Á þeirri stundu verða Fréttir um Guðsríki tiltækar til dreifingar til bræðranna og almennings. Við lok dagskrár safnaðarsamkomna, svæðismóta eða sérstakra mótsdaga hinn 23. apríl fær sérhver viðstaddur eitt eintak til þess að geta kynnt sér innihaldið og búið sig undir dreifingu þessa rits.
5 Öldungar munu hafa nóg að gera: Snemma í þessum mánuði ætti öldungaráðið að halda fund til að ræða um útfærslu þessarar sérstöku herferðar. Söfnuðirnir ættu að leitast við að fara yfir allt starfssvæði sitt. Áður en herferðinni lýkur skuluð þið gera sérstakt átak til að starfa á svæðum sem ekki hefur verið farið yfir síðastliðna sex mánuði. Með hliðsjón af mikilvægi þessa starfs viljum við taka frá eins mikinn tíma og mögulegt er til boðunarstarfsins. Vafalaust gerast óvenjumargir boðberar aðstoðarbrautryðjendur. Mjög líklegt er að margir biblíunemendur taki einnig þátt í þessu með okkur sem nýlega viðurkenndir, óskírðir boðberar. Hvílíkar ánægjustundir munum við ekki eiga þegar við vinnum ötullega saman í starfi Drottins!
6 Bóknámsstjórar ættu að gera ákveðnar ráðstafanir til hópstarfs á laugardögum og sunnudögum. Hvetja ætti hvern og einn til að eiga virka hlutdeild í þessu starfi. Auk helgarstarfsins skyldi skipuleggja kvöldstarf að minnsta kosti einu sinni í viku meðan á herferðinni stendur. Sumir kunna að vilja koma í samansöfnun eftir að skóladegi lýkur til þægðar nemendum sem vilja taka sérstaklega mikinn þátt í þessari herferð.
7 Samkomur til boðunarstarfsins skyldu tímasettar þannig að boðberar og brautryðjendur geti byrjað snemma í starfinu hvern dag. Þessar samkomur ættu að vera stuttar. Í hverri þeirra ætti að koma með einfalda kynningu á Fréttum um Guðsríki. Í samansöfnun síðdegis mætti koma með eina eða tvær tillögur um hvernig haga megi endurheimsókn til þeirra sem fúsir þáðu Fréttir um Guðsríki. Hins vegar kunna sumir boðberar að vilja dreifa þessu riti bæði fyrir og eftir hádegi. Til þess að mæta því mun starfshirðirinn vilja tryggja að nægilegt starfssvæði sé fyrir hendi. Nafn og heimilisfang sérhvers sem sýnir áhuga ætti að skrá á millihúsaminnisblað. Aðalatriði stuttu samræðnanna mætti skrá í athugasemdadálkinn. Það mun ryðja brautina fyrir endurheimsókn seinna í vikunni eða mánuðinum.
8 Ef einn söfnuður hjálpar öðrum að komast yfir starfssvæði sitt ætti að skila nöfnum og heimilisföngum áhugasamra manna inn til safnaðarins sem hefur starfssvæðið.
9 Foreldrar, vinna börnin ykkar að því að verða óskírðir boðberar? Tekið hefur verið eftir því að í sumum söfnuðum hafa vel upp alin börn farið með foreldrum sínum í boðunarstarfið í mörg ár og börnin standa sig mjög vel í starfinu þó að þau séu ekki enn þá boðberar fagnaðarerindisins. Foreldrar ættu að hugleiða hvort börnin þeirra séu ekki í raun og veru orðin hæf til þessara sérréttinda. Tveir öldunganna geta rætt alla þætti málsins við höfuð fjölskyldunnar og gengið úr skugga um hvort barnið geti talist óskírður boðberi. — om bls. 99-100.
