Haltu afþreyingu innan hóflegra marka
1 Á þessum erfiðu tímum þurfum við öll á smá tilbreytingu að halda af og til. Afþreying er góð innan hæfilegra marka. En þegar of miklum tíma er eytt í afþreyingu, skemmtun og kunningjaheimsóknir er hætta á að við eyðum sífellt minni tíma til andlegra hugðarefna. Við verðum að halda afþreyingu innan réttra marka. (Matt. 5:3) Hvernig er það hægt? Með því að fylgja heilræðunum í Efesusbréfinu 5:15-17.
2 Settu takmörk: Páll sagði að kristnir menn ættu að „hafa nákvæma gát“ á því hversu viturlega þeir lifi lífinu. Það þarf að sýna hófsemi og sjálfsstjórn til að nota ekki meiri tíma en nauðsynlegt er til afþreyingar. Það er gott að hugsa alvarlega um það hvernig við notum frítímann. Afþreying ætti að þjóna gagnlegum tilgangi hún ætti ekki að láta okkur finnast við hafa sóað tímanum eða gera okkur úrvinda. Ef okkur finnst við vera innantóm, óánægð og jafnvel með samviskubit eftir að hafa gert eitthvað til afþreyingar gefur það til kynna að við þurfum að endurskoða hvernig við verjum tímanum.
3 Vertu skynsamur: Páll ráðlagði okkur að „kaupa upp hentugan tíma“ til hinna mikilvægari þátta lífsins og vera ekki „óskynsamir.“ Kristnir menn mega ekki láta lífið snúast um afþreyingu. Hvíld og afslöppun getur endurnýjað okkur líkamlega en andlegu orkuna fáum við frá anda Guðs. (Jes. 40:29-31) Við fáum anda hans þegar við stundum guðræðisleg störf — nemum Biblíuna, sækjum safnaðarsamkomur og tökum þátt í boðunarstarfinu — ekki þegar við notum tímann til afþreyingar.
4 Forgangsraðaðu: Páll sagði kristnum mönnum að ‚reyna að skilja hver sé vilji Jehóva.‘ Jesús kenndi að Guðsríki ætti að hafa forgang í lífinu. (Matt. 6:33) Við verðum fyrst að vinna þau verk sem gera okkur kleift að lifa eftir vígsluheitinu við Jehóva. Síðan er hægt að nota hóflegan tíma til afþreyingar. Ef við gerum það hefur afþreyingin heilnæm áhrif og við njótum hennar betur. — Préd. 5:12.