Verum samstillt
1 Hve oft hefurðu ekki dáðst að snilldarlegri hönnun mannslíkamans? (Sálm. 139:14) Hver limur líkamans vinnur í samspili við hina. Orð Guðs líkir kristna söfnuðinum við vel samhæfðan líkama. Undir einu höfði, Kristi, eru allir í söfnuðinum ‚tengdir saman og þeim haldið saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi.‘ (Ef. 4:16a) Þannig getur Jehóva notað sameinað fólk sitt til að framkvæma stórkostlega hluti.
2 Þeir sem voru í kristna söfnuðinum á fyrstu öldinni störfuðu „með einum huga“ og önnuðust andlegar og efnislegar þarfir hver annars. (Post. 2:44-47) Með hjálp Jehóva stóðust þeir sem hópur grimmilega andstöðu og unnu bug á henni. (Post. 4:24-31) Þeir kunngerðu boðskapinn um ríkið hvert sem þeir fóru og breiddu þannig fagnaðarerindið út um allan þann heim sem þá var þekktur. (Kól. 1:23) Á okkar tímum hefur kristni söfnuðurinn unnið sameiginlega að þessu verkefni jafnvel í enn stærri stíl. Hvað er það sem stuðlar að þessari einingu?
3 Kennsla frá Guði leiðir okkur saman: Tilbeiðslan sameinar okkur heimshorna á milli. Hvernig er það hægt? Við þekkjum þá sýnilegu boðleið sem Jehóva notar til að ‚gefa okkur mat á réttum tíma.‘ (Matt. 24:45) Við kunnum einnig að meta „gjafir í mönnum,“ kennara sem hann gefur okkur til að annast fræðslu í söfnuðinum. Um leið og við viðurkennum auðmjúklega ráðstafanir Jehóva til að sjá okkur fyrir andlegri fæðu vex skilningur okkar á orði Guðs og vekur hjá okkur sameiginlega löngun til að líkja eftir Jesú sem lærisveinar hans. Við verðum að halda áfram að fræðast um orð Guðs, reyna í einlægni að ‚verða öll einhuga í trúnni.‘ (Ef. 4:8, 11-13) Stuðlar þú að andlegri einingu með því að lesa í Biblíunni á hverjum degi?
4 Kristinn félagsskapur sameinar okkur: Kærleikurinn tengir okkur nánum böndum á safnaðarsamkomum. Á þessum samkomum ‚gefum við gætur hver að öðrum.‘ (Hebr. 10:24, 25) Þetta þýðir að við lítum ekki bara á ytra útlit heldur reynum að kynnast trúsystkinum okkar í raun og veru og líta á þau sömu augum og Jehóva sér þau, það er að segja sem gersemar. (Hagg. 2:7) Þegar við hlustum á þau tjá trú sína þá eykst kærleikur okkar til þeirra og einingin styrkist. Er hægt að segja um þig að þú sameinist reglulegubundið söfnuðinum á samkomum?
5 Samstarfsfélagar á akrinum: Það sameinar okkur í að gera vilja Guðs þegar við boðum fagnaðarerindið með trúsystkinum. Páll postuli kunni að meta ‚samverkamenn sína fyrir Guðs ríki.‘ (Kól. 4:11) Þegar við segjum frá reynslu okkar og hjálpum hvert öðru í boðunarstarfinu verður auðveldara að sinna því kristna hlutverki að prédika og það styrkir einingarbandið. — 1. Kor. 13:8; Kól. 3:14.
6 Sameiningaráhrif heilags anda: Jehóva gefur okkur af anda sínum þegar við leggjum okkur fram um að gera vilja hans. Það verður þá auðveldara fyrir okkur að jafna ágreining og búa saman í einingu. (Sálm. 133:1) Við finnum til löngunar að „varðveita einingu andans í bandi friðarins.“ (Ef. 4:3) Við getum öll stuðlað að þeirri sátt og friðsæld sem ríkir meðal fólks Guðs með því að sýna ávexti andans í samskiptum okkar hvert við annað. — Gal. 5:22, 23.
7 Þegar við vinnum af samheldni undir stjórn Krists „lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika.“ (Ef. 4:16) Þar að auki vegsamar það Jehóva, „Guð friðarins.“ — Rómv. 16:20.