Getur þú þjónað þar sem þörfin er meiri?
1 Hefur þú einhvern tíma hugleitt að flytja þangað sem þörfin er meiri? Ef þú værir beðinn um að ‚koma og hjálpa,‘ myndirðu þá bregðast við eins og Páll postuli gerði? (Post. 16:9, 10) Í mörgum söfnuðum vantar andlega þroskaðar fjölskyldur eða brautryðjendur til að aðstoða við að fara yfir svæðið eða hæfa öldunga og safnaðarþjóna til að taka forystuna. Svæðið samanstendur ef til vill af litlum og einangruðum sveitaþorpum á víð og dreif um stórt landsvæði. Kannski er óravegur til næsta ríkissalar. Atvinnumöguleikar geta verið takmarkaðir og veðrið ekki alltaf eins og við vildum helst hafa það. Værir þú tilbúinn til að takast á við þess konar verkefni? Hvernig er hægt að gera það með góðum árangri?
2 Það þarf trú og traust til Jehóva: Abram fylgdi fyrirskipun Jehóva, yfirgaf heimili sitt í Úr og ferðaðist þúsund kílómetra til Haran með eiginkonu sinni, frænda og öldruðum föður sínum, Tara. (1. Mós. 11:31, 32; Nehem. 9:7) Eftir að Tara dó sagði Jehóva Abram, sem var orðinn 75 ára, að yfirgefa Haran og ættingja sína og fara til þess lands sem hann myndi vísa honum á. Abram, Saraí og Lot „lögðu af stað.“ (1. Mós. 12:1, 4, 5) Abram var auðvitað ekki að flytja þangað sem þörfin var meiri. En það sem hann gerði krafðist einhvers. Hvers?
3 Abram þurfti að sýna trú og traust til að geta tekist á við slíkt verkefni. Hann þurfti að breyta hugsunarhætti sínum og lifnaðarháttum. Hann varð að yfirgefa öryggið sem fylgdi því að búa meðal ættingja sinna. En hann treysti því að Jehóva sæi um hann og heimilisfólk hans. Margir hafa sýnt svipað traust til Jehóva nú á tímum.
4 Ef þig langar til og þú ert til þess hæfur gætirðu sótt um óúthlutað svæði hjá Félaginu þar sem sjaldan er starfað. En til að sveitastarf skili sem bestum árangri þarf að undirbúa það og skipuleggja vel, rétt eins og starf í þéttbýli. Við tökum út sveitasvæði, förum yfir það við fyrstu hentugleika og fylgjum svo eftir þeim áhuga sem við finnum. En síðan skilum við svæðiskortinu til Félagsins svo að aðrir hafi tækifæri til að starfa þar. Mörg af svæðunum eru stór og það getur verið erfitt fyrir einn boðbera eða fjölskyldu að komast yfir þau innan eðlilegra tímamarka. Þá er gott að mynda starfshópa undir umsjón öldunganna í söfnuðinum. Það er í verkahring þeirra að sjá til þess að það sé starfað vel á svæðinu og því síðan skilað til Félagsins að yfirferð lokinni.
5 Bróðir, sem fór frá Kaliforníu til Utah, skrifaði: „Ég var fyrst á báðum áttum þegar ég var beðinn um að fara með hóp fólks á svæði þar sem sjaldan var starfað. En ég ákvað að taka verkefnið að mér. Ég hef aldrei séð eftir því og þessi ferð breytti lífi mínu. Ég þakka Jehóva daglega fyrir að hafa fengið að fara með.“ Bróðir, sem fór frá Flórída til Tennessee, sagði að það væri eitt það eftirminnilegasta sem hann hefði gert á þeim 20 árum sem hann hefði verið í sannleikanum. Unglingur frá Connecticut, sem fór til Vestur-Virginíu, sagði: „Þetta var besta lífsreynsla sem ég hef orðið fyrir.“ Flestir boðberar eru sammála um að þeir kunni betur að meta boðunarstarfið eftir að hafa þjónað þar sem þörfin var meiri, þó að það hafi aðeins verið um stuttan tíma. Talaðu við þá sem hafa prófað þetta. Þú kemst að raun um að það var andleg upplyfting fyrir þá og að þeir myndu sennilega endurtaka það ef þeir fengju tækifæri til.
6 Að þjóna um tíma á starfssvæði þar sem þörfin er meiri getur líka hjálpað fólki að ‚reikna kostnaðinn‘ sem er samfara því að flytja til annars landshluta. — Lúk. 14:28.
7 Jehóva er staðráðinn í því að láta fagnaðarerindið óma „um alla heimsbyggðina“ áður en endirinn kemur. (Matt. 24:14) Er sú vitneskja hvatning fyrir þig til að flytja þangað sem þörfin er meiri, ef þú hefur tök á? Það er mikil þörf á mörgum svæðum.
8 Að flytja þangað sem þörfin er meiri: Ertu kominn á eftirlaun og ertu með öruggan lífeyri? Ef svo er ekki, geturðu þá stundað sjálfstæða starfsemi? Geturðu unnið vinnuna þína í gegnum síma eða tölvu hvar sem þú býrð? Ef þú getur ekki flutt sjálfur, gætirðu þá hjálpað einhverjum í fjölskyldunni til að þjóna annars staðar?
9 Ef þú hefur hugleitt málið í bænarhug og telur að þú getir flutt þangað sem þörfin er meiri ættirðu að ræða um það við fjölskylduna og öldungana í söfnuðinum. Síðan ættirðu að hafa samband við Félagið
10 Ertu áhuga- og atorkusamur? Getur þú aðstæðna vegna þjónað þar sem þörfin er meiri? Ef svo er skaltu taka eftir því hvernig Jehóva úthellir blessun sinni stöðugt yfir þá sem sýna fórnfýsi og setja traust sitt á hann. — Sálm. 34:9; Mal. 3:10.