Hvers vegna eigum við að halda áfram að boða trúna?
1 Hefur Guðsríki verið boðað um langt árabil þar sem þú býrð? (Matt. 24:14) Þá getur verið að þér finnist að safnaðarsvæðinu hafi verið gerð nógu góð skil. Vera má að flestir sem þú hittir í boðunarstarfinu virðist vera sinnulausir gagnvart boðskapnum um Guðsríki. Veittu því samt athygli sem sagt er um sanna lærisveina Jesú á bls. 141 í 2. bindi bókarinnar Spádómur Jesaja: „Sums staðar virðist árangurinn af boðunarstarfi þeirra óverulegur miðað við alla vinnuna og erfiðið. En þeir halda ótrauðir áfram.“ En hvers vegna höldum við áfram að boða trúna?
2 Minnumst Jeremía: Við ættum að halda boðunarstarfinu trúfastlega áfram hvort sem fólk hlustar eða ekki. Jeremía prédikaði í 40 ár á sama svæðinu þótt sárafáir hafi hlustað á hann og margir hafi verið andsnúnir boðskap hans. Hvers vegna hélt hann ótrauður áfram? Vegna þess að Guð hafði falið honum að framkvæma þetta starf og af því að hann vissi hvað framtíðin bar í skauti sér fann hann sig knúinn til að segja frá því. — Jer. 1:17; 20:9.
3 Kringumstæður okkar eru svipaðar. Jesús „bauð oss að prédika fyrir lýðnum og vitna, að hann er sá dómari lifenda og dauðra, sem Guð hefur fyrirhugað.“ (Post. 10:42) Boðskapur okkar getur þýtt líf eða dauða fyrir þá sem heyra hann. Fólk verður dæmt eftir því hvernig það tekur fagnaðarerindinu. Þess vegna ber okkur skylda til að framfylgja nákvæmlega því sem okkur hefur verið falið að gera. Þegar fólk vill ekki hlusta fáum við samt tækifæri til að sýna hvað við berum mikinn kærleika til þess og við sýnum Jehóva hollustu með því að halda ótrauð áfram að gera það sem okkur ber. En þar með er ekki allt upp talið.
4 Það er okkur til góðs: Þegar við gerum vilja Guðs, óháð því hvernig fólk á svæðinu tekur boðskapnum, öðlumst við innri frið, vellíðan og hamingju sem fæst ekki með neinum öðrum hætti. (Sálm. 40:9) Líf okkar öðlast raunverulegan tilgang eða markmið. Því meira sem við tökum þátt í boðunarstarfinu þeim mun meira innstillum við hjartað og hugann á þá von og gleði sem tengist lífinu í nýjum heimi Guðs. Þegar við íhugum þessi loforð Ritningarinnar skerpum við andlegt hugarfar okkar og styrkjum sambandið við Jehóva.
5 Þótt við sjáum ekki strax árangur af prédikunarstarfinu getur verið að sannleiksfræi hafi verið sáð í hjarta einhvers og að það skjóti rótum á tilsettum tíma Jehóva. (Jóh. 6:44; 1. Kor. 3:6) Ekkert okkar veit hve margir eiga enn eftir að fræðast um Guðsríki fyrir tilstilli fólks Jehóva, hvorki hér um slóðir né um heim allan.
6 Það hefur aldrei áður verið eins áríðandi fyrir okkur að fara eftir fyrirmælum Jesú: „Verið varir um yður, vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“ (Mark. 13:33, 37) Höldum því öll áfram að boða fagnaðarerindið um ríkið og gleðja hjarta Jehóva með því að helga háleitt og heilagt nafn hans.