10 Finnast einhverjir boðberar á safnaðarsvæði ykkar sem ekki eru lengur virkir í að færa Jehóva lofgerðarfórnir? (Hebr. 13:15) Dvínandi kjarkur eða áhyggjur lífsins kunna að hafa yfirbugað suma sem eru óvirkir þó að þeir hafi haldið áfram að halda sér við siðgæðismælikvarða Biblíunnar. Vingjarnleg heimsókn einhvers öldunganna kynni að fá þá til að fara aftur að sækja samkomur safnaðarins og hefja síðan, þegar það er viðeigandi, aftur þátttöku í boðunarstarfinu.
11 Allir sem uppfylla kröfurnar geta tekið þátt í þessu ánægjulega starfi: Finnst sumum ykkar barnanna og unglinganna erfitt að taka þátt í starfinu hús úr húsi? Og hvað um ykkur sem eruð ný og hafið mjög takmarkaða reynslu í boðunarstarfinu? Ykkur á eftir að finnast mjög ánægjulegt að starfa með þessar sérstöku Fréttir um Guðsríki. Allt sem til þarf eru einföld kynningarorð.
Þú gætir sagt eitthvað á þessa leið:
◼ „Í þessum mánuði erum við að dreifa mikilvægum boðskap í 232 löndum um allan heim. Boðskapurinn er mikilvægur af því að hann gefur okkur trausta ástæðu til að trúa því að lausn sé til á þeim vandamálum sem við stöndum andspænis nú á tímum. Við viljum gjarnan að þú fáir þitt eigið eintak.“
Þú gætir líka reynt þetta:
◼ „Um fimm milljónir sjálfboðaliða dreifa í þessum mánuði mikilvægum boðskap á fjölmörgum tungumálum. Hann hefur verið saminn fyrir fólk sem langar til að sjá endi bundinn á þau vandamál sem við stöndum öll frammi fyrir nú á dögum. Hér er þitt eintak.“
Þessi einfalda kynning kann að henta þér:
◼ „Við erum að hvetja alla til að lesa þennan mikilvæga boðskap sem ber heitið [lestu titil Frétta um Guðsríki]. Taktu eftir því sem fram kemur á blaðsíðu 2 um vaxandi vandamál á sviði . . . [lestu valdar setningar frá Fréttum um Guðsríki]. Við erum viss um að þú munir hafa ánægju af að lesa þennan tímabæra boðskap til enda. Þetta er þitt eintak.“
12 Sýndu hverjum og einum, sem þiggur Fréttir um Guðsríki, persónulegan áhuga. Talaðu hægt og skýrt; það er engin ástæða til að þjóta í gegnum kynningarorðin. Við viljum fara rækilega yfir svæði okkar og sjá að allir sem láta í ljós áhuga á að lesa Fréttir um Guðsríki fái eintak í hendur. Þegar enginn er heima skaltu skrifa það vandlega á millihúsaminnisblaðið til þess að þú getir farið aftur á hentugum tíma til að bjóða húsráðandanum Fréttir um Guðsríki. Nota má þessar Fréttir um Guðsríki í götustarfinu þegar einstaklingur sýnir áhuga á að lesa þetta efni. Eintak skyldi ekki rétt hverjum sem er eins og það væri boðsmiði. Þess í stað skaltu taka vegfarendur tali og útskýra mikilvægi boðskaparins sem verið er að kynna. Notaðu Fréttir um Guðsríki þegar þú berð óformlega vitni, eins og á ferðalögum eða þegar þú vitnar fyrir vinnufélaga í matarhléum. Þeir sem eiga ekki heimangengt eða eru á annan hátt ófærir um að fara út í boðunarstarfið geta boðið þær gestum, læknum, hjúkrunarfólki, sölumönnum og öðrum sem heimsækja þá.
