Láttu þér nægja það sem þú hefur
1 Í Biblíunni er brýnt fyrir okkur að sjá fjölskyldunni fyrir efnislegum nauðsynjum. En það ætti ekki að vera þungamiðjan í lífinu. Andlegu málin verða að vera í fyrirrúmi. (Matt. 6:33; 1. Tím. 5:8) Það er enginn hægðarleikur að halda jafnvægi á þessum ,örðugu tíðum.‘ (2. Tím. 3:1) Hvað hjálpar okkur til þess?
2 Tileinkaðu þér sjónarmið Biblíunnar: Orð Guðs varar við því að sækjast eftir auðæfum og bendir á að það geti valdið manni andlegu tjóni. (Préd. 5:10; Matt. 13:22; 1. Tím. 6:9, 10) Það væri sorglegt fyrir hvert og eitt okkar á þessum örlagaríku tímum ef við yrðum svo niðursokkin í veraldlega vinnu eða fjárhagsáhyggjur að við settum andleg hugðarefni — samkomur, nám og starf — í annað sætið í lífinu. (Lúk. 21:34-36) Biblían ráðleggur: „Ef vér höfum fæði og klæði, þá látum oss það nægja.“ — 1. Tím. 6:7, 8.
3 Þetta merkir ekki að kristnir menn eigi að lifa við sjálfskapaða fátækt. Það hjálpar okkur hins vegar að koma auga á hverjar efnislegar þarfir okkar í raun eru miðað við hvar við búum, það er að segja matur, fatnaður og húsaskjól. Við ættum ekki að vera á sífelldum hlaupum eftir bættum lífskjörum ef við höfum það sem nauðsynlegt er í lífinu. Þegar við erum að hugsa um að kaupa okkur eitthvað eða að taka að okkur meiri vinnu væri gott að spyrja sig: ,Er þetta í raun og veru nauðsynlegt?‘ Með því að gera það eigum við auðveldara með að fara eftir þessu innblásna ráði: „Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið.“ — Hebr. 13:5.
4 Jehóva blessar okkur ef við treystum á hann. (Orðskv. 3:5, 6) Enda þótt við þurfum að leggja hart að okkur til að sjá okkur farborða gerum við það ekki að þungamiðju lífsins. Hvort sem við höfum lítið eða mikið treystum við að Jehóva fullnægi þörfum okkar. (Fil. 4:11-13) Fyrir vikið höfum við hugarró og fáum að auki ýmsar aðrar blessanir.
5 Líktu eftir trú annarra: Einstæð móðir, sem var að ala dóttur sína upp í sannleikanum, einfaldaði lífið smám saman. Þó svo að henni hafi liðið vel þar sem hún bjó fluttist hún í minna hús og seinna í fjölbýli. Þetta gerði henni kleift að draga úr vinnu og nota meiri tíma til boðunarstarfsins. Þegar dóttir hennar var vaxin úr grasi og gift fór hún snemma á eftirlaun þrátt fyrir að það hefði í för með sér enn lægri tekjur. Þessi systir hefur nú verið reglulegur brautryðjandi í sjö ár og sér ekki eftir neinum efnislegum fórnum sem hún hefur fært til að setja hagsmuni Guðsríkis í fyrsta sætið í lífinu.
6 Öldungur og eiginkona hans voru brautryðjendur í mörg ár á sama tíma og þau ólu upp þrjú börn. Þau lærðu sem fjölskylda að vera ánægð með að fullnægja þörfum sínum í staðinn fyrir að láta eftir löngunum sínum. Bróðirinn segir: „Við þurftum að lifa einfaldara lífi. Við höfum átt okkar erfiðu tíma en Jehóva hefur alltaf séð fyrir okkur. . . . Þegar ég sé að fjölskyldan setur andlegu málin í fyrsta sætið á þennan hátt finnst mér allt vera eins og það á að vera og mér finnst ég hafa áorkað einhverju.“ Konan hans bætir við: „Það veitir mér mikla innri gleði að sjá [manninn minn] upptekinn af andlegum málum.“ Börnin eru líka ánægð með að foreldrar þeirra ákváðu að þjóna Jehóva í fullu starfi.
7 Biblían lofar öllum þeim sem taka guðhræðsluna fram yfir efnislega hluti ríkulegri blessun bæði nú og í hinu komandi lífi. — 1. Tím. 4:8.