13 Hve margar verða endurheimsóknir þínar meðan á herferðinni stendur? Vafalaust talsvert margar af því að heimsækja ætti aftur alla þá sem sýna áhuga á Fréttum um Guðsríki. Í fyrstu heimsókninni er best að halda einungis Fréttum um Guðsríki að viðmælanda þínum. Þegar þú síðan kemur í endurheimsókn skaltu fara nokkrum orðum um hversu tímabær boðskapurinn í Fréttum um Guðsríki er. Hlustaðu vandlega á húsráðandann þegar hann lætur í ljós álit sitt á því sem hann las. Athugasemdir hans hjálpa þér að vita hvað þú getir bent á í nýjustu blöðunum og ef til vill hvernig þú getir búið þig undir frekari samræður. Ef tekið er vel á móti þér í endurheimsókn reyndu þá að koma af stað biblíunámi. — 1. Kor. 3:6, 7.
14 „Erfiði yðar er ekki árangurslaust“: Verður allt þetta erfiði ómaksins vert? Páll fullvissaði Korintumenn: „Erfiði yðar er ekki árangurslaust í Drottni.“ (1. Kor. 15:58) Í áranna rás hefur erfiði okkar við að dreifa Fréttum um Guðsríki orðið til mikillar blessunar. Hjón, sem voru að flytja í tóma íbúð, fundu í skúffu eintak af Fréttum um Guðsríki sem gefnar voru út fyrir mörgum árum. Það var það eina sem skilið hafði verið eftir í íbúðinni. Eftir að hafa lesið það höfðu þau samband við söfnuðinn á staðnum og báðu um biblíunám. Þau fóru að sækja allar samkomurnar og seinna sögðust þau vilja láta skírast. Ef til vill mun eintak, sem þú skilur eftir, hafa svipuð áhrif. — Sjá Vaknið! (enska útgáfu), 8. nóvember, 1976, blaðsíðu 15.
15 Framundan er geysimikið verkefni fyrir okkur. Markmið okkar er að hver söfnuður hafi lokið við að fara yfir allt starfssvæði sitt hinn 14. maí eða við lok mánaðarins ef nauðsynlegt reynist að framlengja dreifingartímann fyrir Fréttir um Guðsríki. Hverjum söfnuði verða send nægilega mörg eintök til þess að hver reglulegur brautryðjandi og aðstoðarbrautryðjandi geti fengið að minnsta kosti 250 eintök af Fréttum um Guðsríki. Hver safnaðarboðberi fær í það minnsta 50 eintök. Boðberar og brautryðjendur ættu aðeins að þiggja það magn sem þeir eru færir um að dreifa og skila inn því sem af gengur til þess að aðrir geti notað það. Góð samvinna í þessu efni mun tryggja víðtækustu dreifingu þessa mikilvæga boðskapar sem kostur er á. Ef einhverjir söfnuðir hafa ekki lokið við að fara yfir svæði sitt um miðjan maímánuð vegna þess hve stórt það er og enn eru einhver eintök eftir, gæti verið hagkvæmt að bjóða nærliggjandi söfnuðum að aðstoða. Í öðrum söfnuðum gætu boðberarnir þar sjálfir ef til vill mætt þörfinni með því að gerast aðstoðarbrautryðjendur eða fara oftar og lengur út í boðunarstarfið en venjulega.
16 Til þess að við getum náð að framkvæma starf okkar verðum við að helga okkur Jehóva af allri sálu. (Kól. 3:23) Mannslíf eru í veði. Fólk hefur ekki efni á að gefa engan gaum að þýðingu heimsástandsins nú á tímum. Tíminn er að renna út. Það verður að horfast í augu við þá staðreynd að maðurinn hefur ekki lausnina á vanda þessa heims. Guð gerir það. Þeir sem vilja öðlast blessun Guðs verða að bregðast ótvírætt og tafarlaust við í samræmi við kröfur hans.
17 Munum við taka okkur hvíld þegar þessari sérstöku herferð er lokið hinn 14. maí? Nei! Við munum halda áfram að vera önnum kafin í samræmi við innblásnar leiðbeiningar Páls.